Skip to Content

Fyrstu viðbrögð við upplýsingum um símhleranir í kalda stríðinu (2006)

Ég hélt til haga einhverju af þeim fréttum og viðbrögðum sem varð vart fyrst eftir að ég flutti erindið um símhleranir á Söguþingi í maí 2006. Hér getur að líta það helsta:

 

 

 

 

 

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item72340/

Fyrst birt: 22.05.2006 08:01

Síðast uppfært: 22.05.2006 08:03

Ragnar Arnalds: Hleranir pólitískt hneyksli

Ragnar Arnalds, fyrrum formaður Alþýðubandalagsins og forsvarsmaður samtaka herstöðvarandstæðinga, segir símahleranir íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins vera pólitískt hneyksli sem þurfi að rannsaka til hlítar. Hann segir sérstaklega athyglisvert að hlerað hafi verið hjá þingmönnum því samkvæmt stjórnarskrá njóti þeir sérstakrar friðhelgi.

Íslensk stjórnvöld létu hlera síma stjórnmálaflokka, fjölmiðla, félagasamtaka og einstaklinga, þar á meðal alþingismanna á árunum 1949-1968. Hleranirnar byggðust einkum á því að öryggi ríkisins og starfsfriði alþingis væri ógnað. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item72359/

Fyrst birt: 22.05.2006 12:23

Síðast uppfært: 22.05.2006 13:37

Ýmsar leiðir færar til að rannsaka hleranir

Ýmsar leiðir eru færar til að rannsaka símahleranir í kalda stríðinu segir Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sem býst við því að málið verði rætt á Alþingi eftir sveitarstjórnarkosningar. Ragnar Arnalds segir hleranirnar pólitískt hneyksli.

Fram kemur í rannsókn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings á símahlerunum íslenskra stjórnvalda að á árunum 1949-68 hafi verið kveðnir upp átta úrskurðir um símahleranir í aðdraganda inngöngu Íslands í NATO og fleiri stórviðburða. Guðni segir að alltaf hafi verið hlerað á skrifstofum Sósíalistaflokksins á þessu tímabili, nær alltaf hjá Þjóðviljanum og stundum hjá samtökum hernámsandstæðinga og Dagsbrún. Hlerað hafi verið einu sinni hjá ASÍ og í bókabúð Máls og menningar. Einnig segir Guðni að hlustað hafi verið á símtöl einstaklinga í heimahúsum, þar á meðal heima hjá nokkrum þingmönnum. Bjarni Benediktsson var dómsmálaráðherra þegar þessar heimildir fengust til símhlerana í öll skipti nema eitt, þegar Jóhann Hafstein var dómsmálaráðherra 1968.

Ragnar Arnalds, sem var formaður Alþýðubandalagsins og framkvæmdastjóri hernámsandstæðinga á þessum árum, segir ekkert annað koma til greina en að leyndinni verði létt af símahlerunum stjórnvalda. Hann eigi kröfu til þess. Ragnar hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann leiti réttar síns. Hann segir símahleranir aðför að lýðræði og þingræði í landinu og vill að svona vinnubrögð verði gerð útlæg úr íslensku samfélagi. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ætlar að taka málið upp á Alþingi.

 

http://www.ossur.hexia.net/

Njósnað um stjórnmálamenn

Ég var sleginn óhug yfir fregnum af pólitískum símahlerunum sem sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hefur upplýst með rannsóknum sínum.

Verkalýðsfélög, stjórnmálahreyfingar, almannasamtök, Þjóðviljinn og heimili alþingismanna voru hleruð á tímum kalda stríðsins.

Í fregnum skildist mér á Guðna að rannsóknir hans hefðu takmarkast við tímabil kalda stríðsins. Getur verið að slíkar hleranir hafi verið notaðar síðar? Það þarf að koma skýrt í ljós.

Sum tilvikin, sem Guðni greinir frá, eru hreint með ólíkindum. Landhelgisdeilur og heimsókn varaforseta Bandaríkjanna? Hvernig í ósköpunum stendur á því að einhverjir misvitrir valdhafar hafi talið nauðsynlegt að beita njósnum af slíkum tilefnum? Það er mér óskiljanlegt og speglar hættuna sem felst í því að eftirlitslaust framkvæmdavald geti gripið til aðgera af þessum toga.

Mér finnst sérstaklega athyglisvert að símar allt að fjögurra alþingismanna hafi verið hleraðir samtímis með dómsúrskurði. Það er hreint með ólíkindum. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi njóta samkvæmt stjórnarskrá sérstakrar friðhelgi. Er þetta ekki brot á stjórnarskránni?

Þetta mál verður að rannsaka. Alþingi verður brjóta þetta mál til mergjar, og fá hvern einasta þátt þessa máls upp á yfirborðið.

Við vissar aðstæður er hægt að réttlæta aðferðir af þessum toga til að bægja frá aðsteðjandi vá, svo sem hryðjuverkum á vorum tímum. Þá verður að liggja fyrir rökstuddur grunur sem réttlætir þær. En það var ekkert sem réttlæti að mínum dómi þær hleranir, sem Guðni hefur upplýst um.

Átakanlegast í þessu er auðvitað sú staðreynd að enn í dag er ekkert lýðræðislegt eftirlit hér á alndi með ákvörðunum um njósnir um borgarana af þessu tagi. Evrópuráðið, sem er virtasta mannréttindastofnun heimsins, hefur samþykkt sérstaklega að alls staðar, þar sem eftirliti af þessum toga þarf að beita, sé til staðar lýðræðislegt eftirlit af hálfu þings viðkomandi þjóðar.

Íslendingar hafa ekki orðið við þeim tilmælum og það hefur vakið furðu erlendra sérfræðinga sem hafa skoðað þetta mál. Í frumvarpi dómsmálaráðherra, þar sem tekið er fyrsta skrefið að leynilögreglu hér á landi, er ekki gert ráð fyrir slíku eftirliti með starfsemi greiningardeildarinnar.

Þessi mál verður að taka föstum tökum. Alþingi verður að rannsaka með hvaða hætti símahlerunum og öðrum njósnum var beitt gegn stjórnmálamönnum og hreyfingum. Sömuleiðis verður að tryggja að lýðræðislegt eftirlit verði haft með starfsemi af þessum toga, þannig að einstakir embættismenn eða ráðherrar fái ekki að leika lausum hala í njósnaleik sem byggir á ímyndaðri þörf.

Guðni Th. Jóhannesson á mikið hrós skilið fyrir að hafa upplýst um þetta mál með rannsóknum sínum.

- Össur

Sent klukkan 09:24

 

http://www.bjorgvin.is/01grein.cfm?pis=482

Pólitískar njósnir á Íslandi

Grófar pólitískar njósnir voru stundaðar á Íslandi á fimmta, sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þetta er niðurstaða merkilegra rannsókna Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símhleranir á Íslandi. Íslensk stjörnvöld, með utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins í fararbroddi stóðu fyrir símhlerunum á t.d. þingmenn Sósíalistaflokksins, ristjóra Þjóðviljans, herstöðvaandstæðinga og forystumenn stéttarfélaga, svo dæmi séu tekin. Allt í nafni óttans um öryggi ríkisins.

Vissulega voru þetta tímar kalda stríðsins þegar vænisýkin réði ríkjum og vissulega var tekist harkalega á um utanríkismálin. Nánast upp á líf og dauða og klárlega fóru Sósíalistar mikinn gegn undirlægjuhætti íslenskra stjórnvalda í garð NATO og Bandaríkjanna. En réttlætti andrúmið og óttinn svo grófa aðför að friðhelgi einkalífsins sem símhleranir á einstaklinga eru?

Nei, því fer fjarri. Þetta er pólitískt hneyksli einsog Ragnar Arnalds, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og fórnarlamb hlerana stjórnvalda segir. Hneyksli vegna þess að þarna er hlerunum beitt gegn pólitískum andstæðingum og í þeim tilgangi að klekkja á þeim. Hleranir eru einhver grófasta aðför sem til er að friðhelgi einkalífs hvers einstaklings og geta aldrei verið annað en örþrifaráð í mikilli neyð. Þegar t.d. öryggi þjóðar liggur undir. Ekki öryggi Sjálfstæðsflokksins í íslenskri pólitík.

Málið er angi af því pólitíska ofstæki sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins stóðu fyrir megnið af síðustu öld og raunar staðfesting á því. Ofstæki sem gekk svo langt að fyrirskipaðar voru og heimilaðar hleranir á þingmönnum þjóðarinnar. Vinstrisinnuðum anstæðingum sem voru á öndverðum meði. Og það ítrekað og oft.

Þetta er ekkert annað en pólitískar njósnir. Ólöglegar og óréttlætanlegar. Málið og uppljóstranir Guðna um pólitískar hleranir íslenskra stjórnvalda á pólitískum andstæðingum kalla á viðbrögð. Ég er tel að Alþingi eigi að skipa rannsóknarnefnd sem fari ítarlega yfir málið. Upplýsi opinskátt um umfang og tilgang símhlerannana og hverjir voru hleraðir. Geri hreint líkt og stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum hafa gert á síðustu árum í sambærilegum málum. Um það mun ég flytja tillögu þegar Alþingi kemur saman að loknum kosningum í vor að þingið skipi slíka rannsóknarnefnd. Það er eina vitræna og færa leiðin.

Uppgjör þarf að fara fram á þeim ruddalega yfirgangi sem íslensk stjórnvöld eru uppvís að með þessari njósnastarfsemi, enda er líklegt að umfang hlerana stjórnvalda og Sjálfstæðisflokksins á andstæðingum hans hafi verið mikið umfangsmeiri. Það kann að koma á daginn síðar. Íslenskir Sósíalistar kunna margar sögur af rökstuddum grun margra þeirra um hleranir í pólitískum tilgangi.

Til framtíðar vísar þetta einnig veginn. Það eru í dag hleruð mörg þúsund símtöl á ári. Alla daga ársins er verið að brjóta á friðhelgi fjölda Íslendinga í afar misjöfnum tilgangi og umdeilanlegum. Þetta þarf að fara ítarlega yfir en ég tel að umfang slíkra heimilda sé allt of mikið og dómsúrskurður er fjarri því að vera nægjanlegur þröskuldur. Lýðræðislegt aðhald verður að koma til.

Það kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni um heimildir til símhlerana síðustu 10 árin að mikið er hlerað í dag. Slíkar heimildir voru t.d. 157 árið 2005. En hver á að gæta varðanna? Hver á að hafa eftirlit með leynistarfsemi á borð við eftirlit og hleranir með borgurum landins? Lýðræðislegt eftirlit verður að koma til. Til dæmis þingkjörin nefnd sem er bundin trúnaði.

Nú er hinsvegar brýnt að draga fram í dagsljósið umfang og tilgang pólitískra hlerana á Íslandi á síðustu öld. Nú verður fróðlegt að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn bregst við. Eða bregst ekki við og reynir að svæfa málið.

Megin atriðin í máli Guðna eru:

Árin 1949-68 fá stjórnvöld sex sinnum leyfi dómsvalda (sakadómara/yfirsakadómara) til að hlera símanúmer vegna ótta um öryggi ríkisins (8 úrskurðir en sex tilvik).

Þetta er:

1949, mars-apríl  innganga í NATO

1951, jan heimsókn Eisenhower yfirhersh NATO

1951 apríl-maí, koma Bandaríkjahers

1961 feb-mars, landhelgissamn við Breta

1963 sept, heimsókn LBJ varafors USA

1968 júní utanríkisrrhfundur NATO

 

Flest númer hleruð 1951, alls 26

Í öllum tilfellum er hleruð hjá þingmönnum, 1-4

Alltaf hlerað á skrifstofu Sósíalistaflokksins, nær alltaf hjá Þjóðviljanum. Fleiri sem hlerað er hjá: Dagsbrún, samtök hernámsandstæðinga, ASÍ (einu sinni, 1961).

 

Mánudagur, 22. 05. 06.

Fréttir af erindi Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símahleranir í kalda stríðinu hljóma eins og aldrei hafi heyrst um, að símar hafi verið hleraðir á þessum árum. Sérstaklega er skrýtið að hlusta á hina gömlu sósíalista og alþýðubandalagsmenn tala eins og símahleranir komi þeim algjörlega í opna skjöldu. Þeir hömruðu þó á því sýknt og heilagt á þessum árum, að stjórnvöld væru að alltaf að hlera síma. Hafi eitthvað komið þeim á óvart í erindinu væri það líklega, að skiptin eru sex og nákvæmlega tilgreind auk þess sem dómsúrskurður  er að sjálfsögðu að baki hverri heimild.

Ég svaraði fyrirspurnum Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og fréttastofu hljóðvarps ríkisins um hlerunar-málið í dag. Ég heyrði í NFS-fréttum, að Kristinn Hrafnsson fréttamaður sagðist hafa sent mér tölvuskeyti um málið - hvaða netfang ætli hann hafi notað? Ég fékk skeytið að minnsta kosti ekki.

 

http://velstyran.blogspot.com/

Vandamál Önnu Kristjánsdóttur

Það hafa borist fréttir þess efnis að njósnað hafi verið um íslenska vinstrimenn með símahlerunum á árunum 1949-1968. Þetta hefur mér aldrei fundist vera frétt. Ég minnist þess er ég starfaði fyrir Samtök herstöðvaandstæðinga á áttunda áratugnum, að það ekki hægt að tala viðkvæm símtöl í síma samtakanna, vitandi það að síminn var hleraður. Það heyrðist iðulega að ekki var allt með felldu þegar símtölum sem voru hleruð sló saman, þannig að komið var inn á hin samtölin. Það voru iðulega símtöl ýmissa vinstrisinnaðra aðila sem þóttu hættulegir að mati skósveina Bandaríkjastjórnar. Þetta þótti einfaldlega ekkert merkilegt vitandi það að símarnir voru hleraðir alla daga, þó án dómsúrskurðar. Við vissum jafnvel um staðsetningu hlerunarbúnaðar í kjallara lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu auk þess sem við töldum okkur vita að Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna væri ekki annað en opinber framhlið viðamikillar njósnastarfsemi Bandaríkjanna gagnvart íslenskum vinstrisinnum.

http://www.althingi.is/sigurjon/safn/002766.html#002766

Mánudagur 22. maí 2006

Föðurbetrungur

Björn Bjarnason er mikill áhugamaður um símhleranir.

Það þurfti ekki að koma mjög á óvart að Birni Bjarnasyni væri fyrirmunað að sjá nokkuð athugavert við embættisfærslu föður síns Bjarna Benediktssonar, þegar Bjarni heimilaði símhleranir hjá pólitískum andstæðingum sínum.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tjáir sig um málið á heimasíðusinni og má greina í gegnum skrifin sérkennilega hræru af gremju og gleði.

Það skín gleði í gegn yfir því að vera dottinn aftur í tíma kaldastríðsins og síðan gremju og ólund yfir því að það sé yfir höfuð talið óeðlilegt nú í dag að hleranir hafi tíðkast á símum sósíalista.

Björn Bjarnason hefur átt erfitt með að komast út úr hugsanagangi kaldastríðsins og honum er greinilega fyrirmunað að sjá að eitt og annað sem viðgekkst þá hafi orkað tvímælis.

Björn föðurbetrungur

Ég þekki það í gegnum störf mín á Alþingi að Björn er einstakur áhugamaður um hleranir og hefur hann lagt fram hvert frumvarpið á fætur öðru þar sem hefur átt að rýmka allar heimildir til hlerana.

Birni hefði verið í lófa lagið að svara fyrir þetta mál með því að skipa nefnd og fara í gegnum margra áratuga sagnfræði með málefnalegum hætti en manninum virðist algerlega fyrirmunað að laga hugsanagang sinn að nútímanum.

Það sem ég vonast til þess að komi út úr þeirri umræðu sem nú fer af stað um hleranir er hvernig staðið er að þeim í dag og nauðsyn þess að skipuð sé þverpólitísk þingnefnd sem hafi eftirlit með hlerunum og fyrirhugaðri greiningardeild ríkislögreglustjóra.

 


http://www.ekg.is/blogg/nr/565

Rannsókn ? - Já, vitaskuld

23.5.2006[að morgni]

Umræðurnar um frásögn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um heimildir til hlerana, eru bæði eðlilegar og áhugaverðar. Eðlilegar vegna þess að vitaskuld er það í sjálfu sér alvarleg ákvörðun, að hlera síma fólks. En áhugaverð vegna þess að frásögn sagnfræðingsins gefur tilefni til þess að kalla eftir frekari athugunum og rannsóknum á þeim tíma í sögu lýðveldisins, þar sem póltísk átök urðu hörðust.

Það er augljóst mál að slíkar rannsóknir eiga ekki og mega ekki einvörðungu snúast um hleranirnar í þröngu ljósi, þó ekki sé með slíku gert lítið úr þeim málum í sjálfu sér. En óhjákvæmilegt er að mál þessi séu rædd og rannsökuð, skoðuð og skilgreind, í víðara samhengi.

Það koma nefnilega upp ótal spurningar. Hvert var tilefnið að óskað var hlerana? Fóru þessar hleranir fram? Ef svo var leiddu þær til einhvers? Drógu þær úr viðbúnaði lögreglu eða juku þær þennan viðbúnað? Var um að ræða ógn við þjóðaröryggi? Svona má áfram og lengi telja. Rannsóknarspurningarnar verða óteljandi. Þær sýna okkur, sem gefur auga leið, að aðferðin er ekki athugun þingnefndar eða pólitískt kjörinnar nefndar utan þings. Ekki að minnsta kosti ef menn ætla að ná árangri.

Fjallað hefur verið um atburðina á Austurvelli þann 30 mars 1949 í margs konar ræðum og ritum, meðal annars í sérstakri bók. Það er enginn vafi á að þar voru alvarlegir atburðir á ferðinni og að sjálfri grundvallarstofnun lýðveldisins, hinni lýðræðislegu löggjafarsamkomu Alþingi, var ógnað. Réttlættu opinberar yfirlýsingar í þá veru í aðdraganda atburðanna ekki sérstakan viðbúnað? Það gefur auga leið.

Við skulum ekki gleyma því að andrúmsloft kalda stríðsins var á margan hátt sérstakt. Afstaða margra birtist til dæmis í hreinni andstöðu við allt sem erlent var og orðaval málflutningur af þeim toga jaðraði í einstökum tilvikum við hreint útlendingahatur, eins og það er skilgreint í dag.

Svo einstakur tími í sögu þjóðarinnar sem kalda stríðið var verðskuldar því vandaða og yfirgripsmikla rannsókn.


 

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060523/SKODANIR0201/605...

Vísir, 23. Maí 2006 20:58

 

Símhleranir, skoðanakannanir, atkvæðaveiðar

Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur skrifar skynsamlega grein um símhleranir á póstlistann Gammabrekku. Þar segir hann að merkilegt sé að ekki séu neinar upplýsingar um símhleranir á árunum eftir 1968. Þýðir þetta að þá voru engir símar hleraðir - eða kannski að starfseminni var haldið leyndri? Eftir 1968 fór verulega að hitna í kolunum.

