Samhengi (2011)

Samhengi. Erindi á málþingi Sagnfræðingafélags Íslands og ReykjavíkurAkademíunnar, „Íslensk vinstri róttækni: Hugsjónabarátta eða Landráð?“ 23. nóv. 2011.
[Styttri útgáfa var flutt á málþinginu og þessi lengri útgáfa uppfærð að kvöldi 23. nóv. 2011]
Ástæður
Ég held að það sé aðeins til eitt algilt lögmál um liðna tíð: þótt sagan sé samansafn tilviljana er það samt svo að eitt leiðir alltaf af öðru. Ekkert gerist án samhengis við annað. Þetta erindi varð til vegna þess að í nýlegri bók Þórs Whitehead, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, Sovét-Ísland, var sums staðar vikið að verki mínu, Óvinir ríkisins, sem kom út árið 2006. Gagnrýni sína á efnistök í þeirri bók, sem birtust í allnokkrum neðanmálsgreinum, kallaði Þór „framlag til fræðilegra rökræðna um sögu kommúnistahreyfingarinnar í landinu“.[1] Í blaðaviðtali kvaðst hann jafnframt búast við andsvörum og fagna þeim. Fræðileg umræða væri „lífsnauðsynleg fyrir öll fræði“, og þá jafnframt gagnrýni höfunda á eigin verk.[2] Í ritdómi um Sovét-Ísland gekk Styrmir Gunnarsson svo skrefi lengra og sagði um mig og Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, sem um var farið hörðum orðum í verkinu: „Það verður fróðlegt að sjá hver andmæli þeirra verða. Þeir hljóta að svara.“[3]
Áður en Þór birti gagnrýni sína bar hann hana undir mig og bauð mér að benda á það sem mér þætti missagt. Þá fannst mér réttast að ályktanir hans birtust en síðan gæti ég sjálfur sagt mitt álit ef ég vildi. Það geri ég hér og nú, í stuttu máli, og bið áheyrendur strax afsökunar á þeirri sjálfhverfu sem einkennir erindið óneitanlega. Hún dýpkar kannski enn þegar ég bæti við að lengri útgáfu þess má finna á heimasíðu minni, www.gudnith.is.
Orð eru dýr
„Orð eru dýr,“ orti Einar Benediktsson í kvæði sínu um Davíð konung. Ég ætla ekki að rekja öll álitamál sem Þór Whitehead nefnir í verki sínu. Sumt eru staðreyndavillur mínar, annað skoðanir Þórs sem mér finnst orka tvímælis. Þannig þykir mér gagnrýni hans á frásögn mína af meintum símahlerunum í „hvíta stríðinu“ smásmuguleg en ætla þó ekki að rekja það hér.[4] Frekar vil ég nefna það sem ég tel að geti skipt máli fyrir frekari fræðilega umræðu. Leikinn hef ég með gagnrýni Þórs á hugtakið „hvíta stríðið“ til að lýsa þeim átökum sem urðu í Reykjavík síðla árs 1921. Stjórnvöld vildu þá vísa dreng frá Rússlandi úr landi út af sótthættu en Ólafur Friðriksson, einn helsti leiðtogi Alþýðuflokksins, sem kom með drenginn, Nathan Friedman, til landsins reyndi af öllum mætti að koma í veg fyrir það og hafnaði sáttaboðum stjórnvalda. Þór nefnir ekki að í bók minni notaði ég einnig hitt þekkta heitið yfir þessi átök, „drengsmálið“. Það skiptir þó ekki öllu máli því það er í sjálfu sér rétt að „hvíta stríðið“ er gildishlaðið hugtak, heiti sem önnur hinna stríðandi fylkinga gaf átökunum. „Drengsmálið“ er hlutlægara.
Á hinn bóginn notum við gjarnan hugtök þótt við ættum að vita að þau eru gildishlaðin og geta gefið falska mynd af þeim raunveruleika sem reynt er að lýsa. Í þeim efnum má hafa til hliðsjónar rannsóknir fræðimannsins Edwards Said á „óríentalisma“, „Austurlandafræðum“.[5] Hér á Íslandi mætti vel taka til endurskoðunar hugtök eins og „Nýsköpunarstjórnina“ og „Viðreisnarstjórnina“. Allt eins kæmi til greina að tala um „stríðsgróðaeyðslustjórnina“ og „síldareyðingarstjórnina“. Orð eru dýr – þau geta sagt meira en þeim er ætlað. Um leið og jákvæð heiti festast við ríkisstjórnir í almennu tali getur virst þeim mun erfiðara að gagnrýna verk þeirra.
Stundum er það þó einfaldlega svo að heiti festast í málvitund enda bendir Þór á að algengt sé að tala um „hvíta stríðið“. Sjálfur hafði ég gæsalappir um þau orð til að sýna að hugtakið væri takmörkunum háð. Sama er gert í tveimur verkum um Íslandssögu 20. aldar, bók Helga Skúla Kjartanssonar og yfirliti í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar.[6] En Þór finnst gæsalappirnar ekki duga, enda felist í heitinu „hvíta stríðið“ sú hugsun Ólafs Friðrikssonar og kommúnista „að framkvæmd landslaga við sóttvarnir væri fasistastríð og líta mætti svo á „að upphaf fasisma í Evrópu gætti í aðför hvíta liðsins að Ólafi Friðrikssyni“!“[7]
Þetta þykir mér ofmælt. Það er óþarfi að bendla okkur sem á eftir skrifum við þær ýkjur þótt við notum hið algenga heiti „hvíta stríðið“. Hitt er svo önnur og flóknari saga en mér finnst Þór gera of mikið úr þeirri vá sem skapaðist í bænum. Vissulega var ríkisvaldinu ógnað um skeið þegar Ólafur neitaði að hlýða fyrirmælum og safnaði vopnbúnu liði. Og vissulega sagði Hendrik Ottósson, einn liðsmanna hans síðar, að drengsmálið hefði snúist „að lokum um að steypa ríkisstjórn landsins af stóli með því að brjóta lög og beita lögregluna ofbeldi“. En var það svo í raun? Þessi orð þýða alls ekki að vel undirbúið valdarán hafi verið í vændum, hvað þá að það hefði tekist. Ólafur Friðriksson missti stuðning Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins, liðið sem stjórnvöld safnaði hafði yfirburði, danska varðskipið Islands Falk beið til öryggis á höfninni. Uppþot og átök, já, en engin tilraun til byltingar.
Ógn metin og ofmetin
Sú ályktun gefur tóninn fyrir frekari umræðu. „Gúttóslagurinn“ er hlutlaust heiti yfir átökin sem urðu þegar bæjarstjórnin í Reykjavík vildi lækka kaup í atvinnubótavinnu 9. nóvember 1932 ‒ nema mönnum þyki orðið kannski of léttvægt fyrir hinn hatramma bardaga. Í bók sinni um Sovét-Ísland lýsir Þór Whitehead sárum þeirra og ætti enginn að efast um að margir lögreglumenn máttu kallast heppnir að missa ekki lífið.[8] Í frásögn sinni finnst Þór þó nauðsynlegt að bæta við þeirri skoðun sinni að í Óvinum ríkisins sé hallað réttu máli. Þannig dugi ekki að þar séu raktar þær morðhótanir sem einn lögreglumanna fékk að heyra þegar mest gekk á vegna þess að því sé sleppt að á hann var ráðist þannig að hann bar þess aldrei bætur.[9] Samt er komist svo að orði í bók minni um lögreglumennina að kvöldi dags: „Sumir þeirra voru stórslasaðir og einhverjir báru merki bardagans alla tíð.“[10]
Þór Whitehead finnur einnig að því að í lýsingu minni á slagnum hafi ég vitnað til þeirrar endurminningar eins kommúnista að foreldrar hans hefðu um skeið óttast um annan son þeirra sem var í slagnum: „Mamma spyr hvort það geti átt sér stað að verið sé að drepa elsta soninn. Pabbi segir að lögreglunni sé trúað til alls, enda alvopnuð.“[11] Hér þykir Þór ámælisvert að ég leggi að jöfnu ótta tiltekinnar fjölskyldu og raunverulega reynslu lögregluþjóns „sem lifði naumlega af hrottalegar árásir skipulagðrar og vopnaðrar liðsveitar kommúnista“.[12]
Vissulega voru barsmíðarnar raunverulegri; þær áttu sér stað. Getur samt ekki verið að óttinn hafi líka verið ríkur í huga fólks, þó að hann hafi ekki verið á rökum reistur? Sjálfum finnst mér ég ekki leggja þetta tvennt alveg að jöfnu í bók minni og tel að afstaða og ótti þeirra sem stóðu andspænis lögreglunni hljóti að skipta máli þegar sagan er sögð.
Hvers vegna varð Gúttóslagurinn? Þór Whitehead segir okkur Jón Ólafsson álykta ranglega – mig að mestu með því að treysta verkum Jóns – að upptök átaka á kreppuárunum hafi legið í „„þjóðfélagsástandinu sjálfu““. Hitt sé sannara að „[s]kipulagt ofbeldi kommúnista hér eins og víðast annars staðar var bein afleiðing af ofsavinstrilínu Kominterns“.[13]
Að mínu mati verður að hafa í huga mun meira en Komintern og kommúnisma þegar reynt er að útskýra verkalýðsátök á kreppuárunum. Atvinnuleysi óx, fátækt var þrúgandi, börn liðu skort. Þyrfti fólk styrk frá hinu opinbera missti það kosningarétt og kjörgengi. Gísli Ágúst Gunnlaugsson sagnfræðingur komst svo að orði að viðhorf stjórnvalda til fátæks almúgafólks hefði verið „ómannúðlegt“ og bætti við að fram til ársins 1935 hefði fátækralöggjöfin byggst „að miklu leyti á viðhorfum 19. aldarmanna til framfærslumála og þeim úrræðum sem voru til lausnar þeim í dreifbýlissamfélagi“.[14] Þetta hlýtur að skipta máli þegar reynt er að útskýra hitann í mönnum 9. nóvember 1932, langt út fyrir raðir Kommúnistaflokks Íslands og Varnarliðs verkalýðsins.
Kannski má líka líta hér víðar yfir sviðið: Hvers vegna varð franska stjórnarbyltingin? Þjóðfélagsástandinu var um að kenna, sögðu sagnfræðingar lengstum á síðustu öld, til dæmis Georges Lefebvre í The Coming of the French Revolution. Áður hafði breski sagnfræðingurinn Thomas Carlyle skrifað, með sínu leiftrandi lagi sem óþarfi er að þýða á íslensku: „Hunger and nakedness and nightmare oppression lying heavy on twenty-five million hearts: this ... was the prime mover in the French revolution; as the like will be in all such revolutions, in all countries.“[15] Með nokkurri einföldun má segja að á tvö hundrað ára afmælinu árið 1989 hafi ný átök hins vegar blossað upp um orsakir frönsku byltingarinnar, atburðarás og arfleifð. Sagnfræðingar eins og Simon Schama og François Furet sáu frekar ofbeldi fyrst og fremst, án tilgangs og jafnvel án ástæðna.[16] Flestum þykja fyrirheitin um frelsi, jafnrétti og bræðralag þó enn göfug. Í nýlegu riti benti Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þannig á að franska byltingin hefði átt upptök sín í óréttlátu lénsskipulagi.[17] Vera má að byltingar þyki verjanlegri, því fjær sem þær eru okkur í tíma.
En aftur að Gúttóslagnum. Vart getur seinni tíma sagnfræðinga undrað að atvinnuleysingjar og aðrir í hópi verkafólks hafi reiðst kauplækkunaráformum bæjarstjórnarinnar – til þess þurfti ekki áróður frá Moskvu með milligöngu íslenskra kommúnista. Jafnvel mætti líka taka með í reikninginn að við mótmæli og útifundi getur rás viðburða farið úr böndunum, án þess að með því sé reynt að afsaka þau ofbeldisverk sem framin voru. Höfum samt til hliðsjónar eftirfarandi lýsingu Erics Hobsbawms ‒ hann verður ekkert ótrúverðugri þó að hann hafi lengi verið í breska kommúnistaflokknum: „Next to sex, the activity combining bodily experience and intense emotion to the highest degree is the participation in a mass demonstration at a time of great public exaltation.“[18]
Og voru það ekki alþýðuflokksmenn sem hljóp hvað mest kapp í kinn í Gúttóslagnum? Stóð ekki Héðinn Valdimarsson og rétti mönnum stólfætur til að nota sem barefli? Einn þeirra sem var á vettvangi rifjaði afstöðu Héðins seinna upp: „Sagt var að Héðinn hefði viljað gera byltingu á eftir … [hann] talaði við Einar og Brynjólf en þeir sögðu að það væri ekki tímabært, þetta væri uppþot (rebellion, engin revolution). En Héðinn vildi taka völdin, þegar búið var að lemja niður lögregluna?!“[19]
Bylting eða óeirðir?
Getur hvort tveggja staðist, hitinn í jafnaðarmanninum Héðni Valdimarssyni og úrtöluraddir kommúnistaleiðtoganna, Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar? Orð Héðins um byltingu má hafa til frekara marks um ofsann sem réð 9. nóvember 1932. Héðinn var skapstór og engin ástæða er til að draga heitingar hans í efa. Hins vegar er ótrúlegt að hann hafi vaknað þennan morgun staðráðinn í að ræna völdum á Íslandi. Afstaða Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar þarf jafnframt nánari skoðunar við.
Enn nefni ég að þessa sögu skoða ég einkum út frá þeim neðanmálsgreinum í bók Þórs Whiteheads þar sem ég kem við sögu. Þór hafnar þeirri skoðun minni að Einar og aðrir í leiðtogasveit Kommúnistaflokksins hafi þóst vita að þegar „byltingin kæmi yrði það alheimsbylting sem hæfist annars staðar en í Gúttó við Tjörnina í Reykjavík“.[20] Athugasemdir Þórs eru fleiri og hann bendir meðal annars á að Einar Olgeirsson hafi sagt hugsanlegt „„að verkamenn og fátækir bændur Íslands gerðu byltingu hér á undan alþýðustéttum nágrannalandanna““. Meginniðurstaða Þórs er því þessi: „raunin var sú að kommúnistar bjuggu sig af kappi undir byltingu með stuðningi Kominterns og beittu hér tíðum markvissu ofbeldi að áeggjan Moskvuvaldsins með geigvænlegum afleiðingum“.[21]
Ekki getur nokkur maður efast um að Kommúnistaflokkur Íslands hafði á stefnuskrá sinni valdatöku, með góðu eða illu. Að því skyldi unnið. Hér dugar þó vart að taka viljann fyrir verkið. Þannig kom aldrei til þess að starfsemi flokksins yrði lýst ólögleg þótt hugur margra andstæðinga hafi staðið til þess.[22] Vera má að það sé til merkis um veikleika ríkisvaldsins enda voru kommúnistaflokkar bannaðir víða um heim. Allt eins má þó segja að í þessu hafi falist virðing fyrir þeim leikreglum lýðræðis og þingræðis sem kommúnistar samþykktu á sinn hátt með þátttöku í kosningum (að vísu aðeins í „taktísku“ tilliti en það breyttist með stofnun Sósíalistaflokksins). Þar að auki er það ætíð svo að aukið öryggi felst ekki endilega í auknu valdi. Með það í huga mótmælti Ásgeir Ásgeirsson, þingmaður Framsóknarflokks (síðar Alþýðuflokks og að lokum forseti) áformum um ríkislögreglu árið 1925 með athyglisverðum orðum: „Sú þjóð er á heljarþröm, sem ætlar að búa um sig rjett eins og bylting sje á hverju augnabragði að brjótast út. Kósakkalöggæsla er undanfari bolsévismans. Það á hvorttveggja jafnlítið erindi til okkar lands.“[23]
Að fleiru þarf að hyggja. Í verkum okkar vitnuðum við Þór Whitehead báðir í orð Einars Olgeirssonar um Gúttóslaginn í ritdeilu við Jónas Jónsson frá Hriflu:
J. J. heldur að bylting sé það að 200 vopnaðir kommúnistar ráðist á blessaða, saklausa, vopnlausa burgeisana, setji þá alla í fangelsi og taki svo völdin. Ef við hefðum viljað gera svona „byltingu“ þá hefðum við getað gert hana fyrir þó nokkru síðan. T.d. 9. nóvember. Það hefði ekki þurft meir en taka vopnabúðir Reykjavíkur að kveldi þess dags, vopna verkalýðinn að svo miklu leyti sem hægt var og svo ráðast á stjórnarráðið. Og þetta hafa auðsjáanlega hjartveikir ístrubelgir og skilningssljóir stjórnspekingar haldið að við ætluðum að gera. En það er ekki þannig sem bylting er gerð, hr. Jónas frá Hriflu. Slíkt væri „Kup“ – ekki bylting.[24]
Ég held því enn fram að leiðtogar íslenskra kommúnista hafi aldrei séð fyrir sér að fremja byltingu einir síns liðs úti á Atlantshafi. Ég get fallist á að hefðu þeir séð byltingaröldu ríða yfir Evrópu hefðu þeir látið slag standa hér og þá jafnvel áður en baráttan var til lykta leidd ytra. Hitt þykir mér ennþá ótrúlegt að þeir hefðu reynt að ræna völdum án þess að heimsbyltingin væri hafin eða við það að hefjast. Slík fífldirfska hefði verið „kup“, ekki bylting.
Hvað ef?
Hvað ef kommúnistar hefðu engu að síður látið til skarar skríða? Í bók Þórs Whitehead er það sem rauður þráður að byltingarhættan hafi alltaf vofað yfir. Á sömu lund sagði leiðarahöfundur Morgunblaðsins verkið sýna að fullveldið (og síðar lýðveldið) hefði staðið „svo tæpt að engu mátti muna“ og byltingamenn hefðu verið „aðeins hársbreidd frá því að ná ætlunarverki sínu“.[25]
Gefum okkur nú að svo hefði farið. Mín niðurstaða í Óvinum ríkisins – með hliðsjón af lýsingu Einars Olgeirssonar á mögulegu valdaráni 9. nóvember 1932 ‒ var sú að þannig „kup“ hefði aldrei varað til lengdar: „Til þess voru andstæðingar Kommúnistaflokksins allt of öflugir, hvað sem leið stöðu mála að kvöldi Gúttóslagsins. Í allra versta falli hefðu stjórnvöld orðið að leita ásjár Dana eða breska sjóhersins en ótrúlegt er að svo hefði getað farið.“[26] Þótt viðbrögð við þessari ályktun sé ekki að finna í neðanmálsgrein í Sovét-Íslandi víkur Þór Whitehead að bollaleggingum af þessu tagi í lokakafla bókar sinnar: „Hefðu Danir eða Bretar ekki sent hingað herlið og steypt rauðliðum af stóli [?]...“ spyr hann og svarar um leið: „Slíkra spurninga geta þeir einir spurt sem vita hvaða rás viðburðirnir tóku.“ Sömuleiðis segir Þór:
Þótt ráðamenn hefðu hugsanlega getað vonast til að danskur eða breskur her gengi þá hér á land, hefðu þeir tæplega getað gert sér miklar vonir um að njóta þess sjálfir að lýðræðið yrði endurreist. ... Allt sýnir þetta, hve fánýtt það er að horfa í baksýnisspegilinn um áttatíu árum eftir að atburðir gerðust og álykta að ráðamenn hefðu átt að láta sem ekkert væri, jafnvel þótt lögregla höfuðstaðarins lægi óvíg eftir átök við byltingarmenn.“[27]
Heilshugar tek ég undir þau varnaðarorð að við sem á eftir komum vitum því miður hvað gerðist næst, svo vitnað sé til orða kaldastríðssagnfræðingsins John Lewis Gaddis skrifaði („the tyranny of knowing what came next“).[28] Á hinn bóginn er mín meginályktun alls ekki sú að fyrst hjálpar var væntanlega að vænta að utan hefðu ráðamenn einfaldlega átt að láta sem ekkert væri. Þetta hefðu lesendur Óvina ríkisins til dæmis átt að geta lesið úr lokaorðum þess kafla sem fjallaði um árin milli stríða:
Árin milli stríða stóðu þeir því andspænis hvorir öðrum, þeir sem óttuðust byltingu og þeir sem vonuðust eftir henni. Og síðan bættist stríðið við með öllum sínum ógnum. Seinni ákvarðanir stjórnvalda um hervernd, símahleranir, persónunjósnir og öryggisþjónustu geta aðeins skilist í ljósi þessara fyrri tíma.[29]
Þótt ég komist að þeirri niðurstöðu að hér hafi ekki verið bráð hætta á byltingu er ég alls ekki þeirrar skoðunar að aldrei hafi verið hætta á ferðum. Ofbeldið 9. nóvember 1932 og önnur átök sýndu að lögreglan mátti ekki veikari vera. Ógnin af óeirðum var ætíð til staðar, verkfallsátök gátu farið úr böndunum. Að mínu mati er því auðskilið að stjórnvöld vildu stofna varalögreglu og ríkislögreglu og verjast á annan hátt róttækum öflum til hægri og vinstri á vettvangi stjórnmálabaráttunnar. Eftir að það var gert breyttist valdajafnvægið nokkuð kommúnistum í mót en þar að auki hlaut það að halda aftur af leiðtogum þeirra að þótt þeir gætu mögulega rænt völdum myndu þeir trauðla ná að halda þeim. Þeir vissu hvernig hafði farið fyrir Bela Kun í Ungverjalandi og byltingartilraunum í Þýskalandi fyrst eftir seinni heimsstyrjöldina. Andspænis ríkisvaldinu fundu íslenskir kommúnistar frekar til vanmáttar en yfirburða.
Hvað er kommúnisti?
Þeim neðanmálsgreinum í Sovét-Íslandi sem ég vil ræða um fer nú fækkandi. Ein veigamikil athugasemd er þó eftir. Í Óvinum ríkisins skrifaði ég að fyrstu árin eftir seinni heimsstyrjöld hefði Sósíalistaflokkurinn frekar verið „fjöldahreyfing en selluflokkur harðsnúinna byltingarsinna“.[30] Þór Whitehead segir þetta gefa „skakka mynd af flokknum“. Selluskipulagið hefði lengst af verið burðarás í öllu starfi hans, flokksmönnum almennt verið bannað að gagnrýna stefnu hans á opinberum vettvangi og „[m]eirihluti flokkskjarnans 1938‒1950 var … skipaður eindregnum kommúnistum …“ Fyrirvara setur Þór þó: „Í flokknum var áreiðanlega fjöldi manns, sem seint eða aldrei hefði tekið þátt í byltingu.“[31]
Og hvað er þá kommúnisti? Kannski það gæti orðið fundarefni Sagnfræðingafélagsins einn veturinn! Reyndar gerðist það í umræðum eftir upphafserindi Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í fundaröð þess haustið 2008 að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, skilgreindi kommúnista og sósíalista þannig að þjóðernishyggja þeirr hefði aðeins verið yfirvarp og þeir hefðu einfaldlega verið „handbendi Moskvu“. Undir þetta tók Björn Bjarnason og sagði „Þeir hlýddu bara kallinu frá Moskvu.“[32].
Hér er alhæft um þúsundir manna. Auðvitað er ekki unnt að gera viðamiklu álitamáli skil í stuttu erindi en mér finnst það samt enn standast að kalla megi Sósíalistaflokkinn fjöldahreyfingu frekar en selluflokk svikara að undirbúa byltingu, svo lýsingin sé aðeins umorðuð. Ég tel það ekki á rökum reist að Einari Olgeirssyni og öðrum framámönnum í Kommúnista- og síðar Sósíalistaflokknum hafi einfaldlega þótt „hyggilegra að nýta sér sterka þjóðerniskennd Íslendinga en hafna henni“ eins og Styrmir Gunnarsson komst nýlega að orði.[33] Því hvað er kommúnisti? Þess má aftur spyrja. Snemma árs 1989 – sama ár og Berlínarmúrinn féll – skrifaði Styrmir um kynni sín af Birni Jónssyni, Finnboga Rúti Valdimarssyni og Hannibal Valdimarssyni:
Það var ómetanlegt fyrir Heimdelling og blaðamann á Morgunblaðinu að kynnast þessum mönnum, lífsviðhorfum þeirra og skoðunum á dægurpólitíkinni. Ég gerði mér smátt og smátt grein fyrir því að þessir menn voru ekki „kommúnistar“, eins og bæði ég og aðrir vorum aldir upp við að trúa, heldur róttækir jafnaðarmenn. Fyrir þá Hannibal, Björn og Rút var baráttan fyrir bættum kjörum verkalýðsins hugsjón sem þeir höfðu tileinkað sér í æsku, meðal annars vegna þess úr hvaða jarðvegi þeir voru sprottnir.[34]
Einnig má nefna óbirt eftirmæli Andrews Gilchrists, sendiherra Breta á Íslandi á sínum tíma, um Bjarna Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Vera má að Gilchrist hafi eitthvað fært í stílinn en hann rifjaði upp að Bjarni hefði farið fögrum orðum um Halldór Laxness – og líklega fór það samtal fram einhvern tímann á sjöunda áratugnum. „Hvað, þann bölvaða kommúnista?“ sagði Gilchrist stríðnislega en Bjarni svaraði: „Ég veit ekki hvort hann er kommúnisti í dag og ég hef ekki spurt hann. Og sumir kommúnistar eru skárri en aðrir. Einhverjir okkar kommúnista eru Íslendingar fyrst og svo kommúnistar og það er ekki svo slæmt.“ Samtalinu lauk svo með þessum orðaskiptum, að sögn Gilchrists: „Ég spurði [Bjarna] hvort hann ætti við að kommúnistarnir hefðu breyst. „Já, þeir hafa breyst aðeins.“ Og svo bætti hann við, með þeirri sanngirni sem einkenndi Bjarna: „Eða kannski er ástæðan sú að ég er farinn að skilja þá betur.““[35]
Heimurinn er flókinn, fólk er flókið. Doktorsritgerð sína um þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál á fyrri hluta síðustu aldar hóf Ragnheiður Kristjánsdóttir með sögu um Frakkann Fureux sem George Orwell sagði furðulegan fýr; „þótt hann væri kommúnisti þegar hann var edrú, þá varð hann heiftúðugur föðurlandsvinur þegar hann var fullur.“[36]
Íslendinga mætti líka leiða til vitnis. Eitt sinn lýsti Kjartan Guðjónsson listmálari stjórnmálaskoðunum sínum og aðild að Sósíalistaflokknum með þessum orðum: „Nei, ég var aldrei marxisti. Þetta var ósköp rómantískur kommúnismi, svona Sölku Völku kommúnismi. Maður las Kiljan, það var allt og sumt. Hersetan var efst á baugi; svo var náttúrlega verkalýðsbaráttan, en ég tók aldrei þátt í henni.“[37]
Svona gat fólkið í fjöldahreyfingunni verið. Það vissu leiðtogarnir og fyrir kom að sovéskir sendimenn á Íslandi kvörtuðu undan því að Einar Olgeirsson og aðrir kommúnistar létu ekki aðeins vera að berjast gegn yfirgengilegri þjóðrembu Íslendinga, eins og komist var að orði, heldur gengust þeir sjálfir upp í þessum smáborgaralega „þvættingi“.[38] Þjóðernishyggjan var ekki yfirvarp, frekar kjarni.
Þekktu sagnfræðinginn...
Enn vitna ég í vinstrisinnaðan breskan sagnfræðing, í trausti þess að orðin verði samt vegin á eigin forsendum: „Kynntu þér sagnfræðinginn áður en þú kynnir þér staðreyndirnar“ („Study the historian before you begin to study the facts“). Svo mælti Edward Carr á sínum tíma.[39]
Þór Whitehead hefur aldrei leynt því að hann aðhyllist ekki kröfuna um hlutleysi í sagnfræði. Árið 1980, snemma á fræðaferlinum, skrifaði Þór: „Ég er ekki í hópi þeirra sagnfræðinga, sem trúa því að þeir geti hafið sig ofar samtíð sinni og skoðunum og fjallað um málin af óskilgreindu „hlutleysi“. Ég hef ákveðin viðmið, sem ég tel óheiðarlegt að leyna. Takmark mitt er ekki að vera „hlutlaus“, heldur leita að sannleika og skýra hann.“[40]
Þetta sjónarmið er alls ekkert einsdæmi; þannig má benda á að sovétsérfræðingurinn Robert Conquest, sem skrifaði um ódæði Stalínstímans, tók í sama streng í formála rits síns, The Great Terror.[41] Hér á Íslandi kvaðst fræðimaður, sem leit með velþóknun á verkalýðsbaráttu liðinnar tíðar, jafnframt gera „eina sérstaka kröfu“ til rita um verkalýðshreyfinguna, „og hún er sú að verkið sé a.m.k. jákvætt, ef ekki hliðhollt, róttækum straumum í verkalýðshreyfingunni“.[42]
Fullkomin hlutlægni er ekki til; fræðimenn gera kröfur og setja sér viðmið. En hver var hún þá samtíðin sem Þór Whitehead kvaðst ekki getað hafið sig ofar frekar en aðrir menn? Hver voru viðmiðin? Líklega kemur helst til álita hér kalda stríðið og sú afstaða sem margir töldu sig þá þurfa að taka. Árið 1961 var Þór kjörinn í fyrstu varastjórn Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, langyngstur stjórnarmanna. Fjórum árum síðar skrifaði hann í Morgunblaðið um vanþekkingu margra á eðli einræðis: „Þessu fólki væri hollt að athuga stöðu sína í baráttu einræðis og lýðræðis í ljósi sögunnar. Harður er dómur hennar um fyrirrennarana, en harðari mun hann verða, því að í skjólhús þekkingarleysis er nú eigi í að venda.“[43]
Sagnfræðingar eru eins og aðrir börn síns tíma, mótaðir af samfélagi sínu og hertir í deilum ef því er að skipta. Á nítjándu öld taldi þýski sagnfræðingurinn Theodor Mommsen að þeir sem hefðu lifað sögulega daga, „færu að sjá að sagan er hvorki lifuð né sögð án ástar eða haturs“.[44] Nær okkur í tíma og rúmi sagði Styrmir Gunnarsson eitt sinn við unga fréttakonu: „Þú hefur ekki minnstu möguleika ... til að skilja andrúmsloftið á þessum fyrstu tveimur áratugum kalda stríðsins. Það var svo ofboðslega hatrammt.“[45]
Eftir hrun kommúnismans hefur mörgum þeirra sem börðust gegn honum því þótt varða miklu að „dómur sögunnar“ verði lýðum ljós. „Kalda stríðið – dómur sögunnar“ hét erindi Björns Bjarnasonar hjá Sagnfræðingafélaginu sem áður var vitnað til. Þegar til stóð að gefa út nýja útgáfu af The Great Terror var Robert Conquest spurður að því hvað verkið ætti að heita, og svaraði hann þá samstundis: „How about I Told You So, You Fucking Fools?“[46]
Ritunartíma Sovét-Íslands má einnig hafa í huga. „Sagan endurtekur sig,“ skrifar Þór Whitehead í bókinni og vísar til árása á lögreglumenn „sem vörðu Alþingishúsið fyrir æstum mannfjölda í janúar 2009“. Líkur leiðir hann einnig að því að íslenska ríkið sé enn eins vanmegna og það hafi verið frá fullveldisheimt 1918: „Það sé í raun vanbúið til að framfylgja lögum og vernda stjórnskipulagið, ef fjölmennur hópur manna tekur sig saman um að veita því andspyrnu eða ákveður að reyna að steypa löglega kjörnum yfirvöldum með valdi.“[47] Ekkert er ofsagt um æsinginn í ársbyrjun 2009 þegar „búsáhaldabyltingin“ stóð sem hæst. Sömu vanþóknun má hafa á þeim sem hafa síðar talið vald fólksins felast í að kasta eggjum að öðrum. Varast þarf þó að gera of mikið úr mótmælum og óeirðum. Þeir voru til sem grunaði í hita leiksins átakaveturinn 2008-2009 að „valdarán“ væri í bígerð og illvirkjarnir hefðu jafnvel þegar „gert ráðstafanir til að verða sér út um mikið magn skotvopna, skotfæra og sprengiefnis“.[48] Má vera að gögn sem staðfesta það komi einhvern tímann fram? Það hlýtur að teljast afar ólíklegt. Stoðum ríkisvaldsins var ekki ógnað svo að þær gætu brostið að fullu og öllu. Auk þess er ljóst að sú ríkisstjórn sem hrökklaðist frá völdum í janúar 2009 var þá þegar komin að fótum fram. Um ofmat á „búsáhaldabyltingunni“ (og þá líka í huga þeirra sem lofuðu hana) skrifaði ég á öðrum vettvangi:
Þegar eldar loguðu við Alþingi varð aðgerðasinnanum Naomi Klein hugsað til hinna miklu mótmæla í Argentínu í upphafi aldarinnar. „Que se vayan todos!“ hrópuðu borgararnir þá, „þeir verða allir að fara!“ En þar var kveikt í byggingum og fólk lét lífið í átökum við lögreglu. Í nóvember hafði einn Íslendinganna sem fóru á útifundi þá og síðar rifjað upp slagorð íbúa Austur-Þýskalands við hrun Berlínarmúrsins 1989: „Wir sind das Volk!“ – „Við erum þjóðin!“ En þar hafði ógnarstjórn kúgað fólk í fjóra áratugi.
Jón Ólafsson heimspekingur sá líkindi með „flauelsbyltingunni“ í Tékkóslóvakíu og þeirri „flísbyltingu“ sem þyrfti að framkvæma á Íslandi. Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fann líka hliðstæður milli kerfishruns hér og í Austur-Evrópu við hrun kommúnismans en bætti við að setja yrði ákveðna fyrirvara við þann samanburð. Fyrirvararnir urðu einmitt að vera skýrari en samanburðurinn. Geir H. Haarde var ekki Erich Honecker, Hörður Torfa ekki Vaclav Havel og Austurvöllur ekki Plaza de Mayo í Buenos Aires. Búsáhaldabyltingin var einstök í Íslandssögunni og órækur vitnisburður um þau áhrif sem fjölmenn og stöðug mótmæli geta haft í vestrænu lýðræðisríki. Hún verður engu minni þótt því sé haldið til haga að hún stenst alls ekki samjöfnuð við djúpstæðara andóf gegn miklu verra ástandi annars staðar.[49]
Þekktu þá sjálfan þig...
Ég hef í þessu erindi vakið máls á þeim athugasemdum sem Þór Whitehead, gamall leiðbeinandi í fræðunum og vildarvinur, gerði við efnistök mín í Óvinum ríkisins, bók um ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi. Ég hef helst rakið það sem við erum ósammála um, á ýmsu öðru sýnist mér við hins vegar hafa sömu skoðun. Hvort tveggja er sjálfsagt þegar leggja þarf mat á liðna tíð.
Samtíðin og skoðanir hennar hljóta svo einnig að skipta máli þegar ég er annars vegar, rétt eins og hér hefur verið sagt um Þór Whitehead. Ég er ekki „barn kalda stríðsins“ ef svo má að orði komast. Ég hertist ekki í þeim eldi og finnst ég ekki þurfa að kveða upp ótvíræða lokadóma um rétt og rangt þar sem þúsundir manna eru settar undir sama hatt leiðtoganna með stefnuskrána. Ég tel mig ekki vera einan um þetta sjónarmið og nefni hér til hliðsjónar ritdóm um eitt metnaðarfyllsta verk sem samið hefur verið um sögu kalda stríðsins, The Cambridge History of the Cold War í ritstjórn Melvyns Lefflers og Odds Arnes Westads.[50] Í dómnum sagði Richard Crockatt, einn kaldastríðsfræðingurinn til – og ég vitna til orða hans á frummálinu:
In mainstream Cold War historiography, of which this set of volumes is an outstanding example, there is little animus, little sense that life depends on this or that interpretation. ... the Cold War has slipped relatively painlessly into history. ... The Cambridge History of the Cold War is a monumental and highly articulate expression of a kind of consensus which exists less obviously at the level of ideology than of professional practice. Freed from the need to re-fight the old battles of the Cold War, the authors are able to explore the Cold War as history in all its riches and complexity.[51]
Ég kýs frelsið, frelsi frá því að heyja á ný gömul stríð og frelsi til að skrifa frekar um þau. Það þýðir alls ekki að með því sé lögð blessun yfir ofbeldisverk eða ógnarstjórnir. Ég vil einfaldlega stefna að ítrustu hlutlægni og sjá atburði frá mörgum sjónarhólum þótt ég viti um leið að það sé í raun ómögulegt. En hér má taka viljann fyrir verkið og reyndar hefur sumum fundist ég vera allt of hlutlægur, skorta dómhörku og veigra mér við að álykta um menn og málefni. Til dæmis kvartaði Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, undan því að bók mín um bankahrunið 2008 væri alltof hlutlaus.[52] Aðrir hafa á hinn bóginn lofað þessa viðleitni. Þannig sagði Ólafur Stephensen, núverandi ritstjóri Fréttablaðsins, í ritdómi um Óvini ríkisins að höfundurinn reyndi „að sýna fyllstu sanngirni, bæði gagnvart þeim sem ákvarðanir tóku um hleranir og eftirlit og þeim sem voru undir eftirliti, og [legði] sig almennt í framkróka við að sýna allar hliðar málsins“.[53] Hinu verður svo einnig að halda til haga sem annar lesandi verksins, Kristján B. Jónasson bókaútgefandi, skrifaði um það: „Svokallað „vinstra fólk“ og svokallað „hægra fólk“ hefur hvorttveggju hvíslað í mín eyru að Guðni sé málpípa andhverfunnar“.[54]
Hvað veit ég? Enginn er dómari í eigin sök. Stundum verður mér þó hugsað til þess að ég sé kannski eins og sagnfræðingurinn sem hinn breski Acton lávarður hafði lítið álit á og skrifaði um í hneykslunartón: „Hann kappkostar ekki að færa sönnur á mál eða leita ótvíræðra niðurstaðna, heldur líkar honum betur að fara um vígvelli mikilla átaka og ástríðna með forvitnissvip ... og silkihanska á höndum.“[55]
[1]Þór Whitehead, Sovét-Ísland óskalandið. Aðdragandi byltingar sem aldrei varð 1921‒1946 (Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2010), bls. 432. Í neðanmálsgrein á bls. 19 segir Þór sömuleiðis að athugasemdum hans sé ætlað „að auðvelda almennum lesendum og fræðimönnum að dæma um sannleiksgildi þessara verka“ (auk umfjöllunar um efnistök í Óvinum ríkisins er í athugasemdunum einnig vikið að ályktunum og niðurstöðum Jóns Ólafssonar, prófessors við Háskólann á Bifröst).
[2]„Menn taka ekki völdin með því að fletta doðröntum“ (viðtal við Þór Whitehead), Fréttatíminn 17.‒19. des. 2010.
[3]Styrmir Gunnarsson, „Grundvallarrit Þórs Whitehead“, Morgunblaðið 9. jan. 2011.
[4]Sjá: Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 48. Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi (Reykjavík: Mál og menning 2006), bls. 30‒32.
[5]Sjá einkum Edward Said, Orientalism (London: Penguin, 2003 (upphafl. útg. 1978)).
[6]20. öldin. Brot úr sögu þjóðar. Jakob F. Ásgeirsson ritstjóri (Reykjavík: Nýja bókafélagið 2000), 68.
[7]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 48.
[8]Reyndar má benda á að þeim meiðslum sem lögreglumenn urðu fyrir hefur áður verið getið í frásögnum af Gúttóslagnum, að vísu ekki eins nákvæmlega. Sjá t.d.: Íslandssagan í máli og myndum. Það rit er víðlesið og er vitnað þar til lýsingar Kjartans Jónassonar í bók hans, Kreppuárin: „Lýsingar á meiðslum lögreglunnar eru órækur vitnisburður um hversu ofsafenginn þessi bardagi var. Eftir slagsmálin lágu margir lögregluþjónanna í öngviti á götum bæjarins og höfðu hlotið rothögg með kylfum og grjótkasti. Flestir voru með nokkurra sentímetra skurði í höfuðsverði, nokkrir beinbrotnir eða með innvortis blæðingar auk þess sem þeir voru allir meira eða minna marðir og aumir af verkjum.“
[9]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 226.
[10]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 36.
[11]Sjá: Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 35.
[12]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 226.
[13]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 210.
[14]Gísli Ág. Gunnlaugsson (Guðmundur Hálfdanarson, Loftur Guttormsson og Ólöf Garðarsdóttir ristjórar), Saga og samfélag. Þættir úr félagssögu 19. og 20. aldar (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1997), bls. 130‒131 og 142.
[15]Til þessara orða er vitnað í: E.H. Carr, What is History? (Harmondsworth: Penguin, 1961), bls. 49.
[16]Fyrir samantekt um þetta, sjá t.d.: Mike Haynes og Jim Wolfreys, „Introduction“, í Mike Haynes og Jim Wolfreys (ritstj.), History and Revolution. Refuting Revisionism (London: Verso, 2007), bls. 1‒24; og Mike Wolfreys, „Twilight Revolution: François Furet and the Manufacturing of Consensus“, sama rit bls. 50‒70.
[17]Tómas Ingi Olrich, Ísland og ESB (Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2011), bls. 86.
[18]Eric Hobsbawm, Interesting Times. A Twentieth-Century Life (London: Allen Lane, 2002), bls. 73.
[19]Eymundur Magnússon, Minningar úr menntaskóla og meira en það. Ólafur Grímur Björnsson skráði (Reykjavík: útgefanda ógetið 2010).
[20]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 37.
[21]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, bls. 206 og nmgr. bls. 207.
[22]Sjá t.d.: Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Thoroddsen. Ævisaga (Reykjavík: JPV, 2010), bls. 99‒101 og 110.
[23]Alþingistíðindi1925, C, d. 727. Sjá einnig: Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 33. Sé litið til samtímans virðast sjónarmiðum norsku lögreglunnar og Helga Gunnlaugssonar afbrotafræðings um viðbrögð við auknum vopnabúnaði í „undirheimum“ svipa til orða Ásgeirs Ásgeirssonar, að breyttu breytanda. Sjá: „Trygghet uten våpen“, [http://www.dagbladet.no/2011/10/13/kultur/debatt/kronikk/politi/vapen/18565164/] og „Eðlilegt að ræða viðbúnað“ [http://mbl.is/frettir/innlent/2011/11/21/tharf_ad_raeda_vidbunad_logreglu].
[24]Sjá: Þór Whitehead, Sovét-Ísland, bls. 205. Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 36‒37. Ég vitna á einum stað rangt í frumheimildina, grein Einars Olgeirssonar í Rétti 1. maí 1933; víxla orðunum „ráðast“ og „svo“.
[25]„Mögnuð bók“, Morgunblaðið 22. des. 2010 (forystugrein). Svipuð sjónarmið má finna í skrifum Styrmis Gunnarssonar um bókina. Sjá: Styrmir Gunnarsson, „ESB-ríkin vilja uppgjör við glæpi kommúnismans“, Evrópuvaktin 13. júní 2011, [http://evropuvaktin.is/leidarar/18905].
[26]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 37.
[27]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, bls. 428‒429.
[28]John Lewis Gaddis, „A time of confrontation and confusion“, Times Literary Supplement, 8. maí 1987, bls. 480. Sjá einnig: Guðni Th. Jóhannesson, „Geta sagnfræðingar fjallað um fortíðina?“ Ritið 4/1 (2004), bls. 181‒188 [http://gudnith.is/efni/geta_sagnfr%C3%A6%C3%B0ingar_fjalla%C3%B0_um_fort%C3%AD%C3%B0ina_2004].
[29]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 48.
[30]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 113.
[31]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, bls. 349.
[32]Minnispunktar mínir á fundinum. Erindið var haldið 16. sept. 2008 og á það er hægt að hlýð hér: [http://www.sagnfraedingafelag.net/2008/09/16/15.06.17/]. Sjá einnig: Björn Bjarnason, „Kalda stríðið – dómur sögunnar. Erindi hjá Sagnfræðingafélagi Íslands“, 16. sept. 2008 [http://www.bjorn.is/greinar/nr/4622].
[33]Styrmir Gunnarsson, „Þeir voru erindrekar erlends valds“, Morgunblaðið 13. nóv. 2011.
[34]Styrmir Gunnarsson, „Finnbogi Rútur Valdemarsson“, Morgunblaðið 29. mars 1989 (eftirmæli). Að sama skapi væri andstæðingum annarra flokka, til dæmis Sjálfstæðisflokksins, hollt að kynnast félögum hans og átta sig á að þeir geta verið eins ólíkir og þeir eru margir. Um þetta skrifaði Þórður Snær Júlíusson blaðamaður nýlega og lýsti „þeim suðupotti pólitískra stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn er“ með þessum orðum: „Innan hans finnast örgustu sósíalistar og róttækir frjálshyggjumenn. Alþjóðasinnar og þjóðrembulegt afturhald. Hugsjónalausir sérhagsmunagæslumenn og kristnir siðbótarpostular. Alls konar fólk. Sjálfstæðismenn eru fjarri því að vera steyptir í eitt mót.“ Þórður Snær Júlíusson, „Tveir kostir“, Fréttablaðið 15. nóv. 2011 (forystugrein).
[35]Skjalasafn Andrews Gilchrist, Churchill College, Cambridge. GILC 12/D „Remembering Bjarni“. Ódagsett handrit. Sjá einnig: „„Með því að óttast má...“ Ástæður símhlerana í kalda stríðinu.“ Erindi hjá Sagnfræðingafélagi Íslands“, 16. sept. 2008 [http://gudnith.is/efni/me%C3%B0_%C3%BEv%C3%AD_a%C3%B0_%C3%B3ttast_m%C3%A1_2008].
[36]Ragnheiður Kristjánsdóttir, Nýtt fólk. Þjóðerni og verkalýðsstjórnmál 1901‒1944 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008), bls. 7.
[37]Jakob F. Ásgeirsson, Í húsi listamanns. 25 svipmyndir (Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2006), bls. 55. Hér mætti einnig nefna lýsingu Styrmis Gunnarssonar á kynnum sínum af Magnúsi Jónssyni leikstjóra sem nam í Moskvu: „Magnús Jónsson, sem dó langt fyrir aldur fram, var einhver sannfærðasti kommúnisti sem ég hef þekkt um dagana og leyndi því ekki, heldur þvert á móti. Hann taldi mig mesta afturhald sem hann hefði nokkru sinni kynnzt, en hvorugt hafði áhrif á vináttu okkar. Persónuleg tengsl af þessu tagi á milli fólks með ólíkar stjórnmálaskoðanir er að finna um allt samfélag okkar vegna smæðar þess. Hvernig komum við heim og saman þessum persónulegu tengslum og pólitísku uppgjöri? Sjálfsagt er ekki til neitt eitt svar við því.“ Sjá: Styrmir Gunnarsson, „Þeir voru erindrekar erlends valds“, Morgunblaðið 13. nóv. 2011.
[38]Sjá: Jón Ólafsson, Kæru félagar. Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin(Reykjavík: Mál og menning, 1999), bls. 156-159. Sjá einnig: Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 63.
[39]Carr, What is History? 17.
[40]Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi. Ísland í síðari heimsstyrjöld (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1980), bls. 9. Hér líka Conquest
[41]Robert Conquest, The Great Terror. Stalin‘s Purge of the Thirties (New York: Macmillan, 1969), bls. xiv. Conquest skrifaði: „The present writer cannot conceal that he has views on these ethical and political matters; but it seems to him that the open admission of them tends to force the historian into the practical limits of objectivity as regards evidence. He hopes, in any case, that the prejudices he feels are those of most civilized men.“ Hér má einnig benda á sjónarmið Gunnars Karlssonar, prófessors emeritus í sagnfræði, um afstöðu Páls Eggerts Ólasonar til söguhetju sinnar, Jóns Sigurðssonar forseta: „Lesendur fá strax að vita hver afstaða höfundar er, hann stendur ævinlega með sínum manni, og þá verður hlutdrægni hans fremur óskaðleg.“ Sjá: Gunnar Karlsson, „Forsetinn í söguritun Íslendinga“, Andvari 136 (2011), bls. 39.
[42]Ingólfur Á. Jóhannesson, „Þór Indriðason. Fyrir neðan bakka og ofan. Saga verkalýðshreyfingar, atvinnulífs og stjórnmála á Húsavík 1885‒1985“ (ritdómur), Saga 37 (1999), bls. 282.
[43]Þór Whitehead, „Í ljósi sögunnar“, Morgunblaðið 4. apríl 1965.
[44]Sjá: G. P. Gooch, History and Historians in the Nineteenth Century (London: Longmans, Green and Co, (2. útg. 1952)), bls. 462. Orð Mommsen eru þar á ensku: „Those who have lived through historical events, as I have, begin to see that history is neither written nor made without love or hate.“
[45]„Kastljósið“, Ríkissjónvarpinu 26. nóv. 2006. Styrmir ræddi þar við Evu Maríu Jónsdóttur.
[46]Sjá: Martin Amis, Koba the Dread. Laughter and the Twenty Million (London: Vintage, 2003), bls. 10.
[47]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 227 og bls. 430. Þótt ólíku sé saman að jafna má nefna hér að í óformlegu spjalli undir lok síðustu aldar mun François Furet, hinn umdeildi sérfræðingur í sögu frönsku byltingarinnar, hafa líkt femínistum samtímans við Velferðarnefnd byltingarsinna (á ensku the Committe of Public Safety). Sjá: Geoff Eley, „What Produces Democracy? Revolutionary Crises, Popular Politics and Democratic Gains in Twentieth-Century Europe“. Mike Haynes og Jim Wolfreys (ritstj.), History and Revolution. Refuting Revisionism (London: Verso, 2007), nmgr. 52, bls. 252.
[48]Pétur G. Ingimarsson, „Blóðugt valdarán?“ 25. nóv. 2008, [http://fiskurfiskur.blog.is/blog/fiskurfiskur/entry/723872].
[49]Guðni Th. Jóhannesson, Hrunið. Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (Reykjavík: JPV, 2009), bls. 361.
[50]Leffler, Melvyn P., og Odd Arne Westad (ritstj.), The Cambridge History of the Cold War I-III (Cambridge: Cambridge University Press, 2010).
[51]Richard Crockatt, „The Cambridge History of the Cold War“ (ritdómur), Cold War History 11/2 (2011), bls. 269, [http://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1080/14682745.2011.569147].
[52]Jón Ólafsson, „Þegar allt fór til andskotans. Viðbrögð og viðbragðaleysi í hruninu“, Lesbók Morgunblaðsins 25. júlí 2009.
[53]Ólafur Þ. Stephensen, „Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi“ (ritdómur), Stjórnmál og stjórnsýsla 2/2 (2006), [http://skemman.is/stream/get/1946/9029/23860/1/c.2006.2.2.1.pdf]
[54]Kristján B. Jónasson, „Bókin sem fréttamiðill“, 27. des. 2006, [http://kristjanb.blog.is/blog/kristjanb/entry/94222/].
[55]Sjá: Gooch, History and Historians in the Nineteenth Century, bls. 351. Sagnfræðingurinn sem Acton lávarður beindi spjótum sínum að var Mandell Creighton, höfundur verka um sögu páfanna frá öndverðu. Orð Actons eru svona á frummálinu: „He is not striving to prove a case or burrowing towards a conclusion, but wishes to pass through scenes of raging controversy and passion with serene curiosity, a suspended judgment, a divided jury and a pair of white gloves.“