Skip to Content

Blaða- og tímaritsgreinar

Lúðvíksvaka

Sunnudaginn 22. maí var Lúðvíksvaka haldin í Neskaupstað, til minningar um Lúðvík Jósepsson. Fólk kom saman í Egilsbúð og hlýddi á erindi um ævi og störf Lúðvíks, þess mikla stjórnmálamanns sem setti svo sannarlega mark sitt á sögu sinnar heimabyggðar og landsins alls á síðustu öld. Mér hlotnaðist sá heiður að fara yfir þátt Lúðvíks Jósepssonar í sögu landhelgismálsins í máli og myndum. Þótt glærurnar sem ég notaði segi aðeins hálfa söguna, ef það, læt ég þær fylgja hér, fólki til fróðleiks. Annars bendi ég einnig á bók mína, Þorskastríðin þrjú, sem er t.d. til á bókasöfnum.

Forsetar Íslands. Saga embættisins frá upphafi til okkar daga

Hér eru fyrstu drög að fyrsta kafla í litlu riti mínu sem kemur út fyrri hluta næsta árs. Þar verður fjallað um forseta Íslands og sögu embættisins frá upphafi til okkar daga. Í þessum upphafskaflið er sviðið sett, 1. desember 1918. Fullveldi er fengið en hvað með þjóðhöfðingjann? Hann verður áfram danskur arfakóngur og hvað er svo sem að því? Íslendingar sáu ekkert endilega fyrir sér að á því yrði breyting þótt sambandslögin sem gengu í gildi þennan dag gætu heyrt sögunni til eftir 1943.

Myndin er tekin í heimsókn Friðriks IX til Íslands árið 1956. Honum til hliðar eru Ásgeir Ásgeirsson forseti og tengdasonur hans, Gunnar Thorodssen, síðar forsetaefni.

"Er hægt að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?" Erindi 18. febrúar 2015

Stjórnarskrárfélagið stóð fyrir fundi um stjórnarskrármál í Iðnó í Reykjavík 18. febrúar 2015. Ég flutti þar erindi sem ég nefndi "Er hægt að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?" Fundinn í heild sinni er hægt að hlýða á hér og svo hér. Í kynningu á fundinum sagði svo:

Forystumenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi mæta og gera grein fyrir stefnu sinna flokka varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar. Margt hangir þar á spýtunni, s.s. auðlindaákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslur, persónukjör, atkvæðavægi, upplýsingaréttur, náttúruvernd, herskylda, þjóðkirkjan, forsetaembættið, umboðsmaður Alþingis og þingmál að frumkvæði kjósenda. 

Hvað ætlast stjórnmálaflokkarnir fyrir með tillögur að nýrri stjórnarskrá sem kjósendur greiddu atkvæði um haustið 2012?

Fyrir flokkana mæta þau Árni Páll Árnason, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir, Árni Múli Jónasson og Sigurður Ingi Jóhannesson.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, flytur erindi sem hann nefnir "Er hægt að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?"

Margt fróðlegt kom fram í umræðum stjórnmálamannanna en ég dreg hér fram tvö komment, annað frá Katrínu Jakobsdóttur sem sagði að þótt það ætti ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá „þá á það ekki að vera ómögulegt“.

Birgir Ármannsson sagði líka eftirminnilega: „Stjórnarskrá í vestrænu lýðræðisríki á að breyta í samræmi við ákvæði stjórnarskrár í vestrænu lýðræðisríki".

Hrun háskólanna, hrun hagfræðinnar, hrun kenninganna (2014)

Á Þjóðarspegli 2014 flutti ég þetta erindi og einblíndi á "hrun hagfræðinnar", ef svo má að orði komast, með þekkta hagfræðinga á fremsta bekk. Allt fór það nú samt vel. Ágrip erindisins má sjá hér, glærur hér og svo tók Dagur Gunnarsson viðtal fyrir RÚV sem má hlusta á hér. Gamla grein mína um efnið frá því ég var í HR sællar minningar, og dálitla umfjöllun, má sjá hér.

"Sjálfsblekking neikvæðninnar". Háskóla Íslands, 5. sept 2014

Sigurður Gylfi Magnússon stakk upp á því við mig í vor að í vetur yrði semínar hvern föstudag í HÍ þar sem áhugasamir gætu kynnt rannsóknir sínar á óformlegan hátt fyrir gestum sem mættu gjarnan mæta með nestið sitt og taka svo þátt í óformlegum umræðum. Ég reið á vaðið og flutti erindið ""Sjálfsblekking neikvæðninnar." Samskipti valdhafa, fræðimanna og almennings um túlkun sögunnar."

"Sjálfstæðir Íslendingar. Lýðveldið á tímamótum", Fréttablaðið 16. júní 2014

Hér er smá grein um lýðveldið og sífelldar endurskilgreiningar á sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðarinnar frá 17. júní 1944 til okkar daga. Ég hef líka verið að velta fyrir mér hvort þessar kenningar um "post-imperial ideology" gætu passað að einhverju leyti við Ísland: "While PII affects a range of state behavior, its influence is most apparent when states perceive threats to sovereignty, when borders viewed as non-negotiable are contested or when a state's international prestige is jeopardized.Particularly, it does so by leading states traumatized by colonialism to first, adopt the position of victim and cast other states as victimizers; second, justify their actions or stances through a discourse invoking oppression and discrimination; third, adopt strict concepts of the inviolability of borders; and fourth, have a sensitivity to loss of face and a desire to regain "lost" status." Sjá: Miller, Manjari Chatterjee, Wronged by Empire. Post-Imperial Ideology and Foreign Policy in India and China (Stanford: Stanford University Press, 2013), bls. 8. Held að þetta sé nú langsótt en kannski einhver tenging þarna.

Viðbót á þjóðhátíðardaginn og síðar: Í forystugrein Fréttablaðsins er vikið að fyrri skrifum mínum í Kjarnanum um tengd efni. Í pistli á Eyjunni vék Egill Helgason einnig að greininni. Svo er hér hörð gagnrýni af vef Fullveldisvaktarinnar.

Myndin er af Austurvelli á Þjóðhátíðardaginn og birtist í Fréttablaðinu. Dorrit forsetafrú stumrar yfir skáta sem leið yfir í miðri athöfn. Allt mun hafa farið vel.

Fortíð, nútíð og framtíð Íslands. Kjarninn, 6. apríl 2014

Í þessari grein er farið yfir sögu Íslands 1874-2074 á nokkrum blaðsíðum (bls. 33-45 í pdf-útgáfu Kjarnans). Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að ég skrifaði hana og sendi til yfirlestrar og uppsetningar nokkru áður en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra brást við hinni svartsýnu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna með því að benda á að fátt væri svo með öllu illt að ekki boðaði nokkuð gott. Greinin er alls ekkert svar við því sjónarmiði forsætisráðherrans. Horft er mun víðar yfir sviðið. 

Og meðan ég man, Kjarninn er virkilega flottur fjölmiðill.

Mannjöfnuður og minningar. Davíð Oddsson og Hannes Hafstein

Hvernig leita íslenskir stjórnmálamenn í menningarlífið og menningarsöguna til að styðja við stefnumál sín og ímynd? Hver eru tengslin milli Jónasar Hallgrímssonar, Hannesar Hafstein, Jónasar frá Hriflu, Einars Olgeirssonar, Sigurðar Nordal og Davíðs Oddssonar? Svörum við þessum spurningum leituðum við Jón Karl Helgason, Ólafur Rastrick og Ragnheiður Kristjánsdóttir á opnum fundi í Hannesarholti 20. nóv. s.l. Ég einbeitti mér að Hannesi og Davíð og hér er erindið, ögn aukið og endurbætt, birt á Hugrás 6. mars. 2014.

JFK - Hvað ef?

Glærur með erindi um John F. Kennedy og hvað hefði gerst, hefði hann ekki verið veginn í Dallas 22. nóv. 1963. Flutt á starfsmannafundi hjá embætti ríkisskattstjóra réttri hálfri öld síðar.

"Baráttan um söguna", Fréttablaðið 22. júní 2013

Þessi stutta blaðagrein vakti allmikil viðbrögð og var hennar víða getið. Hér má sjá fregnir Viðskiptablaðsins og DV um hana, og umfjöllun Egils Helgasonar. Einnig varð greinin Kristínu Svövu Tómasdóttur tilefni til að rifja upp ágætis skrif hennar um söguskoðun og ímyndir sem ég hvet fólk til að kynna sér. Kveikjan að greininni var sú að fréttastofa Ríkisútvarpsins leitaði álits míns á þjóðhátíðarræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Frétt RÚV má lesa hér og ræðu forsætisráðherrans hér. Loks bæti ég við með glöðu geði hvassri en frekar sundurlausri gagnrýni Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur