Skip to Content

"Eins hlutlaus og verða má." Stjórnarmyndanir í tíð Kristjáns Eldjárns

Kafli um stjórnarmyndanir sem word skjal

„Eins hlutlaus og verða má“

Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar sat heilt kjörtímabil Alþingis. Sigur vannst í síðasta þorskastríðinu en illa gekk að vinna bug á öðrum andstæðingi, verðbólgudraugnum. Í kosningum sumarið 1978 galt stjórnin afhroð. Stjórnarflokkarnir náðu minna fylgi en nokkru sinni fyrr í langri sögu sinni. Sjálfstæðisflokkur fékk 20 þingmenn, Framsóknarflokkur aðeins 12. „A-flokkarnir“ tveir, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag unnu stórsigur og hlutu 14 þingmenn hvor um sig. Ekki dugði það þó til meirihluta.

            Staðan var vægast sagt snúin. Kristján Eldjárn hafði ráðgjafa áfram til halds og trausts. Jóhannes Elíasson var fallinn frá. Í hans stað leitaði Kristján til gamals vinar, Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra. „Hann talar alltaf og ævinlega fullkomlega hlutlaust um þessi mál,“ sagði forseti, „virðist ekki hafa áhuga á neinni sérstakri stjórn, heldur að það komi vel starfhæf stjórn.” Í því áttu þeir samleið.

            Fyrst eftir kosningar veitti Kristján engum stjórnarmyndunarumboð en bað formenn „A-flokkanna“, Benedikt Gröndal og Lúðvík Jósepsson, að bera saman bækur sínar. Um leið impraði hann á því að „fjöldi Íslendinga“ teldi nýja nýsköpunarstjórn nauðsynlega. Andstaða reyndist of mikil í öllum flokkum sem að slíkri stjórn myndu koma. Þriðjudaginn 11. júlí tilkynntu þeir Benedikt og Lúðvík að viðræðum þeirra væri lokið „í bili“. Forseti varð að stíga næsta skref, veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Þær raddir voru líka teknar að heyrast að ekki mætti „eyða tímanum í einskis nýtt hjal“.

            Forseti setti traust sitt á Benedikt Gröndal. Í nær þrjár vikur reyndi hann að koma saman stjórn en varð þá að játa sig sigraðan. Geir Hallgrímsson tók við keflinu, leitaði hófanna um þjóðstjórn, „öfuga“ viðreisn með Alþýðuflokk í forsæti og samstjórn þeirra flokka auk framsóknarmanna. Hvorki gekk né rak og nú voru góð ráð dýr.

            Þriðjudaginn 15. ágúst skilaði Geir stjórnarmyndunarumboðinu. Samdægurs leitaði Lúðvík Jósepsson fundar með forseta. Sagði Lúðvík „að ekki væri endalaust hægt að ganga fram hjá Alþýðubandalaginu og fara með það eins og eitt sinn var farið með ljótu börnin hennar Evu“. Því var Kristján Eldjárn sammála. Degi síðar fékk formaður Alþýðubandalagsins umboð til stjórnarmyndunar. Hefðu Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson sýnt leiðtoga þess flokks, sem lengst var til vinstri í íslenskum stjórnmálum, slíkan trúnað? Forystugrein Morgunblaðsins næsta morgun hófst með þessum orðum: „Þá hefur forseti Íslands orðið við kröfu Lúðvíks Jósepssonar og kommanna um að hann geri tilraun til stjórnarmyndunar.“ Þessum orðum snöggreiddist forseti. Hann hringdi í Matthías Johannessen, fékk upp úr honum að hann hefði haldið á penna og sleit þá samtalinu. Angist Morgunblaðsins var óþörf. Hinn háttvísi Geir Hallgrímsson skildi sjónarmið forseta og vestur í Washington gerðu menn sér enga rellu út af því að formaður Alþýðubandalagsins spreytti sig á stjórnarmyndun. Og hafði ekki Sveinn Björnsson verið reiðubúinn að biðja sósíalista að mynda stjórn í stríðinu? Það rifjaði Einar Olgeirsson upp þessa daga.

            Lúðvík Jósepssyni mistókst að koma stjórn saman en grunnur var lagður að samstarfi þriggja flokka, Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. Í lokin fékk umboð forseta Ólafur Jóhannesson, sá sem mestu hafði tapað í kosningunum og var í augum margra innan hinna flokkanna holdgervingur siðleysis í stjórnmálum. Lúðvík hefði getað sagt sem svo að í annað skipti í sögunni hefði maður myndað stjórn fyrir annan. Ólafur Jóhannesson varð forsætisráðherra. Föstudaginn 1. september tók seinni ríkisstjórn hans við völdum. Heilir tveir mánuðir voru þá liðnir frá kosningum.

            Í þessari stjórnarkreppu sýndi Kristján Eldjárn mikið langlundargeð. Íhlutunarsamari forseti hefði verið fyrri til að taka í taumana þegar sýnt var að menn höfðu ratað í ófæru. Á hinn bóginn lá vandi Kristjáns í því að leiðtogar stjórnmálaflokkanna gengu tregir til viðræðna. Benedikt Gröndal vildi alls ekki samstarf með Sjálfstæðisflokknum einum. Lúðvík Jósepsson taldi nýja nýsköpun útilokaða. Ólafur Jóhannesson ætlaði fyrst að halda sínum flokki til hlés, Geir Hallgrímsson sömuleiðis. Nærri liggur að kalla samtöl þeirra þetta sumar stjórnarandstöðumyndunarviðræður. Enginn virtist vilja í stjórn. Við það gat forseti illa ráðið. „Það er skylda þingsins að skaffa landinu starfhæfa stjórn,“ sagði hann sem satt var, „og það þýðir ekkert að reyna að gera forseta að syndabúkk“.

            Stjórnin lifði í rúmt ár. Í byrjun október 1979 sleit Alþýðuflokkurinn samstarfinu. Alþýðuflokksmenn og sjálfstæðismenn vildu að þing yrði rofið og kosningar haldnar fyrir áramót. Ólafur var því afhuga þótt hann hlyti að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Í þetta sinn sá hann sér ekki hag í þingrofi og vildi forsætisráðherra ekki grípa til þess ráðs gat það enginn mannlegur máttur. „Forseti Íslands hefur einn rétt til að rjúfa þing, en þó aðeins með atbeina og á ábyrgð forsætisráðherra,“ sagði í fréttum útvarpsins. Gunnar Thoroddsen var heimildarmaður þeirrar ríkjandi útskýringar á stjórnarskrá landsins.

            Ólafur Jóhannesson sá fyrir að ríkisstjórn sín sæti áfram uns ný yrði mynduð. Kannski myndi jafnvel takast að endurlífga hina föllnu stjórn. Kannski opnuðust aðrir kostir, það kæmi í ljós með tíð og tíma. Kristjáni Eldjárn var hins vegar nóg boðið. Hann gerði leiðtogum Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks ljóst að kæmu þeir sér ekki saman um einhvers konar stjórn sem gæti staðið af sér vantraust á Alþingi myndi hann skipa utanþingsstjórn. Jóhannes Nordal féllst á að veita henni forstöðu. Þeir Kristján veltu fyrir sér ráðherraefnum. Að kvöldi 11. október hafði forseti samið tilkynningu um að hann hefði valið þessa leið í neyð, „þar sem ég fæ ekki séð neina möguleika á að unnt sé að mynda þingræðislega ríkisstjórn en á hinn bóginn má ljóst vera að starfsstjórn fær ekki ráðið við þau verkefni sem nú blasa við“.

            Síst af öllu hefði Kristján Eldjárn kosið að mynda stjórn af þessu tagi, fyrstur forseta. Eitthvað varð þó til bragðs að taka og óttinn við yfirvofandi utanþingsstjórn neyddi alþýðuflokksmenn og sjálfstæðismenn til að taka höndum saman. Til þess var leikurinn líka gerður. Með minnsta mögulega mun samþykktu þingmenn Sjálfstæðisflokksins að verja minnihlutastjórn Alþýðuflokks vantrausti. Tilviljun réð því að þingmaður sem var þeim stuðningi mótfallinn missti af fundi.

