Skip to Content

"Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu" (2006)

"Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu", Þriðja íslenska söguþingið 18-21. maí 2006 (Reykjavík 2006), bls. 434-445.

Stunduðu íslensk stjórnvöld símahleranir í kalda stríðinu? Þetta er stór spurning. Hennar hefur stundum verið spurt, allt frá því að Þjóðviljinn fullyrti snemma á þessum árum öfga og ótta að lögreglan hleraði síma forystumanna sósíalista, til órólegu áranna í kringum 1970 þegar ýmsir vinstrisinnar þóttust vissir um að hleranir ættu sér stað, og í raun til okkar daga því þessu hefur öðru hvoru verið haldið fram eftir að kalda stríðinu lauk. Aldrei hefur skýrra svara þó beinlínis verið krafist og stjórnvöld hafa aldrei viðurkennt að símar hafi verið hleraðir á þessu tímabili. Órækar sannanir hafa ekki heldur fundist en í þessu erindi er ætlunin að bæta úr því.

Sagan hefst í mars 1949. Mánudaginn 21. mars sneru þrír ráðherrar heim frá viðræðum í Washington um fyrirhugað varnarbandalag vestrænna ríkja. Þetta voru sjálfstæðismaðurinn Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, alþýðuflokksmaðurinn Emil Jónsson viðskiptaráðherra, iðnaðarráðherra og samgönguráðherra og framsóknarmaðurinn Eysteinn Jónsson menntamálaráðherra, kirkjumálaráðherra og flugmálaráðherra. Þeir lögðu eindregið til að Ísland gengi í bandalagið. Frá áramótum eða svo höfðu sósíalistar og hlutleysissinnar mótmælt þeim áformum og nú hitnaði í kolunum. Fimmtudagskvöldið 24. mars hélt Sósíalistaflokkurinn fjölmennan mótmælafund í Listamannaskálanum við Kirkjustræti. Næsta morgun gátu Reykvíkingar lesið frásögn Þjóðviljans af fundinum og einnig var látið að því liggja að enn öflugri mótmæli væru í vændum:

Fundurinn sýndi að þegar Bandaríkjalepparnir leggja hinn nýja landráðasamning fyrir Alþingi, munu Reykvíkingar tugþúsundum saman koma og mótmæla, til að hindra að hann verði gerður af þingmönnum – sem þjóðin mun sparka – heldur að málið verði lagt undir atkvæði þjóðarinnar allrar.[1]

 

Hverju var hótað? Laugardaginn 26. mars svaraði Morgunblaðið heitingum Þjóðviljans í nokkurs konar forystugrein á forsíðu: „Hér er ekki hægt um að villast. Kommúnistar hafa boðað uppreisn í landinu.“[2] Sjálfstæðismönnum sýndist ógnin augljós – og hart mætti hörðu. Í dómsmálaráðuneytinu var samið bréf til sakadómarans í Reykjavík, Valdimars Stefánssonar. Fyrst voru skrif Þjóðviljans rakin og bent á að þetta málgagn Sósíalistaflokksins hefði áður birt „greinar í hótunar stíl, þótt eigi hafi verið svo freklega að orði kveðið sem hér“. Síðan var komið að kjarna málsins:

Af hinum tilvitnuðu ummælum virðist mega ráða að tilætlunin sé sú að hindra Alþingi í störfum sínum að því er snertir þetta mál og heyra því hótanir blaðsins undir 11. kafla hegningarlaganna samanber 100. grein [um atlögu að Alþingi og gátu viðurlög verið lífstíðarfangelsi]. Ráðuneytið leggur ríka áherzlu á að reynt verði til hins ítrasta að upplýsa á hvern hátt framkvæmd þessara hótana er undirbúin og leggur því fyrir yður, herra sakadómari, að taka mál þetta þegar í stað til rannsóknar. Vill ráðuneytið í því sambandi beina því til yðar, hvort ekki þætti tiltækilegt að láta hlusta í símanúmerum forráðamanna Þjóðviljans og annarra þeirra er líklegt má telja að standi að þessum hótunum.[3]

 

Síðar þennan laugardag fékk sakadómari bréf ráðuneytis í hendur. Hann setti lögreglurétt og kvað upp svofelldan úrskurð:

Með tilliti til hins framlagða bréfs dómsmálaráðuneytisins og þar sem ætla má af hinum tilgreindu ummælum dagblaðsins Þjóðviljans, að áformað sé að hindra Alþingi í störfum sínum með ofbeldi, þykir rétt að ákveða, að hlustað skuli fyrst um sinn á símtöl þau, sem fram fara frá eftirtöldum símum hér í bænum og við þá, og efni þeirra ritað, lögreglunni til afnota: [16 símanúmer].[4]

Væntanlega hófust hleranir samdægurs, þó ekki væri nema vegna þess að næsta morgun, sunnudaginn 27. mars, sagði Þjóðviljinn: „víðtækar símahleranir eru hafnar, bæði hjá Þjóðviljanum og ýmsum „hættulegum“ einstaklingum.“[5] Hér má leiða líkur að því að einhver hjá lögreglunni hafi „lekið“ eða einhver úr röðum símamanna; þeir voru vissulega til þar sem voru á móti símahlerunum og studdu sósíalista að málum.

Alls var úrskurðað um hlerun í sextán símanúmer. Tvö þeirra tilheyrðu Sósíalistaflokknum og þrjú Þjóðviljanum. Hin voru í heimahúsum. Þar af voru þrjú á heimilum alþingismanna. Athygli vekur að dómsmálaráðuneytið og sakadómari studdust ekki beinlínis við fjarskiptalög frá 1941 og þá heimild til hlerana sem þar var að finna.[6] Úrskurðurinn var frekar í anda frumvarps til laga um meðferð opinberra mála sem Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra hafði lagt fram á Alþingi árið 1948. Það hafði ekki hlotið brautargengi en í því sagði: „Dómari getur úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota, enda varði brot minnst tveggja ára refsivist.“[7]

Helgina 26. til 27. mars hófust hleranir og miðvikudaginn 30. mars 1949 varð stóri slagurinn á Austurvelli þegar Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Lögregla og sjálfboðaliðar, flestir sjálfstæðismenn, börðust við andstæðinga aðildar; táragasi var beitt og það var líklega hrein heppni að enginn lét lífið. Daginn eftir var þó allt með kyrrum kjörum og Guðmundur Hlíðdal póst- og símamálastjóri fékk þá tilkynningu, frá sakadómara að því er virtist, að á miðnætti skyldi öllum símahlerunum hætt.[8] Svo fór þó ekki. Þeim var haldið áfram að eindreginni ósk ríkisstjórnarinnar.[9] Miðvikudaginn 6. apríl var númerum að vísu fækkað í níu og þremur dögum síðar ákvað sakadómari svo að öllum símahlerunum skyldi hætt.[10]

Koma hershöfðingja og herliðs 1951

Næst var leitað úrskurðar um hleranir í janúar 1951. Þá hafði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tekið við völdum af stjórn þeirra flokka og Alþýðuflokksins. Snemma í mánuðinum var tilkynnt að hingað til lands væri von á Dwight Eisenhower, yfirhershöfðingja NATO (og síðar forseta Bandaríkjanna). Þjóðviljinn mótmælti komu hershöfðingjans harðlega og lét að því liggja að þótt hann þyrfti ekki að óttast um líf sitt og limi myndi „óvild þjóðarinnar ... umlykja hann“.[11] Var hætta á ferðum? Í bréfi dómsmálaráðuneytis til sakadómara 17. janúar sagði að líklegt þætti „að kommúnistar hafi í hyggju að stofna til óspekta í sambandi við væntanlega komu Dwight Eisenhower“. Upplýsa þyrfti „á hvern hátt framkvæmd þessara óspekta er fyrirhuguð“ og lagði ráðuneytið því til að 15 símanúmer yrðu hleruð.[12]

Sakadómari féllst á að það yrði gert „fyrst um sinn“. Í þetta sinn var úrskurðað um hlustun í eitt símanúmer Þjóðviljans og annað hjá Sósíalistaflokknum, auk síma Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Bókabúðar Máls og menningar. Síðan var úrskurðað um hlerun hjá 11 einstaklingum, að því er næst verður komist og voru tveir alþingismenn í þeim hópi. Eisenhower kom síðan og fór. Ólíkt því sem gerðist 1949 felldi sakadómari ekki formlegan úrskurð í þetta sinn um það að hlerunum skyldi hætt. Það hlaut þó að hafa gerst eftir brottför hershöfðingjans; annars vegar vegna þess að aðgerðirnar áttu aðeins að vara „fyrst um sinn“ og hins vegar vegna þess að stuttu síðar var kveðinn upp nýr úrskurður um símahleranir.

Fyrst er þess að geta að í febrúar 1951 samþykkti Alþingi lög um meðferð opinberra mála; að stofni til frumvarpið sem hafði verið lagt fram þremur árum fyrr. Í lögunum var að finna þetta ákvæði: „Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsvert sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“ Það vekur nokkra furðu að engar umræður urðu á þingi um þessa heimild. Enginn mótmælti, ekki einu sinni sósíalistarnir sem þóttust vita fyrir víst að símar þeirra hefðu verið hleraðir árið 1949. Ég kann ekki skýringu á þessu eins og sakir standa.

Síðan leið ekki á löngu uns reyndi á nýju lögin. Vorið 1951 höfðu bandarísk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um það að bandarískt herlið sneri á ný til Íslands. Mánudagskvöldið 23. apríl var fundur í fulltrúaráði Sósíalistafélags Reykjavíkur í höfuðstöðvum sósíalista, að Þórsgötu 1 í Reykjavík. Í fundargerðarbók félagsins segir að rætt hafi verið um að 1. maí væri framundan. „Okkur [ber] að gera hann stóran dag“, sögðu fulltrúaráðsmenn.[13] Þennan dag eða daginn eftir, þriðjudaginn 24. apríl, var ekkert í Þjóðviljanum sem gaf til kynna að miklar æsingar væru í vændum. Þó höfðu lögregluyfirvöld komist að raun um eitthvað sem olli þeim ugg. Þriðjudaginn 24. apríl skrifaði dómsmálaráðuneytið sakadómara að lögreglan í Reykjavík teldi sig „hafa ástæðu til að ætla að friði og reglu geti stafað hætta af andstæðingum væntanlegra aðgerða í öryggismálum landsins“. Lagt var til að 25 símanúmer yrðu hleruð.[14] Daginn eftir var settur lögregluréttur og úrskurður kveðinn upp; heimildin var veitt og hlerað skyldi „fyrst um sinn“.[15]

Í þetta sinn var úrskurðað um hlustun í fjögur símanúmer Þjóðviljans, önnur fjögur hjá Sósíalistaflokknum og samtökum tengdum honum, og eitt símanúmer Dagsbrúnar. 16 heimasímar voru hleraðir; fjórir þeirra hjá alþingismönnum. Hinn 2. maí var síma eins þingmanns til viðbótar bætt við.[16] Laugardaginn 5. maí 1951 var varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna undirritaður og tvemur dögum síðar kom bandarískt herlið til landsins. Ekki er ljóst hvort símahlerunum linnti þann dag en ætla verður að það hafi verið þá eða næstu daga.

Landhelgissamningurinn 1961

Hvað gerðist næst í þessari sögu? Árin 1952 og 1955 urðu afar langvinn og erfið verkföll í landinu. Því hefur verið haldið fram að símar hafi þá verið hleraðir. Ég hef ekki fundið heimildir um það. Árið 1956 komst stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags til valda í landinu (Alþýðubandalagið var fyrstu árin kosningabandalag sósíalista og vinstri sinnaðra jafnaðarmanna sem klufu sig úr Alþýðuflokknum). Í árslok 1958 brast stjórnarsamstarfið en fyrr það ár hafði stjórnin afrekað að færa fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur sem leiddi til fyrsta þorskastríðsins við Breta.

Síðla árs 1960 var sú deila enn óleyst en þá var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks (Viðreisnarstjórnin) sest að völdum. Þegar hér var komið sögu hafði varnarliðið verið á Íslandi í nær áratug. Mótmæli andstæðinga þess höfðu lengst af verið frekar máttlaus. Sumarið 1960 fóru menn þó að sækja í sig veðrið. Keflavíkurganga var haldin í fyrsta sinn og í september voru Samtök hernámsandstæðinga stofnuð á Þingvöllum. Mánuði síðar gerðist það í Reykjavík að íslenskir og breskir embættismenn hófu samninga um lausn landhelgismálsins. Fyrsta verk Samtakanna nýju var að mótmæla þeim og hvers kyns undanslætti frá 12 mílunum.

Í lok febrúar 1961 lá fyrir samkomulag um lausn landhelgismálsins sem ráðamenn í Reykjavík og London gátu sætt sig við. En hvernig myndi almenningur taka því hér á landi? Var hugsanlegt að andstaðan yrði jafnmikil og við inngönguna í NATO árið 1949? Hinn 26. febrúar 1961 lagði dómsmálaráðuneytið til við sakadómara að 14 símar yrðu hleraðir. Rökstuðningurinn var þessi:

[Ó]ttast má að tilraunir verði gerðar til að trufla starfsfrið Alþingis á næstu dögum en þar verða til umræðu málefni, sem valdið hafa miklum deilum á þessu þingi og einnig valdið hótunum um ofbeldisaðgerðir, er til frekari meðferðar kemur á því, þannig að öryggi ríkisins geti stafað hætta af ...[17]

Sem fyrr féllst sakadómari á málaleitan dómsmálaráðuneytis. Þrjú þeirra símanúmera sem úrskurðað var um hlerun hjá tengdust Alþýðubandalaginu; þau voru hjá Sósíalistaflokknum, Sósíalistafélagi Reykjavíkur og Æskulýðsfylkingunni, ungliðasamtökum sósíalista. Þrjú númer voru skráð hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún. Sími Alþýðusambands Íslands, ASÍ, var einnig nefndur. Í þetta sinn var ekki hlerað hjá Þjóðviljanum en hins vegar var úrskurðað um hlerun í síma Samtaka hernámsandstæðinga.[18] Alþingi samþykkti svo landhelgissamninginn við Breta. Í þingsölum líkti stjórnarandstaðan honum við landráð en á þingpöllum og utan dyra var allt með kyrrum kjörum. Óeinkennisklæddir lögreglumenn munu þó hafa verið á ferli í þinghúsinu.[19]

Heimsókn Lyndons B. Johnson 1963

Segja má að símahleranir hefðu orðið mun færri á Íslandi í kalda stríðinu ef tignir gestir að utan hefðu látið vera að sækja landið heim. Í september 1963 var von á varaforseta Bandaríkjanna, Lyndon B. Johnson. Samtök hernámsandstæðinga ákváðu að nýta tækifærið og mótmæla erlendri hersetu á Íslandi. Þau vildu einkum láta í ljós harða andúð við áform um aukin hernaðarumsvif í Hvalfirði. Samtökin skrifuðu því lögreglustjóra fimmtudaginn 12. september að þegar varaforsetinn héldi af fundi í Háskólabíói hjá Varðbergi, félagi ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, hygðust þau afhenda honum mótmælaorðsendingu. Auk þess yrðu fluttar ræður í gjallarhorn og fánum komið fyrir við kvikmyndahúsið. „Samtök hernámsandstæðinga leggja höfuðáherslu á að þessi atburður fari fram með fyllstu kurteisi og friðsemd,“ sagði svo í bréfinu.[20]

Lögreglustjóri var efins um það og sömu sögu var að segja í dómsmálaráðuneyti. Samdægurs var skrifað bréf þar til yfirsakadómara (það embætti varð til síðla árs 1961) og því „beint til“ hans að heimilað yrði að hlusta á samtöl í sex símanúmerum vegna þess að óspektir gætu verið í vændum.[21] Sakadómur var strax settur. Heimildin var veitt því ætla mætti, eins og sagði í úrskurði yfirsakadómara, að óeirðir kynnu „að skaða öryggi ríkisins og að aðrar ófyrirsjáanlegar og skaðlegar afleiðingar gætu leitt af fyrir stjórnvöld landsins“. Í þetta sinn var úrskurðað um hlerun í einu símanúmeri Þjóðviljans, einu hjá Sósíalistaflokknum og öðru hjá Sósíalistafélagi Reykjavíkur. Sími hernámsandstæðinga var nefndur í úrskurðinum og sími tveggja einstaklinga. Annar þeirra var alþingismaður.[22]

Lögreglustjóri brá líka á það ráð næsta dag, 13. september, að banna fyrirhuguð fundahöld Samtaka hernámsandstæðinga við Háskólabíó. Forsvarsmenn þeirra sögðu aftur á móti að samtökin ættu skýlausan rétt samkvæmt stjórnarskránni að halda útifund. Þeir tilkynntu þó að hvorki yrðu fluttar ræður né gjallarhorn nýtt og laust fyrir örlagadaginn 16. september náðu þeir og lögregluyfirvöld þeirri málamiðlun að autt svæði yrði milli Háskólabíós og Hótel Sögu, og skyldu hernámsandstæðingar safnast saman norðan þess. Síðan myndi fulltrúi þeirra afhenda varaforsetanum mótmælaorðsendingu á þessu einskis manns landi. Svo fór að vísu ekki þegar á reyndi og allt fór í eina þvögu; Varðbergsmenn og hernámsandstæðingar lentu í stimpingum en einhvern veginn tókst þó að færa Johnson mótmælin.[23] Flaug hann svo heim á leið og næstu ár dofnaði mjög yfir starfi hernámsandstæðinga. Í þessari sögu sem hér er sögð gerðist ekkert í frásögur færandi fyrr en átakaárið mikla, 1968.

Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins 1968

Um þessar mundir var Æskulýðsfylkingin, eða Fylkingin í daglegu tali, orðin öflugri en hún hafði verið mörg undanfarin ár; hún var að verða „aktívari“. Sunnudagurinn 26. maí 1968 var sjómannadagur á Íslandi og jafnframt „H-dagur“ þegar skipt var yfir í hægri umferð á Íslandi. Lögregla hafði því í nógu að snúast og í ofanálag voru herskip nokkurra NATO-ríkja komin í kurteisisheimsókn til Reykjavíkur. Fylkingarfélagar tóku sig til ásamt fleirum, máluðu slagorð á skipin og kom til nokkurra ryskinga. Stjórnvöldum fannst þetta ekki lofa góðu því í lok júní stóð til að halda hér utanríkisráðherrafund NATO-ríkjanna og 30. maí gat að líta þessa klausu í Þjóðviljanum: „Samtök hernámsandstæðinga: miðnefnd samtakanna efnir til fundar í kvöld kl. 8:30 í Aðalstræti 12. Dagskrá: Mótmælaaðgerðir vegna ráðherrafundar Nató. – Framkvæmdanefnd.“[24] Á fundinum kom fram sá vilji að efna til mótmæla „í einni eða annarri mynd“ og við því vildu stjórnvöld bregðast.[25] Í dómsmálaráðuneytinu var bréf samið og sent yfirsakadómara:

Í síðari hluta þessa mánaðar verður haldinn í Reykjavík ráðherrafundur Norður-Atlanzhafsbandalagsins og hafa borizt út ákveðnar fregnir af því að hafinn sé undirbúningur að því að stofnað verði til óeirða vegna fundahaldanna, ef til vill með þátttöku sérþjálfaðra erlendra aðila. Þykir því brýn nauðsyn vegna almannaöryggis að úrskurðað verði um hlustun í eftirtalin símanúmer í Reykjavík, til þess að unnt verði að komast að fyrirætlunum um lögbrot er varða öryggi ríkisins.[26]

 

Illt var í efni ef von var sérþjálfaðra óróaseggja. Einhvern veginn hafði lögreglan komist á snoðir um það að grískir útlagar, sem höfðu flúið land þegar hópur herforingja rændi völdum í landi þeirra ári áður, væru væntanlegir og hygðust halda uppi mótmælum þar sem gríski utanríkisráðherrann væri nærri.

Nú bar svo við að úrskurður yfirsakadómara fékkst ekki um leið og hans var beðið. Þessu olli fjarvera hans en 8. júní kvað hann upp þann úrskurð að til og með 27. júní – degi eftir ráðherrafundinn – mætti hlera 17 símanúmer því ætla mætti „að í sambandi við þennan fund geti komið til atferlis, sem skaðað gæti öryggi ríkisins eða á annan hátt varðað við 88. eða 95. gr. almennra hegningarlaga ...“.[27]

Þær greinar voru í Landráðakafla laganna og var 88. greinin svohljóðandi:

Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið eða hlutist til um málefni þess, svo og hver sá, er veldur hættu á slíkri íhlutun með móðgunum, líkamsárásum, eignaspjöllum og öðrum athöfnum, sem líklegar eru til að valda slíkri hættu, skal sæta varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum. Ef brot þykir mjög smávægilegt, má beita sektarhegningu.

95. grein hegningarlaganna hljóðaði svo: „Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum, ef miklar sakir eru.“

Tvö þeirra númera sem úrskurðað var um hlerun í voru hjá Sósíalistaflokknum (Alþýðubandalaginu) og eitt hjá Dagsbrún, Samtökum hernámsandstæðinga, Þjóðviljanum, Æskulýðsfylkingunni og MÍR, menningartengslum Íslands og ráðstjórnarríkjanna. Svo voru tíu heimasímar tilteknir, þar af tveir á heimilum alþingismanna.[28]

Mánudaginn 24. júní var utanríkisráðherrafundur NATO settur í Háskólabíói. Fyrir utan mótmæltu Fylkingarfélagar og aðrir. Að setningarathöfn lokinni héldu ráðherrar að aðalbyggingu Háskólans. Mótmælendur höfðu fengið leyfi til þess að halda fund í Vatnsmýrinni og ganga þangað frá Hagatorgi, um Suðurgötu og svo niður Hringbrautina. En þegar þeir komu að trjágöngunum frá þeirri götu að aðalbyggingunni sáu þeir að við þau var engin gæsla. Freistingin var of mikil; hægri beygja var tekin og andófsmenn settust á tröppur aðalbyggingarinnar með spjöld sín og skilti, hrópandi slagorð gegn NATO, Víetnamstríðinu og herforingjunum í Grikklandi. Laganna vörðum fannst þeir illa sviknir og þarna urðu ryskingar. Lögreglu tókst þó að ryðja tröppurnar og friður komst á.[29] Segir svo ekki meira hér af þessum átökum annað en það að væntanlega var símahlerunum hætt 27. júní eins og kveðið var á um.

Rogers, Nixon og Pompidou, 1972-73

Í hönd fóru enn fleiri átök milli lögreglu og mótmælenda; Þorláksmessuslagurinn frægi 1968, kröftug mótmæli við sendiráð Bandaríkjanna og aðrar aðgerðir næstu ár. Og vorið 1972 var enn von á áhrifamanni í heimsókn. Í byrjun maí var William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, staddur hér á landi. Ætlunin var meðal annars að hann heimsækti Árnagarð og skoðaði þar handritin.

Róttækar stúdentar ákváðu að við það mætti ekki una og Fylkingarfélagar voru sama sinnis. Fólk var hins vegar sannfært um að lögreglan hleraði síma svo ekki var rætt um þau áform heldur var krókur látinn koma á móti bragði, að því er sagan segir. Símtal var sett á svið og haft á orði að því miður væru stúdentar svo latir, í próflestri, eða forfallaðir að öðru leyti að ekki verði hægt að efna til mótmæla. Í raun fylltu stúdentar og aðrir mótmælendur svo hvern krók og kima í Árnagarði. Þegar Rogers mætti þar spratt fólkið fram og meinaði honum og fylgdarliði inngöngu.

Þetta þótti mikill sigur og „símaplottið“ hefur lengi verið í minnum haft. Ég hef hins vegar engar heimildir séð um það að úrskurður hafi verið kveðinn upp um símahleranir út af heimsókn Rogers. Menn sem til þekkja um þau mál minnast þess ekki heldur að þá hafi verið gripið til slíkra ráða, og muna þeir þó aðra atburði í þessari sögu vel. Og skemmst er frá því að segja að eftir ráðherrafundinn sumarið 1968 var ekki kveðinn upp úrskurður um símahleranir vegna öryggis ríkisins til ársins 1976, þess árs sem minni rannsókn lýkur.

Þetta stemmir ekki við sannfæringu margra þeirra sem voru í eldlínunni í þeirri róttæknibylgju sem reis á Íslandi frá árinu 1968 og fram á miðjan áttunda áratug síðustu aldar eða svo. Ýmsir í þeim hópi hafa alla tíð verið vissir um að kerfisbundnar símahleranir hafi verið stundaðar hér. Þeir hafa til dæmis bent á að í lögreglustöðinni við Hverfisgötu, sem komst í fulla notkun snemma á áttunda áratugnum, hafi símahleranir verið hægðarleikur vegna þess að Almannavarnir voru þar líka til húsa með sérstakan neyðaraðgang að símkerfinu. Í nýju stöðinni mun hafa verið aðstaða til símahlerana en sú mun líka hafa verið raunin í þeirri gömlu við Pósthússtræti.

Þar að auki standast sumar þeirra vísbendinga um símahleranir, sem fólk þóttist heyra, örugglega ekki; að það hefði heyrst andardráttur á línunni, bergmál eða sífelldir skruðningar. Ekki er unnt að fullyrða að sama tækni hafi alltaf verið viðhöfð en leiða má líkur að því að við flestar þær símahleranir, sem hér hefur verið greint frá, hafi verið stuðst við segulband. Vera má að böndin hafi tekið upp látlaust en einnig er hugsanlegt að þau hafi farið í gang við hringingu, eða þegar sá eða sú, sem hringt var í, lyfti upp símtólinu og straumur komst á línuna. Útvaldir lögregluþjónar, sem lögreglustjórinn í Reykjavík og dómsmálaráðherra báru fullt traust til, sáu um að hlusta á samtöl og símnotandi átti ekkert að heyra. Skruðningar og önnur aukahljóð þurftu alls ekki að fylgja símahlerunum.

Niðurstöður

Það liggur beint við að spyrja hvers yfirvöld urðu vísari við hleranirnar? Svarið er einfalt: Við fáum nær örugglega aldrei að vita neitt um það. Öllum gögnum um þessar lögregluaðgerðir mun hafa verið eytt; í síðasta lagi árið 1977. Einnig verður að spyrja: Voru þær símahleranir, sem hér hefur verið greint frá, löglegar, eða réttlætanlegar? Eru hleranir það einhvern tímann? Vorið 2006 fjallaði Morgunblaðið í forystugrein um fregnir af símtalaskráningu í Bandaríkjunum og gagnrýndi þær. „Auðvitað kemur engum við hver hringir í hvern,“ sagði blaðið: „Það kemur engum við hver talar við hvern.“[30]

Það er vissulega hægt að halda því fram að símahleranir undir því yfirskini að öryggi ríkisins sé í voða séu pólitískar njósnir og eigi aldrei rétt á sér. Það er sjónarmið í sjálfu sér. Á hinn bóginn er hægt að benda á að landslög leyfðu, og leyfa enn, símahleranir við ákveðnar kringumstæður. Í forystugrein Morgunblaðsins, sem minnst var á, var einmitt tekið fram að það geti reynst nauðsynlegt að hlera símtöl „vegna fíkniefnarannsókna og vegna baráttunnar við hryðjuverkamenn“. Einföld svör – já eða nei – duga að mínu mati ekki við þeirri spurningu hvort þær símahleranir, sem hér hefur verið greint frá, hafi átt rétt á sér. Við verðum líka að hafa í huga þann tíðaranda sem sveif yfir. Þetta voru ár óttans, ár öfga, jafnvel ár haturs. Við vorum í hita kalda stríðsins.

Í upptalningunni á dómsúrskurðum um símahleranir hér á undan einsetti ég mér að skýra aðeins frá staðreyndum sem ekki yrði deilt um. Núna ætla ég að leggja mitt mat á þær. Það getur verið að ég skipti síðar um skoðun að einhverju leyti, einkum ef okkur tekst að afla frekari upplýsinga um þessi efni, en þetta er það sem ég álít núna. Það getur líka vel verið að fólk verði mér ósammála, einkum ef það hefur ákveðnar skoðanir á þessum málum. Og það er auðvitað alveg sjálfsagt.

Að mínu mati var það verjandi að hlera síma þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið árið 1949. Heiftin var það mikil, heitingar Þjóðviljans það harðorðar, að mér sýnist stjórnvöld hafa haft réttmæta ástæðu til að ætla að Alþingi yrði hindrað í störfum sínum. Hleranirnar árið 1951 – fyrst þegar Eisenhower kom og svo bandarískt herlið – verður líka að sjá í því ljósi að kalda stríðið var í algleymingi. Sumarið áður höfðu herir kommúnista í Norður-Kóreu ráðist suður yfir landamærin svo Kóreustríðið blossaði upp. Yfirmenn öryggismála á Íslandi nutu leiðsagnar Bandaríkjamanna og ráðfærðu sig einnig við starfsbræður í Noregi og Danmörku. Mér finnst líklegt að þeir hafi fengið þau skilaboð að símahleranir væru illnauðsynlegt öryggistæki í baráttunni við heimskommúnismann. Og ekki vantaði íslenska sósíalista þá sannfæringu á þessum árum að þeir gætu þurft að beita ofbeldi í nafni hugsjónanna. Hatrammir andstæðingar þeirra höguðu sér eftir því.

Ég tel aftur á móti að þær hleranir sem fram fóru þegar Alþingi fjallaði um landhelgissamninginn við Breta árið 1961 orki tvímælis. Engar vísbendingar voru um undirbúning fjöldamótmæla eins og 1949, og þarna var heimilað að hlera síma fjögurra alþingismanna á sama tíma og þingið hafði mikilvægt málefni til umfjöllunar. Slíkar hleranir nálgast jafnvel pólitískar njósnir.

Símahleranirnar í september 1963, þegar Lyndon B. Johnson kom til landsins, má setja í víðara samhengi kalda stríðsins. Í upphafi ársins hafði orðið uppvíst um klaufalega tilburði sovéskra KGB-manna að fá íslenskan mann til að njósna fyrir sig og æðstu ráðamenn íslenskra öryggismála þóttust sjá að fyrst andstæðingarnir beittu svona aðferðum væri þeim leyfilegt að beita öllum þeim vörnum sem lögin leyfðu. En óneitanlega virðist líka óþarft, eða að minnsta kosti óvenju harkalegt, að grípa til þess örþrifaráðs sem símahleranir hljóta að vera vegna mótmæla sem áttu í alla staði að vera friðsamleg. Réð kannski einhverju að valdhafar og lögregluyfirvöld voru staðráðin í að sýna hinum tigna gesti að hér væri allt í röð og reglu?

Í öll þessi skipti sem ég hef rakið má deila um það hjá hverjum var hlerað. Það vekur þannig upp alvarlegar spurningar að árið 1968 er úrskurðað um hlerun í heimasíma tveggja þingmanna. Ljóst mátti vera að þeir höfðu engar óspektir í hyggju.

Nú er komið að lokum þessa erindis. Við upphaf Söguþingsins flutti fræðikonan Liz Stanley frábært erindi um tengsl staðreynda og túlkunar í sagnfræðirannsóknum.[31] Í áraraðir hefur hún grúskað í skjölum um Búastríðið í Suður-Afríku og velt fyrir sér hvernig fólk minnist þess hildarleiks. Hún gerði sér grein fyrir því að frásagnir fólks og rannsóknir hennar hafa verið byggðar á einstaklingsbundinni skynjun, og margt gerðist sem við getum aldrei sagt frá síðar. En aðrar staðreyndir lifa, óhrekjanlegar og óumdeilanlegar. Stanley gat staðið þar sem fangabúðir höfðu verið og þúsundir látið lífið, og hún gat sagt: Þetta gerðist og þeir sem halda öðru fram segja ósatt. Og þeir sem halda því fram að í sagnfræði geti enginn sannleikur falist, aðeins túlkanir okkar sem á eftir komum, ættu að hafa í huga að ef það er enginn sannleikur til þá er ekki heldur til nein lygi; og hverjir græða á því nema lygararnir?

Við höfum núna í áratugi verið án órækra sannana um símahleranir á Íslandi þótt þær hafi átt sér stað og ýmsa hafi grunað sitt. Er öll sagan sögð? Þeirra spurningu verður ekki svarað núna, og eflaust aldrei, en það sem hér hefur komið fram er satt. Þetta gerðist.


[1]Þjóðviljinn, 25. mars 1949.

[2]Morgunblaðið, 26. mars 1949.

[3]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 26. mars 1949.

[4]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík 26. mars 1949.

[5]Þjóðviljinn, 27. mars 1949.

[6]Í 2. mgr. 19. gr. þeirra sagði: „Veita [má] lögreglunni aðgang að því að hlusta á símasamtöl, þegar öryggi landsins krefst þess eða um mikilsverð sakamál er að ræða, enda hafi dómsmálaráðherra í hvert skipti fellt skriflegan úrskurð um, að svo skuli gert og um hvaða tímabil.“ Sjá Stjórnartíðindi 1941, A, bls. 46-47.

[7]Alþingistíðindi 1948, A, bls. 36.

[8]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. FB/4. Tilkynning til póst- og símamálastjóra, 31. mars 1949.

[9]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík 2. apríl 1949.

[10]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík 8. apríl 1949, og tilkynning til póst- og símamálastjóra, 9. apríl 1949.

[11]Þjóðviljinn, 21. janúar 1951.

[12]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 17. janúar 1951.

[13]Lbs. Gögn Sósíalistafélags Reykjavíkur. Askja IV. Fundargerðabók stjórnar fulltrúaráðs Sósíalistafélags Reykjavíkur, 1950-53. Fulltrúaráðsfundur 23. apríl 1951.

[14]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 24. apríl 1951.

[15]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík, 25. apríl 1951.

[16]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 2. maí 1951, og lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík, 2. maí 1951.

[17]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 26. febrúar 1961.

[18]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík, 26. febrúar 1961.

[19]Þjóðviljinn, 11. mars 1961.

[20]Lbs. Gögn samtaka hernámsandstæðinga. „Herstöðvaandstæðingar – ýmsar möppur I-XII“. Samtök hernámsandstæðinga til lögreglustjórans í Reykjavík, 12. september 1963.

[21]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til yfirsakadómarans í Reykjavík, 12. september 1963.

[22]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Úrskurður yfirsakadómara, 12. september 1963.

[23]Morgunblaðið og Þjóðviljinn, 17. september 1963.

[24]Þjóðviljinn, 30. maí 1968.

[25]Lbs. SH. „Herstöðvaandstæðingar – ýmsar möppur I-XII“. Gerðabók miðnefndar. Miðnefndarfundur, 30. maí 1968.

[26]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til yfirsakadómarans í Reykjavík, 1. júní 1968.

[27]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Úrskurður yfirsakadómara, 8. júní 1968.

[28]Sama heimild.

[29]Morgunblaðið og Þjóðviljinn, 25. júní 1968.

[30]Morgunblaðið, 14. maí 2006 (forystugrein).

[31]Liz Stanley, „Through a glass, darkly: interpretational possibilities and pitfalls in reading the past“. Erindi á Þriðja íslenska söguþinginu, 18. maí 2006.



Drupal vefsíða: Emstrur