Styrmir Gunnarsson skrifar leiðara í Morgunblaðið. Honum er málið skylt, gömlum stríðsmanni úr kalda stríðinu. Þannig er tónninn líka í leiðaranum. Styrmir segir símhleranirnar ekki undarlegar, heldur sé skrítið að ekki hafi verið hlerað meira.

Styrmir hefur dýpri skilning á þessu en margur maðurinn - hann segir ennfremur í leiðaranum að kominn sé tími til að fólk kynnist því hvernig baráttan í kalda stríðinu var háð. Sjálfur getur hann lagt ýmislegt af mörkum í því efni. Ég hef áður bent á minningargrein um Eyjólf Konráð Jónsson sem Styrmir ritaði í Morgunblaðið 1997. Þar stóð meðal annars:

"Eyjólf Konráð Jónsson þekkti ég lítið þar til dag einn fyrir tæpum fjórum áratugum, að æskuvinur minn, Hörður Einarsson hrl., sem leiddi mig til starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, bað mig fara á fund Eykons, eins og hann var jafnan kallaður, hann ætti við mig erindi. Sá fundur var upphafið að ævarandi vináttu, sem aldrei bar skugga á, þótt stundum væri skoðanamunur mikill.

Þetta var á þeim árum, þegar gífurleg harka var í kalda stríðinu á milli hins frjálsa heims, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna, sem höfðu raðað í kringum sig leppríkjum í Austur-Evrópu og víðar. Þeir sem ekki upplifðu kalda stríðið eins og það var harðast munu aldrei skilja þau viðhorf, sem réðu gerðum manna á þeim árum.

Í þessu samtali fékk ég örlitla innsýn í veröld, sem ég vissi ekki að væri til á Íslandi en tengdist þessum alheimsátökum. Eykon bað mig um að taka að mér verkefni, sem ég gerði, en ekki fyrr en að lokinni alvarlegri umhugsun. Því sinnti ég á hans vegum fram eftir Viðreisnaráratugnum. Það starf hafði margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna á þessum árum en eins og margt af því, sem gerðist á tímum kalda stríðsins, bíður frásögn af því síðari tíma. Mér varð hins vegar ljóst hve víðtæk og djúp tengsl Eyjólfur Konráð hafði, þá tæplega hálffertugur."

www.jonas.is

23.05.2006
Geldfugl í sagnfræði
Fjölmiðlar hafa sagt frá erindi sagnfræðings um hleranir íslenzkra stjórnvalda í kalda stríðinu. Eftir fréttum að dæma hefur framsetning sagnfræðingsins verið geld, fjallaði um ótilgreindar persónur, sem ofsóttu ótilgreindar persónur. Úr þessu efni verður engin sagnfræði fyrr en upplýst er, hverjir skipulögðu og framkvæmdu hleranir og hverjir urðu fyrir þeim. Ímyndið ykkur sagnfræði, sem segði okkur, að bandamenn hafi eftir stríð höfðað mál gegn ónafngreindum þýzkum leiðtogum. Sagnfræðingar, sem hugsa: "Nomina sunt odiosa" eru geldfuglar í faginu.

www.jonas.is

03.06.2006
Fanatískir feðgar
Líkur benda til, að Bjarni Benediktsson hafi sem dómsmálaráðherra í Kalda stríðinu látið hlera síma pólitískra andstæðinga á Alþingi. Það væri gróft brot á hefðum þingræðis, þótt George W. Bush hafi látið FBI leita á skrifstofu þingmanns demókrata í sjálfu þinghúsinu um daginn. Sonur Bjarna er nú dómsmálaráðherra og vill, að kerfið sjálft stjórni rannsókn á meintum afglöpum föðurins. Að vonum er stjórnarandstaðan ósátt og vill, að Alþingi skipi rannsóknarnefnd. Sú leið ein er líkleg til að finna, hvort pólitískt hatur hafi farið út í öfgar.

 

 Drupal vefsíða: Emstrur