Skip to Content

Ummæli

Yfirlýsing frá Kára Stefánssyni

Tilkynning með þessu heiti birtist í Morgunblaðinu 2. des. 1999. Hún var svohljóðandi:

Nýja bókaforlagið hefur gefið út bók sem heitir Kári í jötunmóð og á að fjalla um hluta ævi minnar. Eins og komið hefur fram er bókin skrifuð án samráðs við mig og gegn vilja mínum. Ég hef ekkert við það að athuga að fjallað sé um ágreiningsmál tengd Íslenskri erfðagreiningu á prenti. Höfundur þessarar bókar fellur hins vegar í þá gryfju að draga vafasamar ályktanir um sögu mína og fyrirtækisins, oft á grundvelli ónafngreindra heimilda. Höfundur reynir einnig víða að styðja mál sitt með tilvitnunum sem hafa ekkert með það að gera. Þegar þar við bætist að höfundur fer víða rangt með staðreyndir hlýt ég að fullyrða, að gildi þessarar bókar sem heimildar um mig og sögu þess fyrirtækis sem ég setti á laggirnar sé mjög takmarkað.

Á undanförnum árum hafa starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar unnið að því hörðum höndum að byggja upp nýja atvinnustarfsemi í landinu. Það er einlæg von mín að bók sem byggir á vegvilltri frásagnargleði annarra um mig verði á engan hátt til þess að spilla þeirri viðleitni. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig frekar um þessa bók.

Gúllíver í Putalandi

Ármann Jakobsson reit ritdóm með þessu heiti í DV 7. des. 1999. Í frekar jákvæðum dómi kallaði Ármann bókina "langa blaðagrein" og benti á að höfundinum væri svo annt um að sýna hlutleysi í flóknu máli að lesandinn væri "jafn ruglaður og áður". Það er þetta fjandans hlutleysi sem ég er alltaf að stefna að og er fundið að, sbr. seinni dóma um Hrunið. Dóm Ármanns má lesa í heild sinni hér.

Vinur og óvinur sjálfs sín

Guðmundur H. Frímannsson skrifaði langan og góðan ritdóm í Morgunblaðið á Þorláksmessu 1999. Helstu niðurstöður Guðmundar voru þessar og má svo sem taka undir þær, einkum þegar maður getur litið á hlutina í nægilegri fjarlægð: "Veikleikar bókarinnar eru fyrst og fremst tveir. Hún er í fyrra lagi unnin of hratt sem sést sums staðar á textanum. Í síðara lagi hefur höfundinum ekki unnist tími til að setja sig nægilega vel inn í deiluatriðin til dæmis um gagnagrunninn. Þetta veldur því að greining hans á tilteknu viðfangsefni endar stundum í því að segja að orð standi gegn orði en sjálfur gerir hann ekki tilraun til að átta sig á og rökstyðja tiltekið svar eða búa sér til skýringar."

Lokaorðin eru líka þess virði að þau verði ítrekuð hér: "Inn í þessi átök blandazt síðan persóna Kára Stefánssonar og í þessari bók er það prýðilega dregið fram hvernig Kári sjálfur hefur verið bezti vinur sjálfs sín og um leið einn af erfiðari óvinum sínum. En Kári og Íslensk erfðagreining hafa flutt inn í íslenzkt samfélag nýjan veruleika, nýtt afl sem vekur upp nýjar spurningar sem þarf að leysa úr á næstu árum og áratugum."



Drupal vefsíða: Emstrur