Skip to Content

"Leitin að sannleik um símhleranir" (2006)

Leitin að sannleik um símhleranir. Smásaga úr lífi sagnfræðings. Hugvísindaþing Háskóla Íslands, 4. nóvember 2006.

Senn kemur út bók sem ég hef verið að skrifa með hléum undanfarin ár. Hún er um eftirlit með róttækum öflum í kalda stríðinu á Íslandi og ég ætla að rekja hér aðeins söguritunina, einkum þann hasar sem hefur verið út af upplýsingum um símahleranir sem ég kynnti fyrr á þessu ári.

Hugmyndin bókinni vaknaði í ársbyrjun 2003 þegar ég rakst á skýrslu á breska þjóðskjalasafninu frá árinu 1972 um íslenska „öryggisþjónustu“. Þar var að finna lýsingu á kerfisbundinni skráningu alls kyns upplýsinga um íslenska „kommúnista“. „A detailed and efficient card index,“ sögðu Bretarnir meðal annars.[1]

Sumarið 2003 hófst ég handa við frekari rannsóknir hér heima á Íslandi. Þótt rangt væri að segja að mér hafi staðið allar dyr opnar virtist enginn reyna að leggja stein í götu mína. Sumarið eftir, eða þar um bil, var staðan orðin sú að ég hafði heimildir fyrir því, eins og ég greindi reyndar skýrlega frá í viðtali í Fréttablaðinu á þeim tíma, að einhvers konar „öryggisdeild“ hjá lögreglunni í Reykjavík hefði fylgst með „kommúnistum“ og haldið einhvers konar spjaldskrá um þá. Ekki vakti það þó mikla athygli! En ég var líka farinn að halda að símar hefðu verið hleraðir. Það hlaut að hafa verið hluti eftirlitsins.

Þegar ég hóf mína leit að heimildum um símahleranir ræddi ég við fólk hjá hinu opinbera sem ætla mátti að hefði kannski átt hlut að máli. Sumir sem höfðu frá einhverju að segja voru tregir til. Þar að auki gat leikið vafi á að menn mættu yfirleitt upplýsa um það sem þeir höfðu gert og komist að í starfi sínu. Svo ræddi ég auðvitað við þá sem höfðu verið í andófi og mótmælum á sínum tíma; herstöðvaandstæðinga, Fylkingarfélaga og fleiri.[2]

Munnlegar heimildir gátu þó ekki dugað einar og sér. Var mögulegt að finna skrifleg gögn um símahleranir á Íslandi. Það var stóra spurningin. Og hvar þá? Frá árinu 1941 hefur verið til staðar heimild í lögum til símahlerana; frá árinu 1951 í lögum um meðferð opinberra mála og var lagagreinin svohljóðandi: „Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsvert sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“[3]

Sem sagt, ef farið var eftir lögum um hleranir þurfti úrskurð dómara til. Þeir úrskurðir hefðu verið kveðnir upp fyrir luktum dyrum, en færðir til bókar. Sú dómabók lægi væntanlega annað hvort hjá dómstólum eða á Þjóðskjalasafni. Það sakaði ekki að spyrja að því. Ég gerði það; bæði á safninu og hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, arftaka Sakadóms Reykjavíkur sem hefði úrskurðað um símahleranir á sínum tíma.

Og nú hljóp á snærið! Flutningur skjala frá Héraðsdómi til Þjóðskjalasafns var í bígerð og 7. janúar 2005 var mér sagt að þar gæti verið að finna þær heimildir sem ég leitaði að. Starfsfólk safnsins hefur alla tíð verið mér mjög hjálplegt;. Nú, Rík fræðileg rök þyrftu þó að vera til þess að hleranagögnin yrðu gerð aðgengilegar, með ströngum skilyrðum. Við það var ekkert að athuga og ég samdi – með aðstoð lögfræðings og vinar, Guðjóns Ólafs Jónssonar alþingismanns – ítarlega greinargerð – sjö blaðsíður – þar sem raktar voru hugsanlegar takmarkanir á aðgangi, ákvæði laga og reglna um heimild til aðgangs og fræðileg rök fyrir heimild til aðgangs.[4]

Í greinargerðinni sagði meðal annars um persónuvernd: „Sjálfsagt virðist ... að aðgangur að þeim gögnum, sem sótt er um, verði þannig skilyrtur að nöfn þeirra, sem í hlut eiga, verði ekki gerð opinber, nema með skriflegu samþykki þeirra.“

Um miðjan mars 2005 voru gögn um símahleranir flutt sérstaklega frá Héraðsdómi Reykjavíkur til Þjóðskjalasafns Íslands að beiðni minni. Síðan var hringt til mín og sagt að ég gæti haldið á safnið og litið á þau þegar ég vildi. Ég lét ekki segja mér það tvisvar.

Sjaldan hef ég verið jafnspenntur í mínu sagnfræðigrúski og mánudagsmorguninn 21. mars 2005. Þá var ég kominn upp á Þjóðskjalasafn og trúði vart eigin augum þegar ég fletti „Lögregluþingbók 249“, með þéttskrifuðum síðum sem náðu í tíma talið allt til ársins 1976. Þarna voru þeir hver á eftir öðrum, dómsúrskurðir um símahleranir í kalda stríðinu, 1949, tveir árið 1951, aftur árið 1961, 1963 og loks 1968.

Þegar ég var búinn að fá aðgang að dómsúrskurðunum (og skrifa þá alla upp í tölvu ásamt beiðnum og fylgiskjölum; ljósritun var óheimil) hélt ég áfram að leita upplýsinga hjá heimildarmönnum og vinna á annan hátt að þessari rannsókn.

Í upphafi þessa árs var ég kominn með það mikið efni að ég þóttist geta gefið út litla bók um símahleranir og flutt um leið fyrirlestur á Söguþingi sem var haldið í vor sem leið. Ég náði öðru, en hinu ekki. Þar skipti miklu að ég tók að mér að skrifa yfirlitsrit um sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna; og náði einfaldlega ekki að ljúka við bókina um hleranirnar sem óx líka mjög í meðförum mínum. Ég vildi ekki aðeins segja frá símahlerunum heldur reyna að setja þær í samhengi.

Mér þótti í fyrstu dálítið súrt þegar ég sá fram að ná ekki að ljúka við símahleranabókina um leið og ég flytti fyrirlestur á Söguþingi; en það varð að hafa það og ég sá líka fyrir mér að eftir fyrirlesturinn myndi verða unnt að segja meira í bók, því Þjóðskjalasafn hélt enn fast í þá stefnu sína að ekki mætti nefna nöfn fólks sem hafði verið úrskurðað um hleranir hjá. Ég skildi afstöðu safnsins þá en benti líka á að það væri fólkið sjálft, sem var hlerað hjá, sem ætti rétt á að vita það, og ákveða í framhaldinu um eigin nafnleynd eður ei. Þetta var rætt fram og aftur, í mestu vinsemd, og niðurstaðan varð sú að ég mætti nefna þær stofnanir sem úrskurðað var um hleranir hjá; Þjóðviljann, Sósíalistaflokkinn, Mál og menningu, ASÍ og svo framvegis, og fjölda þingmanna hverju sinni. Gott og vel, en ég skrifaði líka til safnsins, 5. maí síðastliðinn:

„Upplýsingar um símahleranir eru óhjákvæmilega þess eðlis að um þær verður mikið rætt. Mér þykir líklegt að fjölmiðlar muni leita eftir upplýsingum um nöfn þeirra sem hlerað var hjá, eða að hið opinbera ákveði rannsókn á símahlerunum. Það verður líka að hafa í huga í þessu sambandi. Og í sambandi við símahleranir snýst nafnleynd ekki um að vernda einhverja sem vilja alls ekki að nöfn verði birt því það valdi ama og sársauka; miklu frekar á það fólk sem var hlerað hjá rétt á að vita að símar þess voru hleraðir.“

Sunnudaginn 21. maí flutti ég svo erindi á söguþingi, Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu. Ég rakti þar alla dómsúrskurðina frá 1949 og 1968, og ætla ekki að gera það aftur hér.

Þessar upplýsingar vöktu athygli, eins og búist var við,[5]En hvað myndi gerast næst? Ég sá ekki fyrir mér þá atburðarás sem við höfum upplifað síðustu mánuði. Hefði ég fengið að ráða hefði hún orðið öðruvísi. Og í nokkra daga eftir að ég flutti erindið hélt ég reyndar að ég fengi að ráða, ef svo má að orði komast. Ríkisstjórn og Alþingi þurftu augljóslega að bregðast við því á einhvern hátt að fram voru komnar heimildir um símahleranir í kalda stríðinu. Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra og í vikunni eftir flutning erindisins bað hann mig um að koma á sinn fund; og í framhaldi af því að leggja fram tillögur um hvernig haga skyldi opinberri rannsókn á símahlerunum í kalda stríðinu. Ég setti þær saman að bragði og nefni hér það helsta; stytt hér og þar.

Reykjavík, 25. maí 2006

Rannsókn á símahlerunum í kalda stríðinu

Minnisblað til Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra að beiðni hans

Útdráttur

Lagt er til að fram fari opinber rannsókn í ljósi nýrra upplýsinga um símahleranir íslenskra stjórnvalda í kalda stríðinu.

Í fyrsta lagi verði rannsakaðar símahleranir á vegum stjórnvalda 1945-1976. Leitað verði skriflegra og munnlegra heimilda um umfang þeirra og skýrslu skilað fyrir 1. október 2006, enda skynsamlegt að svara sem fyrst þeim spurningum sem hafa vaknað um umfang símahlerana.

Í öðru lagi verði strax hafinn undirbúningur að umfangsmikilli rannsókn á stöðu Íslands í kalda stríðinu. Rannsóknin dragi dám af svipuðum rannsóknum sem fram hafa farið annars staðar á Norðurlöndum eftir endalok kalda stríðsins og verði í umsjón íslenskra háskólastofnana.

Tillaga að verklýsingu vegna rannsóknar á símahlerunum

Skipaður verði hópur þriggja sagnfræðinga til rannsókna á símahlerunum. Einn þeirra verði formaður hópsins og í fullu starfi; hinir tveir í hálfu starfi. Þriggja manna ráðgjafarnefnd verði skipuð sem fylgist með starfi hópsins og leitist við að veita þá aðstoð sem hann fer fram á. ... Hópurinn hefji störf 1. júní 2006 og skili skýrslu sem gerð verði opinber ekki síðar en 1. október 2006.

Þess skal vænst að í skýrslu rannsóknarhópsins komi fram eins skýr svör og unnt er við eftirfarandi spurningum:

-          Hve oft féllu dómsúrskurðir um símahleranir í þágu öryggis ríkisins á tímabilinu?

-          Hvaða rökstuðningur fylgdi beiðni stjórnvalda um símahleranir?

-          Fóru símahleranir fram án dómsúrskurðar?

-          Hjá hverjum var hlerað?

-          Hvernig og hvar fóru símahleranir fram?

-          Hverjir tóku þátt í þeim?

-          Skiluðu hleranirnar árangri að mati þeirra sem stóðu að þeim?

-          Hverjir fengu aðgang að þeim gögnum sem öfluðust við símahleranir?

-          Hvernig voru þau gögn geymd?

-          Hvað varð um þau gögn?

Í lokaskýrslu verða nöfn þeirra, sem hlerað var hjá, ekki birt heldur verði þeim eða nánustu ættingjum tilkynnt það og þeim í sjálfsvald sett hvort sú vitneskja verði gerð heyrinkunn eða ekki.

Starfsskilyrði

Eftirtalin skilyrði þarf að uppfylla svo rannsóknin skili tilætluðum árangri:

-          Fullur aðgangur þarf að fást að skriflegum gögnum í ráðuneytum, skjalasöfnum, öllum lögregluembættum og öðrum stofnunum (þar með talið Símanum), auk dómstóla. Æðstu stjórnvöld þurfa að staðfesta það skriflega.

-          Fyrrverandi lögregluþjónar, símamenn og aðrir sem hugsanlega komu við sögu þurfa að fá skjalfesta staðfestingu stjórnvalda á því að þau æski þess að þeir tjái sig um rannsóknarefnið. Þeir þurfa að fá fullvissu æðstu stjórnvalda fyrir því að frásagnir þeirra brjóti ekki í bága við trúnaðareið þeirra.

-          Íslensk lögregluyfirvöld og starfsmenn ráðuneyta þurfa að aðstoða við öflun upplýsinga erlendis, einkum hjá lögregluyfirvöldum í Noregi og Danmörku.

Forsætisráðherra fannst þetta skynsamleg leið; ég hitti embættismenn í forsætisráðuneyti, undirbúningur var hafinn að því að starfshópurinn yrði staðsettur þar og ég var farinn að sjá fram á spennandi sumarvinnu. Má auðvitað segja að þetta hafi verið viss óvífni því ég tók fram á að ég hefði áhuga á að sinna þessu; en mér til varnar vil ég segja að þessi rannsókn átti aðeins að snúast um símahleranir á vissu tímabili og ég vissi satt að segja ekki til þess að aðrir hefðu verið að rannsaka þá sögu Íslandi; en það hefði auðvitað vel getað komið til greina að auglýsa bara eftir fólki til að sinna þessu; ég hefði sótt um.

Nú, svo kom babb í bátinn. Í fyrsta lagi þótti ljóst að setja þyrfti lög til að aflétta trúnaðarskyldu embættismanna og í öðru lagi naut þessi útfærsla ekki endilega fulls stuðnings þegar á reyndi.

Þess í stað var sú leið farin sem raun ber vitni. Hinn þriðja júní síðastliðinn ályktaði Alþingi – einum rómi nota bene – að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd „til að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim“. Nefndin á að skila skýrslu um störf sín fyrir lok þessa árs. Fjórða október voru svo samþykkt á Alþingi lög um frjálsan aðgang nefndarinnar að gögnum um öryggismál Íslands. Í lögunum sagði jafnframt: „Þrátt fyrir lögmælta þagnarskyldu er öllum opinberum starfsmönnum skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands“

Þetta er allt gott og blessað. Lengi lifi frjáls aðgangur fræðimanna að gögnum! Í nefndinni er sómafólk og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur úr starfi nefndarinnar.  Það verður líka fróðlegt að sjá hvernig fyrirbærið „fræðimaður“ verður skilgreint, og hvað með þá sem var úrskurðað um hlerun hjá? Við höfum orðið vitni að því undanfarna mánuði að ýmsir hafa reynt að sækja rétt sinn í þeim efnum; og tekist það undir það síðasta; þá á ég auðvitað við Kjartan Ólafsson og Ragnar Arnalds. Ég veit að ýmsir fleiri hafa undanfarna daga og vikur sent Þjóðskjalasafni fyrirspurnir eða verið að undirbúa það. Sjálfum finnst mér að stjórnvöld – ekki Þjóðskjalasafn því það hvílir engin tilkynningaskylda á því – eigi að taka af skarið og tilkynna öllum sem úrskurðað var um hlerun hjá, að það hafi verið gert (nánustu ættingjum ef svo ber undir). Það er siðferðislega rétt; það er skynsamlegt til að afstýra dómsmálum, og þótt lög eigi ekki að vera afturvirk væri það líka í samræmi við núgildandi ákvæði um símahleranir. Í lögum um meðferð opinberra mála segir:

„Þegar aðgerð skv. 86. gr. [það er hlerun] er lokið skal þeim sem aðgerð beinist að … birtur úrskurður um hana eða tilkynnt hún og skal það gert svo fljótt sem verða má, þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins“

Sjálfur veit ég auðvitað hjá hverjum var úrskurðað um hlerun hjá; það eru að vísu tvö eða þrjú númer árið 1968 sem er erfitt að henda reiður á, en hitt liggur allt ljóst fyrir. Fyrir utan þetta síðasta skipti voru það helst þingmennSósíalistaflokksins og það væri augljóslega rökrétt að álykta að að hinir einstaklingarnir hafi væntanlega tengst þeim stofnunum sem var hlerað hjá; Þjóðviljanum, ASÍ og svo framvegis.

Ég veit að þessi spurning hér hlýtur að vakna: Var það til fyrirmyndar að ég fékk að sjá þessi nöfn? Ég kom ekkert við sögu! Var það kannski stjórnarskrárbrot? Þannig hefur Kjartan Ólafsson skilið þau orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að hann megi ekki sjá þessar upplýsingar vegna ákvæða stjórnarskrár um persónuvernd.

Ég get sagt það eitt að ég hlaut að mega sækja um aðgang að opinberum gögnum. Var einhver annar á þeim buxunum? Það leið rúmt ár frá því að ég fékk aðgang að þessum gögnum þar til ég flutti mitt erindi um þau. Mikinn hluta þess tíma voru skjalaskrár Sakadóms meira að segja á heimasíðu Þjóðskjalasafns. Það hefði verið hægur leikur fyrir áhugasaman fræðimann að skoða hana og leitast svo fyrir um það hvað væri í þessari „Lögregluþingbók 249“ eða „Lögregluþingbók V“ og þar fram eftir götunum. Þetta gerði hins vegar enginn þótt heimildirnar nánast æptu á fólk af heimasíðunni.

Þar að auki gat ég ekki ímyndað mér að svo færi að aðrir fengju ekki sama aðgang eftir að ég var búinn að kynna mína rannsókn. Að vísu sá ég fyrir mér að dómsúrskurðirnir yrðu huldir leynd á meðan sá rannsóknarhópur, sem ég lagði til að tæki til starfa, ynni að sinni skýrslu; en eftir það mættu allir nýta þá til fræðilegra rannsókna. Mér fannst líka sjálfsagt að menn yrðu að sýna fram á hvers vegna þeir vildu skoða upplýsingar um símahleranir, og vera þá bundnir sömu skilyrðum og ég.

Og svona í lokin ætla ég aðeins að nefna sumar þeirra samsæriskenninga sem hafa vaknað eftir að ég flutti mitt erindi í vor. Þá sagði einn blaðamaður Blaðsins til dæmis frá því að ég væri vinur Björgvins Sigurðssonar þingmanns Samfylkingarinnar, sem er rétt, sem betur fer. Nokkrum vikum áður hafði Björgvin lagt fram fyrirspurn á þingi um fjölda símhlerana síðustu ár; og þurfti frekari vitnanna við? Hér áttu það að vera samantekin ráð vinannna að erindi um hleranir í kalda stríðinu kæmi í kjölfarið, þingmanni Samfylkingarinnar til góðs. En það er ekkert til í þessu.

Það er ekki heldur neitt til í því sem Vigfús Geirdal sagnfræðingur leiddi líkum að í útvarpsþætti fyrir nokkrum dögum; að erindi mitt hefði verið liður í því að undirbúa jarðveginn fyrir stofnun greiningardeildar eða leyniþjónustu, sem Björn Bjarnason hefur unnið að; sem sagt Sjálfstæðisflokknum til góðs. Í þessu sambandi vil ég benda á það sem annar sagnfræðingur, Steinþór Heiðarsson, skrifaði á vefsíðuna Múrinn núna 1. nóvember. Hann benti þá á að í ár hefðu „ný og gömul njósnamál“ komist í hámæli, og niðurstaða hans var sú að „Erfitt hefði verið að ímynda sér verri martröð fyrir ríkisstjórnarflokkanna í upphafi þings með kosningavetur framundan“.[6]Og þá þarf ég kannski að taka fram að ég hafði það ekki heldur að markmiði að skapa martröð fyrir einn eða neinn! Ég bað einfaldlega um aðgang að gögnum um símahleranir sem ég ályktaði að væru til, fékk þann aðgang, hef síðan reynt að segja þessa sögu eftir bestu getu og ætla að halda því áfram.

Fólkið sem kom við sögu, fólkið sem var hlerað hjá, á að fá að vita það frá fyrstu hendi. Að þetta skuli enn þurfa að vera hulið leynd; að fólkið sjálft fái ekki fulla vitneskju um þessar staðreyndir sem liggja fyrir, og ákveða sjálft hvort það skuli hulið nafnleynd eða ekki, finnst mér ekki til fyrirmyndar. Þetta er einhvers konar öfug persónuvernd; að vernda fólk fyrir upplýsingum um það sjálft sem það vissi ekki að væru til.[7]

Aðrir eiga líka að fá að segja þessa sögu eftir bestu getu. Eins og staðan er núna get ég ekki ímyndað mér að vandaðir og virtir fræðimenn muni í framtíðinni sætta sig við nokkuð minna en þann aðgang sem ég hef fengið að njóta. Tannkremið er komið úr túpunni og það er vonlaust að troða því í hana aftur.


[1]TNA. CAB134/3574. SPM(72)26. „State of Security in Iceland“. Skýrsla „Cabinet Security and Methods Policy Committee“, 10. maí 1972.

[2]Mergur málsins var sá að ekkert virtist hægt að sanna. Vandinn var að nokkru leyti sá að „róttæklingarnir“ virtust jafnvel segja meira en þeir vissu á meðan sumir opinberir embættismenn sögðu minna en þeir vissu – og bentu á þagnarskyldu sína.

[3]Vef. Lagasafn Alþingis. 47. grein laga um meðferð opinberra mála, nr. 27, 1951.

[4]Óútg. „Greinargerð með beiðni um aðgang að gögnum um símahleranir“, 22. febrúar 2005.

[5]En það var þó misskipt; NFS hafði engan áhuga á þessu í fyrstu og lítil innfrétt í Fréttablaðinu „Símar hleraðir hjá alþingismönnum“ hvarf í skuggann af miklu ítarlegri frásögn af því að Sylvíu Nótt hefði vantað 13 stig til að komast áfram í Evróvisjón. Fréttastofa Ríkisútvarpsins og Morgunblaðið . og ég nefni það hér því mér fannst það ekki sanngjarnt sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði fyrir skemmstu á vefsíðu sinni að það væri „óskiljanlegt“ að ég „léti eins og hér væri um eitthvert mikið órannsakað mál að ræða“. Það hefur verið mat almennings, fjölmiðla og þingmanna, að þetta mál sé mikið vöxtum og þurfi að rannsaka; ekki bara ég sem veð í einhverri villu með það.

[6]Steinþór Heiðarsson, Ætlar ódýr brella Einars K. að ganga upp?, http://www.murinn.is/. 1. nóvember 2006.

[7]Ég er núna að leggja lokahönd á bók um símahleranir og annað eftirlit lögreglu í kalda stríðinu. Ég hef sótt það fast að fá að nafngreina þá þingmenn og aðra sem úrskurðað var um hlerun hjá, þó aðeins ef þeir eða ættingjar þeirra séu því samþykkir. Kannski þarf þetta fólk bara allt að halda niður á Þjóðskjalasafn eins og Ragnar Arnalds og Kjartan Ólafsson.Drupal vefsíða: Emstrur