Skip to Content

"Ógnuðu þeir öryggi ríkisins?" (2006)

Þessi fyrirlestur var fluttur 6 des. 2006, rétt eftir að bókin um Óvini ríkisins kom út. Hann vakti nokkuð umtal, meðal annars á Alþingi; sjá t.d. ræður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesens, Steingríms J. Sigfússonar og skólabróður míns og vinar, Guðjóns Ólafs Jónssonar. Sjá einnig frétt Morgunblaðsins af fundinum. Ég flutti erindið nokkurn veginn eins og það birtist hér.

Ógnuðu þeir öryggi ríkisins?

Mér var einu sinni kennt það trikk þegar maður er í umræðutíma í einhverju fagi í háskóla og fær spurningu sem getur verið erfitt að svara, að kryfja hana til mergjar, brjóta hana niður í smæstu einingar og velta hverri einingu svo fyrir sér – þangað til tíminn er búinn ef því er að skipta. Ætla ekki endilega að ganga svo langt hér en það getur kannski orðið að einhverju gagni hér ef við tökum þessa spurningu orð fyrir orð: Ógnuðu þeir öryggi ríkisins:

Ógnuðu– í hverju fólst það að ógna; hver var ógnin?

Þeir– hverjir voru þeir, hvaða fólk eða hóp erum við að tala um?

Öryggi ríkisins– þetta er auðvitað þekkt hugtak; snýst í grófustu dráttum um að ríkjandi stjórnarfar sé tryggt og verndað; sömuleiðis æðstu ráðamenn og tignir gestir ríkisins. Þetta er það sem þarf að vernda gegn „ógnum“ „þeirra“.

Og þetta er í raun það sem ég lýsi í þessari bók sem kom nýlega út og hefur vakið dálítið umtal. Rauði þráðurinn í henni ótti: sá ótti um öryggi ríkisins sem stundum gætti hjá ýmsum ráðamönnum á Íslandi og þær varnir sem þeir gripu þá til.

Ég ætla hérna fyrst aðeins að rekja hvaða ógnum ráðamenn hverju sinni töldu sig standa frammi fyrir. Ísland hafði auðvitað alltaf verið berskjaldað ef út í það var farið; munum eftir Tyrkjaráninu eða hinu grátbroslega valdaráni Jörundar hundadagakonungs 1809. Svo kom byltingin í Rússlandi 1917 og boðun heimsbyltingar kommúnismans. Fjórum árum síðar varð hasar hér heima, „Hvíta stríðið”, þegar vísa átti rússneskum dreng úr landi, og einn góðborgari hér í heim kallaði þau slagsmál sem þá urðu „uppreisn bolsévíkanna“. Allt tal um byltingu var úr lausi lofti gripið en samt hlaut það að valda ríkisstjórn og lögregluyfirvöldum áhyggjum að þau urðu þarna að reiða sig á liðsafla úr röðum óbreyttra borgara til þess að framfylgja vilja sínum. Lögreglan í Reykjavík var fámenn; það var enginn her í landinu.

Svo kom hinn frægi Gúttóslagur  9. nóvember1932 þegar harður bardagi blossaði upp í kreppunni miðri, út af áformum um kauplækkun í atvinnubótavinnu. Sumir höfðu þá í heitingum um að drepa andstæðinga verkalýðsins. „Björn Vigfússon, svoleiðis helvítis kvikindi ætti bara að drepa,“ heyrði einn lögregluþjónninn margsagt um félaga sinn. Sjálfur bar Björn að hann hefði heyrt þrjá félaga í Kommúnistaflokknum, sem var stonfaður 1930, hrópa „að bráðum rynni upp það þýðingarmikla augnablik að öll lögreglan yrði drepin og sömuleiðis bæjarfulltrúarnir.

Hið fámenna lögreglulið var úr leik eftir þennan slag, lamið sundur og saman, en ekki var blásið til byltingar. Leiðtogar kommúnistaflokksins vissu að þegar hún kæmi yrði það alheimsbylting sem hæfist annars staðar en í Gúttó við Tjörnina í Reykjavík. Ógnin virtist þó raunveruleg. „9. nóvember hefir opnað augu þjóðarinnar,“ sagði Ólafur Thors á Alþingi, „nú á að gera út um það, hvort ríkið á að standa eða falla. Nú á að skera úr, hvort hver óaldarseggurinn á að fá að vaða uppi um annan þveran, án þess að ríkisvaldið hafi minnsta bolmagn til þess að standast þær árásir.

Á þessum árum var því reynt að koma á laggirnar varalögreglu eða ríkislögreglu en áfram var lögreglan þó veik og vanmegna. Svo kom heimsstyrjöld, og eftir það kalda stríðið. Þessar fyrri ógnir sem ég hef aðeins rakið hér urðu enn ríkari í huga margra ráðamanna – innrás eða strandhögg að utan eins og fyrr á öldum eða valdaránstilraun kommúnista. Það var ekkert séríslenskt fyrirbæri; fyrstu ár kalda stríðsins, segjum frá 1948 og langt fram á sjötta áratuginn, gengu valdhafar í Vestur-Evrópu að því sem vísu að sósíalistar eða kommúnistar myndu ræna völdum ef þeir gætu. Sú var ógnin – í huga manna.

Hverjir voru þá „þeir“? Ég ætla aðeins að fjalla hér um megintímabil bókarinnar, 1949 til 1968; það tímabil þegar heimilað var að hlera síma út af ótta um öryggi ríkisins – og þegar slíkar hleranir fóru óumdeilanlega fram.

Þetta voru sex tilfelli eins og oft hefur komið fram; 1949 þegar átökin urðu við Alþingishúsið þegar við gengum í NATO, og tvisvar árið 1951; og svo 1961, 1963 og 1968. Skiptist því í raun í tvö tímabil; hið fyrra og svo þessi þrjú skipti á sjöunda árutugnum.

ÞEIR voru flestir í Sósíalistaflokknum og síðan Alþýðubandalaginu; þeir voru þingmenn eða óbreyttir flokksmenn; og í þessum hópi voru líka stofnarninar sjálfar, flokkurinn og blaðið – Þjóðviljinn – og verkalýðssamtök, Dagsbrún og ASÍ, og svo Samtök hernámsandstæðinga.

Snemma árs 2005, þegar ég vissi að ég mætti bráðum fá að kynna mér gögn um símahleranir, fór ég að hugsa hjá hverjum hefði verið hlerað hjá; hverjir ÞEIR hefðu verið. Sumt kom því ekki á óvart þegar ég svo fékk aðgang að gögnunum; þetta voru Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, Magnús Kjartansson Þjóðviljaritstjóri, hann á í raun Íslandsmet, var hleraður í öll sex skiptin. [innskot september 2011: hér hefði verið réttara að segja: var úrskurðað um hlerun – hver veit nema ég hafi sagt það í erindinu þótt textinn segi annað]. En svo vöktu önnur nöfn athygli; tökum sem dæmi 1951: Finnbogi Rútur Valdimarsson, alþingismaður Sósíalistaflokksins og fulltrúi hans í utanríkismálanefnd Alþingis. Hann var bróðir Hannibals, þingmanns Alþýðuflokksins, og átti sinn pólitíska uppruna í þeim flokki; hafði meðal annars verið ritstjóri Alþýðublaðsins á blómaskeiði þess á fjórða áratugnum. Finnbogi Rútur var aldrei flokksbundinn í Sósíalistaflokknum en fannst hann eiga samleið með þeim flokki í utanríkismálum. Hann var því fráleitt „Moskvukommúnisti“. Hann var frekar „hinn róttæki vinstrisinni sem fyrirleit kommúnista og alla þeirra fólsku og fordæðuskap,“ eins og Jón Baldvin Hannibalsson, bróðursonur hans, skrifaði löngu síðar.

Annar sem úrskurðað var um hlerun hjá var auðvitað Hannibal Valdimarsson; það var árið 1961, út af deilum um landhelgissamning Viðreisnarstjórnarinnar við Breta sem þá stóð til að ræða á Alþingi; Hannibal var í stjórnarandstöðu; heitur andstæðingur samkomulagsins. Var rætt fram á nótt, og Hannibal var staðráðinn í að beita öllum tiltækum ráðum til að tefja málið.

Upp úr klukkan tvö aðfaranótt 8. mars fékk Hannibal Valdimarsson orðið, einu sinni sem oftar. Fátt var stjórnarþingmanna í salnum og bað hann forseta sameinaðs þings, alþýðuflokksmanninn Friðjón Skarphéðinsson, að sjá til þess að Ólafur Thors forsætisráðherra og Gunnar Thoroddsen fjármálaráðherra yrðu kallaðir til fundarins. Hannibal kvaðst eiga sérstaklega vantalað við þá og hæfi hann ekki mál sitt fyrr en þeir væru komnir að hlýða á hann. Þingforseti benti á að ráðherrarnir yrðu ekki þvingaðir til fundarsetu og mælti svo fyrir að þingmaðurinn viki úr ræðustóli ef hann treysti sér ekki til að hefja upp raust sína. En Hannibal varð ekki þokað. Nú hófst orðasenna, einstæð í allri þingsögunni:

Hannibal:   Forseti hefur ekkert fyrir sér í því að ég treysti mér ekki til þess að flytja ræðu mína. Ég treysti mér mætavel til þess. Það er misskilningur hans. Ég er að bíða hér eftir þeim mönnum, þingmönnum, þingbræðrum mínum, sem hér eru skyldugir til að vera og ég þarf að tala við.

Forseti:      Háttvirtur þingmaður veit að honum ber einnig skylda til að hlýða forseta og ég vænti þess að hann geri það.

Hannibal:   Vissulega er það skylda þingmanna að hlýða forseta en það er frumskylda forseta að heimta sömu réttindi og skyldur af þingmönnum, gera ekki sumum þeirra að vaka til morguns við þingstörf en leyfa öðrum að sofa. Réttlátum forseta á að hlýða. En ég legg réttlæti þessa forseta nú undir dóm þingmanna, hvort ég er að brjóta hér rétt eða hann.

Forseti:      Ég spyr háttvirtan þingmann: Er það alvara hans að óhlýðnast skipun forseta að víkja úr ræðustóli eða byrja ræðu sína ella?

Hannibal:   Það er alvara fyrir mér að fá að ræða hér við þá menn sem ég hef ætlað að beina orðum mínum til.

Svo fór að forseti varð að fresta fundi. Þetta er nú bara smásaga, en var nauðsynlegt að hlera Jón – ég meina Hannibal. Var ógnin þvílík? Og þeir voru fleiri þingmennirnir sem var ákveðið að hlera þarna; Eðvarð Sigurðsson, Lúðvík Jósepsson. Auðvitað má spyrja sem svo: Ef þeir ætluðu að ógna öryggi þingsins eða ríkisins með einhverjum óspektum við þinghúsið eins og óttast var, hefðu þeir þá talað um það í síma?

Og það segir sig sjálft að fyrst lögregla og dómsmálaráðuneytið biðja um að símar þingmanna séu hleraðir um leið og viðkvæm mál eru til umræðu á Alþingi, þá hljóta spurningar að vakna um hvort það hafi virkilega verið nauðsynlegt, og hvort enginn hafi gert sér grein fyrir þeirri hættu að menn yrðu sakaðir um að hafa stundað pólitískar njósnir.

Þetta rek ég allt nánar í bókinni, og líka, svo maður stikli bara á stóru hérna, hleranirnar árið 1968 þegar utanríkisráðherrafundur NATO er haldinn hér. Meðal þeirra sem þá voru taldir geta ógnað öryggi ríkisins var fólk sem var ekki í forystu stjórnmálaflokks eða samtaka; en hafði verið virkt í andófi ýmiskonar, t.d. spreyjað slagorð á NATO-herskip og þess háttar. En er það ógn við öryggi ríkisins og réttlætir það símahleranir? Það hlýtur að orka mjög tvímælis.

1968 var síðasti úrskurðurinn kveðinn upp; og manni sýnist að alls hafi verið ákveðið að hlera síma á fjórða tug einstaklinga í þessi sex skipti 1949‒1968. Átta þeirra sátu á Alþingi þegar úrskurðað var um hlerun í heimasíma þeirra. Hjá einum manni var hlerun heimil í öll sex skiptin. Það var Magnús Kjartansson. Leyfi var veitt til hlerana heima hjá Einari Olgeirssyni í hvert skipti nema árið 1968. Þrisvar mátti hlera hjá Áka Jakobssyni og Eggert Þorbjarnarsyni (1949 og bæði skiptin 1951) og einnig hjá Kristni E. Andréssyni (bæði skiptin 1951 og 1961). Tvisvar mátti hlera hjá átta mönnum, þeirra á meðal þingmönnunum Brynjólfi Bjarnasyni og Sigurði Guðnasyni (1949 og apríl 1951), og Lúðvík Jósepssyni (1961 og 1968). Hjá öðrum 20 (eða 18-19) var svo úrskurðað um hlerun í eitt skipti.

Fyrir liggur að hlerunum árið 1949 var hætt 14 dögum eftir að úrskurður var fyrst kveðinn upp um þær og árið 1968 gilti hleranaheimildin í 19 daga. Óvíst er um lengd hlerana hin fjögur skiptin þar á milli. Sé hins vegar gert ráð fyrir að slíkar aðgerðir hafi að jafnaði staðið í um 14 daga má komast að þeirri niðurstöðu að í kalda stríðinu á Íslandi hafi hleranir samkvæmt dómsúrskurði varað í samtals tæpa þrjá mánuði. Það er auðvitað ekki neitt miðað við það sem fór fram í Skandinavíu.

En þá er það spurningin um hleranir án úrskurðar. Hér var alls kyns andóf og „aksjónir“ upp úr 1968 eins og ég nefni í bókinni, jafnvel tilraunir til að sprengja byggingar í loft upp, og einhverjir ræddu um mannrán í anda Baader-Meinhof og slíkra samtaka. Þurfti lögreglan ekki að hlera og fylgjast með þessu liði? Menn voru auðvitað sannfærðir um það. Við getum tekið sem dæmi, af því við erum hér á háskólalóðinni, söguna af því þegar róttækir stúdentar og fleiri komu í veg fyrir að bandaríski utanríkisráðherrann William Rogers kæmist inn í Árnagarð til að skoða handritin sem þá voru geymd þar. Undirbúningur aðgerðanna fór fram með mikilli leynd og af því að fólk þóttist vita að lögreglan hleraði vissa síma var sett á svið smá sjónarspil; Birna Þórðardóttir hjá Fylkingunni, og Guðmundur Ólafsson hjá Stúdentaráði ræddu saman.

 

Fylkingin: Halló, þetta er í Fylkingunni. Hvernig er það með ykkur vinstrimenn þarna í Háskólanum. Á ekki að gera eitthvað þegar djöfuls glæpahundurinn hann Rogers kemur í heimsókn?

Stúd.ráð:   Æ, helvítis helvíti, það þýðir ekki neitt, hér er allt svo svo dauft maður. Allt liðið komið í próflestur. Enginn þykist mega að vera að neinu.

 

Mér er sagt að það hafi nú ekkert verið hlerað þarna – og vil trúa því nema ég fái sannanir um annað. En á þessum árum voru ÞEIR sem gátu ógnað öryggi ríkisins líka róttækir námsmenn – og þeir voru ansi margir á þessum árum – virðulegir góðborgarar í dag.

Ef við trúum öllum sögunum um hleranir, t.d. á áttunda áratugnum, þá bjuggu hundruð manna við stöðugar hleranir eða tímabundnar hleranir hér á landi.

Ef við höldum áfram að trúa þessum sögum þá var afskaplega illa að verki staðið; það heyrðust stöðugar truflanir á línunni, það heyrðist tikk, línum sló saman, ókunnugt fólk kom inn í samtölin, andardráttur heyrðist – væntanlega þess sem var að hlera.

Við höfum engar skriflegar sannanir um þessar meintu stórfelldu hleranir, eftir því sem ég kemst næst. Hér getum við því valið að ákveða bara að trúa fólki eða trúa því ekki. En við getum líka ályktað og hugsað rökrétt.

Við þetta miklar hleranir hefði þurft talsverðan fjölda fólks, held ég. Hefði verið hægt að halda slíku leyndu? Það var hægt í Noregi, að mestu, en hefði það verið hægt hér?

Ef við tölum við símamenn, bæði þá sem enn starfa og þá sem sestir eru í helgan stein en voru í fullu fjöri þarna á áttunda áratugnum, heyrum við líka að hleranir áttu að geta farið fram án nokkurra truflana; ég nefni þetta í bókinni, t.d. haft eftir einum deildarstjóranum hjá Pósti og síma að það væri „gjörsamlega útilokað að menn heyri það að samtöl þeirra séu hleruð með þeirri tækni sem við notum við verkið“.

Að lokum nokkur orð um ÖRYGGI RÍKISINS. Við sjáum kannski að á seinna tímabiliinu sem ég fjalla um í bókinni er sá ótti mjög áberandi að gerður verði aðsúgur að erlendum gestum, eða þeim ógnað á einhvern hátt. óttinn snýst ekki um valdarán eða innrásir eins og þegar kalda stríðið var í algleymingi – samt var þó haldin spjaldskrá um „kommúnista“ og „velunnara kommúnista“ – og má segja að það hafi fyrst og fremst verið arfur frá liðinni tíð. Óþarfur ef út í það er farið, og ekki byggður á skýrri lagastoð.

Í sambandi við símahleranir þarf líka að hafa í huga að þær voru aðeins heimilar ef öryggi ríkisins krafðist þess eða stórfelld sakamál væru annars vegar; og í raun hvíldi engin kvöð á lögreglu og ráðuneyti að rökstyðja það að öryggi ríkisins væri ógnað. Ef lögreglu og dómsmálaráðuneyti fannst öryggi ríkisins ógnað, þá var öryggi ríkisins ógnað. Við getum svo rætt um hvort þetta hafi verið eða sé skynsamleg staða.

Alveg í blálokin; ég minntist á það hérna í byrjun hvernig það gæti verið ágætis leið að kryfja svona spurningu til mergjar; ógnuðu þeir öryggi ríkisins. Mér hefur verið sagt frá einu dæmi þar sem sagnfræðinemi sem vissi ekkert um efnið gat notað hana til að sleppa úr þeim vanda. Hann fékk verkefni á munnlegu prófi: Ræðið heilaga rómverska stórveldið; Holy Roman Empire. Stóð á gati í smástund en sagði svo; í fyrsta lagi það var ekki heilagt, í öðru lagi, það var ekki rómverskt og í þriðja lagi var það ekki stórveldi.

Það verður kannski hægt að segja eftir á það um þá sem ógnuðu öryggi ríkisins; það var nær aldrei ógn til staðar; þeir voru ekki til sem sameinaður hópur ógnvalda – en öryggi ríkisins getur þó aldrei horfið. Það er hugtak og fyrirbæri sem er hornsteinn í stjórnarfari og þjóðskipulagi og það er vandinn við þessa sögu. Við getum deilt og rökrætt um það hvort ógnin var raunverulega eða ekki, en öryggi ríkisins þarf alltaf að verja þegar þörf er á.



Drupal vefsíða: Emstrur