Skip to Content

Stjórnmálasaga

Forsetar Íslands. Saga embættisins frá upphafi til okkar daga

Hér eru fyrstu drög að fyrsta kafla í litlu riti mínu sem kemur út fyrri hluta næsta árs. Þar verður fjallað um forseta Íslands og sögu embættisins frá upphafi til okkar daga. Í þessum upphafskaflið er sviðið sett, 1. desember 1918. Fullveldi er fengið en hvað með þjóðhöfðingjann? Hann verður áfram danskur arfakóngur og hvað er svo sem að því? Íslendingar sáu ekkert endilega fyrir sér að á því yrði breyting þótt sambandslögin sem gengu í gildi þennan dag gætu heyrt sögunni til eftir 1943.

Myndin er tekin í heimsókn Friðriks IX til Íslands árið 1956. Honum til hliðar eru Ásgeir Ásgeirsson forseti og tengdasonur hans, Gunnar Thorodssen, síðar forsetaefni.

"Er hægt að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?" Erindi 18. febrúar 2015

Stjórnarskrárfélagið stóð fyrir fundi um stjórnarskrármál í Iðnó í Reykjavík 18. febrúar 2015. Ég flutti þar erindi sem ég nefndi "Er hægt að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?" Fundinn í heild sinni er hægt að hlýða á hér og svo hér. Í kynningu á fundinum sagði svo:

Forystumenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi mæta og gera grein fyrir stefnu sinna flokka varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar. Margt hangir þar á spýtunni, s.s. auðlindaákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslur, persónukjör, atkvæðavægi, upplýsingaréttur, náttúruvernd, herskylda, þjóðkirkjan, forsetaembættið, umboðsmaður Alþingis og þingmál að frumkvæði kjósenda. 

Hvað ætlast stjórnmálaflokkarnir fyrir með tillögur að nýrri stjórnarskrá sem kjósendur greiddu atkvæði um haustið 2012?

Fyrir flokkana mæta þau Árni Páll Árnason, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir, Árni Múli Jónasson og Sigurður Ingi Jóhannesson.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, flytur erindi sem hann nefnir "Er hægt að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?"

Margt fróðlegt kom fram í umræðum stjórnmálamannanna en ég dreg hér fram tvö komment, annað frá Katrínu Jakobsdóttur sem sagði að þótt það ætti ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá „þá á það ekki að vera ómögulegt“.

Birgir Ármannsson sagði líka eftirminnilega: „Stjórnarskrá í vestrænu lýðræðisríki á að breyta í samræmi við ákvæði stjórnarskrár í vestrænu lýðræðisríki".

"Sjálfstæðir Íslendingar. Lýðveldið á tímamótum", Fréttablaðið 16. júní 2014

Hér er smá grein um lýðveldið og sífelldar endurskilgreiningar á sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðarinnar frá 17. júní 1944 til okkar daga. Ég hef líka verið að velta fyrir mér hvort þessar kenningar um "post-imperial ideology" gætu passað að einhverju leyti við Ísland: "While PII affects a range of state behavior, its influence is most apparent when states perceive threats to sovereignty, when borders viewed as non-negotiable are contested or when a state's international prestige is jeopardized.Particularly, it does so by leading states traumatized by colonialism to first, adopt the position of victim and cast other states as victimizers; second, justify their actions or stances through a discourse invoking oppression and discrimination; third, adopt strict concepts of the inviolability of borders; and fourth, have a sensitivity to loss of face and a desire to regain "lost" status." Sjá: Miller, Manjari Chatterjee, Wronged by Empire. Post-Imperial Ideology and Foreign Policy in India and China (Stanford: Stanford University Press, 2013), bls. 8. Held að þetta sé nú langsótt en kannski einhver tenging þarna.

Viðbót á þjóðhátíðardaginn og síðar: Í forystugrein Fréttablaðsins er vikið að fyrri skrifum mínum í Kjarnanum um tengd efni. Í pistli á Eyjunni vék Egill Helgason einnig að greininni. Svo er hér hörð gagnrýni af vef Fullveldisvaktarinnar.

Myndin er af Austurvelli á Þjóðhátíðardaginn og birtist í Fréttablaðinu. Dorrit forsetafrú stumrar yfir skáta sem leið yfir í miðri athöfn. Allt mun hafa farið vel.

Fortíð, nútíð og framtíð Íslands. Kjarninn, 6. apríl 2014

Í þessari grein er farið yfir sögu Íslands 1874-2074 á nokkrum blaðsíðum (bls. 33-45 í pdf-útgáfu Kjarnans). Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að ég skrifaði hana og sendi til yfirlestrar og uppsetningar nokkru áður en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra brást við hinni svartsýnu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna með því að benda á að fátt væri svo með öllu illt að ekki boðaði nokkuð gott. Greinin er alls ekkert svar við því sjónarmiði forsætisráðherrans. Horft er mun víðar yfir sviðið. 

Og meðan ég man, Kjarninn er virkilega flottur fjölmiðill.

Mannjöfnuður og minningar. Davíð Oddsson og Hannes Hafstein

Hvernig leita íslenskir stjórnmálamenn í menningarlífið og menningarsöguna til að styðja við stefnumál sín og ímynd? Hver eru tengslin milli Jónasar Hallgrímssonar, Hannesar Hafstein, Jónasar frá Hriflu, Einars Olgeirssonar, Sigurðar Nordal og Davíðs Oddssonar? Svörum við þessum spurningum leituðum við Jón Karl Helgason, Ólafur Rastrick og Ragnheiður Kristjánsdóttir á opnum fundi í Hannesarholti 20. nóv. s.l. Ég einbeitti mér að Hannesi og Davíð og hér er erindið, ögn aukið og endurbætt, birt á Hugrás 6. mars. 2014.

Þrjóskar staðreyndir um stjórnarskrána

Hér er erindi, flutt á fundi Stjórnarskrárfélagsins í Iðnó 17. okt. 2012. Þarna voru fluttar eldmessur og svo þetta "fræðilega" innlegg. Allir virtust í góðu skapi og útlendir fréttamenn voru á sveimi. Upptöku erindisins má horfa á hér.

Sagnfræðin og endurskoðun stjórnarskrárinnar (2011)

Þessi stutta grein er að mestu leyti andsvar við gagnrýni Reimars Péturssonar hrl. á sjónarmið mín um uppruna lýðveldisstjórnarskrárinnar, einkum þá skoðun mína (byggða á heimildum, nota bene) að hún hafi verið samin til bráðabirgða. Niðurstöður greinarinnar eru svohljóðandi:

Líti fólk með opnum hug á heimildir frá liðinni tíð getur það ekki efast um þau sannindi að höfundar lýðveldisstjórnarskrárinnar sáu fyrir sér að hún yrði óðara tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Svo fór að ekkert varð úr því verki og er það áhugavert álitamál hvers vegna sú varð raunin. Í rökræðum af því tagi má þó ekki líta framhjá skýrum staðreyndum fortíðarinnar. Í þá freistni féll Reimar Pétursson þegar hann reyndi að leiða rök að því að árið 1944 hafi ekki staðið til að endurskoða lýðveldisstjórnarskrána í heild sinni eins fljótt og færi gæfist.

Þar með er ekki endilega sagt að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sé bráðnauðsynleg nú um stundir enda hefur ýmsu verið breytt í áranna rás. Jafnframt má vel vera að þeir sem krefjast þess að henni verði gerbreytt líti um of til þess að lýðveldisstjórnarskráin var samin til bráðabirgða; að þeir horfi framhjá þeim breytingum sem á henni hafa verið gerðar og ýki þörfina á umbyltingu.

Allt þetta er hins vegar önnur saga. Vissulega snýst söguskoðun öðrum þræði um túlkun þess sem á horfir en ekki er allur sannleikur afstæður. Þessi stutta grein er skrifuð til að benda á sögulegar staðreyndir og verja þær á vígvelli samtímans.

"Málskot, útrás, hrun og ótti", Fréttablaðið 23. júní 2012

Hér er síðasta Fréttablaðsgrein mín um fyrri forseta og forsetakjör. Greinin vakti nokkrar umræður, t.d. í athugasemdadálki Eyjunnar. Eitt atriði í henni varð einnig umtalsefni annars staðar. Það sneri að Icesave og þessum orðum mínum um þá sorgarsögu:

Línur í Icesave-deilunni hafa ætíð markast af því hvort menn sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu. Sjálfskipaðir sigurvegarar munu reyna að skrá söguna og eru reyndar byrjaðir á því. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu þegar upp er staðið. Til þess eru staðreyndirnar of skýrar.

Meðal þeirra sem töldu þetta rangt voru álitsgjafinn Egill Helgason og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Báðir bentu á andstöðu innan VG eða Samfylkingar við Icesave-samninga. Gott og vel. Hitt var mín meginhugsun að afstaða flokka hefur breyst eftir því hvort þeir hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu. Að vísu hefur Samfylkingin verið í þeirri aðstöðu að hafa verið bæði í stjórn og stjórnarandstöðu frá því að Icesave-netreikningarnir byrjuðu að mala gull fyrir Landsbankann, með velþóknun stjórnvalda, og þar til þeir urðu að myllusteini um háls allra Íslendinga. Saga Icesave er samofin sögu Samfylkingarinnar frá 2007 og eitthvað inn í framtíðina. Það er saga um einstakt andvaraleysi og afglöp, eftir á að hyggja.

Svo er Vinstri hreyfingin - grænt framboð gott dæmi um enska máltækið "where you stand depends on where you sit". Í stjórnarandstöðu var foringjanum Steingrími J. Sigfússyni til dæmis tíðrætt um Iceasave-lausnir sem "ógildanlega nauðasamninga". Þegar í stjórn var komið var reynt að semja. Auðvitað voru skiptar skoðanir í röðum VG, og ekki síður Samfylkingar, en eigin efasemdir eru eitt, ákvarðanir og afstaða þegar á reynir geta verið annað. Þannig hefur Ögmundur Jónasson vissulega haft efasemdir um Icesave-samninga en greiddi þó atkvæði á þingi með þeim síðasta, í febrúar í fyrra.

Svipað má segja um Sjálfstæðisflokkinn þó að auðvitað séu hér aðeins lagðar grófar línur. Þannig hefði það verið klókast fyrir Bjarna Benediktsson, formann flokksins, að vera á móti Icesave III, og eflaust í samræmi við vilja meirihluta óbreyttra flokksmanna. Hans "ískalda mat" var þá á annan veg og má jafnvel koma til greina sem undantekning frá hinni almennu reglu um að "where you stand depends on where you sit". En horfum svo aðeins lengra til baka, til þingsályktunartillögu um lausn Icesave-deilunnar sem var samþykkt á Alþingi í des. 2008 þegar enn var við völd "hrunstjórn" Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þá var það "mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni."

Þessari lausn voru Vinstri grænir alveg á móti (eða fjarverandi). Framsóknarmenn sátu hjá (eða voru fjarverandi). Einn sjálfstæðismaður var á móti, Pétur H. Blöndal, en annars voru liðsmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar samþykkir þessu meginsjónarmiði (að vísu sumir fjarverandi). Lyktir atkvæðagreiðslunnar má sjá hér.

Vandséð er að sjálfstæðismenn muni skrifa upp á það að í dag að hagsmunum Íslands til lengri tíma sé best borgið með því að ábyrgjast evrurnar 20.887 sem lágmarkstrygging EES-reglna mælir fyrir um. Enda eru breyttir tímar. Sagan af afstöðu manna 2008 verður hins vegar ekki sögð með hliðsjón af því hvað menn töldu réttast 2011 eða 2012. Það tengist líka þeirri hugsun sem kom fram í grein minni, í næstu setningu við þá sem vitnað var til að ofan:

Sjálfskipaðir sigurvegarar munu reyna að skrá söguna og eru reyndar byrjaðir á því. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu þegar upp er staðið. Til þess eru staðreyndirnar of skýrar.

Auðvitað verður saga Hrunsins og Icesave aldrei sögð í eitt skipti fyrir öll, og enginn lokadómur kveðinn upp um dáðleysi eða lofsverða afstöðu einstakra manna eða flokka. Hitt er aftur á móti víst að komandi kynslóðir munu síst reiða sig á vitnisburði þátttakendanna sjálfra um rétt og rangt í sögunni. Enginn er dómari í eigin sök, ekki stjórnmálamenn og ekki forsetar - og reyndar ekki sagnfræðingar heldur ef út í það er farið. En það er önnur saga.

"Getur kona verið forseti?" Fréttablaðið 16. júní 2012

Í þessari grein er fjallað um kjör Vigdísar Finnbogadóttur og forsetatíð hennar. Fólk getur deilt um ýmis verk hennar eins og annarra en það má vera skrýtinn maður sem finnur ekki hjartahlýju hennar, ef sagnfræðingi leyfist að nota það orð.

"Farsælasti forsetinn" Fréttablaðið 9. júní 2012

Enn heldur umfjöllunin um forsetana áfram. Hér er röðin komin að Kristjáni Eldjárn. Ein athugasemd: Þar sem segir í greininni að Bjarni Benediktsson og "aðrir" ráðherrar Viðreisnarstjórnarinnar hafi stutt Gunnar Thoroddsen opinberlega í forsetakjörinu 1968 er átt við að "ýmsir aðrir" hafi gert það, ekki "allir aðrir". Á þessa handvömm var bent m.a. hér og ber að þakka það. Hafa skal það sem sannara reynist etc etc.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur