Skip to Content

Kafli úr bókinni

Hér er að finna formála og niðurstöður bókarinnar. Formálann hef ég sérstaklega því í honum má finna "póstmóderníska" sýn mína á þorskastríðin, þ.e. að hafa verði í huga að tíminn breytir sýn okkar á þau, og jafnframt að einn "ungur" sagnfræðingur sem vill sjá átökin frá öllum hliðum hljóti að komast að annarri niðurstöðu um gang mála en skipherra sem var í brúnni þegar hasarinn stóð sem hæst (og er kannski enn þar í huganum).

Formáli höfundar

„Jæja, svo þú ætlar að skrifa um þorskastríðin“, sagði Guðmundur Kjærnested og glotti kankvíslega þegar ég sagði honum fyrir tæpum áratug að ég ætlaði í nám til Bretlands að rannsaka sögu þeirra. Guðmundur heitinn var frændi minn og ég mundi vel hvað ég var hreykinn af þeim ættartengslum í barnaskóla þegar síðasta þorskastríðið stóð sem hæst. Þá voru hann og aðrir skipherrar Landhelgisgæslunnar þjóðhetjur.

„Og hvað þykist þú vita um þorskastríðin?“ sagði Guðmundur áfram og brosti breiðar. Síðan hittumst við margoft og ræddum um þessi átök sem ber svo hátt í stjórnmála- og utanríkissögu Íslands. Þeirra samtala minnist ég með miklum hlýhug. Um sumt vorum við sammála en annað ekki enda vart von á öðru. Í þorskastríðunum áttu skipherrar okkar sér það eina markmið að hrekja erlenda togara af Íslandsmiðum með nær öllum tiltækum ráðum. Þannig muna þeir oftast söguna. Þeir eru í raun enn á stjórnpallinum og sama gildir gjarnan um marga þá stjórnmálamenn og embættismenn sem voru í eldlínunni í landi; í huganum rifja þeir upp nær heilagan rétt okkar til þess að ráða auðlindum hafsins, hörku andstæðingsins og þann hita sem var í mönnum í þorskastríðunum.

Við sem á eftir komum ættum að reyna að taka okkur stöðu utan bardagavallarins og horfa yfir hann allan. En það er þó hægara sagt en gert. Rimman er frá og eftir standa aðeins brotakenndar heimildir; leiftur frá liðinni tíð. Sjálf stöndum við á nýjum velli og sjónarhorn okkar ræðst af því. Svo þurfum að velja sumar heimildir og hafna öðrum, raða þeim saman, geta í eyður, draga ályktanir, reyna ekki að þóknast einum frekar en öðrum og stefna að því að vera hvorki ósanngjörn í dómum né fara rangt með það sem vart verður deilt um. Frásögnin er því aldrei fullkomin þótt hún sé byggð á staðreyndum og hún verður öðrum þræði okkar eigin sýn frekar en „sannleikurinn allur“. Hann verður aldrei endurskapaður þótt óteljandi bútar hans liggi úti um allt.

...

Niðurstöður

Í bókarlok eru lesendur væntanlega nokkru nær um helstu viðburði í sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna þriggja árin 1948-1976. Auðvitað hefur aðeins verið stiklað á stóru og söguna mætti hæglega skoða frá ýmsum öðrum sjónarhornum. Til dæmis er þessi saga sem hér hefur verið sögð fyrst og fremst „karlasaga“. Til varnar mætti segja að þannig var það nú með þorskastríðin. Nær enginn kvenmaður var um borð í herskipum, varðskipum, dráttarbátum og togurum og konur voru sjaldséðar í samninganefndum og valdastöðum. Lafði Tweedsmuir var undantekningin sem sannaði regluna og má jafnvel leiða líkum að því að íslensku körlunum hafi þótt frekar undarlegt að þurfa að semja við kvenmann um hin mikilvægustu málefni; það var jú aðeins árið 1970 sem kona varð fyrst ráðherra á Íslandi og konur voru fámennar á þingi og annars staðar þar sem áhrif var að hafa.

