Skip to Content

Í gini ljónsins - þorskastríðserindi í Hull

Sunnudaginn 30. nóv. hélt ég erindi um þorskastríðin í Hull, þeirri fornfrægu hafnarborg Breta. Þaðan sigldu togarar á Íslandsmið frá lokum nítjándu aldar fram í vetrarbyrjun 1976. Þá var sú saga úti. Við tóku harðindi í Hull en núna virðist borgin að vísu hafa eflst, í það minnsta miðað við Grimsby, hinn togarabæinn við Humber. Það er vonlítið byggðarlag, líkast kvótalausu sjávarplássi á Íslandi.

Gestgjafarnir báru mig á höndum sér. Í fararbroddi voru doktorsnemarnir James Rogers og James Underwood sem eru prímusmótorar verkefnisins Poetry & Politics. Undir þeim merkjum hafa þeir og fleira fræðafólk haldið hingað til lands og er frekara samstarfs að vænta í framtíðinni. Úti var mér meðal annars boðið í skóla- og eftirlitsskip hennar hátignar á Humber, HMS Explorer. Viðstaddir erindið voru svo tignir gestir, einn aðmíráll (vice admiral) og einn sjóliðsforingi, yfirmaður flotastöðvarinnar í Portsmouth. Allir voru sérlega vinalegir eins og Breta er von og vísa.

Erindi mitt ytra nefndist "Good losers and bad winners. Cod War memories in Britain and Iceland." Ekki varð annað séð en því væri ágætlega tekið. Voru (þó) í hópi áheyrenda gamlir togarajaxlar og áðurnefndir yfirmenn í flotanum. Fékk ég þarna ýmsar fróðlegar upplýsingar sem munu koma að gagni við skrif mín um þorskastríðin.

Myndir og smá frásögn af viðburðinum má finna hér.

Share this


Drupal vefsíða: Emstrur