Skip to Content

Gunnar Thoroddsen

Gunnar Thoroddsen

Gunnar Thoroddsen. Ævisaga (Reykjavík: JPV, 2010).

ISBN 9789935111630

Eitt sinn bar það til, líklega árið 2002 eða 2003, að mér datt í hug að kanna hvort gögn um landhelgismál mætti kannski finna í skjalasafni Gunnars heitins Thoroddsens, að því gefnu að hann hefði haldið gögnum til haga. Gunnar hafði látið til sín taka í landhelgismálum, einkum á áttunda áratugnum. Ég hafði því samband við Jón Orm Halldórsson, aðstoðarmann Gunnars í forsætisráðherratíð hans. Jón tók mér vel og minntist á að rætt hefði verið um að hann myndi skrá ævisögu Gunnars. Og vissulega væru gögn til. En Jón bætti líka við að honum sýndist hann varla hafa tíma til að skrifa sögu Gunnars Thoroddsens og myndi ég kannski hafa áhuga á því?

Það var nú annað hvort! Þegar þarna var komið sögu sá ég fram á að ljúka senn doktorsnámi mínu í sögu og fannst kjörið að takast á við ævisagnaritun, einkum þegar umdeilt stórmenni eins og Gunnar átti í hlut. Engin tengsl hafði ég við fjölskyldu Gunnars og þykist vita að Páll Bragi Kristjónsson, forleggjari minn þegar Kárabókin umdeilda kom út, hafi ráðið miklu um að Vala og börn þeirra Gunnars, Ásgeir, Sigurður, Dóra og María Kristín, féllust á að þessi ungi sagnfræðingur tækist verkið á hendur. Ekki var bókin um Kára endilega dæmi þess að vel hlyti að takast svo þetta var mikið traust sem manni var sýnt.

Þegar ég ákvað að takast verkið á hendur vissi ég ekki þvílíkan fjársjóð ég hafði fengið í hendur. Eftir að samkomulag hafði verið gert við fjölskyldu Gunnars og Eddu, forlagið þar sem Páll Bragi réð ríkjum, fór ég að kynna mér gögn Gunnars, geymd í skápum á heimili Völu í Efstaleiti í Reykjavík og geymslunni litlu þar. Þá fyrst sá ég að hér væri efniviður í frábæra bók ef vel tækist til. Dagbækur, sendibréf, minnisblöð, segulbandsspólur með endurminningum, blaðaúrklippur. Allt var þetta í miklum stöflum og dagbækurnar voru auðvitað djásnið í krúnunni, einlægar, ítarlegar, opinskáar.

Næstu ár vann ég að verkinu eins og annir við annað leyfðu. Völundarhús valdsins tók á einum umdeildasta þætti í stjórnmálasögu Gunnars, stjórnarmynduninni mögnuðu í ársbyrjun 1980. Þau skrif reyndust góður undirbúningur en ekki gat ég farið að vinna að alvöru við skrifin fyrr en árið 2009 og mátti það vart seinna vera því alltaf stóð til að verkið kæmi í síðasta lagi út árið 2010 þegar öld væri liðin frá fæðingu Gunnars. Síðustu mánuðirnir voru ansi hektískir og minnist ég helst mikilla maraþonskrifa í júní og júlí 2010 þegar Eliza kona mín var á heimaslóðum í Kanada með syni okkar og ég skrifaði frá morgni til kvölds, með annað augað að vísu á heimsmeistarakeppninni í fótbolta.

Á lokasprettinum reyndist erfiðast að skera niður og tókst ekki betur en svo að bókin varð yfir 650 blaðsíður þegar upp var staðið. Hún hefði reyndar orðið enn lengri ef maður hefði ekki notið snilli Guðmundar Þorsteinssonar umbrotsmanns; með honum og Bjarna Guðmarssyni vann ég mest innan Forlagsins. Kristbjörn Helgi Björnsson, sem hafði liðsinnt mér svo vel í Hruninu, var líka haukur í horni núna og á m.a. heiðurinn af því að benda á að myndin af Gunnari að tala á kosningafundi Ásgeirs Ásgeirssonar 1952 gæti vel prýtt forsíðu bókarinnar. Fannst mér það í fyrstu ekki koma til greina, það sæist jú aðeins í hnakkann á söguhetjunni. En kápuhönnuðurinn Ragnar Helgi Ólafsson (sonur Ólafs heitins Ragnarssonar forleggjara og vinar Gunnars) henti hugmyndina á lofti og hannaði þessa líka frábæru kápu.

Bókinni var tekið betur en ég þorði að vona. Með henni vona ég líka að nýr tónn hafi verið sleginn í íslenskri ævisagnahefð. Meiri hreinskilni, minna oflof. Það væri öllum fyrir bestu.Drupal vefsíða: Emstrur