Skip to Content

"Að vita meira og meira. Spurningar og svör á líðandi stundu um símhleranir og innra öryggi ríkisins í kalda stríðinu" (2007)

Inngangur

Undanfarið ár eða svo hefur talsvert verið rætt hér á landi um símhleranir og innra öryggi ríkisins í kalda stríðinu. Í þessari grein verður sú umræða rakin, skýrt frá helstu upplýsingum sem fram hafa komið, mismunandi mati manna á þeim lýst og loks verður varpað fram nokkrum spurningum sem er enn ósvarað og fróðlegt að leita svara við. Það á jú að vera megintilgangur allra rannsókna og allra fræða; að vita meira og meira, meira í dag en í gær. Í grófum dráttum má skipta þessari umræðu á líðandi stundu í fimm skeið sem eiga sér öll skýrt upphaf við birtingu nýrra upplýsinga, en síðan óljósari endi:

1)      Guðni Th. Jóhannesson, „Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“. Fyrirlestur áSöguþingi 21. maí 2006. Ráðstefnurit væntanlegt í mars 2007.

2)      Þórs Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin. Um öryggi Íslands á válegum tímum“. Þjóðmál, 3. hefti, 2. árg. 2006, bls. 55-85. Tímaritið kom út 22. september 2006.

3)      „Gögn í vörslum Þjóðskjalasafns Íslands er varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum“. Birt á vefsíðu Þjóðskjalasafns Íslands, www.skjalasafn.is,  26. október 2006.

4)      Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi (Reykjavík, 2006). Útgáfudagur 30. nóvember 2006.

5)      „Skýrsla nefndar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945-1991“. Birt á vefsíðu forsætisráðuneytis, www.forsaetisraduneyti.is, 9. febrúar 2007.

Hér verður auðvitað að stikla á stóru og þetta eru þá stiklurnar fimm sem verður stuðst við. Í lokin verður síðan vakið máls á ýmsum spurningum sem enn þarf að leita svara við að mínu mati. Áður en að öllu þessu kemur þarf þó að huga aðeins að upplýsingum, umræðum, getgátum og ásökunum um símahleranir og annað eftirlit út af öryggi ríkisins fyrir alla orrahríðina undanfarið ár.

Forsagan

Strax við upphaf kalda stríðsins héldu þeir, sem voru lengst til vinstri í  hinu pólitíska litrófi á Íslandi því fram, að stjórnvöld hleruðu síma þeirra og bæru við ótta um öryggi ríkisins. „Símahleranir hafnar“, þrumaði Þjóðviljinn til dæmis í lok mars 1949 þegar tekist var á um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.[1] Engar sönnur voru færðar á það en þá þegar var heimild í fjarskipalögum til hlerana „þegar öryggi landsins krefst þess eða um mikilsverð sakamál er að ræða“.[2] Snemma árs 1951 var slík heimild felld inn í lög um meðferð opinberra mála. Í 47. grein þeirra sagði: „Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsvert sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“[3]

Árið 1960 hélt Þjóðviljinn því fram að Sigurjón Sigurðsson, sem hafði tekið við embætti lögeglustjóra árið 1947, stæði fyrir því að símar sumra lögregluþjóna væru hleraðir. Aftur vantaði þó ótvíræðar sannanir og var ekki að undra að Morgunblaðið kallaði ásakanirnar „heilaspuna kommúnistablaðsins“.[4] Orð var gegn orði og þar við sat.

Þegar „68-kynslóðin“ svokallaða fór að láta að sér kveða jókst svo grunur vinstrimanna um símahleranir á vegum lögreglunnar. Leiðtogar róttækra námsmanna og Fylkingarinnar, baráttusamtaka sósíalista, voru til dæmis vissir um að símtöl þeirra hefðu verið hleruð þegar von var á William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í heimsókn í Árnagarð vorið 1972.[5]

Árið eftir áttu forsetar Bandaríkjanna og Frakklands, Richard Nixon og Georges Pompidou, fund hér á landi og þá vöknuðu aftur grunsemdir um hleranir. Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var í miðstjórn Framsóknarflokksins, sat í útvarpsráði og var lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hélt því fram í sjónvarpsþætti fyrir komu þjóðhöfðingjanna að „vissir símar“ væru nú hleraðir. Jón Skúlason póst- og símamálastjóri vísaði ásökunum Ólafs Ragnars á bug en hann fór þó út á hálan ís þegar hann hélt því fram að mjög erfitt væri að koma hlerunum við á Íslandi; „þyrfti mikinn útbúnað til slíks og það færi ekki framhjá neinum ef einhver hefði frammi tilburði til símahlerunar“.[6] Leynilegar hleranir höfðu verið hægðarleikur og voru það enn, einkum vegna þess að nær örugglega var þá búið að koma upp fullkominni aðstöðu til slíkra verka á nýju lögreglustöðinni við Hverfisgötu.[7]

Þeir sem voru hvað „aktívastir“ í „villta vinstrinu“ héldu því einnig fram að kerfisbundnar og víðtækar hleranir færu fram á Íslandi rétt eins og í „öðrum löndum auðvaldsins“. Um þetta þyrfti ekki að deila þótt eðli málsins samkvæmt væri erfiðara að finna sannanir fyrir athæfinu.[8]

Árið 1976 kom út bók þeirra Baldurs Guðlaugssonar og Páls Heiðars Jónssonar um óeirðirnar við Alþingishúsið 30. mars 1949. Þeir höfðu spurst fyrir um hleranir þá daga en fengu engin svör nema þau að væntanlega hefði enginn tækjabúnaður til slíks verið fyrir hendi.[9] Það var auðvitað ekki rétt en laganeminn Haraldur Böðvarsson fékk í besta falli svipuð svör árið 1989 þegar hann vann að kandídatsritgerð sinni í lögfræði, „Framkvæmd íslenskra réttarreglna um símahlerun og bréfleynd“. Haraldi tókst að skrifa yfirlit um gildandi lög um efnið en hann komst að því, eins og hann rakti í formála verksins, „að aðilar þeir, sem um þessi mál fjalla hérlendis, voru flestir mjög tregir eða ófáanlegir til að veita upplýsingar um þessi mál“.[10]

Um sama leyti leitaði Kristín Halldórsdóttir, þingkona Kvennalistans, svara á Alþingi um símahleranir síðastliðinn áratug og fékk þau svör Halldórs Ásgrímssonar dómsmálaráðherra að þær hefðu aðeins átt sér stað vegna gruns um fíkniefnabrot.[11] Ítarlegar tölur um fjölda hlerana ár hvert fylgdu svarinu en sjö árum síðar, árið 1996, bar hins vegar svo við að þegar Svavar Gestsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, æskti upplýsinga um hleranir veitti Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra þau svör að upplýsingar fyrir árið 1992 væru svo brotakenndar að ekki væri hægt að taka þær saman.[12] Jafnframt var haft eftir Sigurði Tómasi Magnússyni, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, í Morgunblaðinu  að „mál sem vörðuðu öryggi ríkisins væru afar fátíð og dómsmálaráðuneytinu væri ekki kunnugt um að óskað hefði verið eftir símahlerunum í slíkum málum.“[13] Seinna átti eftir að liggja fyrir að sú yfirlýsing gat ekki staðist.

Um þessar mundir höfðu komist í hámæli fregnir af umfangsmiklum hlerunum yfirvalda í Skandinavíu, einkum í Noregi. Þær uppljóstranir virtast ekki vekja þær spurningar hvort eitthvað svipað hefði farið fram hér á landi en þó má geta þess að árið 2004 vakti Steingrímur J. Sigfússon, leiðtogi vinstri grænna, máls á því í þingsölum hvað hefði viðgengist annars staðar á Norðurlöndum. „Þarna er því saga og þarna eru spor sem hræða í þessum efnum,“ sagði Steingrímur. „Svo er ekki endilega að mér sé kunnugt um slíkt hér á landi“.[14] Síðan gerðist ekki neitt fyrr en vorið 2006.

Svipaða sögu má í raun segja af skrifum og umræðum um annars konar eftirlit en hleranir á tíma kalda stríðsins. Á áttunda áratugnum héldu róttækir vinstrimenn því fram að lögreglan fygldist með mótmælafundum þeirra, tæki ljósmyndir og skráði niður hverjir væru á vettvangi.[15] Árið 1986 viðurkenndi Böðvar Bragason, lögreglustjóri í Reykjavík, í viðtali við Helgarpóstinn að frá árinu 1950 hefði embætti hans sinnt „því sem má kalla „innri öryggismál“ eða eitthvað annað“. Um það væri þó fátt meira að segja: „Af eðlilegum ástæðum get ég ekki skýrt frá því í hvaða formi þetta hefur verið í gegnum tíðina og ég get ekki heldur skýrt frá því í hvaða formi þetta er í dag.“[16] Lögreglustjóri tók svo í sama streng tæpum áratug síðar, þá í viðtali við Morgunpóstinn.[17] Enginn krafðist þó frekari upplýsinga, að því er best verður séð, og hér má þegar varpa fram nokkrum spurningum sem hljóta að vakna:

1)            Brugðust blaða- og fréttamenn skyldum sínum? Í Skandinavíu leituðu þeir t.d. stöðugt upplýsinga og fréttir þeirra réðu án efa talsverðu um að hulunni var svipt af símahlerunum og öðru öryggiseftirliti.

2)            Brugðust fræðimenn? Hefði fræðasamfélagið átt að láta betur og fyrr til sín taka í rannsóknum á innra öryggi Íslands í kalda stríðinu?

3)            Brugðust stjórnvöld? Hefðu þau átt að veita upplýsingar sem þau bjuggu yfir í stað þess að þegja þunnu hljóði eða reyna jafnvel að afvegaleiða þá fáu sem reyndu að leita heimilda um þessi efni?

Að mínu mati væri ekki endilega sanngjarnt að saka fjölmiðla eða fræðaheiminn um að hafa ekki staðið sig í stykkinu, og að sama skapi er skiljanlegt að yfrmenn lögreglu og dómsmála hafi ekki viljað ræða opinskátt um hleranir þegar kalda stríðið var í algleymingi. Á hinn bóginn verður því ekki neitað að yfirlýsingar um slíkar aðgerðir í dómsmálaráðuneyti á tíunda áratug síðustu aldar voru á skjön við sannleikann allan.

„Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“

Sunnudaginn 21. maí 2006 flutti ég fyrirlestur á Söguþingi, „Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“.[18] Síðustu þrjú ár þar á undan hafði ég leitað heimilda um hleranir og orðið nokkuð ágengt, einkum eftir að ég fékk í mars 2005 aðgang að beiðnum lögreglu um slíkar aðgerðir og dómsúrskurðum um þær. Þau gögn höfðu verið í vörslu Héraðsdóms Reykjavíkur en voru þá komin á Þjóðskjalasafn Íslands. Í Söguþingserindinu var því lýst að í sex skipti árin 1949-68 bað lögreglan dómsmálaráðuneyti að leita heimildar dómara til símahlerana:

4)            mars-apríl 1949. Vegna umræðna á Alþingi um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.

5)            janúar 1951. Vegna heimsóknar Dwights Eisenhower, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins, til landsins.

6)            apríl-maí 1951. Vegna varnarsamnings við Bandaríkin og endurkomu bandarísks herliðs.

7)            janúar 1961. Vegna umræðna á Alþingi um landhelgissamning við Breta.

8)            september 1963. Vegna heimsóknar Lyndons B. Johnson, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins.

9)            júní 1968. Vegna utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins.

Úrskurðirnir sjálfir voru aðeins fleiri en sex því fyrir kom að úrskurðað væri um framhald hlerana eða að númeri skyldi bætt við og í Söguþingserindinu kom jafnframt fram að öllum skriflegum gögnum um hleranirnar hefði verið eytt, líklega í síðasta lagi árið 1977.

Allar þessar upplýsingar hlutu að vekja athygli, og jafnvel reiði eða hneykslun þeirra sem höfðu verið í eldlínunni á vinstri væng stjórnmálanna. Eitt var að gruna sitt um hleranir og annað að fá staðfestingu á þeim.[19] Á hinn bóginn vaknaði strax sú spurning á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands, hvort hleranir hefðu í raun farið fram. „Það stóð til að hlera, svo mikið er víst“, skrifaði Már Jónsson sagnfræðingur. „En var þetta framkvæmt? Eru til góð gögn um það?“[20] Ég svaraði að bragði að fyrst beðið væri um að hlerunum væri haldið áfram eða þess óskað að númeri væri bætt við lægi í augum uppi að aðgerðirnar hefðu átt sér stað. Þar að auki gæti ég stuðst við frásagnir manns sem kom við sögu um það að hleranir hefðu gert gagn á sínum tíma og loks taldi ég það afar ótrúverðugt að lögregluyfirvöld gripu til þess örþrifaráðs að biðja um heimild til símahlerana en nýttu hana svo ekki.[21] Má Jónssyni fannst þetta svar „taka af allan vafa“ um að hleranir hefðu verið stundaðar.[22] Sumir aðrir, til að mynda Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og einkum Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, héldu á lofti hinum fyrri hugleiðingum Más án þess að geta seinni partsins.[23]Því verður að segja að þótt sannanir fyrir hlerunum hefðu loks fundist voru ekki allir sannfærðir. Þeir voru enn til sem vildu deila um það hvort hlerað hefði verið.

Þar að auki hafði hafði Þjóðskjalasafn aðeins veitt mér heimild til að nefna hve mörg símanúmer hefði mátt hlera hverju sinni, hjá hvaða stofnunum – t.d. Þjóðviljanum, Sósíalistaflokknum og Samtökum herstöðvaandstæðinga – og hjá hve mörgum alþingismönnum. Hins vegar mátti ég ekki nefna nein nöfn.

Í Söguþingserindinu leiddi ég líkur að því að réttlæta mætti hleranirnar árin 1949-1951 í ljósi þeirrar hörku sem þá var í stjórnmálabaráttunni. Beiðnir um hleranir á sjöunda áratugnum orkuðu hins vegar tvímælis að mínu mati og úrskurð um slíkar aðgerðir út af landhelgissamningnum sagði ég „nálgast pólitískar njósnir“.[24] En þetta hlaut þó að vera matsatriði og þess mátti vænta að nú þegar uppvíst væri um þetta mikla mál kæmu kannski fleiri heimildir í dagsljósið. Þetta voru því þær meginspurningar sem enn var ósvarað eftir Söguþingserindið í maí 2006:

1)      Hjá hverjum var hlerað?

2)      Voru ástæður hlerana gildar?

3)      Var fleiri heimildir að finna um hleranir?

Það lá í augum uppi að stjórnvöld kæmu með einhverjum hætti að frekari rannsókn málsins. Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fór þess á leit við mig að ég leiddi hóp sagnfræðinga sem rannsakaði umfang símahlerana á Íslandi árin 1945-1976. Viðtöl yrðu tekin við þá sem komu við sögu og heimilda aflað innanlands og utan, og skýrslu síðan skilað fyrir 1. október 2006.[25] Innan ríkisstjórnarinnar munu sumir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hins vegar hafa verið andvígir þessari hugmynd og sátt náðist frekar um aðra leið: Hinn 3. júní 2006 samþykkti Alþingi einróma þingsályktun forsætisráðherra um skipun nefndar til að „skoða gögn sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945-1991 í vörslu opinberra aðila og gera tillögu um tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna að þeim“. Nefndin var skipuð 22. júní 2006 og varð Páll Hreinsson, stjórnarformaður Persónuverndar, formaður hennar. Í byrjun október samþykktu þingmenn einum rómi lög sem veittu nefndinni fullan rétt að öllum „opinberum gögnum um öryggismál“ og auk þess var öllum núverandi og fyrrverandi opinberum starfsmönnum gert skylt að svara fyrirspurnum nefndarmanna „um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands“.[26] Með samþykkt þingsályktunartillögunnar í júní hafði „sú pólitíska stefna mörkuð“, eins og sagði í greinargerð með lögunum, að öll opinber gögn skyld gerð fræðimönnum aðgengileg.[27]

Á því varð aftur á móti bið. Nefndin átti að skila niðurstöðu fyrir árslok og ekki voru allir ánægðir með að bíða eftir því. Kjartan Ólafsson og Ragnar Arnalds, sem höfðu verið í forystusveit sósíalista og herstöðvaandstæðinga, voru í hópi þeirra sem vildu strax fá að vita hvort úrskurðað hefði verið um hlerun á heimilum þeirra og Þór Whitehead sagnfræðingur vildi einnig fá að kynna sér þá dómsúrskurði sem ég hafði fengið að sjá.[28] Þá krafðist Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður aðgangs að öllum gögnum um hleranir sem kynnu að liggja hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, Þjóðskjalasafni og í dómsmálaráðuneyti.[29] Um miðjan júlí voru ótilgreind gögn um símahleranir send úr ráðuneytinu á safnið og um sumarið tók Þjóðskjalavörður, Ólafur Ásgeirsson, þá ákvörðun að hafna öllum beiðnum um aðgang að gögnum um símahleranir. Í „athugasemdum“ frá Þjóðskjalasafni, sem birtust 22. september 2006, voru raktar þrjár ástæður til þessarar niðurstöðu:

1)            Persónuverndarsjónarmið því ekki mætti „greina frá upplýsingum um málsaðila“.

2)            Skortur á skýrum lögum og reglum um aðgang að gögnum af þessu tagi, en bent var á að slíkar reglur væru í vinnslu í menntamálaráðuneyti (sem Þjóðskjalasafn Íslands heyrir undir).

3)            Störfum „kaldastríðsnefndar“ væri ólokið og taldi safnið „rétt og skylt“ að bíða þeirrar niðurstöðu.[30]

Þessi afstaða Þjóðskjalasafns Íslands sætti nokkurri gagnrýni, og í raun varði enginn hana utan safnsins. Þannig sendi Ragnar Aðalsteinsson menntamálaráðuneyti stjórnsýslukæru fyrir hönd Kjartans Ólafssonar og Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði ítrekað um það óréttlæti sem fælist í því að einn maður fengi aðgang að gögnum en annar ekki.[31]

„Smáríki og heimsbyltingin. Um öryggi Íslands á válegum tímum“.

Fólk vildi vita meira og meira en fékk það ekki. Að vísu urðu þau tíðindi sama dag og „athugasemd“ Þjóðskjalasafns birtist að hausthefti tímaritsins Þjóðmála út. Það hafði að geyma einkar fróðlega grein Þórs Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin. Um öryggi Íslands á válegum tímum“.[32] Í greininni var í fyrsta sinn greint ítarlega frá starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík sem tók til starfa árið 1950. Þór lýsti starfsemi hennar í hnotskurn allt kalda stríðið á þann veg að „2-3 menn [héldu] uppi öryggisþjónustu á vegum lögreglunnar, reyndu að fylgjast ögn með umfangsmikilli starfsemi sendiráða austantjaldsríkjanna, vinna hér gegn njósnum sem tugir sendiráðsmanna höfðu að atvinnu og líta eftir öryggi einstakra ríkisstofnana og háttsettra erlendra gesta meðfram annarri vinnu“.[33]

Í grein Þórs var því meðal annars lýst hvar aðstaða hefði verið til símahlerana í höfuðstöðvum lögreglunnar, fyrst við Pósthússtræti og síðan við Hverfisgötu. Jafnframt var rakið að öryggisþjónustan hélt spjaldskrá um þá Íslendinga sem töldust varhugaverðir að mati hennar og að hún eignaðist með tíð og tíma ýmiss konar tækjubúnað til njósna og eftirlits, til dæmis myndavélar með sérstökum linsum, hlustunartæki af ýmsum stærðum og gerðum og nætursjónauka. Þá var það einnig staðfest í Þjóðmálagrein Þórs Whitehead að gögnum um símahleranir var eytt auk annarra skjala, þar á meðal spjaldskráa. Sagt var að þessi gögn hefðu verið flutt í sumarbústað í nágrenni Reykjavíkur og brennd til ösku „í götóttri olíutunnu“ svo af varð „mikill reykur“.[34]

Vart þarf að taka fram að þessar uppljóstrarnir vöktu geysilega athygli. Þess var aldrei að vænta að einhugur yrði um þá niðurstöðu Þórs að öryggisþjónustan hefði sinnt nauðsynlegum vörnum gegn byltingarsinnum á válegum tímum. Össur Skarphéðinsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, taldi til dæmis ljóst að starfsemi hennar hefði brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um skoðanafrelsi og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tók í sama streng.[35] Auk þessu tókust Jón Ólafsson heimspekingur og Kjartan Ólafsson á við Þór í hatrömmum ritdeilum um þá ógn sem hefði í raun stafað af íslenskum sósíalistum – eða ekki.[36]

Spurningar vöknuðu einnig um samskipti öryggisþjónustunnar við stjórnvöld hverju sinni. Voru þau ekki jafnnáin í tíð vinstri stjórnanna 1956-59 og 1971-74 þegar Hermann Jónasson og síðan Ólafur Jóhannesson gengdu embætti forsætisráðherra og dómsmálaráðherra? Að því spurði ég í fjölmiðlum og lét að því liggja að mér þætti það ólíklegt.[37] Við það varð til uppnefnið „leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“. Þór Whitehead leiddi traustar líkur að því að þeir Hermann og Ólafur hefðu vitaskuld vitað af tilvist og starfsemi öryggisþjónustunnar.[38] Hitt taldi ég þó enn réttmætt að hafa spurt hvort samskipti öryggisþjónustunnar við valdhafa hefðu ekki breyst þegar vinstri stjórnir voru í landinu.[39]

Þar að auki kom á daginn að framsóknarmennirnir Steingrímur Hermannsson og Jón Helgason, sem báðir höfðu setið í stóli dómsmálaráðherra síðar í kalda stríðinu (Steingrímur 1978-1979 og Jón 1983-1987 þegar Steingrímur var forsætisráðherra), kváðust ekki hafa vitað af því að sérstök öryggisþjónusta eða „leyniþjónusta“ hefði þá verið að störfum. Að mati Þórs Whitehead var hægt að skýra þá vanþekkingu á þann veg að þeir hefði verið spurðir um starfsemi sem hefði í raun lagst niður fyrir þeirra ráðherratíð. Eftir gagnabrennuna 1976 hefði skráningu persónuupplýsinga verið sjálfhætt og starfsemi öryggisþjónustunnar eingöngu snúist um eftirlit með útlendingum, öryggi ríkisstofnana og varnir gegn hryðjuverkum.[40]

Tæpum mánuði eftir birtingu Þjóðmálagreinarinnar varð þó uppvíst um eina rannsókn undir lok kalda stríðsins sem sneri að Íslendingum og hugsanlegri ógn við öryggi ríkisins. Þór Whitehead greindi frá því að eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989 hefði verið reynt að leita að gagna um hugsanleg störf íslenskra manna fyrir austur-þýsku öryggislögregluna STASI. Össur Skarphéðinsson sagði nærtækast að „forystumenn íhaldsins“ hefðu fyrirskipað þá rannsókn, og ræddi í því sambandi um „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“.[41] Þór Whitehead upplýsti þá að Róbert Trausti Árnason, sem þá var varafastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, hefði verið fenginn til verksins að frumkvæði Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra og Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra. Jafnframt hefðu þeir óskað þess sérstaklega að hugað yrði að gögnum um Svavar Gestsson sem hafði stundað nám í Austur-Berlín í sínum tíma.[42] Jón Baldvin þvertók fyrir það og orð stóð gegn orði um grundvallaratriði í atburðarásinni, þótt enginn deildi um að reynt hefði verið afla tiltekinna heimilda í skjalasöfnum STASI.[43]

Nokkrum dögum áður höfðu þau stórtíðindi einnig orðið að Jón Baldvin Hannibalsson kvaðst hafa fengið að vita frá ónafngreindum tæknimanni árið 1992 að sími hans í utanríkisráðuneyti hefði verið hleraður.[44] Rannsókn að frumkvæði ríkissaksóknara studdi ekki þá frásögn en að mati Jóns Baldvins var sú málsmeðferð gölluð þar sem þeim, sem hefðu komið við sögu við hina ólöglegu iðju, hefði ekki verið tryggð sakaruppgjöf.[45]

Þótt Þjóðmálagrein Þórs Whitehead hefði varpað nýju ljósi á margt sem áður var á huldu og veitt mörg svör hlutu allar þessar nýjar fréttir um innra öryggi Íslands í kalda stríðinu að vekja nýjar spurningar. Og ekki var endilega víst að þau lægju í augum uppi, og því síður að þeir, sem hefðu eitthvað frekar um málið að segja, vildu endilega gera það. Í lok október 2006 skrifaði höfundur „Reykjavíkurbréfs“ Morgunblaðsins að því færi fjarri að símar sósíalista, herstöðvaandstæðinga og annarra hefðu verið hleraðir að ástæðulausu. Þá sögu alla mætti rekja „í miklum smáatriðum“ en frá sjónarmiði þeirra væri það „afar óhyggilegt“.[46]

„Gögn í vörslum Þjóðskjalasafns Íslands er varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum“.

Skammt gerðist nú stórra högga í milli. Hinn 16. október 2006 úrskurðaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra að Þjóðskjalasafni Íslands bæri að veita Kjartani Ólafssyni aðgang að þeim gögnum um símahleranir sem hann hefði leitað eftir.[47] Safnið brást við þessu með því að leyfa Kjartani að kynna sér þau gögn sem vörðuðu eingöngu störf hans sjálfs og fékk hann þannig að sjá að úrskurðað hefði verið um hlerun í síma Sósíalistaflokksins og Samtaka herstöðvaandstæðinga árin 1961, 1963 og 1968 þegar hann gegndi þar störfum.[48] Hins vegar var strikað yfir önnur símanúmer sem fyrir komu í skjölum og dómsúrskurðum, og gilti þá einu að nokkrum mánuðum áður hafði ég fengið leyfi safnsins til að nefna allar stofnanir sem úrskurðað hafði verið um hlerun hjá.

Aðrir gengu nú á lagið; innan fárra vikna fékk Ragnar Arnalds aðgang að gögnum með sömu skilmálum og settar höfðu verið Kjartani Ólafssyni og börn Hannibals Valdimarssonar fengu staðfest að úrskurðað var um hleranir í heimasíma hans og Alþýðusambandsins árið 1961 þegar hann gegndi þar formennsku. Fimmtudaginn 26. október 2006 bætti Þjóðskjalasafn svo um betur og birti á vefsíðu sinni gögn í vörslum þess „er varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum“. Þessi ákvörðun var tekin „í framhaldi af úrskurði ráðherra og hins mikla áhuga almennings á aðgangi að skjölunum“, eins og sagði í tilkynningu safnsins. Á hinn bóginn var búið að strika yfir og afmá allar „persónugreinanlegar upplýsingar“ og var það sagt í samræmi við það ákvæði stjórnarskrárinnar að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.[49]

Þótt fengur væri að birtingu dómsúrskurða og beiðna dómsmálaráðuneytis um hleranir var raunin því sú að fátt hafði bæst við þær upplýsingar sem komu fram í Söguþingserindu í maí fyrr um árið. Enn vantaði nöfnin á bak við heimasímana og rök Þjóðskjalasafns fyrir þeirri leynd sættu enn gagnrýni. „Það er ekki verið að fjalla um einkalíf folks í þessum gögnum,“ sagði Ragnar Aðalsteinsson, „heldur er verið að hlera hjá stjórnmálaflokkum, frjálsum félagasamtökum, þingmönnumog öðrum sem voru virkir í stjórnmálum á þessum tíma“.[50] Sjálfur sagði ég í fyrirlestri á Hugvísindaþingi í byrjun nóvember að tilkynna ætti fólki sem kom við sögu að til væru dómsúrskurðir um hlerun hjá því; annað væri „einhvers konar öfug persónuvernd, að vernda fólk fyrir upplýsingum um það sjálft sem það vissi ekki að væru til“.[51]

Og hvernig stóð á því að einn maður hafði fengið að sjá öll nöfn og símanúmer og síðan væri það bannað öllum öðrum? Sú spurning varð enn áleitnari eftir hina takmörkuðu birtingu gagna um símahleranir. Þjóðskjalavörður lét því í veðri vaka að kannski hefðu mistök átt sér stað og farið hefði verið á svig við meginreglur um persónuvernd „í tilviki nafngreinds sagnfræðings“.[52] Hafi mistök orðið var þó ljóst að þau yrðu ekki aftur tekin. „Eins og staðan er núna“, sagði ég á Hugvísindaþingi, „get ég ekki ímyndað mér að vandaðir og virtir fræðimenn muni í framtíðinni sætta sig við nokkuð minna en þann aðgang sem ég hef fengið að njóta. Tannkremið er komið úr túpunni og það er vonlaust að troða því í hana aftur.“[53]

Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi

Næstu tímamót urðu 30. nóvember 2006. Þá kom út bókin Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi. Í henni var að finna frekari upplýsingar um starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík og var meðal annars stuðst þar við áður óbirtar heimildir úr erlendum skjalasöfnum. Í þeim var að finna vísbendingar um fólk sem kynni að hafa komið fyrir í spjaldskrá öryggisþjónustunnar, til dæmis ótilgreindir háskólakennarar og Margrét Indriðadóttir, fréttastjóri ríkisútvarpsins. Þá voru rakin þau orð bandarískra embættismanna um miðjan sjötta áratug síðustu aldar að hyrfi Bjarni Benediktsson úr embætti dómsmálaráðherra, sem hann hafði gegnt frá árinu 1947, væri hætt við að Bandaríkjunum reyndist erfiðara að vinna að því með íslenskum stjórnvöldum að bæta innra öryggi á Íslandi.[54] Það hlaut með öðrum orðum að skipta máli hver gegndi þessu lykilembætti um öryggismál landsins.

