Skip to Content

Völundarhús valdsins

Völundarhús valdsins

Völundarhús valdsins. Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárns 1968‒80 (Reykjavík: Mál og menning, 2005).

ISBN 9979-3-2701-4

Á sínum tíma átti þetta verk aldrei að verða bók heldur aðeins lítil og sæt grein um stjórnarmyndanir í forsetatíð Kristjáns Eldjárns. Aðdragandinn er sá að árið 2000, þegar ég var að viða að mér efni um landhelgismál og þorskastríð, las ég ævisögu Kristjáns eftir Gylfa Gröndal. Rak ég þá augun í þessa klausu um heimildir bókarinnar: „Dagbækur Kristjáns Eldjárns frá forsetatíð hans, vélritaðar á lausablöð (quarto), í möppum merktum með ártölum; bókarhöfundur sá ekki minnisblöð og þann hluta dagbókanna, sem varða stjórnarmyndanir og fleiri atburði; þær heimildir bíða sagnfræðinga framtíðarinnar (í eigu frú Halldóru Eldjárn, en verða settar á Landsbókasafn).“

Þetta hljómaði spennandi. Ævisagan kom út árið 1991 þannig að ég ákvað að athuga hvort framtíðin væri runnin upp ef svo má að orði komast. Eins og ég rek í formála bókarinnar skrifaði ég Halldóru Eldjárn, spurði hvort hún teldi tímabært að veita aðgang að þessum heimildum og fékk þau svör frá Þórarni Eldjárn fyrir hennar hönd að svo væri. Halldóru hitti ég aldrei en ræddi stöku sinum við Þórarin þegar ég var að vinna að verkinu. Aldrei gætti þess að hann eða aðrir í fjölskyldunni reyndu að hafa áhrif á hvað sagt yrði í bókinni.

Þegar ég fór svo að kynna mér gögn Kristjáns komst ég að því að þau voru aldeilis frábærar heimildir um stjórnarmyndanir í forsetatíð hans. Því lýsi ég nánar í bókinni sjálfri en læt eina sögu fljóta hér með sem ekki er að finna þar.

Stundum (eða ætti maður kannski að segja oft) er heimildaleit á skjalasöfnum frekar tilbreytingarlítil til lengdar og aðeins stöku sinnum sem maður finnur eitthvað bitastætt. Því var ekki að heilsa með heimildir Eldjárns og einn daginn varð ég algerlega stjarfur eða hugfanginn. Upplifunin var ekki eins mögnuð og þegar ég las símahlerunarúrskurðina í fyrsta sinn en frábær þó. Þannig er mál með vexti að undir lok forsetatíðar sinnar brá Kristján Eldjárn á það ráð að skrá ekki aðeins hjá sér minnispunkta eftir viðræður við stjórnmálaleiðtoga um stjórnarmyndanir heldur las hann líka inn á segulband það sem honum fannst markverðast í þeim samtölum – og reyndar einnig aðrar upplýsingar sem honum höfðu borist til eyrna.

Og nú er að segja frá því að í byrjun febrúar 1980, þegar sýnt var að Gunnari Thoroddsen myndi takast að mynda sína sögulegu ríkisstjórn, las forseti að nú væri þetta sem betur fór allt að smella saman og svo þungu fargi væri af honum létt að honum kæmu aðeins í hug þessi vísuorð. Þetta hlustaði ég á í Þjóðarbókhlöðunni (verð að viðurkenna að ég man ekki hvar, held uppi á 3. hæð, einhverri tæknideild. Kristján las inn á venjulegar kassettur og við vorum nærri búnir að skemma eina þegar við renndum einni í kassettutæki niður á handritadeild...). Já, ég hlustaði sum sé á forsetann lýsa þessari gleði og bjóst svo við rammíslenskum kveðskap eins og við mátti búast hjá forseta lýðveldisins og fyrrverandi þjóðminjaverði.

