Takk innilega fyrir stuðninginn kæru vinir og góðir Íslendingar!

Síðustu vikur hafa verið ógleymanlegar. Ég er innilegar þakklátur og verð það ætíð, fyrir þá fundi sem ég hef átt með fólkinu í landinu, fyrir þann meðbyr sem ég hef notið og fyrir þann stuðning sem ég hef fundið við mína sýn og sannfæringu um embætti forseta Íslands.

Stefnumið

Öllum óháður

Forseti á að vera öllum óháður, hlýða eigin samvisku og þjóna öllum jafnt. Fólkið í landinu á að finna að hann sé ekki í liði með einum á móti öðrum.

Mannasættir

Forseti á að vera fastur fyrir þegar á þarf að halda, leiða erfið mál til lykta og tryggja að þjóðin eigi síðasta orðið í stærstu málum sem hana varðar.

Málsvari landsins

Forsetinn er málsvari landsins á alþjóðavettvangi, andlit okkar í augum heimsins. Hann á að styðja við menningu landsins og listir, atvinnu- og viðskiptalíf.

Sameiningartákn

Forseti á að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Í atbeina sínum fyrir Íslands hönd á hann að vera stoltur en hógvær, kappsamur án drambs.

Spurt og svarað

Stjórnarskrá

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verður aðeins breytt með því að tvö þing samþykki breytingarnar, með kosningum á milli. Fólkið í landinu þarf því að kjósa sér fulltrúa sem styðja þær breytingar. Þá gildir einu hvort um er að ræða tillögur stjórnlagaráðs, sem meirihluti kjósenda studdi í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, eða ýmsar tillögur um málamiðlanir og áfangasigra sem sumir félagar stjórnlagaráðs hafa stutt, ásamt öðrum. Auk þess á forseti að beita sér með beinum hætti fyrir því að í stjórnarskrá komi ákvæði um þann rétt tilskilins fjölda kjósenda að krefjast þjóðaratkvæðis um umdeild mál. Sömuleiðis ætti forseti að hvetja til þess að ákvæði í stjórnarskrá um völd og verksvið hans verði gerð skýrari en þau eru nú.

Evrópusambandið
Komi til þess að ríkisstjórn Íslands sæki á ný um aðild að Evrópusambandinu þarf að liggja fyrir einhugur stjórnarinnar sjálfrar og meirihlutafylgi kjósenda. Sú afstaða almennings ætti að vera staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sjálfsögðu er þjóðaratkvæði líka forsenda aðildar að loknum samningaviðræðum. Forseta ber að tryggja að þjóðin eigi alltaf síðasta orðið í veigamestu málum sem hana varðar.
Icesave

Ég var ekki í hópi þeirra 64 Íslendinga (þingmanna og forseta) sem fengu að kjósa um fyrsta Icesave-samninginn og samþykktu. Icesave II studdi ég ekki en Icesave III (Lee Buchheit-samninginn svonefnda) studdi ég ásamt 40% kjósenda. Í ræðu og riti á forseti að tryggja að íslenskum bankamönnum og auðjöfrum leyfist aldrei aftur að skapa vanda á borð við þann sem leiddi okkur á barm hengiflugsins 2008.

Náttúruvernd

Náttúra Íslands er auðlind og fjársjóður sem við eigum að vernda og nýta þannig að næstu kynslóðir fái að njóta hennar á sama hátt og við gerum í dag. Forseti Íslands á að hampa náttúruvernd í orði og verki, vekja athygli á mikilvægi hennar og ganga á undan með góðu fordæmi. Forsetinn á ekki að taka beina afstöðu til álitamála sem þing og þjóð þurfa að ræða og leysa en minnumst orða fyrri forseta um nauðsyn þess að vernda landið og græða.

Innflytjendur

Við eigum að taka vel á móti fólki sem flúið hefur hörmungar heimsins og haldið hingað í leit að öryggi og betra lífi. Við eigum líka að fagna þeim sem vilja flytja til Íslands og vinna hér, ekki síst í hátæknigeira og skyldum greinum. Við eigum að hjálpa innflytjendum að njóta sín í samfélaginu, verða hluti af okkar heild. Í því liggur allra hagur. Auðvitað getum við ekki bjargað heiminum, leyft öllum að setjast hér að. Við þurfum að halda þeirri þverpólitísku sátt sem ríkt hefur að mestu á Alþingi í málefnum útlendinga og innflytjenda.

Trúmál

Á Íslandi er trúfrelsi. Landslög eru samt öllum trúarbrögðum æðri. Þeir sem ekki sætta sig við það eiga ekkert erindi í okkar samfélagi. Sjálfur var ég skírður til kaþólskrar trúar, fermdur í kaþólskum sið en missti barnatrúna við andlát föður míns þegar ég var á unglingsárum. Smám saman öðlaðist ég á ný trú á almættið og hið góða í heiminum. Slæleg viðbrögð kaþólsku kirkjunnar við skýrum ásökunum um glæpi innan hennar urðu til þess að ég sagði mig í kyrrþey úr henni. Nú stend ég því utan trúfélaga í góðri sátt við guð og menn. Börn mín eru skírð og tilheyra kristinni kirkju. Mín kristnu mannúðargildi má draga saman í upphafsorðum Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna: „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Jafnrétti

Við erum öll jöfn fyrir lögunum, jöfn fyrir almættinu. Ég styð jafnrétti kynjanna, jafnan rétt allra til grunnmenntunar, heilbrigðisþjónustu og almennra réttinda. Á Íslandi er líka ástfrelsi. Við eigum að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi og leyfa þeim sem ekki þurfa á aðstoð að halda að njóta sín. Við eigum öll að leggja til samfélagsins, því meir eftir því sem efni leyfa. Þessi meginsjónarmið eiga stjórnvöld að halda í heiðri án þess að atbeina forseta þurfi til.

Landkynning

Forseti Íslands er andlit landsins í augum heimsins, þjóðhöfðingi Íslendinga og fulltrúi okkar á alþjóðavettvangi. Forseta ber að styrkja menningu Íslands og listir í útlöndum, atvinnu- og viðskiptalíf og málstað Íslands eftir þörfum. Forseti verður að vera óháður fyrirtækjum og einstaklingum. Hann má ekki þiggja af þeim greiða, verða þeim skuldbundinn. Forseti á að auka hróður Íslands ytra og kynna land og þjóð. Í þeim efnum og öðrum er hógværð þó dyggð.

Siðareglur

Setja ætti siðareglur fyrir embætti forseta Íslands. Þær ættu að vera með svipuðu sniði og siðareglur ráðherra og nýsamþykktar siðareglur alþingismanna.