            Mánudaginn 15. október tók við völdum stjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndals. Ólafur Jóhannesson brást hvekktur við og sagði blaðamönnum að forseta bæri að mynda „þingræðislega meirihlutastjórn“. Sem fyrr bar Kristján virðingu fyrir þekkingu og sjónarmiðum Ólafs en hann hafði vaxið að reynslu og sjálfstrausti. Hér var kominn forseti sem skellti á ritstjóra Morgunblaðsins, hótaði utanþingsstjórn og svaraði nú höfundi Stjórnskipunar Íslands fullum hálsi. „Það er ekki skylda neins að gera það sem er ómögulegt,“ hugsaði Kristján með sér, hringdi í Ólaf og lýsti þeim skoðunum sínum.

            Vonir stóðu til að línur skýrðust í alþingiskosningum sem haldnar voru í byrjun desember. Svo fór ekki. Sjálfstæðismenn glutruðu niður vænlegri stöðu með vondu slagorði, „leiftursókn gegn verðbólgu“. Þeir voru þó áfram stærstir flokka og framsóknarmenn endurheimtu mikið fylgi á kostnað „A-flokkanna“. Steingrímur Hermannsson, sem orðinn var formaður Framsóknarflokksins, fékk fyrstur umboð til stjórnarmyndunar. Miðvikudaginn 12. desember 1979 setti forseti Alþingi. Enn sást hve viss með sig forseti var orðinn. Nú rataði hann um völundarhús stjórnmálanna og sagði öðrum fyrir verkum. Í umvöndunartók sendi Kristján Eldjárn þingmönnum þessa sneið: „Þjóðin mun eiga bágt með að skilja hvers vegna hún gengur til kosninga hvað eftir annað með stuttu millibili og þurfi svo að horfa upp á það langtímum saman að þeir menn og þeir flokkar, sem hún hefur veitt umboð sitt, geti ekki náð þeirri samstöðu sem nauðsynleg er.“

            Frýjunarorðin dugðu ekki. Nauðsynlegt er að gera langa sögu stutta. Næstu vikur voru brýr ekki byggðar. Þær voru brotnar. „Allt er betra en íhaldið,“ sagði Steingrímur Hermannsson, nýr formaður Framsóknarflokksins. „Over my dead body,“ sagði Benedikt Gröndal um nýja viðreisnarstjórn. „Sögulegar sættir“, sem Morgunblaðsmennirnir Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason lögðu til að leitað yrði milli Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags mættu harðri andstöðu í báðum flokkum.

            Mánudaginn 28. janúar 1980, nærri tveimur mánuðum frá kosningum, var svo komið að fulltrúar allra flokkanna fjögurra á þingi höfðu spreytt sig við stjórnarmyndun. Sá síðasti í röðinni, Benedikt Gröndal, skilaði að morgni dags því umboði til stjórnarmyndunar sem hann hafði þegið nánast til málamynda.

Hvað var til ráða? Réttri viku fyrr hafði Gunnar Thoroddsen lýst fyrir forseta þeirri lausn að Gunnar settist í forsæti ríkisstjórnar, í krafti þess að hann væri aldursforseti þingsins og sá sem lengsta þingsetu ætti að baki. Kristjáni fannst ólíklegt að draumur Gunnars um æðstu metorð rættist. Þess í stað bað hann Jóhannes Nordal aftur að leiða ríkisstjórn embættismanna, færi svo sem horfði.

