Skip to Content

Eystrasaltsmál

Might of the Week (2011)

The might of the weak? Icelandic support for Baltic independence, 1990‒1991

Drög að fyrirlestri sem var fluttur á ráðstefnu um Eystrasaltslöndin og kalda stríðið í Tartu í Eistlandi 21. ágúst 2011. Fróðlegt var að um leið og ég flutti mitt fræðilega erindi um þetta efni í skólastofu yfir um tug ráðstefnugesta var haldinn Íslandsdagur í Tallinn til að minnast með miklu húllumhæi stuðnings Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna tuttugu árum fyrr.

"Bjargvættur frá Íslandi", Alþýðublaðið 2. júlí 1997

Alþýðublaðinu, í ritstjóratíð Össurar Skarphéðinssonar, var auðvitað ljúft og skylt að geta MA-ritgerðar minnar um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna, hvar Jón Baldvin lék lykilhlutverk. Viðtal er n.k. samantekt á ritgerðinni og má lesa það hér og hér.

"Misskilningur Ellemanns-Jensens", Morgunblaðið 6. mars 1997

Þessa grein skrifaði ég í framhaldi af MA-ritgerð minni um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Þá ritgerð má finna á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni og vonandi tekst manni einhvern tímann að gefa hana út. Örlítillar þjóðernishyggju gætir í greininni, enda er hún skrifað til að hnekkja þeim misskilningi Uffe Ellemanns að Danir hafi komið fyrstir í mark í "Eystrasaltshlaupinu" mikla árið 1991. Í greininni segir m.a. að Lettar hafi fengið slíkt dálæti á danska utanríkisráðherranum að margir foreldrar hafi skírt dætur sínar nýfæddar lettneska kvenmannsnafninu Uffe. Þetta er saga sem ég heyrði eða las einhvers staðar og slysaðist til að leggja trúnað á en er alls ekki viss um að sé sönn.

"Skiptum við máli? Áhrif Íslands á alþjóðavettvangi" (2008)

"Skiptum við máli? Ísland á alþjóðavettvangi". Stjórnmál og stjórnsýsla 4/1 (2008), bls. 47-53.

Þessi grein er að stofni til erindi sem ég flutti á fyrirleströð utanríkisráðuneytis og háskólanna um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi veturinn 2007-2008. Á þeim tíma var unnið af kappi að því að tryggja Íslandi sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og báru mörg erindin þess merki. Útdrættir eru aðgengilegir á þessari slóð: http://www.utanrikisraduneyti.is/media/haskolafund/BAKLINGUR.pdf

Sjálfur leyfði ég mér að vera dálítið krítískur og maður hefði jafnvel tekið dýpra í árinni ef vettvangurinn hefði verið annar, en veisluspjöll stóð aldrei til að fremja. Erindið er aðgengilegt á þessari slóð: http://skemman.is/stream/get/1946/9020/24044/1/b.2008.4.1.3.pdf

"Skiptum við máli?" (1998)

„Skiptum við máli? Ísland og Eystrasaltsríkin, 1990-1991”. Söguþing 1997 II (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag, 1998), bls. 185-192.

 

Skiptum við máli? Ísland og Eystrasaltsríkin, 1990-1991.

 

Ólík sjónarmið

 

Þess eru fá dæmi að Íslendingar, fáir og smáir, hafi verið mikils megnugir í útlöndum. Árin 1990-91 létu stjórnvöld þó til sín taka í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna og var því þá og síðar haldið fram að þau hefðu þannig gert gagn — þau hefðu skipt máli. “Það var ekki síst fyrir atbeina okkar Íslendinga, sem áttum engra stórveldahagsmuna að gæta, að aðrar þjóðir viðurkenndu að lokum sjálfstæði og fullveldi Eystrasaltsríkjanna", sagði Morgunblaðið í fyrra og Alþýðublaðið tók í sama streng: “Með djörfu frumkvæði sýndi utanríkisráðherra Íslands að rödd smáþjóðar getur heyrst á alþjóðavettvangi svo eftir er tekið og Íslendingar eignuðust ævarandi vináttu þjóðanna við Eystrasalt".[1]

