Skip to Content

"Málskot, útrás, hrun og ótti", Fréttablaðið 23. júní 2012

Hér er síðasta Fréttablaðsgrein mín um fyrri forseta og forsetakjör. Greinin vakti nokkrar umræður, t.d. í athugasemdadálki Eyjunnar. Eitt atriði í henni varð einnig umtalsefni annars staðar. Það sneri að Icesave og þessum orðum mínum um þá sorgarsögu:

Línur í Icesave-deilunni hafa ætíð markast af því hvort menn sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu. Sjálfskipaðir sigurvegarar munu reyna að skrá söguna og eru reyndar byrjaðir á því. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu þegar upp er staðið. Til þess eru staðreyndirnar of skýrar.

Meðal þeirra sem töldu þetta rangt voru álitsgjafinn Egill Helgason og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Báðir bentu á andstöðu innan VG eða Samfylkingar við Icesave-samninga. Gott og vel. Hitt var mín meginhugsun að afstaða flokka hefur breyst eftir því hvort þeir hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu. Að vísu hefur Samfylkingin verið í þeirri aðstöðu að hafa verið bæði í stjórn og stjórnarandstöðu frá því að Icesave-netreikningarnir byrjuðu að mala gull fyrir Landsbankann, með velþóknun stjórnvalda, og þar til þeir urðu að myllusteini um háls allra Íslendinga. Saga Icesave er samofin sögu Samfylkingarinnar frá 2007 og eitthvað inn í framtíðina. Það er saga um einstakt andvaraleysi og afglöp, eftir á að hyggja.

Svo er Vinstri hreyfingin - grænt framboð gott dæmi um enska máltækið "where you stand depends on where you sit". Í stjórnarandstöðu var foringjanum Steingrími J. Sigfússyni til dæmis tíðrætt um Iceasave-lausnir sem "ógildanlega nauðasamninga". Þegar í stjórn var komið var reynt að semja. Auðvitað voru skiptar skoðanir í röðum VG, og ekki síður Samfylkingar, en eigin efasemdir eru eitt, ákvarðanir og afstaða þegar á reynir geta verið annað. Þannig hefur Ögmundur Jónasson vissulega haft efasemdir um Icesave-samninga en greiddi þó atkvæði á þingi með þeim síðasta, í febrúar í fyrra.

Svipað má segja um Sjálfstæðisflokkinn þó að auðvitað séu hér aðeins lagðar grófar línur. Þannig hefði það verið klókast fyrir Bjarna Benediktsson, formann flokksins, að vera á móti Icesave III, og eflaust í samræmi við vilja meirihluta óbreyttra flokksmanna. Hans "ískalda mat" var þá á annan veg og má jafnvel koma til greina sem undantekning frá hinni almennu reglu um að "where you stand depends on where you sit". En horfum svo aðeins lengra til baka, til þingsályktunartillögu um lausn Icesave-deilunnar sem var samþykkt á Alþingi í des. 2008 þegar enn var við völd "hrunstjórn" Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þá var það "mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni."

Þessari lausn voru Vinstri grænir alveg á móti (eða fjarverandi). Framsóknarmenn sátu hjá (eða voru fjarverandi). Einn sjálfstæðismaður var á móti, Pétur H. Blöndal, en annars voru liðsmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar samþykkir þessu meginsjónarmiði (að vísu sumir fjarverandi). Lyktir atkvæðagreiðslunnar má sjá hér.

Vandséð er að sjálfstæðismenn muni skrifa upp á það að í dag að hagsmunum Íslands til lengri tíma sé best borgið með því að ábyrgjast evrurnar 20.887 sem lágmarkstrygging EES-reglna mælir fyrir um. Enda eru breyttir tímar. Sagan af afstöðu manna 2008 verður hins vegar ekki sögð með hliðsjón af því hvað menn töldu réttast 2011 eða 2012. Það tengist líka þeirri hugsun sem kom fram í grein minni, í næstu setningu við þá sem vitnað var til að ofan:

Sjálfskipaðir sigurvegarar munu reyna að skrá söguna og eru reyndar byrjaðir á því. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu þegar upp er staðið. Til þess eru staðreyndirnar of skýrar.

Auðvitað verður saga Hrunsins og Icesave aldrei sögð í eitt skipti fyrir öll, og enginn lokadómur kveðinn upp um dáðleysi eða lofsverða afstöðu einstakra manna eða flokka. Hitt er aftur á móti víst að komandi kynslóðir munu síst reiða sig á vitnisburði þátttakendanna sjálfra um rétt og rangt í sögunni. Enginn er dómari í eigin sök, ekki stjórnmálamenn og ekki forsetar - og reyndar ekki sagnfræðingar heldur ef út í það er farið. En það er önnur saga.Drupal vefsíða: Emstrur