            Á elleftu stundu kom Gunnar Thoroddsen sínum gamla keppinauti í forsetakjöri til bjargar. Með fulltingi nokkurra annarra þingmanna Sjálfstæðisflokks myndaði Gunnar ríkisstjórn með Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki. Á mörkunum var að forseta bæri að veita brautargengi til þess en allt vildi hann vinna til að losna undan þeirri þján að skipa utanþingsstjórn. Svo mikil var gleði Kristjáns Eldjárns þegar ljóst var hvert stefndi að hann las inn á segulband sitt víðfræg vísuorð úr Oklahoma, söngleik Rodgers og Hammersteins: „Oh what a beautiful morning, oh what a beautiful day. I’ve got a wonderful feeling, everything’s going my way.“

            Nær tveggja ára samfelldri stjórnarkreppu var lokið. Sjónir manna þá og síðar hlutu að beinast að starfsháttum forseta. Sjálfur kvaðst hann hafa að leiðarljósi „að vera eins hlutlaus og verða má“. Sömuleiðis vildi hann ekki „ekki reka á eftir svo mikið að til skaða verði,“ heldur fara eftir hinni gömlu reglu læknanna, „nil nocere, ekki skemma, ekki gera illt verra“.

            Fljótt var fundið að þessum sjónarmiðum þótt lítt bæri á. Gantast var með að Kristján Eldjárn léti stafrófsröð ráða för þegar hann afhenti umboð til stjórnarmyndunar. Síðar skrifaði Steingrímur Hermannsson að þótt virða megi afstöðu forseta hafi hún leitt til þess að viðræður stjórnmálaleiðtoga hafi dregist á langinn. Sumir þeirra sem fengu að spreyta sig við stjórnarmyndun í nafni sanngirni hefðu aldrei getað haft erindi sem erfiði, menn þekktust boð um samtöl undir leiðögn annarra með hálfum hug og biðu rólegir eftir að röðin kæmi að þeim að stýra viðræðum. Undir þessa gagnrýni hafa aðrir tekið.

            Sannast sagna bar Kristján Eldjárn ekki meginsök á ófremdarástandinu 1978–1980. Í forsetatíð Sveins Björnssonar gekk eins illa að mynda ríkisstjórnir. Verður Sveinn þó ekki sakaður um sinnuleysi. Sömuleiðis fann Kristján alls ekki upp á þeirri hefð að veita einum stjórnmálaleiðtoga umboð til stjórnarmyndunar og svo öðrum ef með þyrfti. Þetta höfðu báðir forverar hans gert og stuttu áður en vandræðin dundu yfir var gerð náin grein fyrir þessu ferli í fræðunum. Í rannsókn stjórnmálafræðiprófessorsins Ólafs Ragnars Grímssonar, sem birtist árið 1977, var stjórnarmyndunarviðræðum skipt í fimm stig: Forsetastig, könnunarstig, stefnustig, ráðuneytastig og lokastig. Forseti kæmi aðeins við sögu þegar hann veitti umboð til samninga í upphafi en gæti vitaskuld fylgst með gangi mála og tækist ekki að mynda stjórn „er aftur farið á fyrsta reit og nýtt forsetastig hefst“.

            Loks var Kristján Eldjárn alls ekki eins fáskiptinn og síðar var sagt. Minnstu munaði í tvígang að hann skipaði utanþingsstjórn og öðrum fremur réð hann því að minnihlutastjórn Alþýðuflokksins settist að völdum. Þá kvartaði Steingrímur Hermannsson undan því að forseti hefði ekki fyrst látið umboð sitt til stjórnarmyndunar ganga manna á milli: „Sá hringur var aldrei til hlítar farinn.“

            Stundum var Kristján full umburðarlyndur í garð þeirra stjórnmálamanna sem höfðu umboð til stjórnarmyndunar. Sömuleiðis hefði hann mátt kveða fastar að orði um þá kosti sem honum sýndist vænlegastir. Þetta viðurkenndi hann sjálfur. Degi eftir að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens tók til starfa skrifaði forseti: „Mér er farið að finnast þetta vera dálítið skrýtin sitúasjón, þetta leikstjórahlutverk forsetans þar sem hann leggur eiginlega ekkert aktívt til, … mér finnst að það gæti nú vel komið til mála að blátt áfram stinga upp á einhverju munstri við menn, og þar með að styrkja þá móralskt.“

            Eftir stóð sú lofsverða afstaða Kristjáns Eldjárns að reyna ekki að ráða því sjálfur hverjir settust í stjórn og hverjir ekki. Að því leyti var hann svo sannarlega ópólitískur forseti.

 

Share this


Drupal vefsíða: Emstrur