Skip to Content

Sagnfræðin og endurskoðun stjórnarskrárinnar (2011)

Þessi stutta grein er að mestu leyti andsvar við gagnrýni Reimars Péturssonar hrl. á sjónarmið mín um uppruna lýðveldisstjórnarskrárinnar, einkum þá skoðun mína (byggða á heimildum, nota bene) að hún hafi verið samin til bráðabirgða. Niðurstöður greinarinnar eru svohljóðandi:

Líti fólk með opnum hug á heimildir frá liðinni tíð getur það ekki efast um þau sannindi að höfundar lýðveldisstjórnarskrárinnar sáu fyrir sér að hún yrði óðara tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Svo fór að ekkert varð úr því verki og er það áhugavert álitamál hvers vegna sú varð raunin. Í rökræðum af því tagi má þó ekki líta framhjá skýrum staðreyndum fortíðarinnar. Í þá freistni féll Reimar Pétursson þegar hann reyndi að leiða rök að því að árið 1944 hafi ekki staðið til að endurskoða lýðveldisstjórnarskrána í heild sinni eins fljótt og færi gæfist.

Þar með er ekki endilega sagt að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sé bráðnauðsynleg nú um stundir enda hefur ýmsu verið breytt í áranna rás. Jafnframt má vel vera að þeir sem krefjast þess að henni verði gerbreytt líti um of til þess að lýðveldisstjórnarskráin var samin til bráðabirgða; að þeir horfi framhjá þeim breytingum sem á henni hafa verið gerðar og ýki þörfina á umbyltingu.

Allt þetta er hins vegar önnur saga. Vissulega snýst söguskoðun öðrum þræði um túlkun þess sem á horfir en ekki er allur sannleikur afstæður. Þessi stutta grein er skrifuð til að benda á sögulegar staðreyndir og verja þær á vígvelli samtímans.Drupal vefsíða: Emstrur