            Á hinn bóginn hefur einnig verið sagt að ráðamenn í Reykjavík hafi ekki haft neitt að segja í Eystrasaltsmálum. “Ég held að menn hafi einfaldlega gert þetta til þess að reyna að vera með, komast á blað", sagði Jón Ormur Halldórsson, dósent í stjórnmálafræði:

 

Það sem skipti máli fyrir Eystrasaltsríkin var viðurkenning Bandaríkjanna og ESB. Það getur þó vel verið að í einn dag hafi það haft einhver jákvæð sálræn áhrif á Eystrasaltslöndin að Ísland hafi viðurkennt þau en það hefur ekki haft nein áhrif á hvenær Bretar, Frakkar, Þjóðverjar eða Bandaríkjamenn gerðu það, svo að ég tali ekki um Rússa. “ Ég held að þetta hafi ekki haft nokkra þýðingu og menn séu að blekkja sjálfa sig með því að halda að þeir geti haft áhrif á þennan hátt.[2]

 

            Hvort sjónarmiðið er réttara? Til þess að geta svarað því þarf fyrst að spyrja hvað það var sem skipti eða skipti ekki máli. Í hverju fólst stuðningur Íslendinga?

 

Staðreyndir

 

Sunnudaginn 11. mars 1990 lýsti þingið í Vilníus yfir fullu sjálfstæði Litháens. Daginn eftir ákvað Alþingi að senda Litháum heillaóskir en Kremlverjar voru ekki jafnánægðir með aðgerðir þeirra, höfðu í hótunum og beittu efnahagsþvingunum. Íslensk stjórnvöld, með Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra í broddi fylkingar, hvöttu til friðsamlegra lausna og buðust til að halda sáttafundi í Reykjavík. Líkt og valdhafar annars staðar á Vesturlöndum vildu íslenskir ráðamenn þó ekki styðja sjálfstæðissinna í Litháen í einu og öllu því þeir óttuðust að þá væri Mikhaíl Gorbatsjov sovétforseta gert erfitt fyrir og umbótum hans stefnt í hættu. Auk þess þótti þeim mikilvægast að vestræn ríki stæðu saman.[3]

            Við síauknar þvinganir Moskvuvaldsins og slæleg viðbrögð á Vesturlöndum varð Jóni Baldvin Hannibalssyni hinsvegar ljóst að samstaða með vestrænum ríkjum merkti að málstaður Balta lægi í láginni. Hann skipti þess vegna um skoðun á því hvernig þeim yrði helst komið að gagni. Á mannréttindaráðstefnu RÖSE, Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, í júní 1990 hvatti ráðherrann vestræn ríki til að styðja Balta með ráðum og dáð og notaði flest tækifæri eftir þetta til að tala máli þeirra.[4]

            Eystra syrti samt stöðugt í álinn og aðfaranótt 13. janúar 1991 féllu 14 Litháar í áhlaupi sovéskra hersveita á sjónvarpsturninn í Vilníus. Vytautas Landsbergis, leiðtogi Litháa, rifjaði síðar upp að mitt í orrahríðinni hefði hann ekki gleymt því að norður í Atlantshafi ætti hann vin í raun:

 

Mitt fyrsta verk þessa blóði drifnu nótt, eftir að mér mistókst að fá viðtal við Gorbatsjov, var að reyna að ná sambandi við vestræn ríki, í gegnum fulltrúa okkar í Noregi, og ég bað hann um að hringja fyrst til Íslands, í [Jón Baldvin] Hannibalsson.[5]

 

            Um sólarhring síðar skoraði Landsbergis á utanríkisráðherra að koma til Litháens. Hann varð við því, heimsótti öll Eystrasaltslöndin og á fréttamannafundi í víggirtu þinghúsinu í Vilníus lofaði hann að íslensk stjórnvöld myndu “taka til alvarlegrar athugunar að koma á formlegu stjórnmálasambandi við Litháen og hugsanlega hin Eystrasaltsríkin".[6]

            Þótt forsætisráðherra vildi ekki ganga jafnlangt og Jón Baldvin fór svo að ríkisstjórnin lýsti sig reiðubúna að stíga þetta skref við fyrsta tækifæri.[7]Alþingi staðfesti það 11. febrúar 1991 um leið og viðurkenning Íslands á sjálfstæði Litháens, sem hafði verið veitt 1922, var formlega áréttuð.[8]

