Leiðréttingar
31. mars 1949...
Stundum er manni fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum maður fór að því að gera þau mistök sem koma í ljós – og munu lifa æ síðan – eftir að bók eða grein er komin út. Þetta á sérlega vel við þá leiðréttingu sem hér þarf að gera: Á bls. 19, annarri línu að ofan, er setning sem hefst svona: „31. mars 1949 samþykkti Alþingi inngöngu Ísland í Atlantshafsbandalagið ...“. Auðvitað á þetta að vera 30. mars, ein kunnasta dagsetning í stjórnmálasögu Íslands. Enn þann dag í dag er mér óskiljanlegt hvernig þetta gat gerst, þó ekki væri nema vegna þess að þekktasta verkið um atburðina 30. mars, bók Baldurs Guðlaugssonar og Páls Heiðars Jónssonar, heitir einmitt 30. mars. Og þótt ég ítreki það sem maður segir í öllum formálum eða eftirmálum, að maður ber einn ábyrgð á eigin verki, er náttúrulega magnað að enginn þeirra sem las verkið yfir á hinum ýmsu stigum hafi rekið augun í þetta.
Veikleiki en ekki veiklyndi
Í ritdómi sínum um bókina benti Svanur Kristjánsson prófessor á að í beinni, inndreginni tilvitnun á bls. 30. misritaði ég orð. Í stað orðsins „veikleiki“ skrifaði ég „veiklyndi“.
25. apríl 1987...
Í viðauka um „stjórnarkreppur“ og tímabil starfsstjórna er misritun. Sagt er að fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi beðist lausnar 25. apríl 1987. Þetta á að vera 28. apríl 1987.