            Það var öðru nær. Þuldi ekki forseti upp, stillt og snjallt:

Oh what a beautiful morning,

Oh what a beautiful day.

I’ve got a wonderful feeling,

Everything’s going my way

Og þannig komust Rodger og Hammerstein í íslenska stjórnmálasögu með Oklahoma, söngleikinn sinn góðkunna. Þetta var yndislegt móment.

Nú, fyrst renndi ég í gegnum gögn forsetans með það í huga að nýta þau í landheldis- og þorskastríðssögu. Fljótt sá ég þó að þau væri vel hægt að nota í grein um stjórnarmyndanir í forsetatíð Kristjáns Eldjárns. Fyrst sá ég fyrir mér Lesbókargrein og hófst handa. Óðara braut það handrit alla lengdarramma og þá ætlaði ég að skrifa lærðari og lengri grein í Sögu. En það fór á sömu lund, alltaf lengdist handritið og að því kom ég að spurði Guðmund Jónsson sem þá réð ríkjum hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, hvort þar væri áhugi á að gefa út rit um þetta efni. Guðmundur tók mér vel en eftir því sem verkinu vatt fram þóttist ég viss um að þetta gæti orðið rit sem allur almenningur vildi lesa og því ekki að kanna áhuga einhvers stórs forlags (með fullri virðingu fyrir Sagnfræðistofnun!)

Nú bar svo við að vinur minn og velunnari frá ritun Kárabókarinnar, Páll Bragi Kristjónsson, var orðinn æðstráðandi hjá Eddu, því mikla batteríi sem síðar hvarf af sjónarsviðinu (og mætti rita bók um þá sögu alla). Í sem stystu máli tók hann mér afar vel og fer þessari frásögn af bókarrituninni nú að ljúka. Þó verður að geta þess að þeir voru til hjá Eddu sem töldu – í mestu vinsemd þó – að verk um stjórnarmyndanir væri nú ekki beint söluvænlegt. Ég þurfti því að eiga Pál Braga að svo bókin kæmi út.

Það gerði hún, haustuð 2005, og hlaut yfirleitt góðar viðtökur eins og má lesa um í ritdómum. Össur Skarphéðinsson var mjög hrifinn og bloggaði lofsamlega, það var hægt að nota í „plögg“. Mestu skipti þó án efa að Ólafur Ragnar Grímsson fór í viðtal í Kastljósi og fjallaði þar vinsamlega um bókina og það sem þar kæmi fram. Ég hafði rætt við forsetann, hann hafði lesið handritið yfir og komið með margar góðar ábendingar. Síðar fékk ég líka að njóta þeirrar velvildar þegar bókin um Gunnar Thoroddsen var í vinnslu.

Mér þykir mjög vænt um þessa bók, eins og reyndar allar hinar. Kristján Eldjárn var ekki hinn fullkomni forseti, það hefur enginn verið. En hann var forseti að mínu skapi. Ég var auðvitað bara barn að aldri þegar hann sat á Bessastöðum og lýk þessari umfjöllun með sömu smásögu og ég notaði til að slá botninn í Völundarhúsið (og meðan ég man; Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, á heiðurinn af nafngift bókarinnar):

„Sjálfur var ég fjögurra daga gamall þegar Kristján Eldjárn var kjörinn forseti Íslands 30. júní 1968. Eina barnsminningu á ég um Kristján. Hún skiptir engu máli um þessa sögu en fær þó að fljóta með hér: Einhverju sinni var ég í bílferð með foreldrum mínum. Svo vildi til að við námum staðar við hlið forsetabifreiðarinnar og sat Kristján þar í aftursæti. „Þarna er forsetinn,” sagði mamma eða pabbi. Ég leit til hliðar og bar hönd nær samstundis að enni líkt og í skátakveðju. Forseti gerði honnör á móti og man ég enn eftir góðlátlegu brosi hans.“



Drupal vefsíða: Emstrur