            Stjórnmálasambandi var þó aðeins komið á eftir misheppnaða valdaránstilraun harðlínumanna í Moskvu sem hófst 19. ágúst 1991 en rann út í sandinn innan þriggja sólarhringa. Strax eftir það, 22. ágúst, áréttuðu íslensk stjórnvöld viðurkenningar á sjálfstæði Eistlands og Lettlands, eins og gert var vegna Litháens 11. febrúar.[9]

            Þetta voru helstu aðgerðir Íslendinga til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna og í leit að svörum við því hvaða áhrif þær höfðu þarf að líta til nokkurra staða; helstu borga á Vesturlöndum, höfuðborga Eystrasaltslandanna og ekki síst til Moskvu. Vart ætti að koma á óvart að ólík svör gætu fengist eftir því hvert sjónir manna beinast.

 

Áhrif í Moskvu

 

Skemmst er frá því að segja að innan Kremlarmúra höfðu aðgerðir íslenskra ráðamanna aldrei áhrif. Þótt þeir byðust til að miðla málum í deilu Eystrasaltsþjóðanna og Moskvuvaldsins mátti vera ljóst að sovéskum valdhöfum dytti ekki í hug að halda til Íslands að ræða “innanríkismál Sovétríkjanna", eins og þeir kölluðu þróunina við Eystrasalt.

            Aftur á móti gerðu orð Jóns Baldvins Hannibalssonar á alþjóðavettvangi Kremlverjum óneitanlega mjög gramt í geði. “Ég man vel að [Edúard] Sjevardnadze reiddist mjög við yfirlýsingar hans", sagði stjórnarerindreki sem var háttsettur í sovéska utanríkisráðuneytinu.[10]Að mati valdhafa í Kreml tók svo steininn úr þegar Alþingi áréttaði viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Litháens og lofaði að koma á stjórnmálasambandi við fyrsta tækifæri. Þeir kölluðu sendiherra sinn heim frá Reykjavík, enda höfðu þeir áður varað stjórnvöld við því að ganga of langt þannig að íslenskir embættis- og stjórnmálamenn óttuðust að viðskipti Íslands og Sovétríkjanna væru í hættu. Sumir veltu jafnvel vöngum yfir því hvort stjórnmálasambandi landanna yrði slitið. Það var þó alltaf talið ólíklegt. Kremlverjar vildu einmitt ekki grípa til of harkalegra hefndaraðgerða sem yrðu aðeins til þess að ákvarðanir Íslendinga kæmust í hámæli.[11]

            Þegar valdaránstilraunin í Moskvu hafði farið út um þúfur og Íslendingar voru að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna létu formælendur Kremlverja að því liggja að þótt þeim mislíkuðu þau skref væri ekki von á viðbrögðum. “Við höfum um annað að hugsa núna en yfirlýsingar Íslendinga", sagði einn þeirra.[12]Íslenskum ráðamönnum var um megn að hafa áhrif á þankagang valdhafa í austurvegi.

 

Áhrif við Eystrasalt

 

Atbeina íslenskra ráðamanna var vitaskuld betur tekið við Eystrasalt en í Moskvu. Eistar, Lettar og Litháar létu í ljós einlægt þakklæti fyrir augljósan stuðning Íslendinga og vinarþel. Öllu var fagnað ytra, ályktunum Alþingis, yfirlýsingum á alþjóðavettvangi og heimsóknum ráðamanna. Baltar fundu að þeir stóðu ekki einir. “Ef Ísland (og Danmörk) hefðu ekki tekið þessa siðferðislegu afstöðu", skrifaði sænsk-eistneski rithöfundurinn og stjórnmálamaðurinn Andres Küng, “hefðum við jafnvel örvænt. Það er sama hversu sannfærður maður er um ágæti eigin málstaðar; það er erfitt að halda baráttunni áfram ef enginn í heiminum skilur hana eða lætur sig hana nokkru varða".[13]

            Í huga flestra Balta var ekkert framtak eins stjórnmálamanns á Vesturlöndum jafnmikils metið og Eystrasaltsför utanríkisráðherra í janúar 1991. Jón Baldvin Hannibalsson fékk á sig það orð að vera kjarkmeiri en aðrir vestrænir ráðamenn. Hann léti ekki stjórnast af realpolitik eða diplómatískum formsatriðum. “Hannibalsson, það var hugrakkur maður", rifjaði litháíski þingmaðurinn Emanuelis Zingeris síðar upp. “Hann var hér þegar dekkst var yfir. Ég gleymi þessum manni aldrei".[14]

            Áþreifanlegar aðgerðir Íslendinga til stuðnings Eystrasaltsþjóðunum urðu aftur á móti færri og smærri en ella vegna þess að nær ómögulegt var að samræma þau tvö meginmarkmið, sem stjórnvöld lofuðu að beita sér fyrir, stjórnmálasamband við Litháen og almenna milligöngu í átökum við Moskvuvaldið. Vilji til að vinna að öðru þeirra gerði að verkum að verra var að huga að hinu. Stefna stjórnvalda gekk ekki að þessu leyti og Landsbergis sagði á bak við tjöldin að hann yrði að “að lýsa yfir vonbrigðum “ með að hið virðingarverða frumkvæði Íslands hefur ekki verið til lykta leitt “”[15]Vorið 1991 var tími vonbrigða í samskiptum Íslendinga og Litháa, eftir tímamótayfirlýsingar og aðgerðir í janúar og febrúar það ár.

            Þakkir fyrir veittan stuðning vógu samt þyngra þegar til lengri tíma var litið. “Ég þrýsti hönd yðar jafnfast og ef ég hefði enn einu sinni borðað hákarlsbita", skrifaði Landsbergis til Jóns Baldvins Hannibalssonar þegar ráðamenn í Reykjavík tóku af skarið um leið og valdaránstilrauninni í Moskvu lauk.[16]Sá siðferðislegi stuðningur, sem íslenskir ráðamenn veittu, var mikill og ótvíræður og skipti máli, einkum í Litháen. Forystusveitin þar gekk sína eigin, grýttu leið til sjálfstæðis, óháð því sem Íslendingar sögðu eða gerðu, en góð orð þeirra léttu lund manna í Vilníus, stöppuðu stálinu í þá og gerðu það, sem eftir var göngunnar, ögn viðráðanlegra — án þess að villa mönnum sýn eða vekja falsvonir um að tindinum væri náð við næstu vörðu.[17]

           

Áhrif á Vesturlöndum

 

Þótt Baltar lofuðu yfirleitt afstöðu Íslendinga ofmátu þeir vægi Íslands og gerðu ráðamenn í Litháen sig einkum seka um þetta. Enginn ráðherra fetaði í fótspor utanríkisráðherra þegar hann fór til Vilníus, Rígu og Tallinn, eins og þeir vonuðust til. Hvergi var gengið jafnlangt og íslenskir þingmenn gerðu í febrúar 1991.

            Gat nokkuð verið von til þess að Íslendingum tækist að snúa varkárum valdhöfum á Vesturlöndum til betri vegar? Þegar Jón Baldvin Hannibalsson hvatti þá til að styðja Balta betur á mannréttindaráðstefnu RÖSE í júní 1990 gekk einn úr bandarísku sendinefndinni þar í veg fyrir hann, faðmaði hann að sér og sagði: “Þetta var besta ræða sem ég hef heyrt um þessa bölvuðu atburðarás; mikil forréttindi eru það að vera fulltrúi smáþjóðar og mega segja hug sinn".[18]

            Þetta voru fögur orð og sögð í einlægni en þau virðast samt tvíeggjuð: Er ekki hægt að meta þau þannig að áskoranir íslenska ráðherrans yrðu aldrei til þess að áhrifameiri valdhafar á Vesturlöndum litu í eigin barm og hugsuðu með sér að svona þyrftu þeir einnig að tala? Fulltrúi smáþjóðarinnar mætti segja hug sinn þar eð enginn færi eftir því sem hann segði. Hann hefði frjálsar hendur en aðrir væru bundnir af því að hafa til hliðsjónar fleiri þætti á líðandi stundu; afvopnun risaveldanna, endalok kalda stríðsins, sameiningu þýsku ríkjanna og frekari umbætur í Sovétríkjunum.[19]