Auðvitað snertu þorskastríðin þó bæði kynin. Aflinn sem karlarnir drógu að landi fór gjarnan um hendur fiskvinnslukvenna og ekki þarf að spyrja að því hver það var sem matreiddi fisk á heimilum fólks á þessum árum ef út í það er farið. Og þegar tekist var á um fiskveiðar á hafi úti beið sjómannskonan heima. Fyrir kom að eiginkonur, mæður og unnustur bresku togarasjómannanna létu í sér heyra og krefðust þess að valdhafarnir í London stæðu betri vörð um hagsmuni þeirra. Vel sást þetta undir lok sjöunda áratugarins þegar nokkrir togararar hurfu í hafið í bálviðrum undan Íslandi. Þá urðu til margar sjómannsekkjur í bresku útgerðarbæjunum og komust þær á forsíður breskra blaða þegar þær heimtuðu að eitthvað yrði gert til að koma í veg fyrir slíka skipskaða.

Að baki flestra varðskipsmanna stóðu einnig eiginkonur í landi. Þorskastríðin höfðu vitaskuld áhrif á þær. Eftir orrustuna miklu í byrjun maí 1976 hafði ein þeirra samband við Ólaf Jóhannesson og Pétur Sigurðsson og fór fram á að aðstandendur í landi fengju betri upplýsingar um gang mála á miðunum þegar svo hart væri barist: „Álagið á heimilið er svo mikið að það er erfitt að standa uppréttur með það.“

Aftur erum við þó komin að því að saga þorskastríðanna er fyrst og fremst saga átaka í karlaheimi. Og þótt við ættum núna að þekkja atburðarásina í hverri rimmu fyrir sig er enn eftir að draga saman svör við þeim spurningum sem vakið var máls á í upphafi. Þau svör verða væntanlega umdeildari en frásögn af því hvað gerðist hvenær enda byggjast þau á mati og ályktunum frekar en órækum staðreyndum.

Voru þorskastríðin óumflýjanleg?

Útfærsla fiskveiðilögsögunnar eftir seinni heimsstyrjöld var bráðnauðsynleg. Stemma þurfti stigu við stóraukinni sókn í fiskstofnana og hagsæld á Íslandi hlaut að byggjast á því að Íslendingar fengju bróðurpartinn af aflanum í sinn hlut og helst hann allan. Þetta þýðir hins vegar ekki að ómögulegt hafi verið að afstýra átökum. Ögn meiri friðarvilji hefði ekki leitt til þess að langtímamarkmiðið – full yfirráð yfir hafinu umhverfis Ísland – hefði farið forgörðum. Dálítil biðlund við útfærslu eða rýmri veiðiheimildir fyrir útlendinga hverju sinni hefðu ekki eytt auðlindinni.

Auðvitað vantaði ekki aðeins upp á sáttfýsina hér á landi; það voru Bretar sem tóku þá misvitru ákvörðun hverju sinni að senda herskip á Íslandsmið. En í hverju þorskastríði má sjá tímamót þar sem íslenskum stjórnvöldum buðust þokkalegar málamiðlanir og það hefði verið „lafhægt að semja“ eins og eitt sinn var komist að orði. Þótt nauðsyn hafi borið til að vernda auðlindir hafsins umhverfis Ísland má ekki nota þau rök nánast eins og óútfyllta ávísun sem dugi til að verja allt sem var gert í landhelgismálinu.

Þrjóskan og óbilgirnin var stundum of mikil. Breskur embættismaður, þrauteyndur í samningaviðræðum, lýsti því síðar að yfirleitt settu málsaðilar fram sjónarmið sín og mættust síðan á miðri leið eða því sem næst. Íslensk samningatækni væri hins vegar öðru vísi: Hún fælist í því að setja fyrst fram kröfu – og auka svo við hana.

Voru þorskastríðin stríð?

Þorskastríðin voru ekki óumflýjanleg og þau voru ekki heldur stríð í eignlegri merkingu. Hefðu bresku herskipin beitt fallbyssum sínum og sprengjum þannig að mannfall hefði orðið og varðskip sokkið hefði einhvers konar stríðsástand vissulega skapast til sjós og lands. Hins vegar er hugtakið „stríð“ gjarnan skilgreint þannig að um sé að ræða átök sem kosti í það minnsta nokkur hundruð eða eitt þúsund mannslíf. Um sama leyti og Íslendingar og Bretar stóðu í sínum erjum var víða annars staðar barist um réttinn til fiskveiða. Spánverjar og Marokkómenn áttu til að mynda í stöðugum skotbardögum í sinni landhelgisdeilu og haustið 1977, rétt áður en síðasti Vestur-Þjóðverjinn hvarf af Íslandsmiðum, féllu fjórir sjómenn á togurum frá Austur-Evrópu í skotárás sjóhers Argentínu innan 200 mílna lögsögu landsins. Og þegar bresku togarasjómönnunum var sagt í 50 mílna deilunni að gæta yrði stillingar á miðunum kvörtuðu þeir í talstöðvar sínar „að ef þeir væru undir rússnesku flaggi væri búið að sökkva Ægi fyrir löngu“.