Í bókinni var einnig vitnað í þær upplýsingar sem Oleg Gordíevskí hafði veitt árið 1990 um starfsemi leyniþjónustanna KGB og GRU hér á landi. Gordíevskí hafði risið til mikilla metorða innan KGB áður en hann flúði vestur fyrir járntjaldið. Hann gat þess vegna sagt frá því að sovéskir leyniþjónustumenn við sendiráðið í Reykjavík hefðu eignast sérstaka „trúnaðarmenn“ sem hefðu verið meðal framámanna í þremur stjórnmálaflokkum á Íslandi; Alþýðubandalagi, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.[55] Við gerð bókarinnar hafði ekki tekist að afla vísbendinga um það hvaða menn þetta voru og var það því einn þeirra lausu enda sem þar var að finna. Annar laus endi snerist um „alls konar viðkvæmar persónuupplýsingar“ sem Árni Sigurjónsson, forstöðumaður útlendingaeftirlitsins, kvaðst vera að farga þegar hann vas sestur í helgan stein, að sögn Helga Þorsteinssonar sagnfræðings.[56]

Ýmsir aðrir lausir endar voru aftur á móti hnýttir í bókinni. Í henni var getið flestra þeirra sem úrskurðað hafði verið um hlerun hjá á sínum tíma. Að formi til var birting þeirra á skjön við trúnaðareið sem ég hafði undirritað. Á hitt þarf þó að líta að aðstæður höfðu gerbreyst. Fyrir lá að einstaklingar höfðu haldið í Þjóðskjalasafn og fengið allar upplýsingar um sjálfa sig og aðrir munu gera slíkt hið sama á næstunni að því er varðar þá sjálfa eða nánustu ættingja. Einnig liggur fyrir að fyrir árslok mun þingskipuð nefnd, sem ætlað var að ákvarða frjálsan aðgang fræðimanna, komast að niðurstöðu í þeim efnum. Þá liggur fyrir yfirlýstur vilji forsætisráðherra og menntamálaráðherra „að gögn frá þessum árum ... komi upp á yfirborðið; það hefur enginn neitt að fela“ (menntamálaráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins, 16. október 2006). Loks er ljóst að einstaklingar munu, ef þurfa þykir, höfða mál fyrir dómstólum til að fá þann sama aðgang að þessum úrskurðum og mér var veittur.

„Skýrsla nefndar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945-1991“

Þegar á reyndi tókst „kaldastríðsnefndinni“ ekki að ljúka störfum fyrir áramót eins og til var ætlast. Lokaskýrsla hennar birtist 9. febrúar 2007 og fólst í henni margs konar nýr fróðleikur, ekki síst um framkvæmd hlerana og fyrirkomulag. Tekin voru af öll tvímæli um það að hleranir hefðu átt sér stað. Nafngreindir heimildarmenn, sem átt höfðu hlut að máli, lýstu því að símtöl hefðu ekki verið tekin upp á segulband heldur hefði einungis verið hlustað og skrifað niður það sem máli þótti skipta. Nýjar heimildir um eftirlit með sendiráði Sovétríkjanna og sendimönnum þeirra komu einnig fram. Í viðaukum með skýrslu nefndarinnar var einnig vísað í markverð gögn um samskipti öryggisþjónustu lögreglunnar við ráðherra á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar 1956-58. Fram kom að alþýðuflokksmaðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson, sem var utanríkisráðherra, ræddi um starfsemi „öryggisdeildarinnar“ við Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóra en vildi ekki nefna þau mál við Hermann Jónasson forsætisráðherra, hvað þá ríkisstjórnina alla.

Framtíðin

Þótt margt hafi komið í ljós undanfarna mánuðiu um símahleranir og annað eftirlit í kalda stríðinu er akurinn enn óplægður að einhverju eða miklu leyti. Hvað gerist næst? Hvað mun frekar koma í ljós. Um það er ómögulegt að segja og lokaorðin hér verða þau sömu og í Óvinum ríkisins: „Ýmislegt er … enn ósagt og gangi öðrum vel að feta sig frekar áfram í huliðsheimum hlerana, njósna og öryggisgæslu í kalda stríðinu á Íslandi.“


[1]Þjóðviljinn, 27. mars 1949. Sjá einnig: Baldur Guðlaugsson og Páll Heiðar Jónsson, 30. marz 1949, bls. 147.

[2]Stjórnartíðindi1941, bls. ?? ATH.

[3]Vef. Lagasafn Alþingis. 47. grein laga um meðferð opinberra mála, nr. 27, 1951. [ATH]

[4]Þjóðviljinn, 14. apríl 1960 og Morgunblaðið, 20. apríl 1960.

[5]SH. „Ofbeldisannáll. Mr. Rogers“, og Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir, ’68, bls. 211.

[6]Alþýðublaðið, 26. maí 1973. Því miður var upptaka sjónvarpsþáttarins, sem nefndist „Hvers vegna Ísland?“, ekki varðveitt.

[7]„Skýrsla nefndar samkvæmt ályktun Alþingis“, bls. 8.

[8]„Stóri bróðir sér þig“. Neisti, 3 (1973), bls. 7. „Lögreglunjósnir“. Stéttabaráttan, 5 (1975), bls. 2. „„Öryggis“lögreglan sænska hlerar síma sænskra kommúnista“. Verkalýðsblaðið, 3 (1975), bls. 8.

[9]Frásögn Páls Heiðars Jónssonar, 15. febrúar 2006.

[10]Haraldur Böðvarsson, „Framkvæmd íslenskra réttarreglna um símahlerun og bréfleynd“, bls. 6.

[11]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 18.

[12]Alþingistíðindi1995-95, A, bls. ?? 120. löggjafarþing. -- 222 . mál. 548. Svardómsmálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um símahleranir.

[13]Morgunblaðið, 14. febrúar 1996.

[14]Umræður á Alþingi, 16. apríl 2004, http://www.althingi.is/altext/130/O4/r16113733.sgml.

[15]Sjá t.d. Verkalýðsblaðið, 3/1 1975, 4-5/1 1975 og 8/2 1976.

[16]G. Pétur Matthíasson, „Íslensk leyniþjónusta“, Helgarpósturinn, 27. mars 1986.

[17]Pálmi Jónasson, „„Hin íslenska leyniþjónusta““, Morgunpósturinn, 2. febrúar 1995.

[18]Guðni Th. Jóhannesson, „Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“, Söguþing 2006, bls. ATH.

[19]Sjá t.d. Morgunblaðið, 22. maí 2006.

[20]Már Jónsson á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands, 22. maí 2006, [http://listar.hi.is/mailman/private/gammabrekka/2006-May/001727.html].

[21]Guðni Th. Jóhannesson á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands, 22. maí 2006, [http://listar.hi.is/mailman/private/gammabrekka/2006-May/001728.html].

[22]Már Jónsson á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands, 22. maí 2006, [http://listar.hi.is/mailman/private/gammabrekka/2006-May/001733.html].

[23]Sjá t.d. Björn Bjarnason, „Enn um hleranamálið“, 2. desember 2006, www.bjorn.is/pistlar/nr/3814. [og finna EKG]

[24]Guðni Th. Jóhannesson, „Símahleranir á Íslandi“, bls. ??

[25]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 351.

[26]Lög um rétt nefndar samkvæmt ályktun Alþingis til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál. Samþykkt á Alþingi 4. október 2006. http://www.althingi.is/altext/133/s/0179.html.

[27]„Skýrsla nefndar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945-1991“, bls. 2, [http://forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/skyrsla_oryggismal.pdf].

[28]Morgunblaðið, 22. og 24. maí 2006. „Úrskurður vegna kæru Kjartans Ólafssonar um ákvörðun þjóðskjalavarðar“, 16. október 2006. [http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/3734].

[29]Morgunblaðið, 24. maí 2006.

[30]„Athugasemdir frá Þjóðskjalasafni Íslands“, 22. september 2006. [http://www.archives.is/index.php?node=532].

[31]„Úrskurður vegna kæru Kjartans Ólafssonar um ákvörðun þjóðskjalavarðar“, 16. október 2006. [http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/3734]. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, „Fleipur eða fölsun?“ Fréttablaðið, 6. október 2006, og „Fagnaðarefni“, Fréttablaðið, 20. október 2006.

[32]Þór Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin“. Sama dag birtist útdráttur greinarinnar í Morgunblaðinu.

[33]Þór Whitehead, „Hver vissi hvað og hvenær?“ Morgunblaðið, 22. október 2006.

[34]Þór Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin“, bls. 72 og 83.

[35]Össur Skarphéðinsson, „Leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“, Fréttablaðið, 9. október 2006. Katrín Jakobsdóttir, „Afhjúpum njósnarana“, Blaðið, 11. október 2006.

[36]telja það upp ??

[37]Ólafur Teitur Guðnason, „Meiri sjálfsritskoðun“, Viðskiptablaðið, 29. september 2006.

[38]Þór Whitehead, „Hver vissi hvað og hvenær?“ Morgunblaðið, 22. október 2006.

[39]Guðni Th. Jóhannesson, „Veit einhver allt?“ Morgunblaðið, 28. október 2006.

[40]Þór Whitehead, „Hver vissi hvað og hvenær?“ Morgunblaðið, 22. október 2006.

[41]Össur Skarphéðinsson, „Þögn Sjálfstæðisflokksins“, Fréttablaðið, 16. október 2006.

[42]Þór Whitehead, „STASI og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“, 18. október 2006.

[43]Morgunblaðið, 19. október 2006.

[44]Morgunblaðið, 11. október 2006.

[45]Sjá t.d. Blaðið, 26. október 2006.

[46]„Reykjavíkurbréf“, Morgunblaðið, 29. október 2006.

[47]„Úskurður vegna kæru Kjartans Ólafssonar um ákvörðun þjóðskjalavarðar“, 16. október 2006. [http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/3734].

[48]Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður til Kjartans Ólafssonar, 20. október 2006. [http://www.skjaladagur.is/test/nidurstada_thi.pdf].

[49]„Gögn í vörslum Þjóðskjalasafns Íslandser varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum“, 26. október 2006 [http://www.archives.is/index.php?node=534].

[50]Fréttablaðið, 27. október 2006.

[51]Guðni Th. Jóhannesson, „Leitin að sannleik um símhleranir. Smásaga úr lífi sagnfræðings. Hugvísindaþing Háskóla Íslands, 4. nóvember 2006“.

[52]Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður til Kjartans Ólafssonar, 20. október 2006. [http://www.skjaladagur.is/test/nidurstada_thi.pdf].

[53]Guðni Th. Jóhannesson, „Leitin að sannleik um símhleranir. Smásaga úr lífi sagnfræðings. Hugvísindaþing Háskóla Íslands, 4. nóvember 2006“.

[54]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 154.

[55]Sama heimild bls. 332‒334.

[56]Sama heimild bls. 346‒347.Drupal vefsíða: Emstrur