            Þetta breytir því þó ekki að það skipti máli hvernig Íslendingar minntu stöðugt á örlög og tilvist Eystrasaltsþjóðanna þegar forystumenn vestrænna ríkja höfðu hugann við annað. “Við vorum eins og gadflies; við stungum þá", sagði Jón Baldvin sjálfur um áskoranir hans og Uffe Ellemanns-Jensens, utanríkisráðherra Danmerkur, sem helst fylgdi honum að málum á alþjóðavettvangi.[20]

            Íslenskir ráðamenn höfðu án efa óbein áhrif. En höfðu þeir einhvern tímann bein áhrif á afstöðu annarra? Þegar Baltar endurheimtu loks sjálfstæði sitt í ágúst 1991 fögnuðu þeir því að íslensk stjórnvöld hefðu fyrst allra viðurkennt sjálfstæði þeirra og stofnað til stjórnmálasambands. Utanríkisráðherrar Eystrasaltslandanna þriggja, Lennart Meri frá Eistlandi, Janis Jurkans frá Lettlandi og Algirdas Saudargas frá Litháen, sögðu að Ísland væri “ísbrjótur á alþjóðavettvangi".[21]Danir höfðu fylgt fljótt á eftir og skriðan síðan farið af stað. En olli frumkvæði Íslendinga þessu? Réðu ákvarðanir þeirra einhverju um afstöðu annarra? Það er alls ekki sjálfsagt að beint samhengi hafi verið þarna á milli og þegar Bandaríkin tóku upp stjórnmálasamband við Eystrasaltslöndin 2. september 1991, viku á eftir Íslendingum, sagði George Bush forseti: “Þegar sagan er skráð man enginn að við vorum tveimur sólarhringum á eftir Íslandi — eða hvaða land það nú var".[22]

            Söguskoðun Bush verður að teljast röng að því leyti að Baltar minnast ákvarðana Íslendinga með hlýhug. Viðurkenning Íslands og annarra ríkja á Norðurlöndum á sjálfstæði Eystrasaltslandanna þrýsti auk þess á valdhafa í Washington að fylgja á eftir, eins og James Baker utanríkisráðherra viðurkenndi síðar.[23]Og segir það ekki sitt að Bush mundi þó eftir því að Ísland hafði eitthvað komið við sögu? Danir voru til dæmis ekki efst í huga hans.

 

Sporganga Dana?

 

Uffe Ellemann-Jensen var einlægur stuðningsmaður Eystrasaltsþjóðanna, vildi flest fyrir þær gera og hann vildi vera í fararbroddi. “Það var klárlega dulítil samkeppni milli okkar", sagði hann síðar um atbeina sinn og Jóns Baldvins í Eystrasaltsmálum.[24]Þetta réð miklu um það að tvisvar virtist Íslendingum takast að hafa bein áhrif á stefnu Dana.

            Fyrra skiptið var snemma árs 1991. Utanríkisráðherra hafði þá farið til Eystrasaltslandanna og Alþingi áréttað viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Litháens. Auk þess héldu Edgar Savisaar og Lennart Meri, forsætis- og utanríkisráðherra Eistlands, til Íslands og sænskur stjórnarerindreki skrifaði síðar að Íslendingar hefðu greinilega náð forystu “í kapphlaupi norrænu ríkjanna um áhrif við Eystrasalt".[25]

            Danska utanríkisráðherranum mun hafa gramist þetta og þótt hann segði til dæmis að ákvörðun Alþingis væri þýðingarlaus undirritaði hann samninga við starfsbræður sína í Eystrasaltslöndunum sem svipaði mjög til þess sem hafði verið samþykkt á Íslandi. Ellemann-Jensen myndi seint samþykkja að aðgerðir Íslendinga hefðu ýtt við honum en þær höfðu örugglega sitt að segja.[26]