Við Íslendingar vorum heppnir með andstæðing. Það var vel að orði komist hjá einum embættismanni sem kom að samningaviðræðum í öllum þorskastríðunum þegar hann sagði við einn Bretann: You are our best enemies, „þið eruð okkar bestu óvinir.“ Verri óvinir en Bretar hefðu verið mun harðari í horn að taka.

Var rétturinn alltaf Íslands megin?

Hafréttur var í stöðugri mótun þau ár sem Íslendingar stóðu í ströngu í landhelgismálum. Landgrunnslögin frá árinu 1948 sóru sig í ætt við Truman-yfirlýsingarnar í Bandaríkjunum og aðgerðir ýmissa ríkja í Rómönsku Ameríku. Notkun beinna grunnlína við fjögurra mílna útfærsluna árið 1952 byggði á úrskurði Alþjóðadómstólsins í deilu Norðmanna og Breta árið áður. Ákvörðunina um 12 mílna lögsögu árið 1958 mátti styðja með því að vísa í óformlega viðurkenningu Breta á þeim mörkum í Barentshafi og afstöðu Alþjóðalaganefndarinnar. Og þótt Ísland sé eitt örfárra ríkja sem hafði um skeið 50 mílna fiskveiðilögsögu lá fyrir í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar að strandríki myndu senn gera tilkall til mun víðáttumeiri lögsögu en áður hafði tíðkast. Um miðjan áratuginn var síðan augljóst að 200 mílna efnahagslögsaga tæki gildi víða um heim áður en langt um liði.

Á hinn bóginn má deila um tímasetningar og ákveðna þætti varðandi mörkun og vernd lögsögunnar umhverfis Ísland. Hér hefur verið bent á hve hæpið það var að nota Eldeyjardrang og síðar Geirfugladrang sem grunnlínupunkta árin 1952 og 1961. Landhelgissamningarnir við Breta og Vestur-Þjóðverja við lok fyrsta þorskastríðsins um málskot til Haag eru svo sérkapítuli. Voru þeir gerðir í nauðung? Höfðu þeir runnið sitt skeið á enda? Áttu þeir ekki lengur við? Öllu þessu var haldið fram þegar fært var út í 50 mílur og málskotsrétti andstæðinganna vísað á bug. Hvað sem um það má segja er ljóst að það gengur aldrei að verja hvort tveggja, að hafa gert samningana árið 1961 og standa ekki við þá um áratug síðar.

Svo var það síðasta þorskastríðið. Var árið 1975 þvílíkt örlagaár að engan tíma mátti missa? Og hafi svo verið sýndu ráðamenn þá ekki af sér sinnuleysi um hag þjóðarinnar með því að færa ekki út ári fyrr eins og orð voru uppi um? Hefði verið beðið í einn vetur með að færa lögsöguna út í 200 mílur hefði réttur Íslendinga verið ótvíræður og Bretum reynst ómögulegt að senda herskip á miðin.

Var þjóðareining í þorskastríðunum?

Saga þorskastríðanna hefur yfirleitt verið sögð þannig að við Íslendingar höfum staðið saman allir sem einn. Við höfum séð að sú var nú ekki alltaf raunin. Í þessari bók er oft minnst á „okkur“ og sagt að „við“ höfum fagnað eða mótmælt eftir því sem við átti. En „við“ vorum ekki alltaf ein heild. Stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar tókust á, embættismenn gagnrýndu ráðherra, varðskipsmenn kvörtuðu yfir linkind í landi og sumir sjómenn skirrtust ekki við að fremja eigin landhelgisbrot í miðri baráttunni við Bretann. Hitt stendur vitaskuld enn að þjóðin sameinaðist nær öll í andúð á andstæðingnum um leið og herskipin komu á vettvang og létu svo til sín taka. Jafnframt var hún sameinuð um það lokamarkmið að öðlast ein yfirráð yfir auðlindunum í hafinu umhverfis landið. En ímyndin af sameinaðri þjóð í einu og öllu er goðsögn.

Það er líka goðsögn að þjóðarhagur hafi ráðið ákvörðunum valdhafa hverju sinni. Innanlandsstjórnmál höfðu miklu meiri áhrif en menn hafa viljað viðurkenna. Aðalóvininn var ekki alltaf að finna handan við hafið heldur í öðrum stjórnmálaflokkum. Auk þess var nokkurs konar útfærsluafl að verki í landhelgismálinu. Þetta afl var nánast náttúrulögmál eins og miðflóttaaflið: Íslenskir stjórnmálamenn soguðust til þeirra sem höfðu uppi hæstar kröfur og þeir sem voguðu sér að vinna gegn þessu afli höfðu sjaldnast erindi sem erfiði.

Þetta voru þó ekki endilega ný tíðindi: Árið 1918 sagði Ólafur Friðriksson, leiðtogi íslenskra jafnaðarmanna, í viðtali við danska blaðið Socialdemokraten: „Í þjóðernismálunum bera þeir flokkarnir á Íslandi sem gera mestar kröfurnar alltaf sigur úr býtum.“ Það voru orð að sönnu.

Hvað réð úrslitum?

Þorskastríðin eru til vitnis um það að margt getur ráðið úrslitum um lyktir milliríkjadeilna. Stjórnmálafræðingar, sagnfræðingar og aðrir sem rannsaka alþjóðasamskipti nýta ýmsar kenningar til þess að útskýra hvers vegna eitt ríki hefur betur en annað í átökum þeirra á milli. Menn geta til dæmis stuðst við raunhyggju, realisma. Sú kenning segir í grófustu dráttum að ríki hljóti fyrst og fremst að hugsa um eigin hag, valdið liggi hjá hinum sterku og hinir veikari verði að lúta í lægra haldi. Þættir eins og hervald og efnahagsmáttur skipta þess vegna meginmáli í útreikningum raunsæissinna á valdi í deilum ríkja.

Þeir viðurkenna þó að stundum geti smáríki verið mikilvægur bandamaður og notið samúðar í krafti smæðar sinnar. Þetta var „vald hinna veiku“ sem liggur jú eins og rauður þráður um sögu þorskastríðanna. Engu að síður er stíf raunhyggja greinilega á skjön við staðreyndir þorskastríðanna. Hefði hernaðarmáttur skipt meginmáli hefðu Bretar getað sökkt varðskipaflota Íslendinga á nokkrum dögum og hér má rifja upp frásögnina af því þegar Selwyn Lloyd utanríkisráðherra Breta saknaði þess vorið 1958 að geta ekki bara sent byssubáta til að lækka rostann í Íslendingum. Þeir gerðu það vissulega að hausti – en beittu ekki byssunum. Eins má benda á þrábeiðnir freigátukapteina í síðasta þorskastríðinu að mega nota þau vopn sem þeir réðu yfir. Þeim var hafnað og raunhyggjan ein dugar greinilega ekki til þess að útskýra gang þorskastríðanna.

Hugsjónastefna – ídealismi eða líberalismi – virðist samræmast betur því sem gekk á. Í hugsjónastefnu er lögð áhersla á síaukin tengsl ríkja á öllum sviðum og samofna hagsmuni, aukið vægi þjóðaréttar í alþjóðasamfélaginu og þá staðreynd að almenningur í lýðræðisríkjum eigi að öllu jöfn að hafa meiri tök á að fylgjast með framferði eigin stjórnvalda úti í heimi. Þegar allt kemur til alls má því tína saman eftirtalda þætti til útskýringar á því að við höfðum okkar fram í þorskastríðunum og landhelgismálinu öllu:

Skuldbinding er þekkt hugtak í alþjóðasamskiptum. Þeir sem telja sig eiga meira undir því að hafa sigur í milliríkjadeilu eða stríði eru þrautseigari í átökum. Í þorskastríðunum jók þjóðareiningin út á við styrk Íslendinga gagnvart Bretum og öðrum útlendingum. Deilurnar heima fyrir og á bak við tjöldin juku jafnvel styrk íslenskra ráðamanna því þeir gátu sagt að því miður gætu þeir ekki sýnt sáttahug vegna þess að þá yrði fjandinn laus á Íslandi. Augljós hætta á ofveiði ef ekkert yrði að gert jók einnig þann sannfæringarkraft sem Íslendingar höfðu í átökunum. Hins vegar sameinuðu þorskastríðin aldrei Breta. Mótmælafundir vegna þeirra áttu sér aldrei stað á Trafalgar-torgi í London.

Þróun hafréttar kom Íslandi til góða. Við vorum nær alltaf í miklum meðbyr og nutum góðs af þrotlausri baráttu annarra þjóða, einkum í Rómönsku Ameríku. Á hafréttarráðstefnum Sameinuðu þjóðanna skipti atbeini Hans G. Andersen og annarra íslenskra embættismanna máli, og þorskastríðin höfðu áhrif á þróun hafréttar rétt eins og aðrar deilur um landhelgismál á þessum árum. En Íslendingar réðu aldrei úrslitum á alþjóðavettvangi; hér og annars staðar væri nær örugglega í gildi 200 sjómílna efnahagslögsaga þótt Íslendingar hefðu engin þorskastríð háð.

Vígstaðan á miðunum réð miklu um sigur Íslendinga. Í fyrsta lagi gátu veiðar erlendra skipa undir vernd í sérstökum hólfum aldrei gengið til lengdar. Í átökunum á áttunda áratugnum komu togvíraklippurnar svo líka til sögunnar. Í herfræðum eru það algild sannindi að ný tækni getur gerbreytt valdajafnvægi stríðandi fylkinga og klippurnar gerðu það svo sannarlega. Auk þess voru varðskipin að flestu leyti hentugri en freigátur í darraðardansinum á miðunum og starfsreynsla okkar manna nýttist betur en þau hernaðarfræði sem áhafnir breska sjóhersins höfðu tileinkað sér.

Í fyrsta þorskastríðinu gekk herskipaverndin þó vel að því leyti að íslensku varðskipin náðu ekki að koma í veg fyrir veiðar togaranna. Í 50 mílna deilunni voru Bretar líka ánægðir með þann afla sem þeim tókst að draga að landi þrátt fyrir togvíraklippingar varðskipanna. Í raun má segja að í því þorskastríði hafi útkoman frekar líkst jafntefli en ótvíræðum sigri Íslendinga. Staðan á miðunum skipti þó aldrei sköpum. Þorskastríðin voru fyrst og fremst pólitísk milliríkjadeila.

Smæð Íslands kom ótvírætt að gagni. Víða um lönd – jafnvel í Bretlandi – áttu Íslendingar samúð þeirra sem sáu Davíð berjast við Golíat úti á Atlantshafi. Íslenskir ráðamenn nýttu sér þetta vel í áróðursstríðinu sem var háð við Breta í fjölmiðlum. Smæðin og mikilvægi sjávarútvegs urðu einnig að öflugu vopni á bak við tjöldin. Árið 1948, við upphaf þessarar sögu, höfðu Íslendingar ratað í miklar efnahagsþrengingar eftir gósentíð stríðsáranna. Ísland var í raun Nýfundnaland norðursins, efnahagsleg nýlenda sem átti allt sitt undir velvilja efnaðri þjóða. Bandarísk stjórnvöld björguðu Íslendingum með Marshall-aðstoð og annarri fyrirgreiðslu og breskir bankar veittu lán til togarasmíða í Bretlandi. En hefðu Bretar og Bandaríkjamenn séð fyrir þróun mála hefði þeim verið í lófa lagið að skilyrða stuðninginn við hófsemi í landhelgismálinu. Þetta gerðist ekki, að hluta til vegna þess að vestrænir valdhafar vissu vel að sjávarútvegur var nær eina bjargráð Íslendinga og „það er ómögulegt að láta 130.000 manna þjóð svelta í hel“, eins og breskur embættismaður komst að orði undir lok fimmta áratugarins. Og fleira kom til.

Hernaðarmikilvægi Íslands hafði mikil áhrif í landhelgisbaráttunni. Samúð er ekki lykilorðið í lýsingu á lánum, fégjöfum, tollaívilnunum í Bandaríkjunum og annarri efnahagsaðstoð sem Íslendingar nutu í kalda stríðinu. Svo þýðingarmikil var staða Íslands í eldlínu kalda stríðsins að Bretar gátu aldrei litið framhjá hernaðarmikilvægi landsins og beitt öllu afli til að hafa sigur í fiskveiðideilunum. Þeir hefðu tæplega reynst tiltölulega „góðir óvinir“ ef þeir hefðu ekki talið sig neyðast til þess.

Kalda stríðið kom Íslendingum því mjög vel í þorskastríðunum og í raun má segja að „kommagrýlan“ hafi verið góður liðsmaður. Matthías Johannessen, sem var ritstjóri Morgunblaðsins þegar þorskastríðin geisuðu, sagði síðar í sjónvarpsþætti Árna Snævarr og Vals Ingimundarsonar um kalda stríðið: „Við notuðum NATO, alveg undir drep. Kissinger, hann rekur upp ramakvein í minningum sínum út af Íslandi og minnist á Ísland sem dæmi um það hvernig lítil þjóð gat kúgað stórveldi eins og Bandaríkin. Ég vona bara að það sé rétt!“ Á sama hátt lýsti framsóknarþingmaðurinn Tómas Árnason Lúðvík Jósepssyni eitt sinn svo að hann hefði verið „andskoti vaskur. Hann var þarfur maður, Bretarnir óttuðust hann og auðvitað skeytti hann engu um NATO og herinn og hélt bara áfram alveg miskunnarlaust.“ Til sjós komu togvíraklippurnar í góðar þarfir; í landi virkaði „NATO-vopnið“ vel.

Er þorskastríðunum lokið?

Þorskastríðunum lauk ekki endilega þegar Bretar og Vestur-Þjóðverjar hurfu af Íslandsmiðum. Hafi þau snúist um verndun auðlindarinnar var enn ein rimman fram undan; „fjórða þorskastríðið“ eins og Gunnar H. Ólafsson skipherra sagði sumarið 1978. Það snerist að hans sögn um að „rækta upp aftur hálfdeydda fiskstofna í kringum landið. Og nú stendur þjóðin ekki einhuga lengur, hagsmunir rekast á hagsmuni og bróðir er á móti bróður. Þetta stríð verður þó að vinnast því án þess er öllum öðrum sigrum í landhelgismálinu á glæ kastað.“

Baráttan gekk erfiðlega fyrst um sinn og fiskifræðingar höfðu á orði um svipað leyti að valdhöfum þætti „svarta skýrslan“ sem hafði hvatt þá svo mjög til dáða árið 1975 orðin blágrá. Jakob Jakobsson var í þessum hópi og rifjaði seinna upp að stjórnmálamenn hefðu aðeins hlustað á fiskifræðinga þegar þeim bauð svo við að horfa: „Meðan á landhelgisdeilunni stóð tóku stjórnvöld fullt mark á okkur en ef málið sneri að innlendum veiðum snerust stjórnvöld öndverð við. Mér fannst þetta hentistefna.“ Síðan kom kvótakerfi í íslenskum sjávarútvegi, með kostum og göllum sem verða ekki til umfjöllunar hér. Á það eitt verður þó bent að þrátt fyrir 30 ára einræði á Íslandsmiðum hefur ekki tekist að byggja upp jafnöflugan þorskstofn umhverfis landið og ráðamenn og fiskifræðingar sáu fyrir sér þegar útlendingarnir hurfu af miðunum.

Hafi þorskastríðin snúist um sjálfstæði þjóðarinnar má segja að þeim sé ekki lokið því sjálfstæðisbaráttu ljúki í sjálfu sér aldrei. Þeir Íslendingar sem hafa barist gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa líka haldið á lofti þeim rökum að ekki megi hleypa erlendum fiskiskipum inn í lögsöguna á nýjan leik því til hvers hafi þá verið barist í öll þessi ár?

Að síðustu má nálgast spurninguna um lok þorskastríðanna í viðmóti okkar til þeirra. Hefur það langur tími liðið að við getum vegið þau og metið á sama hátt og sjálfstæðisbaráttuna við Dani, svo nærtækt dæmi sé tekið? Enginn heldur því lengur fram að hún hafi eingöngu snúist um grimma nýlenduherra og undirokaða þjóð, einhuga í draumum sínum um frelsi og sjálfstæði. Hetjuljóminn sem einkenndi sjálfstæðissöguna á ekki lengur við og saga þorskastríðanna þarf á svipaðri endurskoðun að halda, án þess að rýrð sé varpað á þá sem stóðu í stafni eða lítið gert úr mikilvægi átakanna á sínum tíma. Þorskastríðunum er lokið.Drupal vefsíða: Emstrur