Óvinir ríkisins (2006)
Óvinir ríkisins
Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi (Reykjavík: Mál og menning, 2006).
ISBN 9979328088
Sagan af því hvernig þessi bók varð til er um sumt eins undarleg og jafnvel spennandi og sitthvað sem sagt er frá í henni sjálfri. Slysni eða hending réð því að ég komst á snoðir um gögn um "innra öryggi" á Íslandi í kalda stríðinu. Einkum voru það heimildir á skjalasafni Eisenhowers Bandaríkjaforseta og breska ríkisskjalasafninu (sem heitir núna The National Archives en kallaðist The Public Record Office, PRO, þegar ég vann að rannsóknum hvað mest og á ég erfitt með að venjast nýja nafninu). Söguna af tilurð af bókina hef ég m.a. rakið í formála hennar og þessum fyrirlestri.
Við þær frásagnir má bæta að þegar kom fram á sumar 2006 taldi ég jafnvel óvíst að bókin kæmi út. Þá var ég búinn að flytja erindi á Söguþingi um símhleranir í kalda stríðinu og taldi ljóst að eftir það myndu upplýsingar um þau efni á Þjóðskjalasafni verða gerðar opinberar. Svo fór reyndar ekki og þá var eftir að greina nánar frá því efni í bókarformi, fannst mér. Reyndar hafði ég gengist undir ýmsar kvaðir safnsin um hvað mætti birta og hvað ekki en þegar leið á haustið sýndist ljóst að þær ættu vart lengur við, og fékk ég álit lögfræðings á þeim efnum máli mínu til stuðnings. Allt var þetta þó erfitt að eiga við; ekki vildi maður rjúfa eigin eiðstaf um trúnað og skilmála.
Grein Þórs Whiteheads í Þjóðmálum haustið 2006 varð svo aftur til þess að setja strik í reikninginn. Þar birtust upplýsingar um "öryggisþjónustu" stjórnvalda sem ég hafði vonast til að geta sett fram fyrstur manna í væntanlegri bók. Þetta getur virst hégómi eða barnaskapur en getur skipt máli þegar kynningar á bókum eru annars vegar. Auðvitað var ekkert við Þór að sakast og þegar til kom breytti grein Þórs litlu eða engu um áhuga á bókinni þegar hún kom út fyrir jól 2006, að vísu vonum seinna (lok nóvember). Verkið vakti athygli, enda var fjallað um eldfim og umdeild málefni, njósnir, símhleranir og eftirlit með þegnum landsins í þágu "öryggis ríkisins".
Ég hef stundum spurt mig hvort ekki hefði verið betra fyrir fræðimannsferilinn að halda sig frekar við rannsóknir á landhelgismálum í stað þess að slysast hálfpartinn inn á þessa braut. Á móti því má segja að það hafi verið nauðsynlegt að koma þeim upplýsingum á framfæri sem maður þó komst að. Og allur var þessi hasar skemmtilegur í aðra röndina, þó að á köflum hafi fullmikið gengið á og málið auðvitað verið háalvarlegt.