            Áhrif ráðamanna í Reykjavík á valdhafa gömlu herraþjóðarinnar voru afdrifaríkari eftir valdaránstilraunina í Moskvu í ágúst 1991. Þegar fyrir lá að utanríkisráðherrar Eystrasaltslandanna ætluðu til Reykjavíkur að undirrita samninga um stjórnmálasamband sá utanríkisráðherra Danmerkur að vildi hann vera fremstur í flokki yrði hann að vera skjótráður. Undir miðnætti 24. ágúst, tveimur dögum eftir að íslensk stjórnvöld ákváðu að bjóða ráðherrunum til Íslands, sendi Ellemann-Jensen símskeyti til höfuðborga Eystrasaltslandanna og kvaðst reiðubúinn að koma á stjórnmálasambandi við þau, “þannig að við vorum fyrstir í heimi", eins og hann sagði daginn eftir og mátti hæglega lesa stolt og gleði úr þeim orðum.[27]

            Ekki er hægt að fullyrða að áform Íslendinga um stjórnmálasamband hafi gert að verkum að Uffe Ellemann-Jensen ákvað að feta í fótspor þeirra. Líkurnar á því að eitt hafi leitt af öðru með þessum hætti eru hins vegar miklar. Þegar ráðherrann rökstuddi skeytasendingarnar að kvöldi 24. ágúst sagði hann að einna mestu máli skipti að baltneskir valdhafar réðu nú greinilega ríkjum við Eystrasalt. En það stóðst tæpast. Sovéskir hermenn og liðsmenn KGB fóru áfram sínu fram á landamærum ríkjanna þriggja og vísuðu fjölda útlendinga frá ef þeir höfðu ekki sovéska vegabréfsáritun. Ellemann-Jensen viðurkenndi enda síðar að önnur rök hefðu einnig vegið þungt á metum: “Auðvitað hafði það sitt að segja að tryggja sess Danmerkur sem frumkvöðuls og auka þannig líkurnar á að Danmörk gæti beitt sér með árangri á alþjóðavettvangi “[28]

            Og þá urðu Danir að vera á undan Íslendingum. En tókst þeim það? Mánudaginn 26. ágúst 1991 var stofnað til stjórnmálasambands Íslands og Eystrasaltslandanna við hátíðlega athöfn í Höfða í Reykjavík. Að kvöldi sama dags voru utanríkisráðherrrar landanna þriggja komnir til Kaupmannahafnar og undirrituðu eins samkomulag við Dani. Næturskeyti Ellemanns-Jensens dugðu ekki, enda voru þau aðeins viljayfirlýsing.[29]

            Það má því færa rök að því að frumkvæði Íslendinga í ágúst 1991 hafi skipt máli á þennan hátt: Það ýtti við Dönum og þeir voru þess síðan megnugir að hafa áhrif á aðrar þjóðir, á Norðurlöndum og í Evrópubandalaginu. Einir og sér voru Íslendingar of áhrifalitlir en Danir gátu riðið baggamuninn. “Mitt mat var að fylgdu “ [þeir] strax á eftir myndi boltinn rúlla, eins og raun varð á", sagði Jón Baldvin Hannibalsson síðar.[30]

 

Niðurstöður

 

Skipti afstaða Íslands máli í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna? Svarið er bæði já og nei. Í Moskvu höfðu íslensk stjórnvöld aldrei áhrif. Á Vesturlöndum töldu ráðamenn stærri ríkja að þeir væru í annarri stöðu en valdhafar smáríkis á borð við Ísland. Uffe Ellemann-Jensen ákvað þó líklega tvisvar að fara að fordæmi Íslendinga og einnig skipti það máli að Jón Baldvin Hannibalsson og aðrir íslenskir ráðamenn nýttu flest tækifæri til að tala máli Eystrasaltsþjóðanna á alþjóðavettvangi, þótt það hefði ekki bein áhrif á viðhorf annarra valdhafa á Vesturlöndum.

            Loks skipti atbeini Íslands mestu máli hjá Eystrasaltsþjóðunum sjálfum. Íslendingar stöppuðu stálinu í þær þegar margir aðrir á Vesturlöndum treystu sér ekki til þess. Þetta var líklega sýnu mikilvægast og verður að minnsta kosti lengi í minnum haft við Eystrasalt.

 

Heimildaskrá

 

Óprentaðar heimildir

 

Bréf Andres Küngs til höfundar, 10. desember 1995.

Guðni Th. Jóhannesson: “Stuðningur Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, 1990-1991”, MA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 1997, Háskólabókasafni.

Skjalasafn utanríkisráðuneytisins: SU

            8.G.2. “Eystrasaltslöndin: Eistland, Lettland, Lithauen”. Askja 10.

Viðtal höfundar við Júríj Fokine, Osló 21. maí 1997.

Viðtal höfundar við Jón Baldvin Hannibalsson, Reykjavík 2. nóvember 1994.

Viðtal höfundar við Vytautas Landsbergis, Vilníus 7. júní 1994.

Viðtal höfundar við Emanuelis Zingeris, Vilníus 17. júní 1994.

 

Prentaðar heimildir

 

Ahlander, Dag Sebastian, Spelet om Baltikum (Stokkhólmi, 1992).

Alþýðublaðið 1996. Reykjavík.

Baker, James A., The Politics of Diplomacy: Revolution, War and Peace, 1989-1992 (New York, 1995).

DV 1991. Reykjavík.

Ellemann-Jensen, Uffe, Din egen dag er kort. (Kaupmannahöfn, 1996).

Morgunblaðið 1991 og 1996. Reykjavík.

The New York Times 1991. New York.

“Ísland hefur engin áhrif á alþjóðavettvangi”, Stúdentablaðið 6, (1995), bls. 12.

 

 [1]Morgunblaðið 18. apríl 1996, bls. 32. Forystugrein. — Alþýðublaðið 23. október 1996, bls. 2. Forystugrein.

[2]_Ísland hefur engin áhrif á alþjóðavettvangi", bls. 12.

[3]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 19-38.

[4]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 39-43. — Samkvæmt venju er hér rætt um Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eista, Letta og Litháa, sem Balta þótt í raun séu aðeins Lettar og Litháar af baltnesku bergi brotnir en Eistar tilheyri flokki finnsk-úgrískra þjóða.

[5]Viðtal við Vytautas Landsbergis, 7. júní 1994. — Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 55-9.

[6]DV 21. janúar 1991, bls. 2. — Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 60-72.

[7]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 73-5.

[8]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 88-90.

[9]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 113-18.

[10]Viðtal við Júríj Fokine, sendiherra Rússa í Noregi, 21. maí 1997.

[11]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 84-7, 98-100.

[12]Morgunblaðið 24. ágúst 1991, bls. 2.

[13]Bréf Küngs til höfundar, 10. desember 1995.

[14]Viðtal við Emanuelis Zingeris, 17. júní 1994.

[15]SU, 8.G.2-10, Vytautas Landsbergis til Steingríms Hermannssonar, 6. mars 1991.

[16]Morgunblaðið 27. ágúst 1991, bls. 25.

[17]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 91-2.

[18]Viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson, 2. nóvember 1994.

[19]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 41-3.

[20]Viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson, 2. nóvember. 1994. — Sjá einnig Ellemann-Jensen, Din egen dag er kort, bls. 147.

[21]Morgunblaðið 27. ágúst 1991, bls. 26-7.

[22]The New York Times, 3. september 1991, bls. A8.

[23]Baker, The Politics of Diplomacy, bls. 524.

[24]Morgunblaðið 19. október 1996, bls. 27. — Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 122-130.

[25]Ahlander, Spelet om Baltikum, bls. 221.

[26]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 96-7.

[27]Morgunblaðið 27. ágúst 1991, bls. 23.

[28]Ellemann-Jensen, Din egen dag er kort, bls. 145. — Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 122-30.

[29]Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 122-30.

[30]Sjá Hbs. Guðni Th. Jóhannesson, _Stuðningur Íslands", bls. 128.

""Nobody has done so much for us"" (1996)

„„Nobody has done so much for us”. Iceland and Lithuania, 1990-1991”. Lithuanian Papers, 10. árg. 1996, bls. 11-19.

Í þessari stuttu grein er stuðningur Íslands við sjálfstæðisbaráttu Litháens (og hinna Eystrasaltslandanna) rakinn í stuttu máli. Lithuanian Papers: Tímarit gefið út í Ástralíu, n.k. fréttabréf íbúa af litháískum uppruna þar.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur