Fjölskyldan
Ég er kvæntur Elizu Reid, markaðsráðgjafa, prófarkalesara, textahönnuði og þúsundþjalasmiði þegar kemur að hvers kyns framsetningu texta á ensku. Einnig tekur hún að sér verkefnastjórn og skipulagningu atburða og ráðstefna. Við Eliza kynntumst árið 1998 þegar við vorum bæði í námi í Oxford og höfum búið hér á Íslandi frá árinu 2003. Við eigum þrjá syni og eina dóttur. Elstur drengjanna er Duncan Tindur, fæddur 2. október 2007, svo Donald Gunnar, fæddur 18. sept. 2009 og loks Sæþór Peter sem kom í heiminn 9. júlí 2011. Dóttir okkar, Edda Margrét Reid, fæddist 20. ág. 2013. Einnig á ég dótturina Rut með Elínu Haraldsdóttur, fyrri eiginkonu minni sem er viðskiptafræðingur og listakona. Rut fæddist 12. ágúst 1994 og stundar núna nám við Háskóla Íslands.
Myndin er tekin í fjölskyldusófanum heima hjá okkur. Heimilið er gamalt timburhús sem heitir Dvergasteinn og stendur við Lágholtsveg, á Bráðræðisholtinu vestast í vesturbæ Reykjavíkur. Eliza situr með Donna, Rut með Sæþór og ég með Duncan. Okkur hefur ekki enn tekist að ná allri fjölskyldunni á eina mynd.