Skip to Content

Kalda stríðið

"Uppljóstrarinn fundinn", Sagan öll 7 (2007)

Í þessari grein er að finna mikilvægar upplýsingar um ástæður þess að ákveðið var að hlera ákveðin símanúmer sumarið 1968. Um leið sannar hún mikilvægi þess að birta rannsóknir helst þar sem eftir þeim er tekið, annars hafa þær lítil sem engin áhrif.

"Siðferði og sérhagsmunir í utanríkisstefnu Íslands", Morgunblaðið 15. okt. 1997

Það kom mér ánægjulega á óvart á sínum tíma að sjá miðopnu Morgunblaðsins lagða undir þessa grein. Réð því Styrmir. Í ritstjóratíð sinni reyndist hann mér ávallt vel. Mér finnst greinin ágæt yfirlit um þá spennu sem hlýtur að gæta milli siðferðis og sérhagsmuna hjá lýðræðislegu örríki í hörðum heimi.

""Með því að óttast má"" (2008)

„Með því að óttast má...“ Ástæður símhlerana í kalda stríðinu.

Fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands, 30. sept. 2008

„Með því að óttast má...“ Í heiti þessa erindis er vitnað í upphaf setningar í beiðni dómsmálaráðuneytis til sakadóma um símhleranir á árum kalda stríðsins. Þær aðgerðir komust fyrst í hámæli fyrir rúmum tveimur árum. Síðan þá hafa margir deilt um þær. Þeir sem réttlæta þær hafa gjarnan spyrt þær allar saman og séð sömu, stóru rökin fyrir þeim. „Sósíalistaflokkurinn, og fyrirrennari hans, kommúnistaflokkurinn,“ skrifaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor til dæmis, „hikuðu ekki við að beita ofbeldi, þegar þeir töldu þess þurfa, enda höfðu þeir það beinlínis á stefnuskrá sinni. Forystumenn þeirra lutu fyrirmælum frá stærsta einræðisríki heims og þáðu þaðan stórfé til baráttu sinnar...“[1]

            Hinir, sem telja að hleranirnar hafi verið óþarfar með ölllu, segja aftur á móti – eins og Vigfús Geirdal sagnfræðingur svo dæmi sé tekið, „að íslenskir ráðamenn höfðu aldrei raunverulega ástæðu til að óttast sovéskt hernám Íslands né heldur valdatöku fámenns hóps íslenskra kommúnista. Vera má að ótti þeirra hafi verið einlægur. Hafi svo verið er ekki þar með sagt að sá ótti sé afsakanlegur, enn síður að hann réttlæti umfangsmiklar, ólöglegar njósnir um pólitíska andstæðinga og saklausan almenning.“[2]

            Þetta eru hinir stóru dómar um hleranir í kalda stríðinu. Þeir sýna vel sjónarmið stríðandi fylkinga en þeir duga alls ekki, sé ætlunin að útskýra þessar aðgerðir hverju sinni. Til þess þarf að þrengja sjónarhornið; hverfa frá hinu almenna að hinu sérstaka, frá Sósíalistaflokki og stjórnvöldum til fólks af holdi og blóði; frá tuttugustu öldinni til einstakra atburða.

            Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, stóð einmitt upp í þessum sal fyrir hálfum mánuði og spurði fyrirlesarann í það sinn, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra: „Var nauðsynlegt að hlera síma Ragnars Arnalds? Var Ragnar ógn við öryggi ríkisins?“[3] Ráðherra svaraði því ekki beint en hann hefur sagt, við annað tilefni, að menn geti „deilt um það hvort rétt hafi verið að gera þetta eða hitt“.[4]

Aðrir sem verja hleranirnar að öllu jöfnu hafa líka viðurkennt að aðgerðir hverju sinni megi vissulega vega og meta, „að þessi viðbrögð megi með réttu gagnrýna í einstökum atriðum“, eins og Þór Whitehead prófessor komst að orði;[5] að það megi „endalaust“ deila um rökstuðning lögreglunnar og auðvitað hafi saklausir menn dregist inn í málið.[6] Og hverfum þá að því sögðu til þeirra sex atvika um símhleranir í kalda stríðinu sem kunn eru.

 

Aðild að Atlantshafsbandalaginu

 

Á lýðveldistíma hafa pólitísk átök aldrei orðið eins hörð og 30. mars 1949, þegar Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Dagana á undan hafði Þjóðviljinn barist af hörku gegn því og sagði meðal annars „að þegar Bandaríkjalepparnir leggja hinn nýja landráðasamning fyrir Alþingi, munu Reykvíkingar tugþúsundum saman koma og mótmæla, til að hindra að hann verði gerður af þingmönnum – sem þjóðin mun sparka...“[7] Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra lét að bragði semja bréf í ráðuneyti sínu til sakadóma þar sem sagði að af þessum ummælum virtist mega ráða „að tilætlunin sé sú að hindra Alþingi í störfum sínum“. Var því leitað eftir heimild til þess að hlera síma „forráðamanna Þjóðviljans og annarra þeirra er líklegt má telja að standi að þessum hótunum“.[8]

            Heimildin fékkst og hleranir hófust, en voru þær réttlætanlegar? Voru Þjóðviljamenn kannski aðeins að sveifla orðsins brandi? Víst er að þeir sósíalistar voru til, einkum í röðum Æskulýðsfylkingarinnar, sem vildu beita ofbeldi, „stofna sveitir og útvega sér barefli“, eins og einn þeirra sagði. Annar ræddi um að skipa nokkra 25 manna flokka sem réðust á Alþingi og tækju það með valdi, og enn annar að gestur á þingpöllum skyldi hella salmíaksspíritus yfir þingsalinn.[9]

            Örlagadaginn 30. mars sást líka hvað sumum var heitt í hamsi, þó fjöldanum hafi ekki dottið í hug að ráðast inn í þinghúsið eða misþyrma þingmönnum. Nú deila þeir sem voru beggja vegna víglínunnar auðvitað um það sem gerðist. Tveir andstæðingar bandalagsaðildar rifjuðu það upp í sumar að „Fáeinir menn sem tilheyrðu ekki mótmælendahópnum 30. mars 1949 gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, en ekki að Alþingishúsinu, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar sem engum skaða ollu, en líklega er rétt að einn þeirra hafi brotið rúðu í húsinu.“ Síðan hefðu „hvítliðar“ ráðist á almenning og þá hefði verið barist og grjóti kastað uns gasinu var beitt.[10]

            Þessari frásögn mótmælti annar sjónarvottur, þingskrifari þennan dag sem mundi það í sumar, eins og það hefði gerst í gær, „að áður en atkvæðagreiðslu og þingfundi var lokið, barst stærðar hraunhnullungur með miklu brothljóði gegnum rúðu að baki forsetastóls, flaug yfir stól forseta, en Guðs mildi að hann hæfði ekki forseta í höfuðið...“[11]

            Til þessara misvísandi frásagna er vitnað hér vegna þess að úr báðum áttum var biðlað til okkar sagnfræðinganna að reyna að segja satt og rétt frá. Ættum við aðeins að hlusta á vitnisburð þeirra sem voru á vetttvangi yrðum við greinilega að trúa einum og segja annan ljúga, en sem betur fer eru til fleiri heimildir. Ríkisútvarpið greindi þannig skilmerkilega frá atburðarásinni 30. mars 1949 og að sögn þess hófst rúðubrotið löngu áður en stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar réðust úr þinghúsinu; það var ekki aðeins ein rúða sem brotnaði „líklega“ áður en þeir létu til skarar skríða.

            Hér er ekki rúm til að rekja þessa sögu til hlítar en ég stend við þá niðurstöðu sem er í bók minni, Óvinir ríkisins, að hafi einhvern tímann verið rík ástæða fyrir lögreglu og stjórnvöld að hlera síma, hafi það verið við inngönguna í Atlantshafsbandalagið. Heiftin var það mikil.

            Hitt er annað mál að hleranirnar geta talist frekar fálmkenndar. Ekki var hlustað hjá þeim áköfustu í Fylkingunni heldur hjá starfsmönnum Þjóðviljans og forystumönnum Sósíalistaflokksins, mönnum eins og Einari Olgeirssyni og Brynjólfi Bjarnasyni. Það lá vitaskuld beint við að hlera hjá þeim síðarnefndu en um leið mátti vera nokkuð ljóst að þeir myndu aldrei tala af sér í símanum. Reyndar eru fyrir því alltraustar heimildir að Einar hafi hringt í harðdræga flokksmenn fyrir hasarinn 30. mars og lagt að þeim að hafa hægt um sig, sem sannar þá bæði að flokkurinn vildi ekki stjórnlaust ofbeldi við þinghúsið, en hitt líka að þeir róttækustu voru svo sannarlega til í tuskið.

 

Hleranir 1951

 

Atburðirnir við Alþingishúsið 30. mars 1949 festust í minni þeirra sem þá fóru með völd í landinu. Þeir óttuðust að eitthvað svipað gæti gerst aftur og þeir þóttust sjá að þeir yrðu að vera búnir betur undir það sem verða vildi. „Öryggisþjónustu“ var formlega, en leynilega og án beinnar lagastoðar, komið á laggirnar innan lögreglunnar. Hlerunarbúnaði var einnig komið fyrir í lögreglustöðinni við Pósthússtræti.

Forstöðumaður öryggisþjónustunnar og örfáir menn til viðbótar höfðu meðal annars það hlutverk að fylgjast með íslenskum sósíalistum þannig að til varð spjaldskrá með upplýsingum um nöfn, heimilisföng, símanúmer, þátttöku í félagsstörfum og væntanlega fyrri mótmælum. Mikið af þessum upplýsingum fékkst einfaldlega með lestri Þjóðviljans og annarra blaða. Merkt var við nöfn og annað áhugavert efni að mati öryggisþjónustunnar – með rauðu – og eitthvað af þessum rauðmerktu úrklippum er víst ennþá til.

            Upplýsingar fengust einnig eftir öðrum leiðum og lögreglan stóð ekki ein í aðgerðum af þessu tagi. Ungur sjálfstæðismaður, sem síðar reis til nokkurra metorða í flokki sínum, hefur lýst því í skjóli trúnaðar að hann „sat við að skrá nöfn allra meintra kommúnista ... með því að liggja yfir blöðum, tímaritum, bæklingum, fundarboðunum og tilkynningum. Í gegnum milligöngumann en vissi ekki í fyrstu fyrir hverja var unnið en taldi sig síðan sjá af spurningum og óskum í gegnum þennan milligöngumann að þarna myndu bandarísk stjórnvöld vera á bak við, CIA eins og [hann] sagði sjálfur.“[12]

            Eftirlit og öflun upplýsinga hafði því aukist þegar komið var fram á árið 1951, en þá fengu lögregla og dómsmálaráðuneyti í tvígang heimild dómara til hlerana, í fyrra skiptið vegna heimsóknar Dwights D. Eisenhowers, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins, og í það seinna út af undirritun varnarsamnings við Bandaríkin og endurkomu Bandaríkjahers til landsins. Í bæði skiptin óttuðust yfirvöldin óeirðir og sá ótti var ekki út í bláinn. Eisenhower kom hingað eftir Evrópureisu þar sem komu hans hafði víða verið mótmælt, til dæmis í Danmörku, og dvöl herliðs í landinu markaði í raun meiri tímamót en aðildin að NATO 1949.

            Sjálfsagt var því að auka öryggisæslu. Á hinn bóginn gáfu forsvarsmenn Þjóðviljans engan höggstað á sér með heitingum eins og þeim sem höfðu flogið rétt fyrir 30. mars ‘49. Auk þess eru engar upplýsingar um það að forystusveit Sósíalistaflokks hafi hvatt til óeirða út af heimsókn Eisenhowers, heldur eru teikn þvert á móti um það að hún hafi skipað mönnum að sýna stillingu.

            Engu að síður voru hleranirnar víðtækari í þetta sinn en 1949. Nú var hlustað hjá óbreyttum og róttækum sósíalistum, hjá sumum vegna þess að þeir höfðu látið mikið að sér kveða 30. mars, og einn virðist hafa komist á hleranalistann vegna þess – meðal annars eða eingöngu – að hann hafði verið í hópi þeirra sem gerðu aðsúg að leiðtogum Sjálfstæðisflokksins út af deilum um Keflavíkursamninginn 1946. Annar sýnist hafa orðið fyrir valinu vegna hreinna mistaka. Þetta var verkamaður sem var vissulega sósíalisti og Dagsbrúnarmaður en á honum bar ekkert fram yfir aðra slíka. Hann var hins vegar alnafni ungs manns sem verið hafði í forystu Æskulýðsfylkingarinnar árið 1949 og það átti því væntanlega frekar að hlera hjá honum.

Það vekur líka sérstaka athygli að þegar von var á Bandaríkjaher var ákveðið að hlera einn símann enn, heima hjá Finnboga Rút Valdimarssyni. Hvers konar vitneskju gat lögregla hafa haft um það, þegar nær dró og hleranir voru hafnar, að Finnbogi Rútur væri með í einhverjum ráðum um óeirðir og ofbeldi? Hann hafði verið í Alþýðuflokknum en sat á þingi fyrir Sósíalistaflokkinn, var þó ekki félagi í þeim flokki og taldi sig fyrst og fremst eiga samleið með honum í utanríkismálum. Hann sat enda í utanríkismálanefnd fyrir sósíalista og er hugsanlegt að það hafi skipt einhverju máli þegar ákveðið var að hlera hjá honum? Að þessu má spyrja vegna þess að Finnbogi Rútur var alls ekki líklegur til að skipuleggja uppþot, og vegna þess að öllum gögnum sem öryggisþjónusta lögreglunnar aflaði við hleranir og annað eftirlit mun hafa verið eytt. Rökstuddar getgátur verða því stundum að duga þar sem staðreyndir hefðu annars talað sínu máli.

Kalda stríðið var í algleymingi á þessum árum. Það útskýrir hvers vegna yfirvöld töldu nauðsynlegt að hlera tiltekna síma; þau sáu ástæðu til að óttast óeirðir. En það þýðir ekki sjálfkrafa að rétt hafi verið að hlera síma árið 1951 hjá manni sem hafði verið með óspektir fimm árum fyrr, verkamanni sem var alnafni ungs róttæklings, eða þingmanni sem kom ekki nærri ofbeldi en lagði línur í málflutningi sósíalista á Alþingi.

 

Landhelgissamningurinn við Breta 1961

 

Símar voru ekki hleraðir með leyfi dómstóla í áratug eftir aðgerðirnar árið 1951. En svo dró aftur til tíðinda. Sumarið 1960 ákvað Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks að hefja samninga við Breta um lausn fyrsta þorskastríðsins sem þá hafði geisað í tvö ár. Um svipað leyti voru Samtök hernámsandstæðinga stofnuð og þau börðust strax af kappi gegn öllum undanslætti og „makki“ við Breta. Mótmælafundir voru skipulagðir, meðal annars við þingsetningu í október, og var tveimur eggjum þá kastað þingmönnum, og ráðamenn tóku að óttast að málamiðlun við Breta yrði svarað á svipaðan hátt og varð í mars 1949, með fjöldafundi sem gæti leitt til uppþots þannig að störfum Alþingis yrði ógnað. Um þetta sagði í Reykjavíkurbréfi fyrir um tveimur árum:

„Atburðirnir á Austurvelli 30. marz 1949 höfðu varanleg áhrif á þá, sem þar komu við sögu. Það var ofarlega í huga þeirra eftir það að slíkir atburðir gætu endurtekið sig. Upp úr 1960 var lögð mikil vinna í það í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins ... að koma á fót nýju varaliði á borð við það, sem kallað var út til þess að verja Alþingishúsið í lok marz 1949. ... forystumenn ríkisstjórnarinnar [höfðu líklega] áhyggjur af því, að samningar við Breta um 12 mílna lögsöguna, sem voru í aðsigi gætu framkallað svipuð átök og 1949 enda landhelgismálið mikið tilfinningamál. Þessar varúðarráðstafanir urðu aldrei annað en nöfn á blaði ...“[13]

Þannig var óttinn en ekki verður sagt að athafnir eða skrif sósíalista og annarra hafi staðfest að loft væri eða yrði eins lævi blandið og það var árið 1949. Samt sem áður fór svo að lögregla og dómsmálaráðuneyti fengu heimild til hlerana þegar leggja átti samning við Breta um lausn landhelgisdeilunnar fyrir Alþingi – með þeim rökum að óttast megi tilraunir „til að trufla starfsfrið Alþingis á næstu dögum“, enda hefðu deilur um landhelgismál þegar „valdið hótunum um ofbeldisaðgerðir.“

Þær hótanir voru ekki týndar til eða rökstuddar frekar, nema þá að gögnum um það hafi verið eytt. Einn forystumanna sósíalista var síður spurður hvort þeir hefðu getað séð sér hag í því að tufla störf þingsins. Svarið var þetta: „Nei, nei, nei, það er að segja að það hefur áreiðanlega engum – og þegar ég segi engum þá á ég við þá sem mátti flokka undir einhvers konar forystumenn; ég get auðvitað enga ábyrgð tekið á einhverjum einstökum extremistum – en það hefði engum dottið í hug að það væri hægt, eða væri nokkuð vit í því að að gera tilraun til að hindra afgreiðslu málsins á Alþingi.“[14]

Til eru heimildir sem benda til þess að ungir og róttækir sósíalistar hafi viljað blása til kröftugra mótmæla þegar Alþingi fjallaði um samninginn við Breta, og verið reiðir yfir linkind flokksforystunnar. En þó úrskurðað hafi verið um hleranir hjá Æskulýðsfylkingunni var ekki hlustað heima hjá kappsömum ungmennum þar að auki, heldur Alþýðusambandinu, til dæmis, og nokkrum forystumönnum sósíalista, þeirra á meðal fjórum þingmönnum. Og var það virkilega nauðsynlegt? Þeir sem hafa varið hleranirnar að öllu jöfn hafa til dæmis bent á að varla hafi verið ástæða til að hlusta í síma Hannibals Valdimarssonar, eins þingmannanna. „[Ó]sk um að hlera síma Hannibals [er] dálítið sérkennileg“, skrifaði Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur, „þar sem allir vissu að hann var ekki ofbeldissinni og lögreglunni átti að vera ljóst að kommúnistar myndu vart sýna honum trúnað varðandi fyrirætlanir sínar“.[15]

Vel má reyndar vera að lögreglan hafi helst viljað hlusta á samtöl Jóns Baldvins, sonar Hannibals, sem þá bjó í foreldrahúsum og vann af kappi fyrir Samtök hernámsandstæðinga. Það breytir því þó ekki að ákveðið var að hlera heima hjá alþingismanni, og „sonarástæða“ af þessu tagi er ekki til staðar í sambandi við Lúðvík Jósepsson, annan þingmann sósíalista sem úrskurðað var um hlerun hjá. Lögregla, dómsmálaráðuneyti og sakadómari fóru svo sannarlega út á hálan ís þegar hleranir voru leyfðar árið 1961. Ástæður til hlerana voru hvergi nærri eins ríkar og 1949 eða ’51.

 

Heimsókn Lyndons B. Johnsons

 

Svipað má segja um þær hleranir sem dómari heimilaði árið 1963. Þá var von á Lyndon B. Johnson, varaforseta Bandaríkjanna, í heimsókn til landsins, og Samtök hernámsandstæðinga tilkynntu lögreglu að þau hygðust standa að mótmælum við Háskólabíó þar sem gesturinn átti að halda hátíðarræðu. Samtökin ítrekuðu að fundurinn færi fram með friði og spekt en yfirmenn lögreglu og dómsmála voru ekki sannfærðir og báðu um hleranir því „fyrirhugað kunni að vera að stofna til óspekta í sambandi við opinbera heimsókn varaforsetans“. Í þetta sinn var aðeins beðið um að hlera sex símanúmer og varð dómari við því, líkt og fyrri daginn.

            Enn má spyrja hvers vegna ákveðið var að hlera hjá einum en ekki öðrum. Þannig sluppu allir forystumenn Samtaka hernámsandstæðinga, sem þó hlutu að liggja undir grun, en ekki tveir „góðkunningjar lögreglunnar“ í þessum efnum, Einar Olgeirsson og Magnús Kjartansson. Valið er undarlegt, og eftir á að hyggja hljóta ástæður til hlerana í þetta sinn að teljast veikar; aðeins tortryggni að því er virðist, án veigamikils rökstuðnings. Vissulega verður að hafa í huga hvað lögreglan var fámenn og að henni var ekki kleift að kalla á opinberan liðsafla. Sú skylda hvíldi á stjórnvöldum að tryggja öryggi erlendra gesta í landinu og þess vegna má skilja að yfirmenn löggæslumála hafi viljað hafa vaðið fyrir neðan sig. Lögum samkvæmt máttu þeir þó ekki stunda „forvirkar“ aðgerðir til þess að kanna hvort menn hefðu eitthvað illt í hyggju; þeir urðu að hafa rökstuddan grun um það að öryggi ríkisins væri ógnað, og þó sósíalistar allra landa hafi haft umbyltingu þjóðskipulagsins á stefnuskrá sinni – með ofbeldi ef í nauðir ræki – og þó óeirðir hafi blossað upp í mars 1949, þá geta það ekki talist skýr rök fyrir sérstökum aðgerðum í september 1963.

 

Ráðherrafundur NATO 1968

 

Víkur þá sögunni að lokum til ársins 1968. Seint í maí komu nokkur NATO-herskip í heimsókn til Reykjavíkur og allmargir félagar í Fylkingunni mótmæltu því, meðal annars með því að spreyja slagorð á þau og kom til ryskinga í kjölfarið. Að mati lögregluyfirvalda vissu þessir atburðir ekki á gott því í vændum var utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík, stór samkoma sem gæfi andstæðingum þess á Íslandi gott færi á að láta afstöðu sína í ljós.

            Undir lok mánaðarins virtist svo enn syrta í álinn. Maður nokkur fór þá til lögreglunar og skýrði frá því sem hann hafði heyrt undan mann tala um, í hópi verkamanna, í Múlahverfinu. Gestur lögreglunnar nafngreindi manninn og sagði að hann hefði meðal annars greint frá því, eins og segir í skýrslu lögreglu sem nýlega var gerð aðgengileg á Þjóðskjalasafni, með vissum takmörkunum, „að væntanlegir væru til Íslands um 50 útlægir Grikkir og fjöldi stúdenta úr Evrópu, og mundu þessir menn eiga að hafa frumkvæði um mótmælin og vinna skemmdarverk, enda vanir slíku, m.a. væri áætlað að kveikja í bandaríska sendiráðinu, eyðileggja bíla þess og annað í líkum dúr.“

            Þessi frásögn var ekki eina ástæða þess að lögregla og dómsmálaráðuneyti leituðu leyfis til hlerana, en hún vó greinilega þungt í huga manna; það sýnir rökstuðningur í hleranabeiðni ráðuneytisins til yfirsakadómara en þar sagði að lögreglu hefðu borist „ákveðnar fregnir af því að hafinn sé undirbúningur að því að stofnað verði til óeirða vegna fundahaldanna e.t.v. með þátttöku sérþjálfaðra, erlendra aðila“. 

            Yfirsakadómari heimilaði hleranir í 17 símum og spyrja verður hvort frásögnin, sem kom greinilega talsverðu róti á hug yfirmanna lögreglu- og dómsmála, hafi verið trúverðug. Maðurinn sem hafði talað digurbarkalega um skemmdarverk hafði verið í atinu niðri við höfn og gat því hæglega talist líklegur til þess að láta aftur til sín taka. Sá sem sagði lögreglu frá tali hans var ekki þekktur að ósannindum en hafa má í huga að hann var flokksbundinn sjálfstæðismaður, ötull í ungliðahreyfingunni í sinni heimabyggð og á öðrum vettvangi. Er hugsanlegt að hann hafi fært frásögnina í stílinn?

            Svo þarf ekki endilega að vera. Uppreisnarbylgjan, sem skók Evrópu árið 1968, barst vissulega til Íslands og einn þeirra, sem réttlætt hefur hleranirnar þetta ár, sagði að byltingarsinnaðir sósíalistar hér hefðu í engu verið betri en félagar þeirra ytra: „Þetta unga fólk var hluti af evrópskri róttæklingaöldu sem meðal gat af sér Baader-Meinhof samtökin og Rauðu herdeildina á Ítalíu. Hér á landi voru sömu straumar að verki…“[16] Staðreyndin er hins vegar sú ungir róttæklingar voru ekki uppistaðan í þeim hópi sem ákveðið var að hlera hjá 1968. Með góðum vilja – eða illum – má segja að fjórir hafi fallið í þann flokk, þeirra á meðal sá sem hafði lýst þeirri eyðileggingu sem útlendingar hygðuust vinna á Íslandi, en þá er þess að geta að hann var ekki heima hjá sér þegar leyft var að hlera síma hans; hann var í vinnu úti á landi.

            Maður sem kom að hlerunum í þetta sinn hefur sagt frá því að við þær hafi fengist upplýsingar um ferðir og áform þeirra sem ætluðu að hafa uppi mótmæli í tengslum við NATO-fundinn. Að því leyti má réttlæta hlustanirnar í það skipti, en þó tæplega í öll þau númer sem leyft var að hlera, því sumir hinna hleruðu gátu ekki talist líklegir til óspekta, menn eins og Lúðvík Jósepsson alþingismaður eða Ragnar Arnalds, forystumaður í Alþýðubandalaginu og Samtökum hernámsandstæðinga. Þeir höfðu ekki verið niðri á höfn með úðabrúsa, þeir ætluðu ekki að kveikja í sendiráðsbílum, ungir róttæklingar voru engir trúnaðarvinir þeirra, og ólíklegt er að yfirmenn lögreglu og dómsmála hafi ekki gert sér grein fyrir því. En hvers vegna voru þeir þá hleraðir? Höfundur „Reykjavíkurbréfs“ Morgunblaðsins gaf eitt svar við því fyrir tæpum tveimur árum: „Það er ósköp skiljanlegt að Ragnar Arnalds, fyrrum þingmaður og ráðherra, eigi erfitt með að skilja að sími hans var hleraður. Í augum þeirra, sem óskuðu eftir hlerun á síma hans á þessum árum, var hann einn helzti forystumaður nýrrar kynslóðar, sem barðist gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Og þeir spurðu sig alltaf, hvort hann og skoðanabræður hans myndu grípa til sömu aðgerða og skoðanabræður hans höfðu gert áratug áður [á að vera tæpum tveimur áratugum áður, þ.e. 1949].“[17]

            En var nóg að spyrja? Var nóg að óttast? Þurfti ekki ríkari rök? Eitthvað meira en atburðina 1949, notaða eins og óútyllta ávísun? Að síðustu þarf svo að víkja að einum heimasíma sem ákveðið var að hlera sumarið 1968. Þegar ég var í hittifyrra að tengja þau símanúmer sem voru í þessum síðasta dómsúrskurði um hleranir í kalda stríðinu lenti ég í vandræðum með tvö til þrjú númer; ég áttaði mig alls ekki á því hvernig þau höfðu komist á listann. Um eitt þeirra er það að segja að fyrir tæpu ári tilkynnti Þjóðskjalasafn Íslands manni nokkrum að í ljós hefði komið að í júní 1968 var veitt heimild til að hlera símanúmer hans og konu hans heitinnar. Þau hjónin voru þá á fertugsaldri og tengdust Alþýðubandalaginu og Samtökum hernámsandstæðinga ekki á nokkurn hátt. „Við töluðum aldrei um pólitík og ég kaus alltaf Sjálfstæðisflokkinn,“ segir maðurinn núna. Hvað réð því þá að hlerað var? Hann vann hjá fyrirtæki sem flutti inn einhverjar vörur frá Rússlandi. Kona hans heitin vann hjá símanum og sá meðal annars um talsamband við útlönd. En dugar þetta? Kemur þetta málinu eitthvað við? Getur verið að gerð hafi verið slæm mistök? Og hvað ber þá að gera?

 

Dómur sögunnar

 

Þeir sem hafa varið hleranir að beiðni lögreglu og dómsmálaráðuneytis í kalda stríðinu hafa stundum fundið að þeirri tálsýn, að þeirra mati, að íslenskir sósíalistar og kommúnistar hafi á einhvern hátt verið betri en félagar þeirra í einræðisríkjum um heim allan; „að hér hafi áhangendurnir heittrúuðu ætíð verið bæði marklausir og meinlausir“.[18] Þeir voru það auðvitað ekki og þeir sósíalistar sem vörðu í blindni ógnarstjórnina í Sovétríkjunum hefðu svo sannarlega átt að vita betur. En hverjir voru þó þessir „þeir“? Aftur má rifja upp skoðanaskipti í þessum sal fyrir hálfum mánuði. Hannes Hólmsteinn Gissurarson vitnaði þá í þau orð Áka Jakobssonar, sem var reyndar úrskurðað um hlerun hjá árin 1949 og 1951, að þjóðernishyggja sósíalista hefði aðeins verið yfirvarp og þeir verið handbendi Moskvu. Undir þetta tók fyrirlesarinn, Björn Bjarnason: „Þeir hlýddu bara kallinu frá Moskvu,“ sagði hann.

            Enn þarf þó að þrengja sjónarhornið og hverfa frá áliti um heildina að mati á einstökum mönnum. Þá getur það gerst að dómur sögunnar verði á annan veg. Áðan var minnst á þá bræður, Finnboga Rút og Hannibal Valdimarssyni. Um kynni sín af þeim og fleiri sósíalistum, til að mynda Birni Jónssyni, skrifaði Styrmir Gunnarsson ritstjóri síðar: „Það var ómetanlegt fyrir Heimdelling og blaðamann á Morgunblaðinu að kynnast þessum mönnum, lífsviðhorfum þeirra og skoðunum á dægurpólitíkinni. Ég gerði mér smátt og smátt grein fyrir því að þessir menn voru ekki „kommúnistar“, eins og bæði ég og aðrir vorum aldir upp við að trúa, heldur róttækir jafnaðarmenn. Fyrir þá Hannibal, Björn og Rút var baráttan fyrir bættum kjörum verkalýðsins hugsjón sem þeir höfðu tileinkað sér í æsku, meðal annars vegna þess úr hvaða jarðvegi þeir voru sprottnir.“

            Mér detta einnig í hug óbirt eftirmæli Andrews Gilchrist, sendiherra Breta á Íslandi á sínum tíma, um Bjarna Benediktsson. Vera má að Gilchrist hafi eitthvað fært í stílinn en hann rifjaði upp að Bjarni hefði farið fögrum orðum um Halldór Laxness – og líklega fór þetta samtal fram einhvern tímann á sjöunda áratugnum. „Hvað, þann bölvaða kommúnista?“ sagði Gilchrist stríðnislega en Bjarni svaraði: „Ég veit ekki hvort hann er kommúnisti í dag og ég hef ekki spurt hann. Og sumir kommúnistar eru skárri en aðrir. Einhverjir okkar kommúnista eru Íslendingar fyrst og svo kommúnistar og það er ekki svo slæmt.“

            Samtalinu lauk svo með þessum orðaskiptum, að sögn Gilchrists: „Ég spurði [Bjarna] hvort hann ætti við að kommúnistarnir hefðu breyst. „Já, þeir hafa breyst aðeins.“ Og svo bætti hann við, með þeirri sanngirni sem einkenndi Bjarna: „Eða kannski er ástæðan sú að ég er farinn að skilja þá betur.““[19]

            Hvort sem Gilchrist segist satt frá eða ekki, er hinn almenni dómur sögunnar sá að með auknum skilningi minnkar óttinn, minnkar hræðslan. Sé niðurstaðan sú að mistök hafi verið gerð, að það hafi að minnsta kosti stundum verið gengið of langt í hlerunum og öðru eftirliti, þá ættum við þó að forðast að fordæma það sem merki um ofsóknir og ofstæki. Það var miklu frekar ótti sem lá að baki, og líkt og einn þeirra, sem barðist hvað harðast gegn aðild að Atlantshafsbandalaginu 1949, sagði um það leyti, „er vissulega margt uggvænlegt í samtíðinni. En eitt er ég hræddastur við, og það er hræðslan. Hræðslan hefur valdið meiri óhöppum en vísvitandi hatur eða grimmd.“[20] „Með því að óttast má“ var ástæða hlerana í kalda stríðinu en að mega er ekki alltaf það sama og að verða.



[1]Hannes H. Gissurarson, „Hverjir biðjist afsökunar“, Fréttablaðið, 30. maí 2008 (einnig á http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/554895/).

[2]Vigfús Geirdal, „Eitt er að vilja og annað að geta“, Morgunblaðið 12. febr. 2007 [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1129284].

[3]soundtrack SFÍ, og mínir punktar

[4]http://bjorn.is/greinar/2008/05/28/nr/4486

[5]Þór Whitehead, „Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá,“ Lesbók Morgunblaðsins, 20. jan. 2007 [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1125293].

[6]Viðtal við Þór Whitehead. „Reykjavík síðdegis“, útvarpsstöðinni Bylgjunni 28. maí 2008 (minnispunktar höfundar við hlustun).

[7]??, Þjóðviljinn 25. mars 1949.

[8]ÞÍ. Sak.R. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómara, 26. mars 1949.

[9]Ómar Valdimarsson, Jakinn í blíðu og stríðu, bls. 91-92.

[10]Jón Böðvarsson og Þorvaldur Helgason mbl júní 2008

[11]Sveinn Snorrason, „30. mars 1949“, Morgunblaðið 1. júlí 2008.

[12]Minnisblað í vörslu höfundar. Frásögn ónefnds heimildarmanns, 5. nóv. 1998.

[13]„Reykjavíkurbréf“, Morgunblaðið 17. des. 2006, [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1120032].

[14]Frásögn Kjartans Ólafssonar, 25. ágúst 2006.

[15]Jakob F. Ásgeirsson, „Ritstjóraspjall“, Þjóðmál 4/2 (2006), bls. 3-6 (hér bls. 4).

[16]Jakob F. Ásgeirsson, „Ritstjóraspjall“, Þjóðmál 4/2 (2006), bls. 3-6 (hér bls. 5).

[17]„Reykjavíkurbréf“, Morgunblaðið 17. des. 2006, [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1120032].

[18]Þór Whitehead, „Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá,“ Lesbók Morgunblaðsins, 20. jan. 2007 [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1125293].

[19]Skjalasafn Andrews Gilchrist, Churchill College, Cambridge. GILC 12/D „Remembering Bjarni“. Ódagsett handrit.

[20]SAM í Herðubreið, bls. 73.

"Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu" (2006)

"Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu", Þriðja íslenska söguþingið 18-21. maí 2006 (Reykjavík 2006), bls. 434-445.

Stunduðu íslensk stjórnvöld símahleranir í kalda stríðinu? Þetta er stór spurning. Hennar hefur stundum verið spurt, allt frá því að Þjóðviljinn fullyrti snemma á þessum árum öfga og ótta að lögreglan hleraði síma forystumanna sósíalista, til órólegu áranna í kringum 1970 þegar ýmsir vinstrisinnar þóttust vissir um að hleranir ættu sér stað, og í raun til okkar daga því þessu hefur öðru hvoru verið haldið fram eftir að kalda stríðinu lauk. Aldrei hefur skýrra svara þó beinlínis verið krafist og stjórnvöld hafa aldrei viðurkennt að símar hafi verið hleraðir á þessu tímabili. Órækar sannanir hafa ekki heldur fundist en í þessu erindi er ætlunin að bæta úr því.

Sagan hefst í mars 1949. Mánudaginn 21. mars sneru þrír ráðherrar heim frá viðræðum í Washington um fyrirhugað varnarbandalag vestrænna ríkja. Þetta voru sjálfstæðismaðurinn Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, alþýðuflokksmaðurinn Emil Jónsson viðskiptaráðherra, iðnaðarráðherra og samgönguráðherra og framsóknarmaðurinn Eysteinn Jónsson menntamálaráðherra, kirkjumálaráðherra og flugmálaráðherra. Þeir lögðu eindregið til að Ísland gengi í bandalagið. Frá áramótum eða svo höfðu sósíalistar og hlutleysissinnar mótmælt þeim áformum og nú hitnaði í kolunum. Fimmtudagskvöldið 24. mars hélt Sósíalistaflokkurinn fjölmennan mótmælafund í Listamannaskálanum við Kirkjustræti. Næsta morgun gátu Reykvíkingar lesið frásögn Þjóðviljans af fundinum og einnig var látið að því liggja að enn öflugri mótmæli væru í vændum:

Fundurinn sýndi að þegar Bandaríkjalepparnir leggja hinn nýja landráðasamning fyrir Alþingi, munu Reykvíkingar tugþúsundum saman koma og mótmæla, til að hindra að hann verði gerður af þingmönnum – sem þjóðin mun sparka – heldur að málið verði lagt undir atkvæði þjóðarinnar allrar.[1]

 

Hverju var hótað? Laugardaginn 26. mars svaraði Morgunblaðið heitingum Þjóðviljans í nokkurs konar forystugrein á forsíðu: „Hér er ekki hægt um að villast. Kommúnistar hafa boðað uppreisn í landinu.“[2] Sjálfstæðismönnum sýndist ógnin augljós – og hart mætti hörðu. Í dómsmálaráðuneytinu var samið bréf til sakadómarans í Reykjavík, Valdimars Stefánssonar. Fyrst voru skrif Þjóðviljans rakin og bent á að þetta málgagn Sósíalistaflokksins hefði áður birt „greinar í hótunar stíl, þótt eigi hafi verið svo freklega að orði kveðið sem hér“. Síðan var komið að kjarna málsins:

Af hinum tilvitnuðu ummælum virðist mega ráða að tilætlunin sé sú að hindra Alþingi í störfum sínum að því er snertir þetta mál og heyra því hótanir blaðsins undir 11. kafla hegningarlaganna samanber 100. grein [um atlögu að Alþingi og gátu viðurlög verið lífstíðarfangelsi]. Ráðuneytið leggur ríka áherzlu á að reynt verði til hins ítrasta að upplýsa á hvern hátt framkvæmd þessara hótana er undirbúin og leggur því fyrir yður, herra sakadómari, að taka mál þetta þegar í stað til rannsóknar. Vill ráðuneytið í því sambandi beina því til yðar, hvort ekki þætti tiltækilegt að láta hlusta í símanúmerum forráðamanna Þjóðviljans og annarra þeirra er líklegt má telja að standi að þessum hótunum.[3]

 

Síðar þennan laugardag fékk sakadómari bréf ráðuneytis í hendur. Hann setti lögreglurétt og kvað upp svofelldan úrskurð:

Með tilliti til hins framlagða bréfs dómsmálaráðuneytisins og þar sem ætla má af hinum tilgreindu ummælum dagblaðsins Þjóðviljans, að áformað sé að hindra Alþingi í störfum sínum með ofbeldi, þykir rétt að ákveða, að hlustað skuli fyrst um sinn á símtöl þau, sem fram fara frá eftirtöldum símum hér í bænum og við þá, og efni þeirra ritað, lögreglunni til afnota: [16 símanúmer].[4]

Væntanlega hófust hleranir samdægurs, þó ekki væri nema vegna þess að næsta morgun, sunnudaginn 27. mars, sagði Þjóðviljinn: „víðtækar símahleranir eru hafnar, bæði hjá Þjóðviljanum og ýmsum „hættulegum“ einstaklingum.“[5] Hér má leiða líkur að því að einhver hjá lögreglunni hafi „lekið“ eða einhver úr röðum símamanna; þeir voru vissulega til þar sem voru á móti símahlerunum og studdu sósíalista að málum.

Alls var úrskurðað um hlerun í sextán símanúmer. Tvö þeirra tilheyrðu Sósíalistaflokknum og þrjú Þjóðviljanum. Hin voru í heimahúsum. Þar af voru þrjú á heimilum alþingismanna. Athygli vekur að dómsmálaráðuneytið og sakadómari studdust ekki beinlínis við fjarskiptalög frá 1941 og þá heimild til hlerana sem þar var að finna.[6] Úrskurðurinn var frekar í anda frumvarps til laga um meðferð opinberra mála sem Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra hafði lagt fram á Alþingi árið 1948. Það hafði ekki hlotið brautargengi en í því sagði: „Dómari getur úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota, enda varði brot minnst tveggja ára refsivist.“[7]

Helgina 26. til 27. mars hófust hleranir og miðvikudaginn 30. mars 1949 varð stóri slagurinn á Austurvelli þegar Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Lögregla og sjálfboðaliðar, flestir sjálfstæðismenn, börðust við andstæðinga aðildar; táragasi var beitt og það var líklega hrein heppni að enginn lét lífið. Daginn eftir var þó allt með kyrrum kjörum og Guðmundur Hlíðdal póst- og símamálastjóri fékk þá tilkynningu, frá sakadómara að því er virtist, að á miðnætti skyldi öllum símahlerunum hætt.[8] Svo fór þó ekki. Þeim var haldið áfram að eindreginni ósk ríkisstjórnarinnar.[9] Miðvikudaginn 6. apríl var númerum að vísu fækkað í níu og þremur dögum síðar ákvað sakadómari svo að öllum símahlerunum skyldi hætt.[10]

Koma hershöfðingja og herliðs 1951

Næst var leitað úrskurðar um hleranir í janúar 1951. Þá hafði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tekið við völdum af stjórn þeirra flokka og Alþýðuflokksins. Snemma í mánuðinum var tilkynnt að hingað til lands væri von á Dwight Eisenhower, yfirhershöfðingja NATO (og síðar forseta Bandaríkjanna). Þjóðviljinn mótmælti komu hershöfðingjans harðlega og lét að því liggja að þótt hann þyrfti ekki að óttast um líf sitt og limi myndi „óvild þjóðarinnar ... umlykja hann“.[11] Var hætta á ferðum? Í bréfi dómsmálaráðuneytis til sakadómara 17. janúar sagði að líklegt þætti „að kommúnistar hafi í hyggju að stofna til óspekta í sambandi við væntanlega komu Dwight Eisenhower“. Upplýsa þyrfti „á hvern hátt framkvæmd þessara óspekta er fyrirhuguð“ og lagði ráðuneytið því til að 15 símanúmer yrðu hleruð.[12]

Sakadómari féllst á að það yrði gert „fyrst um sinn“. Í þetta sinn var úrskurðað um hlustun í eitt símanúmer Þjóðviljans og annað hjá Sósíalistaflokknum, auk síma Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Bókabúðar Máls og menningar. Síðan var úrskurðað um hlerun hjá 11 einstaklingum, að því er næst verður komist og voru tveir alþingismenn í þeim hópi. Eisenhower kom síðan og fór. Ólíkt því sem gerðist 1949 felldi sakadómari ekki formlegan úrskurð í þetta sinn um það að hlerunum skyldi hætt. Það hlaut þó að hafa gerst eftir brottför hershöfðingjans; annars vegar vegna þess að aðgerðirnar áttu aðeins að vara „fyrst um sinn“ og hins vegar vegna þess að stuttu síðar var kveðinn upp nýr úrskurður um símahleranir.

Fyrst er þess að geta að í febrúar 1951 samþykkti Alþingi lög um meðferð opinberra mála; að stofni til frumvarpið sem hafði verið lagt fram þremur árum fyrr. Í lögunum var að finna þetta ákvæði: „Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsvert sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“ Það vekur nokkra furðu að engar umræður urðu á þingi um þessa heimild. Enginn mótmælti, ekki einu sinni sósíalistarnir sem þóttust vita fyrir víst að símar þeirra hefðu verið hleraðir árið 1949. Ég kann ekki skýringu á þessu eins og sakir standa.

Síðan leið ekki á löngu uns reyndi á nýju lögin. Vorið 1951 höfðu bandarísk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um það að bandarískt herlið sneri á ný til Íslands. Mánudagskvöldið 23. apríl var fundur í fulltrúaráði Sósíalistafélags Reykjavíkur í höfuðstöðvum sósíalista, að Þórsgötu 1 í Reykjavík. Í fundargerðarbók félagsins segir að rætt hafi verið um að 1. maí væri framundan. „Okkur [ber] að gera hann stóran dag“, sögðu fulltrúaráðsmenn.[13] Þennan dag eða daginn eftir, þriðjudaginn 24. apríl, var ekkert í Þjóðviljanum sem gaf til kynna að miklar æsingar væru í vændum. Þó höfðu lögregluyfirvöld komist að raun um eitthvað sem olli þeim ugg. Þriðjudaginn 24. apríl skrifaði dómsmálaráðuneytið sakadómara að lögreglan í Reykjavík teldi sig „hafa ástæðu til að ætla að friði og reglu geti stafað hætta af andstæðingum væntanlegra aðgerða í öryggismálum landsins“. Lagt var til að 25 símanúmer yrðu hleruð.[14] Daginn eftir var settur lögregluréttur og úrskurður kveðinn upp; heimildin var veitt og hlerað skyldi „fyrst um sinn“.[15]

Í þetta sinn var úrskurðað um hlustun í fjögur símanúmer Þjóðviljans, önnur fjögur hjá Sósíalistaflokknum og samtökum tengdum honum, og eitt símanúmer Dagsbrúnar. 16 heimasímar voru hleraðir; fjórir þeirra hjá alþingismönnum. Hinn 2. maí var síma eins þingmanns til viðbótar bætt við.[16] Laugardaginn 5. maí 1951 var varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna undirritaður og tvemur dögum síðar kom bandarískt herlið til landsins. Ekki er ljóst hvort símahlerunum linnti þann dag en ætla verður að það hafi verið þá eða næstu daga.

Landhelgissamningurinn 1961

Hvað gerðist næst í þessari sögu? Árin 1952 og 1955 urðu afar langvinn og erfið verkföll í landinu. Því hefur verið haldið fram að símar hafi þá verið hleraðir. Ég hef ekki fundið heimildir um það. Árið 1956 komst stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags til valda í landinu (Alþýðubandalagið var fyrstu árin kosningabandalag sósíalista og vinstri sinnaðra jafnaðarmanna sem klufu sig úr Alþýðuflokknum). Í árslok 1958 brast stjórnarsamstarfið en fyrr það ár hafði stjórnin afrekað að færa fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur sem leiddi til fyrsta þorskastríðsins við Breta.

Síðla árs 1960 var sú deila enn óleyst en þá var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks (Viðreisnarstjórnin) sest að völdum. Þegar hér var komið sögu hafði varnarliðið verið á Íslandi í nær áratug. Mótmæli andstæðinga þess höfðu lengst af verið frekar máttlaus. Sumarið 1960 fóru menn þó að sækja í sig veðrið. Keflavíkurganga var haldin í fyrsta sinn og í september voru Samtök hernámsandstæðinga stofnuð á Þingvöllum. Mánuði síðar gerðist það í Reykjavík að íslenskir og breskir embættismenn hófu samninga um lausn landhelgismálsins. Fyrsta verk Samtakanna nýju var að mótmæla þeim og hvers kyns undanslætti frá 12 mílunum.

Í lok febrúar 1961 lá fyrir samkomulag um lausn landhelgismálsins sem ráðamenn í Reykjavík og London gátu sætt sig við. En hvernig myndi almenningur taka því hér á landi? Var hugsanlegt að andstaðan yrði jafnmikil og við inngönguna í NATO árið 1949? Hinn 26. febrúar 1961 lagði dómsmálaráðuneytið til við sakadómara að 14 símar yrðu hleraðir. Rökstuðningurinn var þessi:

[Ó]ttast má að tilraunir verði gerðar til að trufla starfsfrið Alþingis á næstu dögum en þar verða til umræðu málefni, sem valdið hafa miklum deilum á þessu þingi og einnig valdið hótunum um ofbeldisaðgerðir, er til frekari meðferðar kemur á því, þannig að öryggi ríkisins geti stafað hætta af ...[17]

Sem fyrr féllst sakadómari á málaleitan dómsmálaráðuneytis. Þrjú þeirra símanúmera sem úrskurðað var um hlerun hjá tengdust Alþýðubandalaginu; þau voru hjá Sósíalistaflokknum, Sósíalistafélagi Reykjavíkur og Æskulýðsfylkingunni, ungliðasamtökum sósíalista. Þrjú númer voru skráð hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún. Sími Alþýðusambands Íslands, ASÍ, var einnig nefndur. Í þetta sinn var ekki hlerað hjá Þjóðviljanum en hins vegar var úrskurðað um hlerun í síma Samtaka hernámsandstæðinga.[18] Alþingi samþykkti svo landhelgissamninginn við Breta. Í þingsölum líkti stjórnarandstaðan honum við landráð en á þingpöllum og utan dyra var allt með kyrrum kjörum. Óeinkennisklæddir lögreglumenn munu þó hafa verið á ferli í þinghúsinu.[19]

Heimsókn Lyndons B. Johnson 1963

Segja má að símahleranir hefðu orðið mun færri á Íslandi í kalda stríðinu ef tignir gestir að utan hefðu látið vera að sækja landið heim. Í september 1963 var von á varaforseta Bandaríkjanna, Lyndon B. Johnson. Samtök hernámsandstæðinga ákváðu að nýta tækifærið og mótmæla erlendri hersetu á Íslandi. Þau vildu einkum láta í ljós harða andúð við áform um aukin hernaðarumsvif í Hvalfirði. Samtökin skrifuðu því lögreglustjóra fimmtudaginn 12. september að þegar varaforsetinn héldi af fundi í Háskólabíói hjá Varðbergi, félagi ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, hygðust þau afhenda honum mótmælaorðsendingu. Auk þess yrðu fluttar ræður í gjallarhorn og fánum komið fyrir við kvikmyndahúsið. „Samtök hernámsandstæðinga leggja höfuðáherslu á að þessi atburður fari fram með fyllstu kurteisi og friðsemd,“ sagði svo í bréfinu.[20]

Lögreglustjóri var efins um það og sömu sögu var að segja í dómsmálaráðuneyti. Samdægurs var skrifað bréf þar til yfirsakadómara (það embætti varð til síðla árs 1961) og því „beint til“ hans að heimilað yrði að hlusta á samtöl í sex símanúmerum vegna þess að óspektir gætu verið í vændum.[21] Sakadómur var strax settur. Heimildin var veitt því ætla mætti, eins og sagði í úrskurði yfirsakadómara, að óeirðir kynnu „að skaða öryggi ríkisins og að aðrar ófyrirsjáanlegar og skaðlegar afleiðingar gætu leitt af fyrir stjórnvöld landsins“. Í þetta sinn var úrskurðað um hlerun í einu símanúmeri Þjóðviljans, einu hjá Sósíalistaflokknum og öðru hjá Sósíalistafélagi Reykjavíkur. Sími hernámsandstæðinga var nefndur í úrskurðinum og sími tveggja einstaklinga. Annar þeirra var alþingismaður.[22]

Lögreglustjóri brá líka á það ráð næsta dag, 13. september, að banna fyrirhuguð fundahöld Samtaka hernámsandstæðinga við Háskólabíó. Forsvarsmenn þeirra sögðu aftur á móti að samtökin ættu skýlausan rétt samkvæmt stjórnarskránni að halda útifund. Þeir tilkynntu þó að hvorki yrðu fluttar ræður né gjallarhorn nýtt og laust fyrir örlagadaginn 16. september náðu þeir og lögregluyfirvöld þeirri málamiðlun að autt svæði yrði milli Háskólabíós og Hótel Sögu, og skyldu hernámsandstæðingar safnast saman norðan þess. Síðan myndi fulltrúi þeirra afhenda varaforsetanum mótmælaorðsendingu á þessu einskis manns landi. Svo fór að vísu ekki þegar á reyndi og allt fór í eina þvögu; Varðbergsmenn og hernámsandstæðingar lentu í stimpingum en einhvern veginn tókst þó að færa Johnson mótmælin.[23] Flaug hann svo heim á leið og næstu ár dofnaði mjög yfir starfi hernámsandstæðinga. Í þessari sögu sem hér er sögð gerðist ekkert í frásögur færandi fyrr en átakaárið mikla, 1968.

Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins 1968

Um þessar mundir var Æskulýðsfylkingin, eða Fylkingin í daglegu tali, orðin öflugri en hún hafði verið mörg undanfarin ár; hún var að verða „aktívari“. Sunnudagurinn 26. maí 1968 var sjómannadagur á Íslandi og jafnframt „H-dagur“ þegar skipt var yfir í hægri umferð á Íslandi. Lögregla hafði því í nógu að snúast og í ofanálag voru herskip nokkurra NATO-ríkja komin í kurteisisheimsókn til Reykjavíkur. Fylkingarfélagar tóku sig til ásamt fleirum, máluðu slagorð á skipin og kom til nokkurra ryskinga. Stjórnvöldum fannst þetta ekki lofa góðu því í lok júní stóð til að halda hér utanríkisráðherrafund NATO-ríkjanna og 30. maí gat að líta þessa klausu í Þjóðviljanum: „Samtök hernámsandstæðinga: miðnefnd samtakanna efnir til fundar í kvöld kl. 8:30 í Aðalstræti 12. Dagskrá: Mótmælaaðgerðir vegna ráðherrafundar Nató. – Framkvæmdanefnd.“[24] Á fundinum kom fram sá vilji að efna til mótmæla „í einni eða annarri mynd“ og við því vildu stjórnvöld bregðast.[25] Í dómsmálaráðuneytinu var bréf samið og sent yfirsakadómara:

Í síðari hluta þessa mánaðar verður haldinn í Reykjavík ráðherrafundur Norður-Atlanzhafsbandalagsins og hafa borizt út ákveðnar fregnir af því að hafinn sé undirbúningur að því að stofnað verði til óeirða vegna fundahaldanna, ef til vill með þátttöku sérþjálfaðra erlendra aðila. Þykir því brýn nauðsyn vegna almannaöryggis að úrskurðað verði um hlustun í eftirtalin símanúmer í Reykjavík, til þess að unnt verði að komast að fyrirætlunum um lögbrot er varða öryggi ríkisins.[26]

 

Illt var í efni ef von var sérþjálfaðra óróaseggja. Einhvern veginn hafði lögreglan komist á snoðir um það að grískir útlagar, sem höfðu flúið land þegar hópur herforingja rændi völdum í landi þeirra ári áður, væru væntanlegir og hygðust halda uppi mótmælum þar sem gríski utanríkisráðherrann væri nærri.

Nú bar svo við að úrskurður yfirsakadómara fékkst ekki um leið og hans var beðið. Þessu olli fjarvera hans en 8. júní kvað hann upp þann úrskurð að til og með 27. júní – degi eftir ráðherrafundinn – mætti hlera 17 símanúmer því ætla mætti „að í sambandi við þennan fund geti komið til atferlis, sem skaðað gæti öryggi ríkisins eða á annan hátt varðað við 88. eða 95. gr. almennra hegningarlaga ...“.[27]

Þær greinar voru í Landráðakafla laganna og var 88. greinin svohljóðandi:

Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið eða hlutist til um málefni þess, svo og hver sá, er veldur hættu á slíkri íhlutun með móðgunum, líkamsárásum, eignaspjöllum og öðrum athöfnum, sem líklegar eru til að valda slíkri hættu, skal sæta varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum. Ef brot þykir mjög smávægilegt, má beita sektarhegningu.

95. grein hegningarlaganna hljóðaði svo: „Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum, ef miklar sakir eru.“

Tvö þeirra númera sem úrskurðað var um hlerun í voru hjá Sósíalistaflokknum (Alþýðubandalaginu) og eitt hjá Dagsbrún, Samtökum hernámsandstæðinga, Þjóðviljanum, Æskulýðsfylkingunni og MÍR, menningartengslum Íslands og ráðstjórnarríkjanna. Svo voru tíu heimasímar tilteknir, þar af tveir á heimilum alþingismanna.[28]

Mánudaginn 24. júní var utanríkisráðherrafundur NATO settur í Háskólabíói. Fyrir utan mótmæltu Fylkingarfélagar og aðrir. Að setningarathöfn lokinni héldu ráðherrar að aðalbyggingu Háskólans. Mótmælendur höfðu fengið leyfi til þess að halda fund í Vatnsmýrinni og ganga þangað frá Hagatorgi, um Suðurgötu og svo niður Hringbrautina. En þegar þeir komu að trjágöngunum frá þeirri götu að aðalbyggingunni sáu þeir að við þau var engin gæsla. Freistingin var of mikil; hægri beygja var tekin og andófsmenn settust á tröppur aðalbyggingarinnar með spjöld sín og skilti, hrópandi slagorð gegn NATO, Víetnamstríðinu og herforingjunum í Grikklandi. Laganna vörðum fannst þeir illa sviknir og þarna urðu ryskingar. Lögreglu tókst þó að ryðja tröppurnar og friður komst á.[29] Segir svo ekki meira hér af þessum átökum annað en það að væntanlega var símahlerunum hætt 27. júní eins og kveðið var á um.

Rogers, Nixon og Pompidou, 1972-73

Í hönd fóru enn fleiri átök milli lögreglu og mótmælenda; Þorláksmessuslagurinn frægi 1968, kröftug mótmæli við sendiráð Bandaríkjanna og aðrar aðgerðir næstu ár. Og vorið 1972 var enn von á áhrifamanni í heimsókn. Í byrjun maí var William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, staddur hér á landi. Ætlunin var meðal annars að hann heimsækti Árnagarð og skoðaði þar handritin.

Róttækar stúdentar ákváðu að við það mætti ekki una og Fylkingarfélagar voru sama sinnis. Fólk var hins vegar sannfært um að lögreglan hleraði síma svo ekki var rætt um þau áform heldur var krókur látinn koma á móti bragði, að því er sagan segir. Símtal var sett á svið og haft á orði að því miður væru stúdentar svo latir, í próflestri, eða forfallaðir að öðru leyti að ekki verði hægt að efna til mótmæla. Í raun fylltu stúdentar og aðrir mótmælendur svo hvern krók og kima í Árnagarði. Þegar Rogers mætti þar spratt fólkið fram og meinaði honum og fylgdarliði inngöngu.

Þetta þótti mikill sigur og „símaplottið“ hefur lengi verið í minnum haft. Ég hef hins vegar engar heimildir séð um það að úrskurður hafi verið kveðinn upp um símahleranir út af heimsókn Rogers. Menn sem til þekkja um þau mál minnast þess ekki heldur að þá hafi verið gripið til slíkra ráða, og muna þeir þó aðra atburði í þessari sögu vel. Og skemmst er frá því að segja að eftir ráðherrafundinn sumarið 1968 var ekki kveðinn upp úrskurður um símahleranir vegna öryggis ríkisins til ársins 1976, þess árs sem minni rannsókn lýkur.

Þetta stemmir ekki við sannfæringu margra þeirra sem voru í eldlínunni í þeirri róttæknibylgju sem reis á Íslandi frá árinu 1968 og fram á miðjan áttunda áratug síðustu aldar eða svo. Ýmsir í þeim hópi hafa alla tíð verið vissir um að kerfisbundnar símahleranir hafi verið stundaðar hér. Þeir hafa til dæmis bent á að í lögreglustöðinni við Hverfisgötu, sem komst í fulla notkun snemma á áttunda áratugnum, hafi símahleranir verið hægðarleikur vegna þess að Almannavarnir voru þar líka til húsa með sérstakan neyðaraðgang að símkerfinu. Í nýju stöðinni mun hafa verið aðstaða til símahlerana en sú mun líka hafa verið raunin í þeirri gömlu við Pósthússtræti.

Þar að auki standast sumar þeirra vísbendinga um símahleranir, sem fólk þóttist heyra, örugglega ekki; að það hefði heyrst andardráttur á línunni, bergmál eða sífelldir skruðningar. Ekki er unnt að fullyrða að sama tækni hafi alltaf verið viðhöfð en leiða má líkur að því að við flestar þær símahleranir, sem hér hefur verið greint frá, hafi verið stuðst við segulband. Vera má að böndin hafi tekið upp látlaust en einnig er hugsanlegt að þau hafi farið í gang við hringingu, eða þegar sá eða sú, sem hringt var í, lyfti upp símtólinu og straumur komst á línuna. Útvaldir lögregluþjónar, sem lögreglustjórinn í Reykjavík og dómsmálaráðherra báru fullt traust til, sáu um að hlusta á samtöl og símnotandi átti ekkert að heyra. Skruðningar og önnur aukahljóð þurftu alls ekki að fylgja símahlerunum.

Niðurstöður

Það liggur beint við að spyrja hvers yfirvöld urðu vísari við hleranirnar? Svarið er einfalt: Við fáum nær örugglega aldrei að vita neitt um það. Öllum gögnum um þessar lögregluaðgerðir mun hafa verið eytt; í síðasta lagi árið 1977. Einnig verður að spyrja: Voru þær símahleranir, sem hér hefur verið greint frá, löglegar, eða réttlætanlegar? Eru hleranir það einhvern tímann? Vorið 2006 fjallaði Morgunblaðið í forystugrein um fregnir af símtalaskráningu í Bandaríkjunum og gagnrýndi þær. „Auðvitað kemur engum við hver hringir í hvern,“ sagði blaðið: „Það kemur engum við hver talar við hvern.“[30]

Það er vissulega hægt að halda því fram að símahleranir undir því yfirskini að öryggi ríkisins sé í voða séu pólitískar njósnir og eigi aldrei rétt á sér. Það er sjónarmið í sjálfu sér. Á hinn bóginn er hægt að benda á að landslög leyfðu, og leyfa enn, símahleranir við ákveðnar kringumstæður. Í forystugrein Morgunblaðsins, sem minnst var á, var einmitt tekið fram að það geti reynst nauðsynlegt að hlera símtöl „vegna fíkniefnarannsókna og vegna baráttunnar við hryðjuverkamenn“. Einföld svör – já eða nei – duga að mínu mati ekki við þeirri spurningu hvort þær símahleranir, sem hér hefur verið greint frá, hafi átt rétt á sér. Við verðum líka að hafa í huga þann tíðaranda sem sveif yfir. Þetta voru ár óttans, ár öfga, jafnvel ár haturs. Við vorum í hita kalda stríðsins.

Í upptalningunni á dómsúrskurðum um símahleranir hér á undan einsetti ég mér að skýra aðeins frá staðreyndum sem ekki yrði deilt um. Núna ætla ég að leggja mitt mat á þær. Það getur verið að ég skipti síðar um skoðun að einhverju leyti, einkum ef okkur tekst að afla frekari upplýsinga um þessi efni, en þetta er það sem ég álít núna. Það getur líka vel verið að fólk verði mér ósammála, einkum ef það hefur ákveðnar skoðanir á þessum málum. Og það er auðvitað alveg sjálfsagt.

Að mínu mati var það verjandi að hlera síma þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið árið 1949. Heiftin var það mikil, heitingar Þjóðviljans það harðorðar, að mér sýnist stjórnvöld hafa haft réttmæta ástæðu til að ætla að Alþingi yrði hindrað í störfum sínum. Hleranirnar árið 1951 – fyrst þegar Eisenhower kom og svo bandarískt herlið – verður líka að sjá í því ljósi að kalda stríðið var í algleymingi. Sumarið áður höfðu herir kommúnista í Norður-Kóreu ráðist suður yfir landamærin svo Kóreustríðið blossaði upp. Yfirmenn öryggismála á Íslandi nutu leiðsagnar Bandaríkjamanna og ráðfærðu sig einnig við starfsbræður í Noregi og Danmörku. Mér finnst líklegt að þeir hafi fengið þau skilaboð að símahleranir væru illnauðsynlegt öryggistæki í baráttunni við heimskommúnismann. Og ekki vantaði íslenska sósíalista þá sannfæringu á þessum árum að þeir gætu þurft að beita ofbeldi í nafni hugsjónanna. Hatrammir andstæðingar þeirra höguðu sér eftir því.

Ég tel aftur á móti að þær hleranir sem fram fóru þegar Alþingi fjallaði um landhelgissamninginn við Breta árið 1961 orki tvímælis. Engar vísbendingar voru um undirbúning fjöldamótmæla eins og 1949, og þarna var heimilað að hlera síma fjögurra alþingismanna á sama tíma og þingið hafði mikilvægt málefni til umfjöllunar. Slíkar hleranir nálgast jafnvel pólitískar njósnir.

Símahleranirnar í september 1963, þegar Lyndon B. Johnson kom til landsins, má setja í víðara samhengi kalda stríðsins. Í upphafi ársins hafði orðið uppvíst um klaufalega tilburði sovéskra KGB-manna að fá íslenskan mann til að njósna fyrir sig og æðstu ráðamenn íslenskra öryggismála þóttust sjá að fyrst andstæðingarnir beittu svona aðferðum væri þeim leyfilegt að beita öllum þeim vörnum sem lögin leyfðu. En óneitanlega virðist líka óþarft, eða að minnsta kosti óvenju harkalegt, að grípa til þess örþrifaráðs sem símahleranir hljóta að vera vegna mótmæla sem áttu í alla staði að vera friðsamleg. Réð kannski einhverju að valdhafar og lögregluyfirvöld voru staðráðin í að sýna hinum tigna gesti að hér væri allt í röð og reglu?

Í öll þessi skipti sem ég hef rakið má deila um það hjá hverjum var hlerað. Það vekur þannig upp alvarlegar spurningar að árið 1968 er úrskurðað um hlerun í heimasíma tveggja þingmanna. Ljóst mátti vera að þeir höfðu engar óspektir í hyggju.

Nú er komið að lokum þessa erindis. Við upphaf Söguþingsins flutti fræðikonan Liz Stanley frábært erindi um tengsl staðreynda og túlkunar í sagnfræðirannsóknum.[31] Í áraraðir hefur hún grúskað í skjölum um Búastríðið í Suður-Afríku og velt fyrir sér hvernig fólk minnist þess hildarleiks. Hún gerði sér grein fyrir því að frásagnir fólks og rannsóknir hennar hafa verið byggðar á einstaklingsbundinni skynjun, og margt gerðist sem við getum aldrei sagt frá síðar. En aðrar staðreyndir lifa, óhrekjanlegar og óumdeilanlegar. Stanley gat staðið þar sem fangabúðir höfðu verið og þúsundir látið lífið, og hún gat sagt: Þetta gerðist og þeir sem halda öðru fram segja ósatt. Og þeir sem halda því fram að í sagnfræði geti enginn sannleikur falist, aðeins túlkanir okkar sem á eftir komum, ættu að hafa í huga að ef það er enginn sannleikur til þá er ekki heldur til nein lygi; og hverjir græða á því nema lygararnir?

Við höfum núna í áratugi verið án órækra sannana um símahleranir á Íslandi þótt þær hafi átt sér stað og ýmsa hafi grunað sitt. Er öll sagan sögð? Þeirra spurningu verður ekki svarað núna, og eflaust aldrei, en það sem hér hefur komið fram er satt. Þetta gerðist.


[1]Þjóðviljinn, 25. mars 1949.

[2]Morgunblaðið, 26. mars 1949.

[3]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 26. mars 1949.

[4]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík 26. mars 1949.

[5]Þjóðviljinn, 27. mars 1949.

[6]Í 2. mgr. 19. gr. þeirra sagði: „Veita [má] lögreglunni aðgang að því að hlusta á símasamtöl, þegar öryggi landsins krefst þess eða um mikilsverð sakamál er að ræða, enda hafi dómsmálaráðherra í hvert skipti fellt skriflegan úrskurð um, að svo skuli gert og um hvaða tímabil.“ Sjá Stjórnartíðindi 1941, A, bls. 46-47.

[7]Alþingistíðindi 1948, A, bls. 36.

[8]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. FB/4. Tilkynning til póst- og símamálastjóra, 31. mars 1949.

[9]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík 2. apríl 1949.

[10]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík 8. apríl 1949, og tilkynning til póst- og símamálastjóra, 9. apríl 1949.

[11]Þjóðviljinn, 21. janúar 1951.

[12]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 17. janúar 1951.

[13]Lbs. Gögn Sósíalistafélags Reykjavíkur. Askja IV. Fundargerðabók stjórnar fulltrúaráðs Sósíalistafélags Reykjavíkur, 1950-53. Fulltrúaráðsfundur 23. apríl 1951.

[14]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 24. apríl 1951.

[15]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík, 25. apríl 1951.

[16]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 2. maí 1951, og lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík, 2. maí 1951.

[17]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómarans í Reykjavík, 26. febrúar 1961.

[18]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Úrskurður sakadómarans í Reykjavík, 26. febrúar 1961.

[19]Þjóðviljinn, 11. mars 1961.

[20]Lbs. Gögn samtaka hernámsandstæðinga. „Herstöðvaandstæðingar – ýmsar möppur I-XII“. Samtök hernámsandstæðinga til lögreglustjórans í Reykjavík, 12. september 1963.

[21]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til yfirsakadómarans í Reykjavík, 12. september 1963.

[22]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Úrskurður yfirsakadómara, 12. september 1963.

[23]Morgunblaðið og Þjóðviljinn, 17. september 1963.

[24]Þjóðviljinn, 30. maí 1968.

[25]Lbs. SH. „Herstöðvaandstæðingar – ýmsar möppur I-XII“. Gerðabók miðnefndar. Miðnefndarfundur, 30. maí 1968.

[26]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til yfirsakadómarans í Reykjavík, 1. júní 1968.

[27]ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. 2005 FB/4. Úrskurður yfirsakadómara, 8. júní 1968.

[28]Sama heimild.

[29]Morgunblaðið og Þjóðviljinn, 25. júní 1968.

[30]Morgunblaðið, 14. maí 2006 (forystugrein).

[31]Liz Stanley, „Through a glass, darkly: interpretational possibilities and pitfalls in reading the past“. Erindi á Þriðja íslenska söguþinginu, 18. maí 2006.

"Ef kjarnorkusprengja spryngi yfir Reykjavík ..." (2007)

„„Ef kjarnorkusprengja spryngi yfir Reykjavík dæju allir bæjarbúar“. Loftvarnir og almannavarnir á Íslandi, 1951-1973“. Saga, 45. árg. nr. 2, 2007, 7-44.

Í greininni er niðurstaðan sú að náttúruhamfarir hafi í raun bjargað hugmyndinni um almannavarnir á Íslandi því kjarnorkuógnin var í raun aldrei tekin alvarlega. Fróðlegt væri að rekja söguna áfram til okkar daga en líklega yrði niðurstaðan sú sama, að almenningur á Íslandi hafði ekki það miklar áhyggjur af ógninni úr austri og ráðamenn tímdu ekki heldur að verja stórfé til kjarnorkuvarna, enda margir hverjir eins vantrúaðir. Tilvísunin í titli greinarinnar er úr landsprófi vorið 1946. Kalda stríðið birtist á ýmsum stöðum.

Í útdrætti og áhugavaka um greinina segir:

Útdráttur

Í þessari grein er fjallað um ótta við loftárásir og kjarnorkuárásir á Ísland fyrstu áratugi kalda stríðsins. Sá ótti  réð því að stjórnvöld gripu til ákveðinna varna og vildu reyndar ganga mun lengra í þeim efnum. Á hinn bóginn voru viðamiklar varnir við loftárásum mjög kostnaðarsamar, svo ekki væri minnst á viðbúnað gegn kjarnorkuárásum og geisluvirku úrfalli. Og var í raun hægt að verjast þeirri gereyðingarógn? Viðbúnaður og undirbúningur til varnar loftárásum og kjarnorkuárásum gat orkað tvímælis og vakti enda harða gagnrýni, eins og rakið er í greininni.

Skipulegar loftvarnir hófust á Íslandi í seinni heimsstyrjöld en féllu niður að henni lokinni. Aukin spenna milli risaveldanna réð því að árið 1951 voru ný lög sett um loftvarnir og loftvarnanefnd Reykjavíkur var endurvakin. Næstu fimm ár undirbjó hún varnir gegn loftárásum á borgina eftir því sem fjárframlög leyfðu og gerði nær eingöngu ráð fyrir að þær yrðu með svipuðu lagi og verið hafði í heimsstyrjöldinni. Tímamót urðu svo þegar vinstri stjórn Hermanns Jónassonar tók við völdum í landinu árið 1956. Ríkisvaldið hætti þá að veita fé til loftvarna með þeim rökum, sem sósíalistar héldu helst á lofti, að þær væru gagnslausar á atómöld.

Þráðurinn var tekinn upp á nýjan leik þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks komst til valda, undir forystu Ólafs Thors. Almannavarnir ríkisins voru stofnaðar með lögum árið 1962 og til stóð að efla til muna varnir við kjarnorkuógninni, m.a. með útgáfu leiðbeiningabæklings. Af því varð þó aldrei því stjórnvöld óttuðust að slík fræðsla myndi minnka stuðning landsmanna við vestrænt varnarsamstarf. Almannavarnir voru því nánast orðin tóm fyrstu árin og nutu afar lítils stuðnings almennings. Árið 1967 var lögum um almannavarnir breytt þannig að þau tækju einnig til náttúruvár. Segja má að sú stefnubreyting hafi bjargað almannavörnum og náttúruhamfarir á fyrri hluta áttunda áratugarins sýndu rækilega fram á nauðsyn skipulegra varna gegn náttúruvá. Sem fyrr var vörnum gegn kjarnorkárásum þó lítt eða ekki sinnt; slíkar aðgerðir voru alla tíð í skötulíki á Íslandi.

Áhugavaki

Afar lítið hefur verið fjallað um loftvarnir og almannavarnir á Íslandi í kalda stríðinu. Ekki vantar þó að efnið ætti að þykja áhugavert og greinargóðar heimildir eru til um það. Skipulegar loftvarnir hófust hér á landi í seinni heimsstyrjöld en í þessari grein er saga þeirra og síðan almannavarna rakin frá því að ný lög voru sett um loftvarnir árið 1951 til þeirra tímamóta sem urðu í sögu almannavarna þegar eldgos varð á Heimaey árið 1973.

Þeir ráðamenn og embættismenn sem vildu hafa öflugar loftvarnir og almannavarnir á Íslandi óttuðust vitaskuld árásir úr austri. Í huga þeirra var sú ógn raunveruleg og gat dunið yfir nánast hvenær sem væri. Um það mátti þó deila og ekki síður þær takmörkuðu varnir sem gripið var til, fyrst á vegum loftvarnanefndar Reykjavíkur og síðan Almannavarna ríkisins. Birgðum var safnað, kannað hvað til væri af viðunandi skýlum og viðvörunarkerfi sett upp, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hinir áhyggjufullu sögðust vilja mun umfangsmeiri aðgerðir – til dæmis með því að dreifa leiðbeiningum um skjól gegn geisluvirku úrfalli – en glímdu við þann vanda að þá myndu þeir kannski hræða fremur en fræða. Svo voru þeir – einkum á vinstri væng stjórnmálanna – sem töldu allan viðbúnað af þessu tagi einskis enda væri  bæði óþarft og ómögulegt að verjast „Krúsjeff með koddaverum“. Og þar var almenningur yfirleitt sama sinnis.

 

"Vald hinna veiku" (2004)

"Vald hinna veiku. Ísland og stórveldin í kalda stríðinu".

Þessi grein er að stofni til erindi sem var flutt í október 2004 í fundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem bar yfirskriftina "Hvað er vald?" Erindið má nálgast hér.

"To the Edge of Nowhere" (2004)

„To the Edge of Nowhere. U.S.-Icelandic Defense Relations During and After the Cold War”, Naval War College Review, 57. árg. nr. 4, 2004, bls. 115-137.

Í þessari grein tókst mér m.a. að birta efni sem ég vildi halda til haga að ég hefði kynnt mér. Greinin er aðgengileg á þessari slóð: http://www.usnwc.edu/getattachment/2ed3bead-216a-415a-a861-f386b3e0c346/...

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur