Skip to Content

Kalda stríðið

Njósnasaga og gestaþraut (2010)

Hér er lítil grein úr Tímariti Háskólans í Reykjavík (mars 2010) um þann heimildavanda sem við er að etja þegar rannsóknir á sögu kalda stríðsins eru annars vegar. Rúmri hálfri öld eftir að skjöl voru saman vestra þykja þau enn svo háleynileg að strika verður yfir heilu og hálfu málsgreinarnar. Og ekki er nú ástandið skárra eystra heldur þvert á móti, svo sanngirni og ógnarjafnvægis kalda stríðsins sé gætt... (Myndin er af komu Eisenhowers hershöfðingja til Íslands snemma árs 1951. Við hlið hans er Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra).

Samhengi (2011)

Samhengi. Erindi á málþingi Sagnfræðingafélags Íslands og ReykjavíkurAkademíunnar, „Íslensk vinstri róttækni: Hugsjónabarátta eða Landráð?“ 23. nóv. 2011.

[Styttri útgáfa var flutt á málþinginu og þessi lengri útgáfa uppfærð að kvöldi 23. nóv. 2011]

Ástæður

Ég held að það sé aðeins til eitt algilt lögmál um liðna tíð: þótt sagan sé samansafn tilviljana er það samt svo að eitt leiðir alltaf af öðru. Ekkert gerist án samhengis við annað. Þetta erindi varð til vegna þess að í nýlegri bók Þórs Whitehead, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, Sovét-Ísland, var sums staðar vikið að verki mínu, Óvinir ríkisins, sem kom út árið 2006. Gagnrýni sína á efnistök í þeirri bók, sem birtust í allnokkrum neðanmálsgreinum, kallaði Þór „framlag til fræðilegra rökræðna um sögu kommúnistahreyfingarinnar í landinu“.[1] Í blaðaviðtali kvaðst hann jafnframt búast við andsvörum og fagna þeim. Fræðileg umræða væri „lífsnauðsynleg fyrir öll fræði“, og þá jafnframt gagnrýni höfunda á eigin verk.[2] Í ritdómi um Sovét-Ísland gekk Styrmir Gunnarsson svo skrefi lengra og sagði um mig og Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, sem um var farið hörðum orðum í verkinu: „Það verður fróðlegt að sjá hver andmæli þeirra verða. Þeir hljóta að svara.“[3]

Áður en Þór birti gagnrýni sína bar hann hana undir mig og bauð mér að benda á það sem mér þætti missagt. Þá fannst mér réttast að ályktanir hans birtust en síðan gæti ég sjálfur sagt mitt álit ef ég vildi. Það geri ég hér og nú, í stuttu máli, og bið áheyrendur strax afsökunar á þeirri sjálfhverfu sem einkennir erindið óneitanlega. Hún dýpkar kannski enn þegar ég bæti við að lengri útgáfu þess má finna á heimasíðu minni, www.gudnith.is.

Orð eru dýr

„Orð eru dýr,“ orti Einar Benediktsson í kvæði sínu um Davíð konung. Ég ætla ekki að rekja öll álitamál sem Þór Whitehead nefnir í verki sínu. Sumt eru staðreyndavillur mínar, annað skoðanir Þórs sem mér finnst orka tvímælis. Þannig þykir mér gagnrýni hans á frásögn mína af meintum símahlerunum í „hvíta stríðinu“ smásmuguleg en ætla þó ekki að rekja það hér.[4] Frekar vil ég nefna það sem ég tel að geti skipt máli fyrir frekari fræðilega umræðu. Leikinn hef ég með gagnrýni Þórs á hugtakið „hvíta stríðið“ til að lýsa þeim átökum sem urðu í Reykjavík síðla árs 1921. Stjórnvöld vildu þá vísa dreng frá Rússlandi úr landi út af sótthættu en Ólafur Friðriksson, einn helsti leiðtogi Alþýðuflokksins, sem kom með drenginn, Nathan Friedman, til landsins reyndi af öllum mætti að koma í veg fyrir það og hafnaði sáttaboðum stjórnvalda. Þór nefnir ekki að í bók minni notaði ég einnig hitt þekkta heitið yfir þessi átök, „drengsmálið“. Það skiptir þó ekki öllu máli því það er í sjálfu sér rétt að „hvíta stríðið“ er gildishlaðið hugtak, heiti sem önnur hinna stríðandi fylkinga gaf átökunum. „Drengsmálið“ er hlutlægara.

Á hinn bóginn notum við gjarnan hugtök þótt við ættum að vita að þau eru gildishlaðin og geta gefið falska mynd af þeim raunveruleika sem reynt er að lýsa. Í þeim efnum má hafa til hliðsjónar rannsóknir fræðimannsins Edwards Said á „óríentalisma“, „Austurlandafræðum“.[5] Hér á Íslandi mætti vel taka til endurskoðunar hugtök eins og „Nýsköpunarstjórnina“ og „Viðreisnarstjórnina“. Allt eins kæmi til greina að tala um „stríðsgróðaeyðslustjórnina“ og „síldareyðingarstjórnina“. Orð eru dýr – þau geta sagt meira en þeim er ætlað. Um leið og jákvæð heiti festast við ríkisstjórnir í almennu tali getur virst þeim mun erfiðara að gagnrýna verk þeirra.

Stundum er það þó einfaldlega svo að heiti festast í málvitund enda bendir Þór á að algengt sé að tala um „hvíta stríðið“. Sjálfur hafði ég gæsalappir um þau orð til að sýna að hugtakið væri takmörkunum háð. Sama er gert í tveimur verkum um Íslandssögu 20. aldar, bók Helga Skúla Kjartanssonar og yfirliti í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar.[6] En Þór finnst gæsalappirnar ekki duga, enda felist í heitinu „hvíta stríðið“ sú hugsun Ólafs Friðrikssonar og kommúnista „að framkvæmd landslaga við sóttvarnir væri fasistastríð og líta mætti svo á „að upphaf fasisma í Evrópu gætti í aðför hvíta liðsins að Ólafi Friðrikssyni“!“[7]

Þetta þykir mér ofmælt. Það er óþarfi að bendla okkur sem á eftir skrifum við þær ýkjur þótt við notum hið algenga heiti „hvíta stríðið“. Hitt er svo önnur og flóknari saga en mér finnst Þór gera of mikið úr þeirri vá sem skapaðist í bænum. Vissulega var ríkisvaldinu ógnað um skeið þegar Ólafur neitaði að hlýða fyrirmælum og safnaði vopnbúnu liði. Og vissulega sagði Hendrik Ottósson, einn liðsmanna hans síðar, að drengsmálið hefði snúist „að lokum um að steypa ríkisstjórn landsins af stóli með því að brjóta lög og beita lögregluna ofbeldi“. En var það svo í raun? Þessi orð þýða alls ekki að vel undirbúið valdarán hafi verið í vændum, hvað þá að það hefði tekist. Ólafur Friðriksson missti stuðning Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins, liðið sem stjórnvöld safnaði hafði yfirburði, danska varðskipið Islands Falk beið til öryggis á höfninni. Uppþot og átök, já, en engin tilraun til byltingar.

Ógn metin og ofmetin

Sú ályktun gefur tóninn fyrir frekari umræðu. „Gúttóslagurinn“ er hlutlaust heiti yfir átökin sem urðu þegar bæjarstjórnin í Reykjavík vildi lækka kaup í atvinnubótavinnu 9. nóvember 1932 ‒ nema mönnum þyki orðið kannski of léttvægt fyrir hinn hatramma bardaga. Í bók sinni um Sovét-Ísland lýsir Þór Whitehead sárum þeirra og ætti enginn að efast um að margir lögreglumenn máttu kallast heppnir að missa ekki lífið.[8] Í frásögn sinni finnst Þór þó nauðsynlegt að bæta við þeirri skoðun sinni að í Óvinum ríkisins sé hallað réttu máli. Þannig dugi ekki að þar séu raktar þær morðhótanir sem einn lögreglumanna fékk að heyra þegar mest gekk á vegna þess að því sé sleppt að á hann var ráðist þannig að hann bar þess aldrei bætur.[9] Samt er komist svo að orði í bók minni um lögreglumennina að kvöldi dags: „Sumir þeirra voru stórslasaðir og einhverjir báru merki bardagans alla tíð.“[10]

Þór Whitehead finnur einnig að því að í lýsingu minni á slagnum hafi ég vitnað til þeirrar endurminningar eins kommúnista að foreldrar hans hefðu um skeið óttast um annan son þeirra sem var í slagnum: „Mamma spyr hvort það geti átt sér stað að verið sé að drepa elsta soninn. Pabbi segir að lögreglunni sé trúað til alls, enda alvopnuð.“[11] Hér þykir Þór ámælisvert að ég leggi að jöfnu ótta tiltekinnar fjölskyldu og raunverulega reynslu lögregluþjóns „sem lifði naumlega af hrottalegar árásir skipulagðrar og vopnaðrar liðsveitar kommúnista“.[12]

Vissulega voru barsmíðarnar raunverulegri; þær áttu sér stað. Getur samt ekki verið að óttinn hafi líka verið ríkur í huga fólks, þó að hann hafi ekki verið á rökum reistur? Sjálfum finnst mér ég ekki leggja þetta tvennt alveg að jöfnu í bók minni og tel að afstaða og ótti þeirra sem stóðu andspænis lögreglunni hljóti að skipta máli þegar sagan er sögð.

Hvers vegna varð Gúttóslagurinn? Þór Whitehead segir okkur Jón Ólafsson álykta ranglega – mig að mestu með því að treysta verkum Jóns – að upptök átaka á kreppuárunum hafi legið í „„þjóðfélagsástandinu sjálfu““. Hitt sé sannara að „[s]kipulagt ofbeldi kommúnista hér eins og víðast annars staðar var bein afleiðing af ofsavinstrilínu Kominterns“.[13]

Að mínu mati verður að hafa í huga mun meira en Komintern og kommúnisma þegar reynt er að útskýra verkalýðsátök á kreppuárunum. Atvinnuleysi óx, fátækt var þrúgandi, börn liðu skort. Þyrfti fólk styrk frá hinu opinbera missti það kosningarétt og kjörgengi. Gísli Ágúst Gunnlaugsson sagnfræðingur komst svo að orði að viðhorf stjórnvalda til fátæks almúgafólks hefði verið „ómannúðlegt“ og bætti við að fram til ársins 1935 hefði fátækralöggjöfin byggst „að miklu leyti á viðhorfum 19. aldarmanna til framfærslumála og þeim úrræðum sem voru til lausnar þeim í dreifbýlissamfélagi“.[14] Þetta hlýtur að skipta máli þegar reynt er að útskýra hitann í mönnum 9. nóvember 1932, langt út fyrir raðir Kommúnistaflokks Íslands og Varnarliðs verkalýðsins.

Kannski má líka líta hér víðar yfir sviðið: Hvers vegna varð franska stjórnarbyltingin? Þjóðfélagsástandinu var um að kenna, sögðu sagnfræðingar lengstum á síðustu öld, til dæmis Georges Lefebvre í The Coming of the French Revolution. Áður hafði breski sagnfræðingurinn Thomas Carlyle skrifað, með sínu leiftrandi lagi sem óþarfi er að þýða á íslensku: „Hunger and nakedness and nightmare oppression lying heavy on twenty-five million hearts: this ... was the prime mover in the French revolution; as the like will be in all such revolutions, in all countries.“[15] Með nokkurri einföldun má segja að á tvö hundrað ára afmælinu árið 1989 hafi ný átök hins vegar blossað upp um orsakir frönsku byltingarinnar, atburðarás og arfleifð. Sagnfræðingar eins og Simon Schama og François Furet sáu frekar ofbeldi fyrst og fremst, án tilgangs og jafnvel án ástæðna.[16] Flestum þykja fyrirheitin um frelsi, jafnrétti og bræðralag þó enn göfug. Í nýlegu riti benti Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þannig á að franska byltingin hefði átt upptök sín í óréttlátu lénsskipulagi.[17] Vera má að byltingar þyki verjanlegri, því fjær sem þær eru okkur í tíma.

En aftur að Gúttóslagnum. Vart getur seinni tíma sagnfræðinga undrað að atvinnuleysingjar og aðrir í hópi verkafólks hafi reiðst kauplækkunaráformum bæjarstjórnarinnar – til þess þurfti ekki áróður frá Moskvu með milligöngu íslenskra kommúnista. Jafnvel mætti líka taka með í reikninginn að við mótmæli og útifundi getur rás viðburða farið úr böndunum, án þess að með því sé reynt að afsaka þau ofbeldisverk sem framin voru. Höfum samt til hliðsjónar eftirfarandi lýsingu Erics Hobsbawms ‒ hann verður ekkert ótrúverðugri þó að hann hafi lengi verið í breska kommúnistaflokknum: „Next to sex, the activity combining bodily experience and intense emotion to the highest degree is the participation in a mass demonstration at a time of great public exaltation.“[18]

Og voru það ekki alþýðuflokksmenn sem hljóp hvað mest kapp í kinn í Gúttóslagnum? Stóð ekki Héðinn Valdimarsson og rétti mönnum stólfætur til að nota sem barefli? Einn þeirra sem var á vettvangi rifjaði afstöðu Héðins seinna upp: „Sagt var að Héðinn hefði viljað gera byltingu á eftir … [hann] talaði við Einar og Brynjólf en þeir sögðu að það væri ekki tímabært, þetta væri uppþot (rebellion, engin revolution). En Héðinn vildi taka völdin, þegar búið var að lemja niður lögregluna?!“[19]

Bylting eða óeirðir?

Getur hvort tveggja staðist, hitinn í jafnaðarmanninum Héðni Valdimarssyni og úrtöluraddir kommúnistaleiðtoganna, Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar? Orð Héðins um byltingu má hafa til frekara marks um ofsann sem réð 9. nóvember 1932. Héðinn var skapstór og engin ástæða er til að draga heitingar hans í efa. Hins vegar er ótrúlegt að hann hafi vaknað þennan morgun staðráðinn í að ræna völdum á Íslandi. Afstaða Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar þarf jafnframt nánari skoðunar við.

Enn nefni ég að þessa sögu skoða ég einkum út frá þeim neðanmálsgreinum í bók Þórs Whiteheads þar sem ég kem við sögu. Þór hafnar þeirri skoðun minni að Einar og aðrir í leiðtogasveit Kommúnistaflokksins hafi þóst vita að þegar „byltingin kæmi yrði það alheimsbylting sem hæfist annars staðar en í Gúttó við Tjörnina í Reykjavík“.[20] Athugasemdir Þórs eru fleiri og hann bendir meðal annars á að Einar Olgeirsson hafi sagt hugsanlegt „„að verkamenn og fátækir bændur Íslands gerðu byltingu hér á undan alþýðustéttum nágrannalandanna““. Meginniðurstaða Þórs er því þessi: „raunin var sú að kommúnistar bjuggu sig af kappi undir byltingu með stuðningi Kominterns og beittu hér tíðum markvissu ofbeldi að áeggjan Moskvuvaldsins með geigvænlegum afleiðingum“.[21]

Ekki getur nokkur maður efast um að Kommúnistaflokkur Íslands hafði á stefnuskrá sinni valdatöku, með góðu eða illu. Að því skyldi unnið. Hér dugar þó vart að taka viljann fyrir verkið. Þannig kom aldrei til þess að starfsemi flokksins yrði lýst ólögleg þótt hugur margra andstæðinga hafi staðið til þess.[22] Vera má að það sé til merkis um veikleika ríkisvaldsins enda voru kommúnistaflokkar bannaðir víða um heim. Allt eins má þó segja að í þessu hafi falist virðing fyrir þeim leikreglum lýðræðis og þingræðis sem kommúnistar samþykktu á sinn hátt með þátttöku í kosningum (að vísu aðeins í „taktísku“ tilliti en það breyttist með stofnun Sósíalistaflokksins). Þar að auki er það ætíð svo að aukið öryggi felst ekki endilega í auknu valdi. Með það í huga mótmælti Ásgeir Ásgeirsson, þingmaður Framsóknarflokks (síðar Alþýðuflokks og að lokum forseti) áformum um ríkislögreglu árið 1925 með athyglisverðum orðum: „Sú þjóð er á heljarþröm, sem ætlar að búa um sig rjett eins og bylting sje á hverju augnabragði að brjótast út. Kósakkalöggæsla er undanfari bolsévismans. Það á hvorttveggja jafnlítið erindi til okkar lands.“[23]

Að fleiru þarf að hyggja. Í verkum okkar vitnuðum við Þór Whitehead báðir í orð Einars Olgeirssonar um Gúttóslaginn í ritdeilu við Jónas Jónsson frá Hriflu:

J. J. heldur að bylting sé það að 200 vopnaðir kommúnistar ráðist á blessaða, saklausa, vopnlausa burgeisana, setji þá alla í fangelsi og taki svo völdin. Ef við hefðum viljað gera svona „byltingu“ þá hefðum við getað gert hana fyrir þó nokkru síðan. T.d. 9. nóvember. Það hefði ekki þurft meir en taka vopnabúðir Reykjavíkur að kveldi þess dags, vopna verkalýðinn að svo miklu leyti sem hægt var og svo ráðast á stjórnarráðið. Og þetta hafa auðsjáanlega hjartveikir ístrubelgir og skilningssljóir stjórnspekingar haldið að við ætluðum að gera. En það er ekki þannig sem bylting er gerð, hr. Jónas frá Hriflu. Slíkt væri „Kup“ – ekki bylting.[24]

Ég held því enn fram að leiðtogar íslenskra kommúnista hafi aldrei séð fyrir sér að fremja byltingu einir síns liðs úti á Atlantshafi. Ég get fallist á að hefðu þeir séð byltingaröldu ríða yfir Evrópu hefðu þeir látið slag standa hér og þá jafnvel áður en baráttan var til lykta leidd ytra. Hitt þykir mér ennþá ótrúlegt að þeir hefðu reynt að ræna völdum án þess að heimsbyltingin væri hafin eða við það að hefjast. Slík fífldirfska hefði verið „kup“, ekki bylting.

Hvað ef?

Hvað ef kommúnistar hefðu engu að síður látið til skarar skríða? Í bók Þórs Whitehead er það sem rauður þráður að byltingarhættan hafi alltaf vofað yfir. Á sömu lund sagði leiðarahöfundur Morgunblaðsins verkið sýna að fullveldið (og síðar lýðveldið) hefði staðið „svo tæpt að engu mátti muna“ og byltingamenn hefðu verið „aðeins hársbreidd frá því að ná ætlunarverki sínu“.[25]

Gefum okkur nú að svo hefði farið. Mín niðurstaða í Óvinum ríkisins – með hliðsjón af lýsingu Einars Olgeirssonar á mögulegu valdaráni 9. nóvember 1932 ‒ var sú að þannig „kup“ hefði aldrei varað til lengdar: „Til þess voru andstæðingar Kommúnistaflokksins allt of öflugir, hvað sem leið stöðu mála að kvöldi Gúttóslagsins. Í allra versta falli hefðu stjórnvöld orðið að leita ásjár Dana eða breska sjóhersins en ótrúlegt er að svo hefði getað farið.“[26] Þótt viðbrögð við þessari ályktun sé ekki að finna í neðanmálsgrein í Sovét-Íslandi víkur Þór Whitehead að bollaleggingum af þessu tagi í lokakafla bókar sinnar: „Hefðu Danir eða Bretar ekki sent hingað herlið og steypt rauðliðum af stóli [?]...“ spyr hann og svarar um leið: „Slíkra spurninga geta þeir einir spurt sem vita hvaða rás viðburðirnir tóku.“ Sömuleiðis segir Þór:

Þótt ráðamenn hefðu hugsanlega getað vonast til að danskur eða breskur her gengi þá hér á land, hefðu þeir tæplega getað gert sér miklar vonir um að njóta þess sjálfir að lýðræðið yrði endurreist. ... Allt sýnir þetta, hve fánýtt það er að horfa í baksýnisspegilinn um áttatíu árum eftir að atburðir gerðust og álykta að ráðamenn hefðu átt að láta sem ekkert væri, jafnvel þótt lögregla höfuðstaðarins lægi óvíg eftir átök við byltingarmenn.“[27]

Heilshugar tek ég undir þau varnaðarorð að við sem á eftir komum vitum því miður hvað gerðist næst, svo vitnað sé til orða kaldastríðssagnfræðingsins John Lewis Gaddis skrifaði („the tyranny of knowing what came next“).[28] Á hinn bóginn er mín meginályktun alls ekki sú að fyrst hjálpar var væntanlega að vænta að utan hefðu ráðamenn einfaldlega átt að láta sem ekkert væri. Þetta hefðu lesendur Óvina ríkisins til dæmis átt að geta lesið úr lokaorðum þess kafla sem fjallaði um árin milli stríða:

Árin milli stríða stóðu þeir því andspænis hvorir öðrum, þeir sem óttuðust byltingu og þeir sem vonuðust eftir henni. Og síðan bættist stríðið við með öllum sínum ógnum. Seinni ákvarðanir stjórnvalda um hervernd, símahleranir, persónunjósnir og öryggisþjónustu geta aðeins skilist í ljósi þessara fyrri tíma.[29]

Þótt ég komist að þeirri niðurstöðu að hér hafi ekki verið bráð hætta á byltingu er ég alls ekki þeirrar skoðunar að aldrei hafi verið hætta á ferðum. Ofbeldið 9. nóvember 1932 og önnur átök sýndu að lögreglan mátti ekki veikari vera. Ógnin af óeirðum var ætíð til staðar, verkfallsátök gátu farið úr böndunum. Að mínu mati er því auðskilið að stjórnvöld vildu stofna varalögreglu og ríkislögreglu og verjast á annan hátt róttækum öflum til hægri og vinstri á vettvangi stjórnmálabaráttunnar. Eftir að það var gert breyttist valdajafnvægið nokkuð kommúnistum í mót en þar að auki hlaut það að halda aftur af leiðtogum þeirra að þótt þeir gætu mögulega rænt völdum myndu þeir trauðla ná að halda þeim. Þeir vissu hvernig hafði farið fyrir Bela Kun í Ungverjalandi og byltingartilraunum í Þýskalandi fyrst eftir seinni heimsstyrjöldina. Andspænis ríkisvaldinu fundu íslenskir kommúnistar frekar til vanmáttar en yfirburða.

Hvað er kommúnisti?

Þeim neðanmálsgreinum í Sovét-Íslandi sem ég vil ræða um fer nú fækkandi. Ein veigamikil athugasemd er þó eftir. Í Óvinum ríkisins skrifaði ég að fyrstu árin eftir seinni heimsstyrjöld hefði Sósíalistaflokkurinn frekar verið „fjöldahreyfing en selluflokkur harðsnúinna byltingarsinna“.[30] Þór Whitehead segir þetta gefa „skakka mynd af flokknum“. Selluskipulagið hefði lengst af verið burðarás í öllu starfi hans, flokksmönnum almennt verið bannað að gagnrýna stefnu hans á opinberum vettvangi og „[m]eirihluti flokkskjarnans 1938‒1950 var … skipaður eindregnum kommúnistum …“ Fyrirvara setur Þór þó: „Í flokknum var áreiðanlega fjöldi manns, sem seint eða aldrei hefði tekið þátt í byltingu.“[31]

Og hvað er þá kommúnisti? Kannski það gæti orðið fundarefni Sagnfræðingafélagsins einn veturinn! Reyndar gerðist það í umræðum eftir upphafserindi Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í fundaröð þess haustið 2008 að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, skilgreindi kommúnista og sósíalista þannig að þjóðernishyggja þeirr hefði aðeins verið yfirvarp og þeir hefðu einfaldlega verið „handbendi Moskvu“. Undir þetta tók Björn Bjarnason og sagði „Þeir hlýddu bara kallinu frá Moskvu.“[32].

Hér er alhæft um þúsundir manna. Auðvitað er ekki unnt að gera viðamiklu álitamáli skil í stuttu erindi en mér finnst það samt enn standast að kalla megi Sósíalistaflokkinn fjöldahreyfingu frekar en selluflokk svikara að undirbúa byltingu, svo lýsingin sé aðeins umorðuð. Ég tel það ekki á rökum reist að Einari Olgeirssyni og öðrum framámönnum í Kommúnista- og síðar Sósíalistaflokknum hafi einfaldlega þótt „hyggilegra að nýta sér sterka þjóðerniskennd Íslendinga en hafna henni“ eins og Styrmir Gunnarsson komst nýlega að orði.[33] Því hvað er kommúnisti? Þess má aftur spyrja. Snemma árs 1989 – sama ár og Berlínarmúrinn féll – skrifaði Styrmir um kynni sín af Birni Jónssyni, Finnboga Rúti Valdimarssyni og Hannibal Valdimarssyni:

Það var ómetanlegt fyrir Heimdelling og blaðamann á Morgunblaðinu að kynnast þessum mönnum, lífsviðhorfum þeirra og skoðunum á dægurpólitíkinni. Ég gerði mér smátt og smátt grein fyrir því að þessir menn voru ekki „kommúnistar“, eins og bæði ég og aðrir vorum aldir upp við að trúa, heldur róttækir jafnaðarmenn. Fyrir þá Hannibal, Björn og Rút var baráttan fyrir bættum kjörum verkalýðsins hugsjón sem þeir höfðu tileinkað sér í æsku, meðal annars vegna þess úr hvaða jarðvegi þeir voru sprottnir.[34]

Einnig má nefna óbirt eftirmæli Andrews Gilchrists, sendiherra Breta á Íslandi á sínum tíma, um Bjarna Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Vera má að Gilchrist hafi eitthvað fært í stílinn en hann rifjaði upp að Bjarni hefði farið fögrum orðum um Halldór Laxness – og líklega fór það samtal fram einhvern tímann á sjöunda áratugnum. „Hvað, þann bölvaða kommúnista?“ sagði Gilchrist stríðnislega en Bjarni svaraði: „Ég veit ekki hvort hann er kommúnisti í dag og ég hef ekki spurt hann. Og sumir kommúnistar eru skárri en aðrir. Einhverjir okkar kommúnista eru Íslendingar fyrst og svo kommúnistar og það er ekki svo slæmt.“ Samtalinu lauk svo með þessum orðaskiptum, að sögn Gilchrists: „Ég spurði [Bjarna] hvort hann ætti við að kommúnistarnir hefðu breyst. „Já, þeir hafa breyst aðeins.“ Og svo bætti hann við, með þeirri sanngirni sem einkenndi Bjarna: „Eða kannski er ástæðan sú að ég er farinn að skilja þá betur.““[35]

Heimurinn er flókinn, fólk er flókið. Doktorsritgerð sína um þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál á fyrri hluta síðustu aldar hóf Ragnheiður Kristjánsdóttir með sögu um Frakkann Fureux sem George Orwell sagði furðulegan fýr; „þótt hann væri kommúnisti þegar hann var edrú, þá varð hann heiftúðugur föðurlandsvinur þegar hann var fullur.“[36]

Íslendinga mætti líka leiða til vitnis. Eitt sinn lýsti Kjartan Guðjónsson listmálari stjórnmálaskoðunum sínum og aðild að Sósíalistaflokknum með þessum orðum: „Nei, ég var aldrei marxisti. Þetta var ósköp rómantískur kommúnismi, svona Sölku Völku kommúnismi. Maður las Kiljan, það var allt og sumt. Hersetan var efst á baugi; svo var náttúrlega verkalýðsbaráttan, en ég tók aldrei þátt í henni.“[37]

Svona gat fólkið í fjöldahreyfingunni verið. Það vissu leiðtogarnir og fyrir kom að sovéskir sendimenn á Íslandi kvörtuðu undan því að Einar Olgeirsson og aðrir kommúnistar létu ekki aðeins vera að berjast gegn yfirgengilegri þjóðrembu Íslendinga, eins og komist var að orði, heldur gengust þeir sjálfir upp í þessum smáborgaralega „þvættingi“.[38] Þjóðernishyggjan var ekki yfirvarp, frekar kjarni.

Þekktu sagnfræðinginn...

Enn vitna ég í vinstrisinnaðan breskan sagnfræðing, í trausti þess að orðin verði samt vegin á eigin forsendum: „Kynntu þér sagnfræðinginn áður en þú kynnir þér staðreyndirnar“ („Study the historian before you begin to study the facts“). Svo mælti Edward Carr á sínum tíma.[39]

Þór Whitehead hefur aldrei leynt því að hann aðhyllist ekki kröfuna um hlutleysi í sagnfræði. Árið 1980, snemma á fræðaferlinum, skrifaði Þór: „Ég er ekki í hópi þeirra sagnfræðinga, sem trúa því að þeir geti hafið sig ofar samtíð sinni og skoðunum og fjallað um málin af óskilgreindu „hlutleysi“. Ég hef ákveðin viðmið, sem ég tel óheiðarlegt að leyna. Takmark mitt er ekki að vera „hlutlaus“, heldur leita að sannleika og skýra hann.“[40]

Þetta sjónarmið er alls ekkert einsdæmi; þannig má benda á að sovétsérfræðingurinn Robert Conquest, sem skrifaði um ódæði Stalínstímans, tók í sama streng í formála rits síns, The Great Terror.[41] Hér á Íslandi kvaðst fræðimaður, sem leit með velþóknun á verkalýðsbaráttu liðinnar tíðar, jafnframt gera „eina sérstaka kröfu“ til rita um verkalýðshreyfinguna, „og hún er sú að verkið sé a.m.k. jákvætt, ef ekki hliðhollt, róttækum straumum í verkalýðshreyfingunni“.[42]

Fullkomin hlutlægni er ekki til; fræðimenn gera kröfur og setja sér viðmið. En hver var hún þá samtíðin sem Þór Whitehead kvaðst ekki getað hafið sig ofar frekar en aðrir menn? Hver voru viðmiðin? Líklega kemur helst til álita hér kalda stríðið og sú afstaða sem margir töldu sig þá þurfa að taka. Árið 1961 var Þór kjörinn í fyrstu varastjórn Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, langyngstur stjórnarmanna. Fjórum árum síðar skrifaði hann í Morgunblaðið um vanþekkingu margra á eðli einræðis: „Þessu fólki væri hollt að athuga stöðu sína í baráttu einræðis og lýðræðis í ljósi sögunnar. Harður er dómur hennar um fyrirrennarana, en harðari mun hann verða, því að í skjólhús þekkingarleysis er nú eigi í að venda.“[43]

Sagnfræðingar eru eins og aðrir börn síns tíma, mótaðir af samfélagi sínu og hertir í deilum ef því er að skipta. Á nítjándu öld taldi þýski sagnfræðingurinn Theodor Mommsen að þeir sem hefðu lifað sögulega daga, „færu að sjá að sagan er hvorki lifuð né sögð án ástar eða haturs“.[44] Nær okkur í tíma og rúmi sagði Styrmir Gunnarsson eitt sinn við unga fréttakonu: „Þú hefur ekki minnstu möguleika ... til að skilja andrúmsloftið á þessum fyrstu tveimur áratugum kalda stríðsins. Það var svo ofboðslega hatrammt.“[45]

Eftir hrun kommúnismans hefur mörgum þeirra sem börðust gegn honum því þótt varða miklu að „dómur sögunnar“ verði lýðum ljós. „Kalda stríðið – dómur sögunnar“ hét erindi Björns Bjarnasonar hjá Sagnfræðingafélaginu sem áður var vitnað til. Þegar til stóð að gefa út nýja útgáfu af The Great Terror var Robert Conquest spurður að því hvað verkið ætti að heita, og svaraði hann þá samstundis: „How about I Told You So, You Fucking Fools?[46]

Ritunartíma Sovét-Íslands má einnig hafa í huga. „Sagan endurtekur sig,“ skrifar Þór Whitehead í bókinni og vísar til árása á lögreglumenn „sem vörðu Alþingishúsið fyrir æstum mannfjölda í janúar 2009“. Líkur leiðir hann einnig að því að íslenska ríkið sé enn eins vanmegna og það hafi verið frá fullveldisheimt 1918: „Það sé í raun vanbúið til að framfylgja lögum og vernda stjórnskipulagið, ef fjölmennur hópur manna tekur sig saman um að veita því andspyrnu eða ákveður að reyna að steypa löglega kjörnum yfirvöldum með valdi.“[47] Ekkert er ofsagt um æsinginn í ársbyrjun 2009 þegar „búsáhaldabyltingin“ stóð sem hæst. Sömu vanþóknun má hafa á þeim sem hafa síðar talið vald fólksins felast í að kasta eggjum að öðrum. Varast þarf þó að gera of mikið úr mótmælum og óeirðum. Þeir voru til sem grunaði í hita leiksins átakaveturinn 2008-2009 að „valdarán“ væri í bígerð og illvirkjarnir hefðu jafnvel þegar „gert ráðstafanir til að verða sér út um mikið magn skotvopna, skotfæra og sprengiefnis“.[48] Má vera að gögn sem staðfesta það komi einhvern tímann fram? Það hlýtur að teljast afar ólíklegt. Stoðum ríkisvaldsins var ekki ógnað svo að þær gætu brostið að fullu og öllu. Auk þess er ljóst að sú ríkisstjórn sem hrökklaðist frá völdum í janúar 2009 var þá þegar komin að fótum fram. Um ofmat á „búsáhaldabyltingunni“ (og þá líka í huga þeirra sem lofuðu hana) skrifaði ég á öðrum vettvangi:

Þegar eldar loguðu við Alþingi varð aðgerðasinnanum Naomi Klein hugsað til hinna miklu mótmæla í Argentínu í upphafi aldarinnar. „Que se vayan todos!“ hrópuðu borgararnir þá, „þeir verða allir að fara!“ En þar var kveikt í byggingum og fólk lét lífið í átökum við lögreglu. Í nóvember hafði einn Íslendinganna sem fóru á útifundi þá og síðar rifjað upp slagorð íbúa Austur-Þýskalands við hrun Berlínarmúrsins 1989: „Wir sind das Volk!“ – „Við erum þjóðin!“ En þar hafði ógnarstjórn kúgað fólk í fjóra áratugi.

Jón Ólafsson heimspekingur sá líkindi með „flauelsbyltingunni“ í Tékkóslóvakíu og þeirri „flísbyltingu“ sem þyrfti að framkvæma á Íslandi. Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fann líka hliðstæður milli kerfishruns hér og í Austur-Evrópu við hrun kommúnismans en bætti við að setja yrði ákveðna fyrirvara við þann samanburð. Fyrirvararnir urðu einmitt að vera skýrari en samanburðurinn. Geir H. Haarde var ekki Erich Honecker, Hörður Torfa ekki Vaclav Havel og Austurvöllur ekki Plaza de Mayo í Buenos Aires. Búsáhaldabyltingin var einstök í Íslandssögunni og órækur vitnisburður um þau áhrif sem fjölmenn og stöðug mótmæli geta haft í vestrænu lýðræðisríki. Hún verður engu minni þótt því sé haldið til haga að hún stenst alls ekki samjöfnuð við djúpstæðara andóf gegn miklu verra ástandi annars staðar.[49]

Þekktu þá sjálfan þig...

Ég hef í þessu erindi vakið máls á þeim athugasemdum sem Þór Whitehead, gamall leiðbeinandi í fræðunum og vildarvinur, gerði við efnistök mín í Óvinum ríkisins, bók um ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi. Ég hef helst rakið það sem við erum ósammála um, á ýmsu öðru sýnist mér við hins vegar hafa sömu skoðun. Hvort tveggja er sjálfsagt þegar leggja þarf mat á liðna tíð.

Samtíðin og skoðanir hennar hljóta svo einnig að skipta máli þegar ég er annars vegar, rétt eins og hér hefur verið sagt um Þór Whitehead. Ég er ekki „barn kalda stríðsins“ ef svo má að orði komast. Ég hertist ekki í þeim eldi og finnst ég ekki þurfa að kveða upp ótvíræða lokadóma um rétt og rangt þar sem þúsundir manna eru settar undir sama hatt leiðtoganna með stefnuskrána. Ég tel mig ekki vera einan um þetta sjónarmið og nefni hér til hliðsjónar ritdóm um eitt metnaðarfyllsta verk sem samið hefur verið um sögu kalda stríðsins, The Cambridge History of the Cold War í ritstjórn Melvyns Lefflers og Odds Arnes Westads.[50] Í dómnum sagði Richard Crockatt, einn kaldastríðsfræðingurinn til – og ég vitna til orða hans á frummálinu:

In mainstream Cold War historiography, of which this set of volumes is an outstanding example, there is little animus, little sense that life depends on this or that interpretation. ... the Cold War has slipped relatively painlessly into history. ... The Cambridge History of the Cold War is a monumental and highly articulate expression of a kind of consensus which exists less obviously at the level of ideology than of professional practice. Freed from the need to re-fight the old battles of the Cold War, the authors are able to explore the Cold War as history in all its riches and complexity.[51]

Ég kýs frelsið, frelsi frá því að heyja á ný gömul stríð og frelsi til að skrifa frekar um þau. Það þýðir alls ekki að með því sé lögð blessun yfir ofbeldisverk eða ógnarstjórnir. Ég vil einfaldlega stefna að ítrustu hlutlægni og sjá atburði frá mörgum sjónarhólum þótt ég viti um leið að það sé í raun ómögulegt. En hér má taka viljann fyrir verkið og reyndar hefur sumum fundist ég vera allt of hlutlægur, skorta dómhörku og veigra mér við að álykta um menn og málefni. Til dæmis kvartaði Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, undan því að bók mín um bankahrunið 2008 væri alltof hlutlaus.[52] Aðrir hafa á hinn bóginn lofað þessa viðleitni. Þannig sagði Ólafur Stephensen, núverandi ritstjóri Fréttablaðsins, í ritdómi um Óvini ríkisins að höfundurinn reyndi „að sýna fyllstu sanngirni, bæði gagnvart þeim sem ákvarðanir tóku um hleranir og eftirlit og þeim sem voru undir eftirliti, og [legði] sig almennt í framkróka við að sýna allar hliðar málsins“.[53] Hinu verður svo einnig að halda til haga sem annar lesandi verksins, Kristján B. Jónasson bókaútgefandi, skrifaði um það: „Svokallað „vinstra fólk“ og svokallað „hægra fólk“ hefur hvorttveggju hvíslað í mín eyru að Guðni sé málpípa andhverfunnar“.[54]

Hvað veit ég? Enginn er dómari í eigin sök. Stundum verður mér þó hugsað til þess að ég sé kannski eins og sagnfræðingurinn sem hinn breski Acton lávarður hafði lítið álit á og skrifaði um í hneykslunartón: „Hann kappkostar ekki að færa sönnur á mál eða leita ótvíræðra niðurstaðna, heldur líkar honum betur að fara um vígvelli mikilla átaka og ástríðna með forvitnissvip ... og silkihanska á höndum.“[55]


[1]Þór Whitehead, Sovét-Ísland óskalandið. Aðdragandi byltingar sem aldrei varð 1921‒1946 (Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2010), bls. 432. Í neðanmálsgrein á bls. 19 segir Þór sömuleiðis að athugasemdum hans sé ætlað „að auðvelda almennum lesendum og fræðimönnum að dæma um sannleiksgildi þessara verka“ (auk umfjöllunar um efnistök í Óvinum ríkisins er í athugasemdunum einnig vikið að ályktunum og niðurstöðum Jóns Ólafssonar, prófessors við Háskólann á Bifröst).

[2]„Menn taka ekki völdin með því að fletta doðröntum“ (viðtal við Þór Whitehead), Fréttatíminn 17.‒19. des. 2010.

[3]Styrmir Gunnarsson, „Grundvallarrit Þórs Whitehead“, Morgunblaðið 9. jan. 2011.

[4]Sjá: Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 48. Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi (Reykjavík: Mál og menning 2006), bls. 30‒32.

[5]Sjá einkum Edward Said, Orientalism (London: Penguin, 2003 (upphafl. útg. 1978)).

[6]20. öldin. Brot úr sögu þjóðar. Jakob F. Ásgeirsson ritstjóri (Reykjavík: Nýja bókafélagið 2000), 68.

[7]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 48.

[8]Reyndar má benda á að þeim meiðslum sem lögreglumenn urðu fyrir hefur áður verið getið í frásögnum af Gúttóslagnum, að vísu ekki eins nákvæmlega. Sjá t.d.: Íslandssagan í máli og myndum. Það rit er víðlesið og er vitnað þar til lýsingar Kjartans Jónassonar í bók hans, Kreppuárin: „Lýsingar á meiðslum lögreglunnar eru órækur vitnisburður um hversu ofsafenginn þessi bardagi var. Eftir slagsmálin lágu margir lögregluþjónanna í öngviti á götum bæjarins og höfðu hlotið rothögg með kylfum og grjótkasti. Flestir voru með nokkurra sentímetra skurði í höfuðsverði, nokkrir beinbrotnir eða með innvortis blæðingar auk þess sem þeir voru allir meira eða minna marðir og aumir af verkjum.“

[9]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 226.

[10]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 36.

[11]Sjá: Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 35.

[12]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 226.

[13]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 210.

[14]Gísli Ág. Gunnlaugsson (Guðmundur Hálfdanarson, Loftur Guttormsson og Ólöf Garðarsdóttir ristjórar), Saga og samfélag. Þættir úr félagssögu 19. og 20. aldar (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1997), bls. 130‒131 og 142.

[15]Til þessara orða er vitnað í: E.H. Carr, What is History? (Harmondsworth: Penguin, 1961), bls. 49.

[16]Fyrir samantekt um þetta, sjá t.d.: Mike Haynes og Jim Wolfreys, „Introduction“, í Mike Haynes og Jim Wolfreys (ritstj.), History and Revolution. Refuting Revisionism (London: Verso, 2007), bls. 1‒24; og Mike Wolfreys, „Twilight Revolution: François Furet and the Manufacturing of Consensus“, sama rit bls. 50‒70.

[17]Tómas Ingi Olrich, Ísland og ESB (Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2011), bls. 86.

[18]Eric Hobsbawm, Interesting Times. A Twentieth-Century Life (London: Allen Lane, 2002), bls. 73.

[19]Eymundur Magnússon, Minningar úr menntaskóla og meira en það. Ólafur Grímur Björnsson skráði (Reykjavík: útgefanda ógetið 2010).

[20]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 37.

[21]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, bls. 206 og nmgr. bls. 207.

[22]Sjá t.d.: Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Thoroddsen. Ævisaga (Reykjavík: JPV, 2010), bls. 99‒101 og 110.

[23]Alþingistíðindi1925, C, d. 727. Sjá einnig: Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 33. Sé litið til samtímans virðast sjónarmiðum norsku lögreglunnar og Helga Gunnlaugssonar afbrotafræðings um viðbrögð við auknum vopnabúnaði í „undirheimum“ svipa til orða Ásgeirs Ásgeirssonar, að breyttu breytanda. Sjá: „Trygghet uten våpen“, [http://www.dagbladet.no/2011/10/13/kultur/debatt/kronikk/politi/vapen/18565164/] og „Eðlilegt að ræða viðbúnað“ [http://mbl.is/frettir/innlent/2011/11/21/tharf_ad_raeda_vidbunad_logreglu].

[24]Sjá: Þór Whitehead, Sovét-Ísland, bls. 205. Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 36‒37. Ég vitna á einum stað rangt í frumheimildina, grein Einars Olgeirssonar í Rétti 1. maí 1933; víxla orðunum „ráðast“ og „svo“.

[25]„Mögnuð bók“, Morgunblaðið 22. des. 2010 (forystugrein). Svipuð sjónarmið má finna í skrifum Styrmis Gunnarssonar um bókina. Sjá: Styrmir Gunnarsson, „ESB-ríkin vilja uppgjör við glæpi kommúnismans“, Evrópuvaktin 13. júní 2011, [http://evropuvaktin.is/leidarar/18905].

[26]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 37.

[27]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, bls. 428‒429.

[28]John Lewis Gaddis, „A time of confrontation and confusion“, Times Literary Supplement, 8. maí 1987, bls. 480. Sjá einnig: Guðni Th. Jóhannesson, „Geta sagnfræðingar fjallað um fortíðina?“ Ritið 4/1 (2004), bls. 181‒188 [http://gudnith.is/efni/geta_sagnfr%C3%A6%C3%B0ingar_fjalla%C3%B0_um_fort%C3%AD%C3%B0ina_2004].

[29]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 48.

[30]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 113.

[31]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, bls. 349.

[32]Minnispunktar mínir á fundinum. Erindið var haldið 16. sept. 2008 og á það er hægt að hlýð hér: [http://www.sagnfraedingafelag.net/2008/09/16/15.06.17/]. Sjá einnig: Björn Bjarnason, „Kalda stríðið – dómur sögunnar. Erindi hjá Sagnfræðingafélagi Íslands“, 16. sept. 2008 [http://www.bjorn.is/greinar/nr/4622].

[33]Styrmir Gunnarsson, „Þeir voru erindrekar erlends valds“, Morgunblaðið 13. nóv. 2011.

[34]Styrmir Gunnarsson, „Finnbogi Rútur Valdemarsson“, Morgunblaðið 29. mars 1989 (eftirmæli). Að sama skapi væri andstæðingum annarra flokka, til dæmis Sjálfstæðisflokksins, hollt að kynnast félögum hans og átta sig á að þeir geta verið eins ólíkir og þeir eru margir. Um þetta skrifaði Þórður Snær Júlíusson blaðamaður nýlega og lýsti „þeim suðupotti pólitískra stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn er“ með þessum orðum: „Innan hans finnast örgustu sósíalistar og róttækir frjálshyggjumenn. Alþjóðasinnar og þjóðrembulegt afturhald. Hugsjónalausir sérhagsmunagæslumenn og kristnir siðbótarpostular. Alls konar fólk. Sjálfstæðismenn eru fjarri því að vera steyptir í eitt mót.“ Þórður Snær Júlíusson, „Tveir kostir“, Fréttablaðið 15. nóv. 2011 (forystugrein).

[35]Skjalasafn Andrews Gilchrist, Churchill College, Cambridge. GILC 12/D „Remembering Bjarni“. Ódagsett handrit. Sjá einnig: „„Með því að óttast má...“ Ástæður símhlerana í kalda stríðinu.“ Erindi hjá Sagnfræðingafélagi Íslands“, 16. sept. 2008 [http://gudnith.is/efni/me%C3%B0_%C3%BEv%C3%AD_a%C3%B0_%C3%B3ttast_m%C3%A1_2008].

[36]Ragnheiður Kristjánsdóttir, Nýtt fólk. Þjóðerni og verkalýðsstjórnmál 1901‒1944 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008), bls. 7.

[37]Jakob F. Ásgeirsson, Í húsi listamanns. 25 svipmyndir (Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2006), bls. 55. Hér mætti einnig nefna lýsingu Styrmis Gunnarssonar á kynnum sínum af Magnúsi Jónssyni leikstjóra sem nam í Moskvu: „Magnús Jónsson, sem dó langt fyrir aldur fram, var einhver sannfærðasti kommúnisti sem ég hef þekkt um dagana og leyndi því ekki, heldur þvert á móti. Hann taldi mig mesta afturhald sem hann hefði nokkru sinni kynnzt, en hvorugt hafði áhrif á vináttu okkar. Persónuleg tengsl af þessu tagi á milli fólks með ólíkar stjórnmálaskoðanir er að finna um allt samfélag okkar vegna smæðar þess. Hvernig komum við heim og saman þessum persónulegu tengslum og pólitísku uppgjöri? Sjálfsagt er ekki til neitt eitt svar við því.“ Sjá: Styrmir Gunnarsson, „Þeir voru erindrekar erlends valds“, Morgunblaðið 13. nóv. 2011.

[38]Sjá: Jón Ólafsson, Kæru félagar. Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin(Reykjavík: Mál og menning, 1999), bls. 156-159. Sjá einnig: Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 63.

[39]Carr, What is History? 17.

[40]Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi. Ísland í síðari heimsstyrjöld (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1980), bls. 9. Hér líka Conquest

[41]Robert Conquest, The Great Terror. Stalin‘s Purge of the Thirties (New York: Macmillan, 1969), bls. xiv. Conquest skrifaði: „The present writer cannot conceal that he has views on these ethical and political matters; but it seems to him that the open admission of them tends to force the historian into the practical limits of objectivity as regards evidence. He hopes, in any case, that the prejudices he feels are those of most civilized men.“ Hér má einnig benda á sjónarmið Gunnars Karlssonar, prófessors emeritus í sagnfræði, um afstöðu Páls Eggerts Ólasonar til söguhetju sinnar, Jóns Sigurðssonar forseta: „Lesendur fá strax að vita hver afstaða höfundar er, hann stendur ævinlega með sínum manni, og þá verður hlutdrægni hans fremur óskaðleg.“ Sjá: Gunnar Karlsson, „Forsetinn í söguritun Íslendinga“, Andvari 136 (2011), bls. 39.

[42]Ingólfur Á. Jóhannesson, „Þór Indriðason. Fyrir neðan bakka og ofan. Saga verkalýðshreyfingar, atvinnulífs og stjórnmála á Húsavík 1885‒1985“ (ritdómur), Saga 37 (1999), bls. 282.

[43]Þór Whitehead, „Í ljósi sögunnar“, Morgunblaðið 4. apríl 1965.

[44]Sjá: G. P. Gooch, History and Historians in the Nineteenth Century (London: Longmans, Green and Co, (2. útg. 1952)), bls. 462. Orð Mommsen eru þar á ensku: „Those who have lived through historical events, as I have, begin to see that history is neither written nor made without love or hate.“

[45]„Kastljósið“, Ríkissjónvarpinu 26. nóv. 2006. Styrmir ræddi þar við Evu Maríu Jónsdóttur.

[46]Sjá: Martin Amis, Koba the Dread. Laughter and the Twenty Million (London: Vintage, 2003), bls. 10.

[47]Þór Whitehead, Sovét-Ísland, nmgr. bls. 227 og bls. 430. Þótt ólíku sé saman að jafna má nefna hér að í óformlegu spjalli undir lok síðustu aldar mun François Furet, hinn umdeildi sérfræðingur í sögu frönsku byltingarinnar, hafa líkt femínistum samtímans við Velferðarnefnd byltingarsinna (á ensku the Committe of Public Safety). Sjá: Geoff Eley, „What Produces Democracy? Revolutionary Crises, Popular Politics and Democratic Gains in Twentieth-Century Europe“. Mike Haynes og Jim Wolfreys (ritstj.), History and Revolution. Refuting Revisionism (London: Verso, 2007), nmgr. 52, bls. 252.

[48]Pétur G. Ingimarsson, „Blóðugt valdarán?“ 25. nóv. 2008, [http://fiskurfiskur.blog.is/blog/fiskurfiskur/entry/723872].

[49]Guðni Th. Jóhannesson, Hrunið. Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (Reykjavík: JPV, 2009), bls. 361.

[50]Leffler, Melvyn P., og Odd Arne Westad (ritstj.), The Cambridge History of the Cold War I-III (Cambridge: Cambridge University Press, 2010).

[51]Richard Crockatt, „The Cambridge History of the Cold War“ (ritdómur), Cold War History 11/2 (2011), bls. 269, [http://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1080/14682745.2011.569147].

[52]Jón Ólafsson, „Þegar allt fór til andskotans. Viðbrögð og viðbragðaleysi í hruninu“, Lesbók Morgunblaðsins 25. júlí 2009.

[53]Ólafur Þ. Stephensen, „Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi“ (ritdómur), Stjórnmál og stjórnsýsla 2/2 (2006), [http://skemman.is/stream/get/1946/9029/23860/1/c.2006.2.2.1.pdf]

[54]Kristján B. Jónasson, „Bókin sem fréttamiðill“, 27. des. 2006, [http://kristjanb.blog.is/blog/kristjanb/entry/94222/].

[55]Sjá: Gooch, History and Historians in the Nineteenth Century, bls. 351. Sagnfræðingurinn sem Acton lávarður beindi spjótum sínum að var Mandell Creighton, höfundur verka um sögu páfanna frá öndverðu. Orð Actons eru svona á frummálinu: „He is not striving to prove a case or burrowing towards a conclusion, but wishes to pass through scenes of raging controversy and passion with serene curiosity, a suspended judgment, a divided jury and a pair of white gloves.“

"Óþekkti uppljóstrarinn“. Sagan öll, nr. 1, 2007.

„Óþekkti uppljóstrarinn“. Sagan öll, nr. 1, 2007, bls. 48-52.

Í þessari grein voru birtar nýjar heimildir sem mér tókst ekki að fá heimild til að nýta áður en Óvinir ríkisins komu út. Og enn (haustið 2011) er hún fráleitt sögð, sagan öll.

"The intelligence services and the left wing political movements" (2007)

„The intelligence services and the left wing political movements. The case of Iceland“. Fyrirlestur á ráðstefnu Syddansk Universitet í Esbjerg, „Socialism in the Baltic Area – Sozialismus im Ostseeraum“, 14.-17.12.2007.

Hér eru glærur þessa erindis.

Fyrstu viðbrögð við upplýsingum um símhleranir í kalda stríðinu (2006)

Ég hélt til haga einhverju af þeim fréttum og viðbrögðum sem varð vart fyrst eftir að ég flutti erindið um símhleranir á Söguþingi í maí 2006. Hér getur að líta það helsta:

 

 

 

 

 

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item72340/

Fyrst birt: 22.05.2006 08:01

Síðast uppfært: 22.05.2006 08:03

Ragnar Arnalds: Hleranir pólitískt hneyksli

Ragnar Arnalds, fyrrum formaður Alþýðubandalagsins og forsvarsmaður samtaka herstöðvarandstæðinga, segir símahleranir íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins vera pólitískt hneyksli sem þurfi að rannsaka til hlítar. Hann segir sérstaklega athyglisvert að hlerað hafi verið hjá þingmönnum því samkvæmt stjórnarskrá njóti þeir sérstakrar friðhelgi.

Íslensk stjórnvöld létu hlera síma stjórnmálaflokka, fjölmiðla, félagasamtaka og einstaklinga, þar á meðal alþingismanna á árunum 1949-1968. Hleranirnar byggðust einkum á því að öryggi ríkisins og starfsfriði alþingis væri ógnað. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item72359/

Fyrst birt: 22.05.2006 12:23

Síðast uppfært: 22.05.2006 13:37

Ýmsar leiðir færar til að rannsaka hleranir

Ýmsar leiðir eru færar til að rannsaka símahleranir í kalda stríðinu segir Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sem býst við því að málið verði rætt á Alþingi eftir sveitarstjórnarkosningar. Ragnar Arnalds segir hleranirnar pólitískt hneyksli.

Fram kemur í rannsókn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings á símahlerunum íslenskra stjórnvalda að á árunum 1949-68 hafi verið kveðnir upp átta úrskurðir um símahleranir í aðdraganda inngöngu Íslands í NATO og fleiri stórviðburða. Guðni segir að alltaf hafi verið hlerað á skrifstofum Sósíalistaflokksins á þessu tímabili, nær alltaf hjá Þjóðviljanum og stundum hjá samtökum hernámsandstæðinga og Dagsbrún. Hlerað hafi verið einu sinni hjá ASÍ og í bókabúð Máls og menningar. Einnig segir Guðni að hlustað hafi verið á símtöl einstaklinga í heimahúsum, þar á meðal heima hjá nokkrum þingmönnum. Bjarni Benediktsson var dómsmálaráðherra þegar þessar heimildir fengust til símhlerana í öll skipti nema eitt, þegar Jóhann Hafstein var dómsmálaráðherra 1968.

Ragnar Arnalds, sem var formaður Alþýðubandalagsins og framkvæmdastjóri hernámsandstæðinga á þessum árum, segir ekkert annað koma til greina en að leyndinni verði létt af símahlerunum stjórnvalda. Hann eigi kröfu til þess. Ragnar hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann leiti réttar síns. Hann segir símahleranir aðför að lýðræði og þingræði í landinu og vill að svona vinnubrögð verði gerð útlæg úr íslensku samfélagi. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ætlar að taka málið upp á Alþingi.

 

http://www.ossur.hexia.net/

Njósnað um stjórnmálamenn

Ég var sleginn óhug yfir fregnum af pólitískum símahlerunum sem sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hefur upplýst með rannsóknum sínum.

Verkalýðsfélög, stjórnmálahreyfingar, almannasamtök, Þjóðviljinn og heimili alþingismanna voru hleruð á tímum kalda stríðsins.

Í fregnum skildist mér á Guðna að rannsóknir hans hefðu takmarkast við tímabil kalda stríðsins. Getur verið að slíkar hleranir hafi verið notaðar síðar? Það þarf að koma skýrt í ljós.

Sum tilvikin, sem Guðni greinir frá, eru hreint með ólíkindum. Landhelgisdeilur og heimsókn varaforseta Bandaríkjanna? Hvernig í ósköpunum stendur á því að einhverjir misvitrir valdhafar hafi talið nauðsynlegt að beita njósnum af slíkum tilefnum? Það er mér óskiljanlegt og speglar hættuna sem felst í því að eftirlitslaust framkvæmdavald geti gripið til aðgera af þessum toga.

Mér finnst sérstaklega athyglisvert að símar allt að fjögurra alþingismanna hafi verið hleraðir samtímis með dómsúrskurði. Það er hreint með ólíkindum. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi njóta samkvæmt stjórnarskrá sérstakrar friðhelgi. Er þetta ekki brot á stjórnarskránni?

Þetta mál verður að rannsaka. Alþingi verður brjóta þetta mál til mergjar, og fá hvern einasta þátt þessa máls upp á yfirborðið.

Við vissar aðstæður er hægt að réttlæta aðferðir af þessum toga til að bægja frá aðsteðjandi vá, svo sem hryðjuverkum á vorum tímum. Þá verður að liggja fyrir rökstuddur grunur sem réttlætir þær. En það var ekkert sem réttlæti að mínum dómi þær hleranir, sem Guðni hefur upplýst um.

Átakanlegast í þessu er auðvitað sú staðreynd að enn í dag er ekkert lýðræðislegt eftirlit hér á alndi með ákvörðunum um njósnir um borgarana af þessu tagi. Evrópuráðið, sem er virtasta mannréttindastofnun heimsins, hefur samþykkt sérstaklega að alls staðar, þar sem eftirliti af þessum toga þarf að beita, sé til staðar lýðræðislegt eftirlit af hálfu þings viðkomandi þjóðar.

Íslendingar hafa ekki orðið við þeim tilmælum og það hefur vakið furðu erlendra sérfræðinga sem hafa skoðað þetta mál. Í frumvarpi dómsmálaráðherra, þar sem tekið er fyrsta skrefið að leynilögreglu hér á landi, er ekki gert ráð fyrir slíku eftirliti með starfsemi greiningardeildarinnar.

Þessi mál verður að taka föstum tökum. Alþingi verður að rannsaka með hvaða hætti símahlerunum og öðrum njósnum var beitt gegn stjórnmálamönnum og hreyfingum. Sömuleiðis verður að tryggja að lýðræðislegt eftirlit verði haft með starfsemi af þessum toga, þannig að einstakir embættismenn eða ráðherrar fái ekki að leika lausum hala í njósnaleik sem byggir á ímyndaðri þörf.

Guðni Th. Jóhannesson á mikið hrós skilið fyrir að hafa upplýst um þetta mál með rannsóknum sínum.

- Össur

Sent klukkan 09:24

 

http://www.bjorgvin.is/01grein.cfm?pis=482

Pólitískar njósnir á Íslandi

Grófar pólitískar njósnir voru stundaðar á Íslandi á fimmta, sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þetta er niðurstaða merkilegra rannsókna Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símhleranir á Íslandi. Íslensk stjörnvöld, með utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins í fararbroddi stóðu fyrir símhlerunum á t.d. þingmenn Sósíalistaflokksins, ristjóra Þjóðviljans, herstöðvaandstæðinga og forystumenn stéttarfélaga, svo dæmi séu tekin. Allt í nafni óttans um öryggi ríkisins.

Vissulega voru þetta tímar kalda stríðsins þegar vænisýkin réði ríkjum og vissulega var tekist harkalega á um utanríkismálin. Nánast upp á líf og dauða og klárlega fóru Sósíalistar mikinn gegn undirlægjuhætti íslenskra stjórnvalda í garð NATO og Bandaríkjanna. En réttlætti andrúmið og óttinn svo grófa aðför að friðhelgi einkalífsins sem símhleranir á einstaklinga eru?

Nei, því fer fjarri. Þetta er pólitískt hneyksli einsog Ragnar Arnalds, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og fórnarlamb hlerana stjórnvalda segir. Hneyksli vegna þess að þarna er hlerunum beitt gegn pólitískum andstæðingum og í þeim tilgangi að klekkja á þeim. Hleranir eru einhver grófasta aðför sem til er að friðhelgi einkalífs hvers einstaklings og geta aldrei verið annað en örþrifaráð í mikilli neyð. Þegar t.d. öryggi þjóðar liggur undir. Ekki öryggi Sjálfstæðsflokksins í íslenskri pólitík.

Málið er angi af því pólitíska ofstæki sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins stóðu fyrir megnið af síðustu öld og raunar staðfesting á því. Ofstæki sem gekk svo langt að fyrirskipaðar voru og heimilaðar hleranir á þingmönnum þjóðarinnar. Vinstrisinnuðum anstæðingum sem voru á öndverðum meði. Og það ítrekað og oft.

Þetta er ekkert annað en pólitískar njósnir. Ólöglegar og óréttlætanlegar. Málið og uppljóstranir Guðna um pólitískar hleranir íslenskra stjórnvalda á pólitískum andstæðingum kalla á viðbrögð. Ég er tel að Alþingi eigi að skipa rannsóknarnefnd sem fari ítarlega yfir málið. Upplýsi opinskátt um umfang og tilgang símhlerannana og hverjir voru hleraðir. Geri hreint líkt og stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum hafa gert á síðustu árum í sambærilegum málum. Um það mun ég flytja tillögu þegar Alþingi kemur saman að loknum kosningum í vor að þingið skipi slíka rannsóknarnefnd. Það er eina vitræna og færa leiðin.

Uppgjör þarf að fara fram á þeim ruddalega yfirgangi sem íslensk stjórnvöld eru uppvís að með þessari njósnastarfsemi, enda er líklegt að umfang hlerana stjórnvalda og Sjálfstæðisflokksins á andstæðingum hans hafi verið mikið umfangsmeiri. Það kann að koma á daginn síðar. Íslenskir Sósíalistar kunna margar sögur af rökstuddum grun margra þeirra um hleranir í pólitískum tilgangi.

Til framtíðar vísar þetta einnig veginn. Það eru í dag hleruð mörg þúsund símtöl á ári. Alla daga ársins er verið að brjóta á friðhelgi fjölda Íslendinga í afar misjöfnum tilgangi og umdeilanlegum. Þetta þarf að fara ítarlega yfir en ég tel að umfang slíkra heimilda sé allt of mikið og dómsúrskurður er fjarri því að vera nægjanlegur þröskuldur. Lýðræðislegt aðhald verður að koma til.

Það kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni um heimildir til símhlerana síðustu 10 árin að mikið er hlerað í dag. Slíkar heimildir voru t.d. 157 árið 2005. En hver á að gæta varðanna? Hver á að hafa eftirlit með leynistarfsemi á borð við eftirlit og hleranir með borgurum landins? Lýðræðislegt eftirlit verður að koma til. Til dæmis þingkjörin nefnd sem er bundin trúnaði.

Nú er hinsvegar brýnt að draga fram í dagsljósið umfang og tilgang pólitískra hlerana á Íslandi á síðustu öld. Nú verður fróðlegt að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn bregst við. Eða bregst ekki við og reynir að svæfa málið.

Megin atriðin í máli Guðna eru:

Árin 1949-68 fá stjórnvöld sex sinnum leyfi dómsvalda (sakadómara/yfirsakadómara) til að hlera símanúmer vegna ótta um öryggi ríkisins (8 úrskurðir en sex tilvik).

Þetta er:

1949, mars-apríl  innganga í NATO

1951, jan heimsókn Eisenhower yfirhersh NATO

1951 apríl-maí, koma Bandaríkjahers

1961 feb-mars, landhelgissamn við Breta

1963 sept, heimsókn LBJ varafors USA

1968 júní utanríkisrrhfundur NATO

 

Flest númer hleruð 1951, alls 26

Í öllum tilfellum er hleruð hjá þingmönnum, 1-4

Alltaf hlerað á skrifstofu Sósíalistaflokksins, nær alltaf hjá Þjóðviljanum. Fleiri sem hlerað er hjá: Dagsbrún, samtök hernámsandstæðinga, ASÍ (einu sinni, 1961).

 

Mánudagur, 22. 05. 06.

Fréttir af erindi Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símahleranir í kalda stríðinu hljóma eins og aldrei hafi heyrst um, að símar hafi verið hleraðir á þessum árum. Sérstaklega er skrýtið að hlusta á hina gömlu sósíalista og alþýðubandalagsmenn tala eins og símahleranir komi þeim algjörlega í opna skjöldu. Þeir hömruðu þó á því sýknt og heilagt á þessum árum, að stjórnvöld væru að alltaf að hlera síma. Hafi eitthvað komið þeim á óvart í erindinu væri það líklega, að skiptin eru sex og nákvæmlega tilgreind auk þess sem dómsúrskurður  er að sjálfsögðu að baki hverri heimild.

Ég svaraði fyrirspurnum Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og fréttastofu hljóðvarps ríkisins um hlerunar-málið í dag. Ég heyrði í NFS-fréttum, að Kristinn Hrafnsson fréttamaður sagðist hafa sent mér tölvuskeyti um málið - hvaða netfang ætli hann hafi notað? Ég fékk skeytið að minnsta kosti ekki.

 

http://velstyran.blogspot.com/

Vandamál Önnu Kristjánsdóttur

Það hafa borist fréttir þess efnis að njósnað hafi verið um íslenska vinstrimenn með símahlerunum á árunum 1949-1968. Þetta hefur mér aldrei fundist vera frétt. Ég minnist þess er ég starfaði fyrir Samtök herstöðvaandstæðinga á áttunda áratugnum, að það ekki hægt að tala viðkvæm símtöl í síma samtakanna, vitandi það að síminn var hleraður. Það heyrðist iðulega að ekki var allt með felldu þegar símtölum sem voru hleruð sló saman, þannig að komið var inn á hin samtölin. Það voru iðulega símtöl ýmissa vinstrisinnaðra aðila sem þóttu hættulegir að mati skósveina Bandaríkjastjórnar. Þetta þótti einfaldlega ekkert merkilegt vitandi það að símarnir voru hleraðir alla daga, þó án dómsúrskurðar. Við vissum jafnvel um staðsetningu hlerunarbúnaðar í kjallara lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu auk þess sem við töldum okkur vita að Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna væri ekki annað en opinber framhlið viðamikillar njósnastarfsemi Bandaríkjanna gagnvart íslenskum vinstrisinnum.

http://www.althingi.is/sigurjon/safn/002766.html#002766

Mánudagur 22. maí 2006

Föðurbetrungur

Björn Bjarnason er mikill áhugamaður um símhleranir.

Það þurfti ekki að koma mjög á óvart að Birni Bjarnasyni væri fyrirmunað að sjá nokkuð athugavert við embættisfærslu föður síns Bjarna Benediktssonar, þegar Bjarni heimilaði símhleranir hjá pólitískum andstæðingum sínum.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tjáir sig um málið á heimasíðusinni og má greina í gegnum skrifin sérkennilega hræru af gremju og gleði.

Það skín gleði í gegn yfir því að vera dottinn aftur í tíma kaldastríðsins og síðan gremju og ólund yfir því að það sé yfir höfuð talið óeðlilegt nú í dag að hleranir hafi tíðkast á símum sósíalista.

Björn Bjarnason hefur átt erfitt með að komast út úr hugsanagangi kaldastríðsins og honum er greinilega fyrirmunað að sjá að eitt og annað sem viðgekkst þá hafi orkað tvímælis.

Björn föðurbetrungur

Ég þekki það í gegnum störf mín á Alþingi að Björn er einstakur áhugamaður um hleranir og hefur hann lagt fram hvert frumvarpið á fætur öðru þar sem hefur átt að rýmka allar heimildir til hlerana.

Birni hefði verið í lófa lagið að svara fyrir þetta mál með því að skipa nefnd og fara í gegnum margra áratuga sagnfræði með málefnalegum hætti en manninum virðist algerlega fyrirmunað að laga hugsanagang sinn að nútímanum.

Það sem ég vonast til þess að komi út úr þeirri umræðu sem nú fer af stað um hleranir er hvernig staðið er að þeim í dag og nauðsyn þess að skipuð sé þverpólitísk þingnefnd sem hafi eftirlit með hlerunum og fyrirhugaðri greiningardeild ríkislögreglustjóra.

 


http://www.ekg.is/blogg/nr/565

Rannsókn ? - Já, vitaskuld

23.5.2006[að morgni]

Umræðurnar um frásögn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um heimildir til hlerana, eru bæði eðlilegar og áhugaverðar. Eðlilegar vegna þess að vitaskuld er það í sjálfu sér alvarleg ákvörðun, að hlera síma fólks. En áhugaverð vegna þess að frásögn sagnfræðingsins gefur tilefni til þess að kalla eftir frekari athugunum og rannsóknum á þeim tíma í sögu lýðveldisins, þar sem póltísk átök urðu hörðust.

Það er augljóst mál að slíkar rannsóknir eiga ekki og mega ekki einvörðungu snúast um hleranirnar í þröngu ljósi, þó ekki sé með slíku gert lítið úr þeim málum í sjálfu sér. En óhjákvæmilegt er að mál þessi séu rædd og rannsökuð, skoðuð og skilgreind, í víðara samhengi.

Það koma nefnilega upp ótal spurningar. Hvert var tilefnið að óskað var hlerana? Fóru þessar hleranir fram? Ef svo var leiddu þær til einhvers? Drógu þær úr viðbúnaði lögreglu eða juku þær þennan viðbúnað? Var um að ræða ógn við þjóðaröryggi? Svona má áfram og lengi telja. Rannsóknarspurningarnar verða óteljandi. Þær sýna okkur, sem gefur auga leið, að aðferðin er ekki athugun þingnefndar eða pólitískt kjörinnar nefndar utan þings. Ekki að minnsta kosti ef menn ætla að ná árangri.

Fjallað hefur verið um atburðina á Austurvelli þann 30 mars 1949 í margs konar ræðum og ritum, meðal annars í sérstakri bók. Það er enginn vafi á að þar voru alvarlegir atburðir á ferðinni og að sjálfri grundvallarstofnun lýðveldisins, hinni lýðræðislegu löggjafarsamkomu Alþingi, var ógnað. Réttlættu opinberar yfirlýsingar í þá veru í aðdraganda atburðanna ekki sérstakan viðbúnað? Það gefur auga leið.

Við skulum ekki gleyma því að andrúmsloft kalda stríðsins var á margan hátt sérstakt. Afstaða margra birtist til dæmis í hreinni andstöðu við allt sem erlent var og orðaval málflutningur af þeim toga jaðraði í einstökum tilvikum við hreint útlendingahatur, eins og það er skilgreint í dag.

Svo einstakur tími í sögu þjóðarinnar sem kalda stríðið var verðskuldar því vandaða og yfirgripsmikla rannsókn.


 

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060523/SKODANIR0201/605...

Vísir, 23. Maí 2006 20:58

 

Símhleranir, skoðanakannanir, atkvæðaveiðar

Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur skrifar skynsamlega grein um símhleranir á póstlistann Gammabrekku. Þar segir hann að merkilegt sé að ekki séu neinar upplýsingar um símhleranir á árunum eftir 1968. Þýðir þetta að þá voru engir símar hleraðir - eða kannski að starfseminni var haldið leyndri? Eftir 1968 fór verulega að hitna í kolunum.

Styrmir Gunnarsson skrifar leiðara í Morgunblaðið. Honum er málið skylt, gömlum stríðsmanni úr kalda stríðinu. Þannig er tónninn líka í leiðaranum. Styrmir segir símhleranirnar ekki undarlegar, heldur sé skrítið að ekki hafi verið hlerað meira.

Styrmir hefur dýpri skilning á þessu en margur maðurinn - hann segir ennfremur í leiðaranum að kominn sé tími til að fólk kynnist því hvernig baráttan í kalda stríðinu var háð. Sjálfur getur hann lagt ýmislegt af mörkum í því efni. Ég hef áður bent á minningargrein um Eyjólf Konráð Jónsson sem Styrmir ritaði í Morgunblaðið 1997. Þar stóð meðal annars:

"Eyjólf Konráð Jónsson þekkti ég lítið þar til dag einn fyrir tæpum fjórum áratugum, að æskuvinur minn, Hörður Einarsson hrl., sem leiddi mig til starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, bað mig fara á fund Eykons, eins og hann var jafnan kallaður, hann ætti við mig erindi. Sá fundur var upphafið að ævarandi vináttu, sem aldrei bar skugga á, þótt stundum væri skoðanamunur mikill.

Þetta var á þeim árum, þegar gífurleg harka var í kalda stríðinu á milli hins frjálsa heims, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna, sem höfðu raðað í kringum sig leppríkjum í Austur-Evrópu og víðar. Þeir sem ekki upplifðu kalda stríðið eins og það var harðast munu aldrei skilja þau viðhorf, sem réðu gerðum manna á þeim árum.

Í þessu samtali fékk ég örlitla innsýn í veröld, sem ég vissi ekki að væri til á Íslandi en tengdist þessum alheimsátökum. Eykon bað mig um að taka að mér verkefni, sem ég gerði, en ekki fyrr en að lokinni alvarlegri umhugsun. Því sinnti ég á hans vegum fram eftir Viðreisnaráratugnum. Það starf hafði margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna á þessum árum en eins og margt af því, sem gerðist á tímum kalda stríðsins, bíður frásögn af því síðari tíma. Mér varð hins vegar ljóst hve víðtæk og djúp tengsl Eyjólfur Konráð hafði, þá tæplega hálffertugur."

www.jonas.is

23.05.2006
Geldfugl í sagnfræði
Fjölmiðlar hafa sagt frá erindi sagnfræðings um hleranir íslenzkra stjórnvalda í kalda stríðinu. Eftir fréttum að dæma hefur framsetning sagnfræðingsins verið geld, fjallaði um ótilgreindar persónur, sem ofsóttu ótilgreindar persónur. Úr þessu efni verður engin sagnfræði fyrr en upplýst er, hverjir skipulögðu og framkvæmdu hleranir og hverjir urðu fyrir þeim. Ímyndið ykkur sagnfræði, sem segði okkur, að bandamenn hafi eftir stríð höfðað mál gegn ónafngreindum þýzkum leiðtogum. Sagnfræðingar, sem hugsa: "Nomina sunt odiosa" eru geldfuglar í faginu.

www.jonas.is

03.06.2006
Fanatískir feðgar
Líkur benda til, að Bjarni Benediktsson hafi sem dómsmálaráðherra í Kalda stríðinu látið hlera síma pólitískra andstæðinga á Alþingi. Það væri gróft brot á hefðum þingræðis, þótt George W. Bush hafi látið FBI leita á skrifstofu þingmanns demókrata í sjálfu þinghúsinu um daginn. Sonur Bjarna er nú dómsmálaráðherra og vill, að kerfið sjálft stjórni rannsókn á meintum afglöpum föðurins. Að vonum er stjórnarandstaðan ósátt og vill, að Alþingi skipi rannsóknarnefnd. Sú leið ein er líkleg til að finna, hvort pólitískt hatur hafi farið út í öfgar.

 

 

"Leitin að sannleik um símhleranir" (2006)

Leitin að sannleik um símhleranir. Smásaga úr lífi sagnfræðings. Hugvísindaþing Háskóla Íslands, 4. nóvember 2006.

Senn kemur út bók sem ég hef verið að skrifa með hléum undanfarin ár. Hún er um eftirlit með róttækum öflum í kalda stríðinu á Íslandi og ég ætla að rekja hér aðeins söguritunina, einkum þann hasar sem hefur verið út af upplýsingum um símahleranir sem ég kynnti fyrr á þessu ári.

Hugmyndin bókinni vaknaði í ársbyrjun 2003 þegar ég rakst á skýrslu á breska þjóðskjalasafninu frá árinu 1972 um íslenska „öryggisþjónustu“. Þar var að finna lýsingu á kerfisbundinni skráningu alls kyns upplýsinga um íslenska „kommúnista“. „A detailed and efficient card index,“ sögðu Bretarnir meðal annars.[1]

Sumarið 2003 hófst ég handa við frekari rannsóknir hér heima á Íslandi. Þótt rangt væri að segja að mér hafi staðið allar dyr opnar virtist enginn reyna að leggja stein í götu mína. Sumarið eftir, eða þar um bil, var staðan orðin sú að ég hafði heimildir fyrir því, eins og ég greindi reyndar skýrlega frá í viðtali í Fréttablaðinu á þeim tíma, að einhvers konar „öryggisdeild“ hjá lögreglunni í Reykjavík hefði fylgst með „kommúnistum“ og haldið einhvers konar spjaldskrá um þá. Ekki vakti það þó mikla athygli! En ég var líka farinn að halda að símar hefðu verið hleraðir. Það hlaut að hafa verið hluti eftirlitsins.

Þegar ég hóf mína leit að heimildum um símahleranir ræddi ég við fólk hjá hinu opinbera sem ætla mátti að hefði kannski átt hlut að máli. Sumir sem höfðu frá einhverju að segja voru tregir til. Þar að auki gat leikið vafi á að menn mættu yfirleitt upplýsa um það sem þeir höfðu gert og komist að í starfi sínu. Svo ræddi ég auðvitað við þá sem höfðu verið í andófi og mótmælum á sínum tíma; herstöðvaandstæðinga, Fylkingarfélaga og fleiri.[2]

Munnlegar heimildir gátu þó ekki dugað einar og sér. Var mögulegt að finna skrifleg gögn um símahleranir á Íslandi. Það var stóra spurningin. Og hvar þá? Frá árinu 1941 hefur verið til staðar heimild í lögum til símahlerana; frá árinu 1951 í lögum um meðferð opinberra mála og var lagagreinin svohljóðandi: „Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsvert sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“[3]

Sem sagt, ef farið var eftir lögum um hleranir þurfti úrskurð dómara til. Þeir úrskurðir hefðu verið kveðnir upp fyrir luktum dyrum, en færðir til bókar. Sú dómabók lægi væntanlega annað hvort hjá dómstólum eða á Þjóðskjalasafni. Það sakaði ekki að spyrja að því. Ég gerði það; bæði á safninu og hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, arftaka Sakadóms Reykjavíkur sem hefði úrskurðað um símahleranir á sínum tíma.

Og nú hljóp á snærið! Flutningur skjala frá Héraðsdómi til Þjóðskjalasafns var í bígerð og 7. janúar 2005 var mér sagt að þar gæti verið að finna þær heimildir sem ég leitaði að. Starfsfólk safnsins hefur alla tíð verið mér mjög hjálplegt;. Nú, Rík fræðileg rök þyrftu þó að vera til þess að hleranagögnin yrðu gerð aðgengilegar, með ströngum skilyrðum. Við það var ekkert að athuga og ég samdi – með aðstoð lögfræðings og vinar, Guðjóns Ólafs Jónssonar alþingismanns – ítarlega greinargerð – sjö blaðsíður – þar sem raktar voru hugsanlegar takmarkanir á aðgangi, ákvæði laga og reglna um heimild til aðgangs og fræðileg rök fyrir heimild til aðgangs.[4]

Í greinargerðinni sagði meðal annars um persónuvernd: „Sjálfsagt virðist ... að aðgangur að þeim gögnum, sem sótt er um, verði þannig skilyrtur að nöfn þeirra, sem í hlut eiga, verði ekki gerð opinber, nema með skriflegu samþykki þeirra.“

Um miðjan mars 2005 voru gögn um símahleranir flutt sérstaklega frá Héraðsdómi Reykjavíkur til Þjóðskjalasafns Íslands að beiðni minni. Síðan var hringt til mín og sagt að ég gæti haldið á safnið og litið á þau þegar ég vildi. Ég lét ekki segja mér það tvisvar.

Sjaldan hef ég verið jafnspenntur í mínu sagnfræðigrúski og mánudagsmorguninn 21. mars 2005. Þá var ég kominn upp á Þjóðskjalasafn og trúði vart eigin augum þegar ég fletti „Lögregluþingbók 249“, með þéttskrifuðum síðum sem náðu í tíma talið allt til ársins 1976. Þarna voru þeir hver á eftir öðrum, dómsúrskurðir um símahleranir í kalda stríðinu, 1949, tveir árið 1951, aftur árið 1961, 1963 og loks 1968.

Þegar ég var búinn að fá aðgang að dómsúrskurðunum (og skrifa þá alla upp í tölvu ásamt beiðnum og fylgiskjölum; ljósritun var óheimil) hélt ég áfram að leita upplýsinga hjá heimildarmönnum og vinna á annan hátt að þessari rannsókn.

Í upphafi þessa árs var ég kominn með það mikið efni að ég þóttist geta gefið út litla bók um símahleranir og flutt um leið fyrirlestur á Söguþingi sem var haldið í vor sem leið. Ég náði öðru, en hinu ekki. Þar skipti miklu að ég tók að mér að skrifa yfirlitsrit um sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna; og náði einfaldlega ekki að ljúka við bókina um hleranirnar sem óx líka mjög í meðförum mínum. Ég vildi ekki aðeins segja frá símahlerunum heldur reyna að setja þær í samhengi.

Mér þótti í fyrstu dálítið súrt þegar ég sá fram að ná ekki að ljúka við símahleranabókina um leið og ég flytti fyrirlestur á Söguþingi; en það varð að hafa það og ég sá líka fyrir mér að eftir fyrirlesturinn myndi verða unnt að segja meira í bók, því Þjóðskjalasafn hélt enn fast í þá stefnu sína að ekki mætti nefna nöfn fólks sem hafði verið úrskurðað um hleranir hjá. Ég skildi afstöðu safnsins þá en benti líka á að það væri fólkið sjálft, sem var hlerað hjá, sem ætti rétt á að vita það, og ákveða í framhaldinu um eigin nafnleynd eður ei. Þetta var rætt fram og aftur, í mestu vinsemd, og niðurstaðan varð sú að ég mætti nefna þær stofnanir sem úrskurðað var um hleranir hjá; Þjóðviljann, Sósíalistaflokkinn, Mál og menningu, ASÍ og svo framvegis, og fjölda þingmanna hverju sinni. Gott og vel, en ég skrifaði líka til safnsins, 5. maí síðastliðinn:

„Upplýsingar um símahleranir eru óhjákvæmilega þess eðlis að um þær verður mikið rætt. Mér þykir líklegt að fjölmiðlar muni leita eftir upplýsingum um nöfn þeirra sem hlerað var hjá, eða að hið opinbera ákveði rannsókn á símahlerunum. Það verður líka að hafa í huga í þessu sambandi. Og í sambandi við símahleranir snýst nafnleynd ekki um að vernda einhverja sem vilja alls ekki að nöfn verði birt því það valdi ama og sársauka; miklu frekar á það fólk sem var hlerað hjá rétt á að vita að símar þess voru hleraðir.“

Sunnudaginn 21. maí flutti ég svo erindi á söguþingi, Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu. Ég rakti þar alla dómsúrskurðina frá 1949 og 1968, og ætla ekki að gera það aftur hér.

Þessar upplýsingar vöktu athygli, eins og búist var við,[5]En hvað myndi gerast næst? Ég sá ekki fyrir mér þá atburðarás sem við höfum upplifað síðustu mánuði. Hefði ég fengið að ráða hefði hún orðið öðruvísi. Og í nokkra daga eftir að ég flutti erindið hélt ég reyndar að ég fengi að ráða, ef svo má að orði komast. Ríkisstjórn og Alþingi þurftu augljóslega að bregðast við því á einhvern hátt að fram voru komnar heimildir um símahleranir í kalda stríðinu. Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra og í vikunni eftir flutning erindisins bað hann mig um að koma á sinn fund; og í framhaldi af því að leggja fram tillögur um hvernig haga skyldi opinberri rannsókn á símahlerunum í kalda stríðinu. Ég setti þær saman að bragði og nefni hér það helsta; stytt hér og þar.

Reykjavík, 25. maí 2006

Rannsókn á símahlerunum í kalda stríðinu

Minnisblað til Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra að beiðni hans

Útdráttur

Lagt er til að fram fari opinber rannsókn í ljósi nýrra upplýsinga um símahleranir íslenskra stjórnvalda í kalda stríðinu.

Í fyrsta lagi verði rannsakaðar símahleranir á vegum stjórnvalda 1945-1976. Leitað verði skriflegra og munnlegra heimilda um umfang þeirra og skýrslu skilað fyrir 1. október 2006, enda skynsamlegt að svara sem fyrst þeim spurningum sem hafa vaknað um umfang símahlerana.

Í öðru lagi verði strax hafinn undirbúningur að umfangsmikilli rannsókn á stöðu Íslands í kalda stríðinu. Rannsóknin dragi dám af svipuðum rannsóknum sem fram hafa farið annars staðar á Norðurlöndum eftir endalok kalda stríðsins og verði í umsjón íslenskra háskólastofnana.

Tillaga að verklýsingu vegna rannsóknar á símahlerunum

Skipaður verði hópur þriggja sagnfræðinga til rannsókna á símahlerunum. Einn þeirra verði formaður hópsins og í fullu starfi; hinir tveir í hálfu starfi. Þriggja manna ráðgjafarnefnd verði skipuð sem fylgist með starfi hópsins og leitist við að veita þá aðstoð sem hann fer fram á. ... Hópurinn hefji störf 1. júní 2006 og skili skýrslu sem gerð verði opinber ekki síðar en 1. október 2006.

Þess skal vænst að í skýrslu rannsóknarhópsins komi fram eins skýr svör og unnt er við eftirfarandi spurningum:

-          Hve oft féllu dómsúrskurðir um símahleranir í þágu öryggis ríkisins á tímabilinu?

-          Hvaða rökstuðningur fylgdi beiðni stjórnvalda um símahleranir?

-          Fóru símahleranir fram án dómsúrskurðar?

-          Hjá hverjum var hlerað?

-          Hvernig og hvar fóru símahleranir fram?

-          Hverjir tóku þátt í þeim?

-          Skiluðu hleranirnar árangri að mati þeirra sem stóðu að þeim?

-          Hverjir fengu aðgang að þeim gögnum sem öfluðust við símahleranir?

-          Hvernig voru þau gögn geymd?

-          Hvað varð um þau gögn?

Í lokaskýrslu verða nöfn þeirra, sem hlerað var hjá, ekki birt heldur verði þeim eða nánustu ættingjum tilkynnt það og þeim í sjálfsvald sett hvort sú vitneskja verði gerð heyrinkunn eða ekki.

Starfsskilyrði

Eftirtalin skilyrði þarf að uppfylla svo rannsóknin skili tilætluðum árangri:

-          Fullur aðgangur þarf að fást að skriflegum gögnum í ráðuneytum, skjalasöfnum, öllum lögregluembættum og öðrum stofnunum (þar með talið Símanum), auk dómstóla. Æðstu stjórnvöld þurfa að staðfesta það skriflega.

-          Fyrrverandi lögregluþjónar, símamenn og aðrir sem hugsanlega komu við sögu þurfa að fá skjalfesta staðfestingu stjórnvalda á því að þau æski þess að þeir tjái sig um rannsóknarefnið. Þeir þurfa að fá fullvissu æðstu stjórnvalda fyrir því að frásagnir þeirra brjóti ekki í bága við trúnaðareið þeirra.

-          Íslensk lögregluyfirvöld og starfsmenn ráðuneyta þurfa að aðstoða við öflun upplýsinga erlendis, einkum hjá lögregluyfirvöldum í Noregi og Danmörku.

Forsætisráðherra fannst þetta skynsamleg leið; ég hitti embættismenn í forsætisráðuneyti, undirbúningur var hafinn að því að starfshópurinn yrði staðsettur þar og ég var farinn að sjá fram á spennandi sumarvinnu. Má auðvitað segja að þetta hafi verið viss óvífni því ég tók fram á að ég hefði áhuga á að sinna þessu; en mér til varnar vil ég segja að þessi rannsókn átti aðeins að snúast um símahleranir á vissu tímabili og ég vissi satt að segja ekki til þess að aðrir hefðu verið að rannsaka þá sögu Íslandi; en það hefði auðvitað vel getað komið til greina að auglýsa bara eftir fólki til að sinna þessu; ég hefði sótt um.

Nú, svo kom babb í bátinn. Í fyrsta lagi þótti ljóst að setja þyrfti lög til að aflétta trúnaðarskyldu embættismanna og í öðru lagi naut þessi útfærsla ekki endilega fulls stuðnings þegar á reyndi.

Þess í stað var sú leið farin sem raun ber vitni. Hinn þriðja júní síðastliðinn ályktaði Alþingi – einum rómi nota bene – að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd „til að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim“. Nefndin á að skila skýrslu um störf sín fyrir lok þessa árs. Fjórða október voru svo samþykkt á Alþingi lög um frjálsan aðgang nefndarinnar að gögnum um öryggismál Íslands. Í lögunum sagði jafnframt: „Þrátt fyrir lögmælta þagnarskyldu er öllum opinberum starfsmönnum skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands“

Þetta er allt gott og blessað. Lengi lifi frjáls aðgangur fræðimanna að gögnum! Í nefndinni er sómafólk og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur úr starfi nefndarinnar.  Það verður líka fróðlegt að sjá hvernig fyrirbærið „fræðimaður“ verður skilgreint, og hvað með þá sem var úrskurðað um hlerun hjá? Við höfum orðið vitni að því undanfarna mánuði að ýmsir hafa reynt að sækja rétt sinn í þeim efnum; og tekist það undir það síðasta; þá á ég auðvitað við Kjartan Ólafsson og Ragnar Arnalds. Ég veit að ýmsir fleiri hafa undanfarna daga og vikur sent Þjóðskjalasafni fyrirspurnir eða verið að undirbúa það. Sjálfum finnst mér að stjórnvöld – ekki Þjóðskjalasafn því það hvílir engin tilkynningaskylda á því – eigi að taka af skarið og tilkynna öllum sem úrskurðað var um hlerun hjá, að það hafi verið gert (nánustu ættingjum ef svo ber undir). Það er siðferðislega rétt; það er skynsamlegt til að afstýra dómsmálum, og þótt lög eigi ekki að vera afturvirk væri það líka í samræmi við núgildandi ákvæði um símahleranir. Í lögum um meðferð opinberra mála segir:

„Þegar aðgerð skv. 86. gr. [það er hlerun] er lokið skal þeim sem aðgerð beinist að … birtur úrskurður um hana eða tilkynnt hún og skal það gert svo fljótt sem verða má, þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins“

Sjálfur veit ég auðvitað hjá hverjum var úrskurðað um hlerun hjá; það eru að vísu tvö eða þrjú númer árið 1968 sem er erfitt að henda reiður á, en hitt liggur allt ljóst fyrir. Fyrir utan þetta síðasta skipti voru það helst þingmennSósíalistaflokksins og það væri augljóslega rökrétt að álykta að að hinir einstaklingarnir hafi væntanlega tengst þeim stofnunum sem var hlerað hjá; Þjóðviljanum, ASÍ og svo framvegis.

Ég veit að þessi spurning hér hlýtur að vakna: Var það til fyrirmyndar að ég fékk að sjá þessi nöfn? Ég kom ekkert við sögu! Var það kannski stjórnarskrárbrot? Þannig hefur Kjartan Ólafsson skilið þau orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að hann megi ekki sjá þessar upplýsingar vegna ákvæða stjórnarskrár um persónuvernd.

Ég get sagt það eitt að ég hlaut að mega sækja um aðgang að opinberum gögnum. Var einhver annar á þeim buxunum? Það leið rúmt ár frá því að ég fékk aðgang að þessum gögnum þar til ég flutti mitt erindi um þau. Mikinn hluta þess tíma voru skjalaskrár Sakadóms meira að segja á heimasíðu Þjóðskjalasafns. Það hefði verið hægur leikur fyrir áhugasaman fræðimann að skoða hana og leitast svo fyrir um það hvað væri í þessari „Lögregluþingbók 249“ eða „Lögregluþingbók V“ og þar fram eftir götunum. Þetta gerði hins vegar enginn þótt heimildirnar nánast æptu á fólk af heimasíðunni.

Þar að auki gat ég ekki ímyndað mér að svo færi að aðrir fengju ekki sama aðgang eftir að ég var búinn að kynna mína rannsókn. Að vísu sá ég fyrir mér að dómsúrskurðirnir yrðu huldir leynd á meðan sá rannsóknarhópur, sem ég lagði til að tæki til starfa, ynni að sinni skýrslu; en eftir það mættu allir nýta þá til fræðilegra rannsókna. Mér fannst líka sjálfsagt að menn yrðu að sýna fram á hvers vegna þeir vildu skoða upplýsingar um símahleranir, og vera þá bundnir sömu skilyrðum og ég.

Og svona í lokin ætla ég aðeins að nefna sumar þeirra samsæriskenninga sem hafa vaknað eftir að ég flutti mitt erindi í vor. Þá sagði einn blaðamaður Blaðsins til dæmis frá því að ég væri vinur Björgvins Sigurðssonar þingmanns Samfylkingarinnar, sem er rétt, sem betur fer. Nokkrum vikum áður hafði Björgvin lagt fram fyrirspurn á þingi um fjölda símhlerana síðustu ár; og þurfti frekari vitnanna við? Hér áttu það að vera samantekin ráð vinannna að erindi um hleranir í kalda stríðinu kæmi í kjölfarið, þingmanni Samfylkingarinnar til góðs. En það er ekkert til í þessu.

Það er ekki heldur neitt til í því sem Vigfús Geirdal sagnfræðingur leiddi líkum að í útvarpsþætti fyrir nokkrum dögum; að erindi mitt hefði verið liður í því að undirbúa jarðveginn fyrir stofnun greiningardeildar eða leyniþjónustu, sem Björn Bjarnason hefur unnið að; sem sagt Sjálfstæðisflokknum til góðs. Í þessu sambandi vil ég benda á það sem annar sagnfræðingur, Steinþór Heiðarsson, skrifaði á vefsíðuna Múrinn núna 1. nóvember. Hann benti þá á að í ár hefðu „ný og gömul njósnamál“ komist í hámæli, og niðurstaða hans var sú að „Erfitt hefði verið að ímynda sér verri martröð fyrir ríkisstjórnarflokkanna í upphafi þings með kosningavetur framundan“.[6]Og þá þarf ég kannski að taka fram að ég hafði það ekki heldur að markmiði að skapa martröð fyrir einn eða neinn! Ég bað einfaldlega um aðgang að gögnum um símahleranir sem ég ályktaði að væru til, fékk þann aðgang, hef síðan reynt að segja þessa sögu eftir bestu getu og ætla að halda því áfram.

Fólkið sem kom við sögu, fólkið sem var hlerað hjá, á að fá að vita það frá fyrstu hendi. Að þetta skuli enn þurfa að vera hulið leynd; að fólkið sjálft fái ekki fulla vitneskju um þessar staðreyndir sem liggja fyrir, og ákveða sjálft hvort það skuli hulið nafnleynd eða ekki, finnst mér ekki til fyrirmyndar. Þetta er einhvers konar öfug persónuvernd; að vernda fólk fyrir upplýsingum um það sjálft sem það vissi ekki að væru til.[7]

Aðrir eiga líka að fá að segja þessa sögu eftir bestu getu. Eins og staðan er núna get ég ekki ímyndað mér að vandaðir og virtir fræðimenn muni í framtíðinni sætta sig við nokkuð minna en þann aðgang sem ég hef fengið að njóta. Tannkremið er komið úr túpunni og það er vonlaust að troða því í hana aftur.


[1]TNA. CAB134/3574. SPM(72)26. „State of Security in Iceland“. Skýrsla „Cabinet Security and Methods Policy Committee“, 10. maí 1972.

[2]Mergur málsins var sá að ekkert virtist hægt að sanna. Vandinn var að nokkru leyti sá að „róttæklingarnir“ virtust jafnvel segja meira en þeir vissu á meðan sumir opinberir embættismenn sögðu minna en þeir vissu – og bentu á þagnarskyldu sína.

[3]Vef. Lagasafn Alþingis. 47. grein laga um meðferð opinberra mála, nr. 27, 1951.

[4]Óútg. „Greinargerð með beiðni um aðgang að gögnum um símahleranir“, 22. febrúar 2005.

[5]En það var þó misskipt; NFS hafði engan áhuga á þessu í fyrstu og lítil innfrétt í Fréttablaðinu „Símar hleraðir hjá alþingismönnum“ hvarf í skuggann af miklu ítarlegri frásögn af því að Sylvíu Nótt hefði vantað 13 stig til að komast áfram í Evróvisjón. Fréttastofa Ríkisútvarpsins og Morgunblaðið . og ég nefni það hér því mér fannst það ekki sanngjarnt sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði fyrir skemmstu á vefsíðu sinni að það væri „óskiljanlegt“ að ég „léti eins og hér væri um eitthvert mikið órannsakað mál að ræða“. Það hefur verið mat almennings, fjölmiðla og þingmanna, að þetta mál sé mikið vöxtum og þurfi að rannsaka; ekki bara ég sem veð í einhverri villu með það.

[6]Steinþór Heiðarsson, Ætlar ódýr brella Einars K. að ganga upp?, http://www.murinn.is/. 1. nóvember 2006.

[7]Ég er núna að leggja lokahönd á bók um símahleranir og annað eftirlit lögreglu í kalda stríðinu. Ég hef sótt það fast að fá að nafngreina þá þingmenn og aðra sem úrskurðað var um hlerun hjá, þó aðeins ef þeir eða ættingjar þeirra séu því samþykkir. Kannski þarf þetta fólk bara allt að halda niður á Þjóðskjalasafn eins og Ragnar Arnalds og Kjartan Ólafsson.

"Ógnuðu þeir öryggi ríkisins?" (2006)

Þessi fyrirlestur var fluttur 6 des. 2006, rétt eftir að bókin um Óvini ríkisins kom út. Hann vakti nokkuð umtal, meðal annars á Alþingi; sjá t.d. ræður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesens, Steingríms J. Sigfússonar og skólabróður míns og vinar, Guðjóns Ólafs Jónssonar. Sjá einnig frétt Morgunblaðsins af fundinum. Ég flutti erindið nokkurn veginn eins og það birtist hér.

Ógnuðu þeir öryggi ríkisins?

Mér var einu sinni kennt það trikk þegar maður er í umræðutíma í einhverju fagi í háskóla og fær spurningu sem getur verið erfitt að svara, að kryfja hana til mergjar, brjóta hana niður í smæstu einingar og velta hverri einingu svo fyrir sér – þangað til tíminn er búinn ef því er að skipta. Ætla ekki endilega að ganga svo langt hér en það getur kannski orðið að einhverju gagni hér ef við tökum þessa spurningu orð fyrir orð: Ógnuðu þeir öryggi ríkisins:

Ógnuðu– í hverju fólst það að ógna; hver var ógnin?

Þeir– hverjir voru þeir, hvaða fólk eða hóp erum við að tala um?

Öryggi ríkisins– þetta er auðvitað þekkt hugtak; snýst í grófustu dráttum um að ríkjandi stjórnarfar sé tryggt og verndað; sömuleiðis æðstu ráðamenn og tignir gestir ríkisins. Þetta er það sem þarf að vernda gegn „ógnum“ „þeirra“.

Og þetta er í raun það sem ég lýsi í þessari bók sem kom nýlega út og hefur vakið dálítið umtal. Rauði þráðurinn í henni ótti: sá ótti um öryggi ríkisins sem stundum gætti hjá ýmsum ráðamönnum á Íslandi og þær varnir sem þeir gripu þá til.

Ég ætla hérna fyrst aðeins að rekja hvaða ógnum ráðamenn hverju sinni töldu sig standa frammi fyrir. Ísland hafði auðvitað alltaf verið berskjaldað ef út í það var farið; munum eftir Tyrkjaráninu eða hinu grátbroslega valdaráni Jörundar hundadagakonungs 1809. Svo kom byltingin í Rússlandi 1917 og boðun heimsbyltingar kommúnismans. Fjórum árum síðar varð hasar hér heima, „Hvíta stríðið”, þegar vísa átti rússneskum dreng úr landi, og einn góðborgari hér í heim kallaði þau slagsmál sem þá urðu „uppreisn bolsévíkanna“. Allt tal um byltingu var úr lausi lofti gripið en samt hlaut það að valda ríkisstjórn og lögregluyfirvöldum áhyggjum að þau urðu þarna að reiða sig á liðsafla úr röðum óbreyttra borgara til þess að framfylgja vilja sínum. Lögreglan í Reykjavík var fámenn; það var enginn her í landinu.

Svo kom hinn frægi Gúttóslagur  9. nóvember1932 þegar harður bardagi blossaði upp í kreppunni miðri, út af áformum um kauplækkun í atvinnubótavinnu. Sumir höfðu þá í heitingum um að drepa andstæðinga verkalýðsins. „Björn Vigfússon, svoleiðis helvítis kvikindi ætti bara að drepa,“ heyrði einn lögregluþjónninn margsagt um félaga sinn. Sjálfur bar Björn að hann hefði heyrt þrjá félaga í Kommúnistaflokknum, sem var stonfaður 1930, hrópa „að bráðum rynni upp það þýðingarmikla augnablik að öll lögreglan yrði drepin og sömuleiðis bæjarfulltrúarnir.

Hið fámenna lögreglulið var úr leik eftir þennan slag, lamið sundur og saman, en ekki var blásið til byltingar. Leiðtogar kommúnistaflokksins vissu að þegar hún kæmi yrði það alheimsbylting sem hæfist annars staðar en í Gúttó við Tjörnina í Reykjavík. Ógnin virtist þó raunveruleg. „9. nóvember hefir opnað augu þjóðarinnar,“ sagði Ólafur Thors á Alþingi, „nú á að gera út um það, hvort ríkið á að standa eða falla. Nú á að skera úr, hvort hver óaldarseggurinn á að fá að vaða uppi um annan þveran, án þess að ríkisvaldið hafi minnsta bolmagn til þess að standast þær árásir.

Á þessum árum var því reynt að koma á laggirnar varalögreglu eða ríkislögreglu en áfram var lögreglan þó veik og vanmegna. Svo kom heimsstyrjöld, og eftir það kalda stríðið. Þessar fyrri ógnir sem ég hef aðeins rakið hér urðu enn ríkari í huga margra ráðamanna – innrás eða strandhögg að utan eins og fyrr á öldum eða valdaránstilraun kommúnista. Það var ekkert séríslenskt fyrirbæri; fyrstu ár kalda stríðsins, segjum frá 1948 og langt fram á sjötta áratuginn, gengu valdhafar í Vestur-Evrópu að því sem vísu að sósíalistar eða kommúnistar myndu ræna völdum ef þeir gætu. Sú var ógnin – í huga manna.

Hverjir voru þá „þeir“? Ég ætla aðeins að fjalla hér um megintímabil bókarinnar, 1949 til 1968; það tímabil þegar heimilað var að hlera síma út af ótta um öryggi ríkisins – og þegar slíkar hleranir fóru óumdeilanlega fram.

Þetta voru sex tilfelli eins og oft hefur komið fram; 1949 þegar átökin urðu við Alþingishúsið þegar við gengum í NATO, og tvisvar árið 1951; og svo 1961, 1963 og 1968. Skiptist því í raun í tvö tímabil; hið fyrra og svo þessi þrjú skipti á sjöunda árutugnum.

ÞEIR voru flestir í Sósíalistaflokknum og síðan Alþýðubandalaginu; þeir voru þingmenn eða óbreyttir flokksmenn; og í þessum hópi voru líka stofnarninar sjálfar, flokkurinn og blaðið – Þjóðviljinn – og verkalýðssamtök, Dagsbrún og ASÍ, og svo Samtök hernámsandstæðinga.

Snemma árs 2005, þegar ég vissi að ég mætti bráðum fá að kynna mér gögn um símahleranir, fór ég að hugsa hjá hverjum hefði verið hlerað hjá; hverjir ÞEIR hefðu verið. Sumt kom því ekki á óvart þegar ég svo fékk aðgang að gögnunum; þetta voru Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, Magnús Kjartansson Þjóðviljaritstjóri, hann á í raun Íslandsmet, var hleraður í öll sex skiptin. [innskot september 2011: hér hefði verið réttara að segja: var úrskurðað um hlerun – hver veit nema ég hafi sagt það í erindinu þótt textinn segi annað]. En svo vöktu önnur nöfn athygli; tökum sem dæmi 1951: Finnbogi Rútur Valdimarsson, alþingismaður Sósíalistaflokksins og fulltrúi hans í utanríkismálanefnd Alþingis. Hann var bróðir Hannibals, þingmanns Alþýðuflokksins, og átti sinn pólitíska uppruna í þeim flokki; hafði meðal annars verið ritstjóri Alþýðublaðsins á blómaskeiði þess á fjórða áratugnum. Finnbogi Rútur var aldrei flokksbundinn í Sósíalistaflokknum en fannst hann eiga samleið með þeim flokki í utanríkismálum. Hann var því fráleitt „Moskvukommúnisti“. Hann var frekar „hinn róttæki vinstrisinni sem fyrirleit kommúnista og alla þeirra fólsku og fordæðuskap,“ eins og Jón Baldvin Hannibalsson, bróðursonur hans, skrifaði löngu síðar.

Annar sem úrskurðað var um hlerun hjá var auðvitað Hannibal Valdimarsson; það var árið 1961, út af deilum um landhelgissamning Viðreisnarstjórnarinnar við Breta sem þá stóð til að ræða á Alþingi; Hannibal var í stjórnarandstöðu; heitur andstæðingur samkomulagsins. Var rætt fram á nótt, og Hannibal var staðráðinn í að beita öllum tiltækum ráðum til að tefja málið.

Upp úr klukkan tvö aðfaranótt 8. mars fékk Hannibal Valdimarsson orðið, einu sinni sem oftar. Fátt var stjórnarþingmanna í salnum og bað hann forseta sameinaðs þings, alþýðuflokksmanninn Friðjón Skarphéðinsson, að sjá til þess að Ólafur Thors forsætisráðherra og Gunnar Thoroddsen fjármálaráðherra yrðu kallaðir til fundarins. Hannibal kvaðst eiga sérstaklega vantalað við þá og hæfi hann ekki mál sitt fyrr en þeir væru komnir að hlýða á hann. Þingforseti benti á að ráðherrarnir yrðu ekki þvingaðir til fundarsetu og mælti svo fyrir að þingmaðurinn viki úr ræðustóli ef hann treysti sér ekki til að hefja upp raust sína. En Hannibal varð ekki þokað. Nú hófst orðasenna, einstæð í allri þingsögunni:

Hannibal:   Forseti hefur ekkert fyrir sér í því að ég treysti mér ekki til þess að flytja ræðu mína. Ég treysti mér mætavel til þess. Það er misskilningur hans. Ég er að bíða hér eftir þeim mönnum, þingmönnum, þingbræðrum mínum, sem hér eru skyldugir til að vera og ég þarf að tala við.

Forseti:      Háttvirtur þingmaður veit að honum ber einnig skylda til að hlýða forseta og ég vænti þess að hann geri það.

Hannibal:   Vissulega er það skylda þingmanna að hlýða forseta en það er frumskylda forseta að heimta sömu réttindi og skyldur af þingmönnum, gera ekki sumum þeirra að vaka til morguns við þingstörf en leyfa öðrum að sofa. Réttlátum forseta á að hlýða. En ég legg réttlæti þessa forseta nú undir dóm þingmanna, hvort ég er að brjóta hér rétt eða hann.

Forseti:      Ég spyr háttvirtan þingmann: Er það alvara hans að óhlýðnast skipun forseta að víkja úr ræðustóli eða byrja ræðu sína ella?

Hannibal:   Það er alvara fyrir mér að fá að ræða hér við þá menn sem ég hef ætlað að beina orðum mínum til.

Svo fór að forseti varð að fresta fundi. Þetta er nú bara smásaga, en var nauðsynlegt að hlera Jón – ég meina Hannibal. Var ógnin þvílík? Og þeir voru fleiri þingmennirnir sem var ákveðið að hlera þarna; Eðvarð Sigurðsson, Lúðvík Jósepsson. Auðvitað má spyrja sem svo: Ef þeir ætluðu að ógna öryggi þingsins eða ríkisins með einhverjum óspektum við þinghúsið eins og óttast var, hefðu þeir þá talað um það í síma?

Og það segir sig sjálft að fyrst lögregla og dómsmálaráðuneytið biðja um að símar þingmanna séu hleraðir um leið og viðkvæm mál eru til umræðu á Alþingi, þá hljóta spurningar að vakna um hvort það hafi virkilega verið nauðsynlegt, og hvort enginn hafi gert sér grein fyrir þeirri hættu að menn yrðu sakaðir um að hafa stundað pólitískar njósnir.

Þetta rek ég allt nánar í bókinni, og líka, svo maður stikli bara á stóru hérna, hleranirnar árið 1968 þegar utanríkisráðherrafundur NATO er haldinn hér. Meðal þeirra sem þá voru taldir geta ógnað öryggi ríkisins var fólk sem var ekki í forystu stjórnmálaflokks eða samtaka; en hafði verið virkt í andófi ýmiskonar, t.d. spreyjað slagorð á NATO-herskip og þess háttar. En er það ógn við öryggi ríkisins og réttlætir það símahleranir? Það hlýtur að orka mjög tvímælis.

1968 var síðasti úrskurðurinn kveðinn upp; og manni sýnist að alls hafi verið ákveðið að hlera síma á fjórða tug einstaklinga í þessi sex skipti 1949‒1968. Átta þeirra sátu á Alþingi þegar úrskurðað var um hlerun í heimasíma þeirra. Hjá einum manni var hlerun heimil í öll sex skiptin. Það var Magnús Kjartansson. Leyfi var veitt til hlerana heima hjá Einari Olgeirssyni í hvert skipti nema árið 1968. Þrisvar mátti hlera hjá Áka Jakobssyni og Eggert Þorbjarnarsyni (1949 og bæði skiptin 1951) og einnig hjá Kristni E. Andréssyni (bæði skiptin 1951 og 1961). Tvisvar mátti hlera hjá átta mönnum, þeirra á meðal þingmönnunum Brynjólfi Bjarnasyni og Sigurði Guðnasyni (1949 og apríl 1951), og Lúðvík Jósepssyni (1961 og 1968). Hjá öðrum 20 (eða 18-19) var svo úrskurðað um hlerun í eitt skipti.

Fyrir liggur að hlerunum árið 1949 var hætt 14 dögum eftir að úrskurður var fyrst kveðinn upp um þær og árið 1968 gilti hleranaheimildin í 19 daga. Óvíst er um lengd hlerana hin fjögur skiptin þar á milli. Sé hins vegar gert ráð fyrir að slíkar aðgerðir hafi að jafnaði staðið í um 14 daga má komast að þeirri niðurstöðu að í kalda stríðinu á Íslandi hafi hleranir samkvæmt dómsúrskurði varað í samtals tæpa þrjá mánuði. Það er auðvitað ekki neitt miðað við það sem fór fram í Skandinavíu.

En þá er það spurningin um hleranir án úrskurðar. Hér var alls kyns andóf og „aksjónir“ upp úr 1968 eins og ég nefni í bókinni, jafnvel tilraunir til að sprengja byggingar í loft upp, og einhverjir ræddu um mannrán í anda Baader-Meinhof og slíkra samtaka. Þurfti lögreglan ekki að hlera og fylgjast með þessu liði? Menn voru auðvitað sannfærðir um það. Við getum tekið sem dæmi, af því við erum hér á háskólalóðinni, söguna af því þegar róttækir stúdentar og fleiri komu í veg fyrir að bandaríski utanríkisráðherrann William Rogers kæmist inn í Árnagarð til að skoða handritin sem þá voru geymd þar. Undirbúningur aðgerðanna fór fram með mikilli leynd og af því að fólk þóttist vita að lögreglan hleraði vissa síma var sett á svið smá sjónarspil; Birna Þórðardóttir hjá Fylkingunni, og Guðmundur Ólafsson hjá Stúdentaráði ræddu saman.

 

Fylkingin: Halló, þetta er í Fylkingunni. Hvernig er það með ykkur vinstrimenn þarna í Háskólanum. Á ekki að gera eitthvað þegar djöfuls glæpahundurinn hann Rogers kemur í heimsókn?

Stúd.ráð:   Æ, helvítis helvíti, það þýðir ekki neitt, hér er allt svo svo dauft maður. Allt liðið komið í próflestur. Enginn þykist mega að vera að neinu.

 

Mér er sagt að það hafi nú ekkert verið hlerað þarna – og vil trúa því nema ég fái sannanir um annað. En á þessum árum voru ÞEIR sem gátu ógnað öryggi ríkisins líka róttækir námsmenn – og þeir voru ansi margir á þessum árum – virðulegir góðborgarar í dag.

Ef við trúum öllum sögunum um hleranir, t.d. á áttunda áratugnum, þá bjuggu hundruð manna við stöðugar hleranir eða tímabundnar hleranir hér á landi.

Ef við höldum áfram að trúa þessum sögum þá var afskaplega illa að verki staðið; það heyrðust stöðugar truflanir á línunni, það heyrðist tikk, línum sló saman, ókunnugt fólk kom inn í samtölin, andardráttur heyrðist – væntanlega þess sem var að hlera.

Við höfum engar skriflegar sannanir um þessar meintu stórfelldu hleranir, eftir því sem ég kemst næst. Hér getum við því valið að ákveða bara að trúa fólki eða trúa því ekki. En við getum líka ályktað og hugsað rökrétt.

Við þetta miklar hleranir hefði þurft talsverðan fjölda fólks, held ég. Hefði verið hægt að halda slíku leyndu? Það var hægt í Noregi, að mestu, en hefði það verið hægt hér?

Ef við tölum við símamenn, bæði þá sem enn starfa og þá sem sestir eru í helgan stein en voru í fullu fjöri þarna á áttunda áratugnum, heyrum við líka að hleranir áttu að geta farið fram án nokkurra truflana; ég nefni þetta í bókinni, t.d. haft eftir einum deildarstjóranum hjá Pósti og síma að það væri „gjörsamlega útilokað að menn heyri það að samtöl þeirra séu hleruð með þeirri tækni sem við notum við verkið“.

Að lokum nokkur orð um ÖRYGGI RÍKISINS. Við sjáum kannski að á seinna tímabiliinu sem ég fjalla um í bókinni er sá ótti mjög áberandi að gerður verði aðsúgur að erlendum gestum, eða þeim ógnað á einhvern hátt. óttinn snýst ekki um valdarán eða innrásir eins og þegar kalda stríðið var í algleymingi – samt var þó haldin spjaldskrá um „kommúnista“ og „velunnara kommúnista“ – og má segja að það hafi fyrst og fremst verið arfur frá liðinni tíð. Óþarfur ef út í það er farið, og ekki byggður á skýrri lagastoð.

Í sambandi við símahleranir þarf líka að hafa í huga að þær voru aðeins heimilar ef öryggi ríkisins krafðist þess eða stórfelld sakamál væru annars vegar; og í raun hvíldi engin kvöð á lögreglu og ráðuneyti að rökstyðja það að öryggi ríkisins væri ógnað. Ef lögreglu og dómsmálaráðuneyti fannst öryggi ríkisins ógnað, þá var öryggi ríkisins ógnað. Við getum svo rætt um hvort þetta hafi verið eða sé skynsamleg staða.

Alveg í blálokin; ég minntist á það hérna í byrjun hvernig það gæti verið ágætis leið að kryfja svona spurningu til mergjar; ógnuðu þeir öryggi ríkisins. Mér hefur verið sagt frá einu dæmi þar sem sagnfræðinemi sem vissi ekkert um efnið gat notað hana til að sleppa úr þeim vanda. Hann fékk verkefni á munnlegu prófi: Ræðið heilaga rómverska stórveldið; Holy Roman Empire. Stóð á gati í smástund en sagði svo; í fyrsta lagi það var ekki heilagt, í öðru lagi, það var ekki rómverskt og í þriðja lagi var það ekki stórveldi.

Það verður kannski hægt að segja eftir á það um þá sem ógnuðu öryggi ríkisins; það var nær aldrei ógn til staðar; þeir voru ekki til sem sameinaður hópur ógnvalda – en öryggi ríkisins getur þó aldrei horfið. Það er hugtak og fyrirbæri sem er hornsteinn í stjórnarfari og þjóðskipulagi og það er vandinn við þessa sögu. Við getum deilt og rökrætt um það hvort ógnin var raunverulega eða ekki, en öryggi ríkisins þarf alltaf að verja þegar þörf er á.

"Að vita meira og meira. Spurningar og svör á líðandi stundu um símhleranir og innra öryggi ríkisins í kalda stríðinu" (2007)

Inngangur

Undanfarið ár eða svo hefur talsvert verið rætt hér á landi um símhleranir og innra öryggi ríkisins í kalda stríðinu. Í þessari grein verður sú umræða rakin, skýrt frá helstu upplýsingum sem fram hafa komið, mismunandi mati manna á þeim lýst og loks verður varpað fram nokkrum spurningum sem er enn ósvarað og fróðlegt að leita svara við. Það á jú að vera megintilgangur allra rannsókna og allra fræða; að vita meira og meira, meira í dag en í gær. Í grófum dráttum má skipta þessari umræðu á líðandi stundu í fimm skeið sem eiga sér öll skýrt upphaf við birtingu nýrra upplýsinga, en síðan óljósari endi:

1)      Guðni Th. Jóhannesson, „Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“. Fyrirlestur áSöguþingi 21. maí 2006. Ráðstefnurit væntanlegt í mars 2007.

2)      Þórs Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin. Um öryggi Íslands á válegum tímum“. Þjóðmál, 3. hefti, 2. árg. 2006, bls. 55-85. Tímaritið kom út 22. september 2006.

3)      „Gögn í vörslum Þjóðskjalasafns Íslands er varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum“. Birt á vefsíðu Þjóðskjalasafns Íslands, www.skjalasafn.is,  26. október 2006.

4)      Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi (Reykjavík, 2006). Útgáfudagur 30. nóvember 2006.

5)      „Skýrsla nefndar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945-1991“. Birt á vefsíðu forsætisráðuneytis, www.forsaetisraduneyti.is, 9. febrúar 2007.

Hér verður auðvitað að stikla á stóru og þetta eru þá stiklurnar fimm sem verður stuðst við. Í lokin verður síðan vakið máls á ýmsum spurningum sem enn þarf að leita svara við að mínu mati. Áður en að öllu þessu kemur þarf þó að huga aðeins að upplýsingum, umræðum, getgátum og ásökunum um símahleranir og annað eftirlit út af öryggi ríkisins fyrir alla orrahríðina undanfarið ár.

Forsagan

Strax við upphaf kalda stríðsins héldu þeir, sem voru lengst til vinstri í  hinu pólitíska litrófi á Íslandi því fram, að stjórnvöld hleruðu síma þeirra og bæru við ótta um öryggi ríkisins. „Símahleranir hafnar“, þrumaði Þjóðviljinn til dæmis í lok mars 1949 þegar tekist var á um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.[1] Engar sönnur voru færðar á það en þá þegar var heimild í fjarskipalögum til hlerana „þegar öryggi landsins krefst þess eða um mikilsverð sakamál er að ræða“.[2] Snemma árs 1951 var slík heimild felld inn í lög um meðferð opinberra mála. Í 47. grein þeirra sagði: „Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsvert sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“[3]

Árið 1960 hélt Þjóðviljinn því fram að Sigurjón Sigurðsson, sem hafði tekið við embætti lögeglustjóra árið 1947, stæði fyrir því að símar sumra lögregluþjóna væru hleraðir. Aftur vantaði þó ótvíræðar sannanir og var ekki að undra að Morgunblaðið kallaði ásakanirnar „heilaspuna kommúnistablaðsins“.[4] Orð var gegn orði og þar við sat.

Þegar „68-kynslóðin“ svokallaða fór að láta að sér kveða jókst svo grunur vinstrimanna um símahleranir á vegum lögreglunnar. Leiðtogar róttækra námsmanna og Fylkingarinnar, baráttusamtaka sósíalista, voru til dæmis vissir um að símtöl þeirra hefðu verið hleruð þegar von var á William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í heimsókn í Árnagarð vorið 1972.[5]

Árið eftir áttu forsetar Bandaríkjanna og Frakklands, Richard Nixon og Georges Pompidou, fund hér á landi og þá vöknuðu aftur grunsemdir um hleranir. Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var í miðstjórn Framsóknarflokksins, sat í útvarpsráði og var lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hélt því fram í sjónvarpsþætti fyrir komu þjóðhöfðingjanna að „vissir símar“ væru nú hleraðir. Jón Skúlason póst- og símamálastjóri vísaði ásökunum Ólafs Ragnars á bug en hann fór þó út á hálan ís þegar hann hélt því fram að mjög erfitt væri að koma hlerunum við á Íslandi; „þyrfti mikinn útbúnað til slíks og það færi ekki framhjá neinum ef einhver hefði frammi tilburði til símahlerunar“.[6] Leynilegar hleranir höfðu verið hægðarleikur og voru það enn, einkum vegna þess að nær örugglega var þá búið að koma upp fullkominni aðstöðu til slíkra verka á nýju lögreglustöðinni við Hverfisgötu.[7]

Þeir sem voru hvað „aktívastir“ í „villta vinstrinu“ héldu því einnig fram að kerfisbundnar og víðtækar hleranir færu fram á Íslandi rétt eins og í „öðrum löndum auðvaldsins“. Um þetta þyrfti ekki að deila þótt eðli málsins samkvæmt væri erfiðara að finna sannanir fyrir athæfinu.[8]

Árið 1976 kom út bók þeirra Baldurs Guðlaugssonar og Páls Heiðars Jónssonar um óeirðirnar við Alþingishúsið 30. mars 1949. Þeir höfðu spurst fyrir um hleranir þá daga en fengu engin svör nema þau að væntanlega hefði enginn tækjabúnaður til slíks verið fyrir hendi.[9] Það var auðvitað ekki rétt en laganeminn Haraldur Böðvarsson fékk í besta falli svipuð svör árið 1989 þegar hann vann að kandídatsritgerð sinni í lögfræði, „Framkvæmd íslenskra réttarreglna um símahlerun og bréfleynd“. Haraldi tókst að skrifa yfirlit um gildandi lög um efnið en hann komst að því, eins og hann rakti í formála verksins, „að aðilar þeir, sem um þessi mál fjalla hérlendis, voru flestir mjög tregir eða ófáanlegir til að veita upplýsingar um þessi mál“.[10]

Um sama leyti leitaði Kristín Halldórsdóttir, þingkona Kvennalistans, svara á Alþingi um símahleranir síðastliðinn áratug og fékk þau svör Halldórs Ásgrímssonar dómsmálaráðherra að þær hefðu aðeins átt sér stað vegna gruns um fíkniefnabrot.[11] Ítarlegar tölur um fjölda hlerana ár hvert fylgdu svarinu en sjö árum síðar, árið 1996, bar hins vegar svo við að þegar Svavar Gestsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, æskti upplýsinga um hleranir veitti Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra þau svör að upplýsingar fyrir árið 1992 væru svo brotakenndar að ekki væri hægt að taka þær saman.[12] Jafnframt var haft eftir Sigurði Tómasi Magnússyni, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, í Morgunblaðinu  að „mál sem vörðuðu öryggi ríkisins væru afar fátíð og dómsmálaráðuneytinu væri ekki kunnugt um að óskað hefði verið eftir símahlerunum í slíkum málum.“[13] Seinna átti eftir að liggja fyrir að sú yfirlýsing gat ekki staðist.

Um þessar mundir höfðu komist í hámæli fregnir af umfangsmiklum hlerunum yfirvalda í Skandinavíu, einkum í Noregi. Þær uppljóstranir virtast ekki vekja þær spurningar hvort eitthvað svipað hefði farið fram hér á landi en þó má geta þess að árið 2004 vakti Steingrímur J. Sigfússon, leiðtogi vinstri grænna, máls á því í þingsölum hvað hefði viðgengist annars staðar á Norðurlöndum. „Þarna er því saga og þarna eru spor sem hræða í þessum efnum,“ sagði Steingrímur. „Svo er ekki endilega að mér sé kunnugt um slíkt hér á landi“.[14] Síðan gerðist ekki neitt fyrr en vorið 2006.

Svipaða sögu má í raun segja af skrifum og umræðum um annars konar eftirlit en hleranir á tíma kalda stríðsins. Á áttunda áratugnum héldu róttækir vinstrimenn því fram að lögreglan fygldist með mótmælafundum þeirra, tæki ljósmyndir og skráði niður hverjir væru á vettvangi.[15] Árið 1986 viðurkenndi Böðvar Bragason, lögreglustjóri í Reykjavík, í viðtali við Helgarpóstinn að frá árinu 1950 hefði embætti hans sinnt „því sem má kalla „innri öryggismál“ eða eitthvað annað“. Um það væri þó fátt meira að segja: „Af eðlilegum ástæðum get ég ekki skýrt frá því í hvaða formi þetta hefur verið í gegnum tíðina og ég get ekki heldur skýrt frá því í hvaða formi þetta er í dag.“[16] Lögreglustjóri tók svo í sama streng tæpum áratug síðar, þá í viðtali við Morgunpóstinn.[17] Enginn krafðist þó frekari upplýsinga, að því er best verður séð, og hér má þegar varpa fram nokkrum spurningum sem hljóta að vakna:

1)            Brugðust blaða- og fréttamenn skyldum sínum? Í Skandinavíu leituðu þeir t.d. stöðugt upplýsinga og fréttir þeirra réðu án efa talsverðu um að hulunni var svipt af símahlerunum og öðru öryggiseftirliti.

2)            Brugðust fræðimenn? Hefði fræðasamfélagið átt að láta betur og fyrr til sín taka í rannsóknum á innra öryggi Íslands í kalda stríðinu?

3)            Brugðust stjórnvöld? Hefðu þau átt að veita upplýsingar sem þau bjuggu yfir í stað þess að þegja þunnu hljóði eða reyna jafnvel að afvegaleiða þá fáu sem reyndu að leita heimilda um þessi efni?

Að mínu mati væri ekki endilega sanngjarnt að saka fjölmiðla eða fræðaheiminn um að hafa ekki staðið sig í stykkinu, og að sama skapi er skiljanlegt að yfrmenn lögreglu og dómsmála hafi ekki viljað ræða opinskátt um hleranir þegar kalda stríðið var í algleymingi. Á hinn bóginn verður því ekki neitað að yfirlýsingar um slíkar aðgerðir í dómsmálaráðuneyti á tíunda áratug síðustu aldar voru á skjön við sannleikann allan.

„Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“

Sunnudaginn 21. maí 2006 flutti ég fyrirlestur á Söguþingi, „Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“.[18] Síðustu þrjú ár þar á undan hafði ég leitað heimilda um hleranir og orðið nokkuð ágengt, einkum eftir að ég fékk í mars 2005 aðgang að beiðnum lögreglu um slíkar aðgerðir og dómsúrskurðum um þær. Þau gögn höfðu verið í vörslu Héraðsdóms Reykjavíkur en voru þá komin á Þjóðskjalasafn Íslands. Í Söguþingserindinu var því lýst að í sex skipti árin 1949-68 bað lögreglan dómsmálaráðuneyti að leita heimildar dómara til símahlerana:

4)            mars-apríl 1949. Vegna umræðna á Alþingi um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.

5)            janúar 1951. Vegna heimsóknar Dwights Eisenhower, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins, til landsins.

6)            apríl-maí 1951. Vegna varnarsamnings við Bandaríkin og endurkomu bandarísks herliðs.

7)            janúar 1961. Vegna umræðna á Alþingi um landhelgissamning við Breta.

8)            september 1963. Vegna heimsóknar Lyndons B. Johnson, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins.

9)            júní 1968. Vegna utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins.

Úrskurðirnir sjálfir voru aðeins fleiri en sex því fyrir kom að úrskurðað væri um framhald hlerana eða að númeri skyldi bætt við og í Söguþingserindinu kom jafnframt fram að öllum skriflegum gögnum um hleranirnar hefði verið eytt, líklega í síðasta lagi árið 1977.

Allar þessar upplýsingar hlutu að vekja athygli, og jafnvel reiði eða hneykslun þeirra sem höfðu verið í eldlínunni á vinstri væng stjórnmálanna. Eitt var að gruna sitt um hleranir og annað að fá staðfestingu á þeim.[19] Á hinn bóginn vaknaði strax sú spurning á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands, hvort hleranir hefðu í raun farið fram. „Það stóð til að hlera, svo mikið er víst“, skrifaði Már Jónsson sagnfræðingur. „En var þetta framkvæmt? Eru til góð gögn um það?“[20] Ég svaraði að bragði að fyrst beðið væri um að hlerunum væri haldið áfram eða þess óskað að númeri væri bætt við lægi í augum uppi að aðgerðirnar hefðu átt sér stað. Þar að auki gæti ég stuðst við frásagnir manns sem kom við sögu um það að hleranir hefðu gert gagn á sínum tíma og loks taldi ég það afar ótrúverðugt að lögregluyfirvöld gripu til þess örþrifaráðs að biðja um heimild til símahlerana en nýttu hana svo ekki.[21] Má Jónssyni fannst þetta svar „taka af allan vafa“ um að hleranir hefðu verið stundaðar.[22] Sumir aðrir, til að mynda Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og einkum Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, héldu á lofti hinum fyrri hugleiðingum Más án þess að geta seinni partsins.[23]Því verður að segja að þótt sannanir fyrir hlerunum hefðu loks fundist voru ekki allir sannfærðir. Þeir voru enn til sem vildu deila um það hvort hlerað hefði verið.

Þar að auki hafði hafði Þjóðskjalasafn aðeins veitt mér heimild til að nefna hve mörg símanúmer hefði mátt hlera hverju sinni, hjá hvaða stofnunum – t.d. Þjóðviljanum, Sósíalistaflokknum og Samtökum herstöðvaandstæðinga – og hjá hve mörgum alþingismönnum. Hins vegar mátti ég ekki nefna nein nöfn.

Í Söguþingserindinu leiddi ég líkur að því að réttlæta mætti hleranirnar árin 1949-1951 í ljósi þeirrar hörku sem þá var í stjórnmálabaráttunni. Beiðnir um hleranir á sjöunda áratugnum orkuðu hins vegar tvímælis að mínu mati og úrskurð um slíkar aðgerðir út af landhelgissamningnum sagði ég „nálgast pólitískar njósnir“.[24] En þetta hlaut þó að vera matsatriði og þess mátti vænta að nú þegar uppvíst væri um þetta mikla mál kæmu kannski fleiri heimildir í dagsljósið. Þetta voru því þær meginspurningar sem enn var ósvarað eftir Söguþingserindið í maí 2006:

1)      Hjá hverjum var hlerað?

2)      Voru ástæður hlerana gildar?

3)      Var fleiri heimildir að finna um hleranir?

Það lá í augum uppi að stjórnvöld kæmu með einhverjum hætti að frekari rannsókn málsins. Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fór þess á leit við mig að ég leiddi hóp sagnfræðinga sem rannsakaði umfang símahlerana á Íslandi árin 1945-1976. Viðtöl yrðu tekin við þá sem komu við sögu og heimilda aflað innanlands og utan, og skýrslu síðan skilað fyrir 1. október 2006.[25] Innan ríkisstjórnarinnar munu sumir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hins vegar hafa verið andvígir þessari hugmynd og sátt náðist frekar um aðra leið: Hinn 3. júní 2006 samþykkti Alþingi einróma þingsályktun forsætisráðherra um skipun nefndar til að „skoða gögn sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945-1991 í vörslu opinberra aðila og gera tillögu um tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna að þeim“. Nefndin var skipuð 22. júní 2006 og varð Páll Hreinsson, stjórnarformaður Persónuverndar, formaður hennar. Í byrjun október samþykktu þingmenn einum rómi lög sem veittu nefndinni fullan rétt að öllum „opinberum gögnum um öryggismál“ og auk þess var öllum núverandi og fyrrverandi opinberum starfsmönnum gert skylt að svara fyrirspurnum nefndarmanna „um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands“.[26] Með samþykkt þingsályktunartillögunnar í júní hafði „sú pólitíska stefna mörkuð“, eins og sagði í greinargerð með lögunum, að öll opinber gögn skyld gerð fræðimönnum aðgengileg.[27]

Á því varð aftur á móti bið. Nefndin átti að skila niðurstöðu fyrir árslok og ekki voru allir ánægðir með að bíða eftir því. Kjartan Ólafsson og Ragnar Arnalds, sem höfðu verið í forystusveit sósíalista og herstöðvaandstæðinga, voru í hópi þeirra sem vildu strax fá að vita hvort úrskurðað hefði verið um hlerun á heimilum þeirra og Þór Whitehead sagnfræðingur vildi einnig fá að kynna sér þá dómsúrskurði sem ég hafði fengið að sjá.[28] Þá krafðist Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður aðgangs að öllum gögnum um hleranir sem kynnu að liggja hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, Þjóðskjalasafni og í dómsmálaráðuneyti.[29] Um miðjan júlí voru ótilgreind gögn um símahleranir send úr ráðuneytinu á safnið og um sumarið tók Þjóðskjalavörður, Ólafur Ásgeirsson, þá ákvörðun að hafna öllum beiðnum um aðgang að gögnum um símahleranir. Í „athugasemdum“ frá Þjóðskjalasafni, sem birtust 22. september 2006, voru raktar þrjár ástæður til þessarar niðurstöðu:

1)            Persónuverndarsjónarmið því ekki mætti „greina frá upplýsingum um málsaðila“.

2)            Skortur á skýrum lögum og reglum um aðgang að gögnum af þessu tagi, en bent var á að slíkar reglur væru í vinnslu í menntamálaráðuneyti (sem Þjóðskjalasafn Íslands heyrir undir).

3)            Störfum „kaldastríðsnefndar“ væri ólokið og taldi safnið „rétt og skylt“ að bíða þeirrar niðurstöðu.[30]

Þessi afstaða Þjóðskjalasafns Íslands sætti nokkurri gagnrýni, og í raun varði enginn hana utan safnsins. Þannig sendi Ragnar Aðalsteinsson menntamálaráðuneyti stjórnsýslukæru fyrir hönd Kjartans Ólafssonar og Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði ítrekað um það óréttlæti sem fælist í því að einn maður fengi aðgang að gögnum en annar ekki.[31]

„Smáríki og heimsbyltingin. Um öryggi Íslands á válegum tímum“.

Fólk vildi vita meira og meira en fékk það ekki. Að vísu urðu þau tíðindi sama dag og „athugasemd“ Þjóðskjalasafns birtist að hausthefti tímaritsins Þjóðmála út. Það hafði að geyma einkar fróðlega grein Þórs Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin. Um öryggi Íslands á válegum tímum“.[32] Í greininni var í fyrsta sinn greint ítarlega frá starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík sem tók til starfa árið 1950. Þór lýsti starfsemi hennar í hnotskurn allt kalda stríðið á þann veg að „2-3 menn [héldu] uppi öryggisþjónustu á vegum lögreglunnar, reyndu að fylgjast ögn með umfangsmikilli starfsemi sendiráða austantjaldsríkjanna, vinna hér gegn njósnum sem tugir sendiráðsmanna höfðu að atvinnu og líta eftir öryggi einstakra ríkisstofnana og háttsettra erlendra gesta meðfram annarri vinnu“.[33]

Í grein Þórs var því meðal annars lýst hvar aðstaða hefði verið til símahlerana í höfuðstöðvum lögreglunnar, fyrst við Pósthússtræti og síðan við Hverfisgötu. Jafnframt var rakið að öryggisþjónustan hélt spjaldskrá um þá Íslendinga sem töldust varhugaverðir að mati hennar og að hún eignaðist með tíð og tíma ýmiss konar tækjubúnað til njósna og eftirlits, til dæmis myndavélar með sérstökum linsum, hlustunartæki af ýmsum stærðum og gerðum og nætursjónauka. Þá var það einnig staðfest í Þjóðmálagrein Þórs Whitehead að gögnum um símahleranir var eytt auk annarra skjala, þar á meðal spjaldskráa. Sagt var að þessi gögn hefðu verið flutt í sumarbústað í nágrenni Reykjavíkur og brennd til ösku „í götóttri olíutunnu“ svo af varð „mikill reykur“.[34]

Vart þarf að taka fram að þessar uppljóstrarnir vöktu geysilega athygli. Þess var aldrei að vænta að einhugur yrði um þá niðurstöðu Þórs að öryggisþjónustan hefði sinnt nauðsynlegum vörnum gegn byltingarsinnum á válegum tímum. Össur Skarphéðinsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, taldi til dæmis ljóst að starfsemi hennar hefði brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um skoðanafrelsi og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tók í sama streng.[35] Auk þessu tókust Jón Ólafsson heimspekingur og Kjartan Ólafsson á við Þór í hatrömmum ritdeilum um þá ógn sem hefði í raun stafað af íslenskum sósíalistum – eða ekki.[36]

Spurningar vöknuðu einnig um samskipti öryggisþjónustunnar við stjórnvöld hverju sinni. Voru þau ekki jafnnáin í tíð vinstri stjórnanna 1956-59 og 1971-74 þegar Hermann Jónasson og síðan Ólafur Jóhannesson gengdu embætti forsætisráðherra og dómsmálaráðherra? Að því spurði ég í fjölmiðlum og lét að því liggja að mér þætti það ólíklegt.[37] Við það varð til uppnefnið „leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“. Þór Whitehead leiddi traustar líkur að því að þeir Hermann og Ólafur hefðu vitaskuld vitað af tilvist og starfsemi öryggisþjónustunnar.[38] Hitt taldi ég þó enn réttmætt að hafa spurt hvort samskipti öryggisþjónustunnar við valdhafa hefðu ekki breyst þegar vinstri stjórnir voru í landinu.[39]

Þar að auki kom á daginn að framsóknarmennirnir Steingrímur Hermannsson og Jón Helgason, sem báðir höfðu setið í stóli dómsmálaráðherra síðar í kalda stríðinu (Steingrímur 1978-1979 og Jón 1983-1987 þegar Steingrímur var forsætisráðherra), kváðust ekki hafa vitað af því að sérstök öryggisþjónusta eða „leyniþjónusta“ hefði þá verið að störfum. Að mati Þórs Whitehead var hægt að skýra þá vanþekkingu á þann veg að þeir hefði verið spurðir um starfsemi sem hefði í raun lagst niður fyrir þeirra ráðherratíð. Eftir gagnabrennuna 1976 hefði skráningu persónuupplýsinga verið sjálfhætt og starfsemi öryggisþjónustunnar eingöngu snúist um eftirlit með útlendingum, öryggi ríkisstofnana og varnir gegn hryðjuverkum.[40]

Tæpum mánuði eftir birtingu Þjóðmálagreinarinnar varð þó uppvíst um eina rannsókn undir lok kalda stríðsins sem sneri að Íslendingum og hugsanlegri ógn við öryggi ríkisins. Þór Whitehead greindi frá því að eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989 hefði verið reynt að leita að gagna um hugsanleg störf íslenskra manna fyrir austur-þýsku öryggislögregluna STASI. Össur Skarphéðinsson sagði nærtækast að „forystumenn íhaldsins“ hefðu fyrirskipað þá rannsókn, og ræddi í því sambandi um „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“.[41] Þór Whitehead upplýsti þá að Róbert Trausti Árnason, sem þá var varafastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, hefði verið fenginn til verksins að frumkvæði Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra og Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra. Jafnframt hefðu þeir óskað þess sérstaklega að hugað yrði að gögnum um Svavar Gestsson sem hafði stundað nám í Austur-Berlín í sínum tíma.[42] Jón Baldvin þvertók fyrir það og orð stóð gegn orði um grundvallaratriði í atburðarásinni, þótt enginn deildi um að reynt hefði verið afla tiltekinna heimilda í skjalasöfnum STASI.[43]

Nokkrum dögum áður höfðu þau stórtíðindi einnig orðið að Jón Baldvin Hannibalsson kvaðst hafa fengið að vita frá ónafngreindum tæknimanni árið 1992 að sími hans í utanríkisráðuneyti hefði verið hleraður.[44] Rannsókn að frumkvæði ríkissaksóknara studdi ekki þá frásögn en að mati Jóns Baldvins var sú málsmeðferð gölluð þar sem þeim, sem hefðu komið við sögu við hina ólöglegu iðju, hefði ekki verið tryggð sakaruppgjöf.[45]

Þótt Þjóðmálagrein Þórs Whitehead hefði varpað nýju ljósi á margt sem áður var á huldu og veitt mörg svör hlutu allar þessar nýjar fréttir um innra öryggi Íslands í kalda stríðinu að vekja nýjar spurningar. Og ekki var endilega víst að þau lægju í augum uppi, og því síður að þeir, sem hefðu eitthvað frekar um málið að segja, vildu endilega gera það. Í lok október 2006 skrifaði höfundur „Reykjavíkurbréfs“ Morgunblaðsins að því færi fjarri að símar sósíalista, herstöðvaandstæðinga og annarra hefðu verið hleraðir að ástæðulausu. Þá sögu alla mætti rekja „í miklum smáatriðum“ en frá sjónarmiði þeirra væri það „afar óhyggilegt“.[46]

„Gögn í vörslum Þjóðskjalasafns Íslands er varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum“.

Skammt gerðist nú stórra högga í milli. Hinn 16. október 2006 úrskurðaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra að Þjóðskjalasafni Íslands bæri að veita Kjartani Ólafssyni aðgang að þeim gögnum um símahleranir sem hann hefði leitað eftir.[47] Safnið brást við þessu með því að leyfa Kjartani að kynna sér þau gögn sem vörðuðu eingöngu störf hans sjálfs og fékk hann þannig að sjá að úrskurðað hefði verið um hlerun í síma Sósíalistaflokksins og Samtaka herstöðvaandstæðinga árin 1961, 1963 og 1968 þegar hann gegndi þar störfum.[48] Hins vegar var strikað yfir önnur símanúmer sem fyrir komu í skjölum og dómsúrskurðum, og gilti þá einu að nokkrum mánuðum áður hafði ég fengið leyfi safnsins til að nefna allar stofnanir sem úrskurðað hafði verið um hlerun hjá.

Aðrir gengu nú á lagið; innan fárra vikna fékk Ragnar Arnalds aðgang að gögnum með sömu skilmálum og settar höfðu verið Kjartani Ólafssyni og börn Hannibals Valdimarssonar fengu staðfest að úrskurðað var um hleranir í heimasíma hans og Alþýðusambandsins árið 1961 þegar hann gegndi þar formennsku. Fimmtudaginn 26. október 2006 bætti Þjóðskjalasafn svo um betur og birti á vefsíðu sinni gögn í vörslum þess „er varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum“. Þessi ákvörðun var tekin „í framhaldi af úrskurði ráðherra og hins mikla áhuga almennings á aðgangi að skjölunum“, eins og sagði í tilkynningu safnsins. Á hinn bóginn var búið að strika yfir og afmá allar „persónugreinanlegar upplýsingar“ og var það sagt í samræmi við það ákvæði stjórnarskrárinnar að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.[49]

Þótt fengur væri að birtingu dómsúrskurða og beiðna dómsmálaráðuneytis um hleranir var raunin því sú að fátt hafði bæst við þær upplýsingar sem komu fram í Söguþingserindu í maí fyrr um árið. Enn vantaði nöfnin á bak við heimasímana og rök Þjóðskjalasafns fyrir þeirri leynd sættu enn gagnrýni. „Það er ekki verið að fjalla um einkalíf folks í þessum gögnum,“ sagði Ragnar Aðalsteinsson, „heldur er verið að hlera hjá stjórnmálaflokkum, frjálsum félagasamtökum, þingmönnumog öðrum sem voru virkir í stjórnmálum á þessum tíma“.[50] Sjálfur sagði ég í fyrirlestri á Hugvísindaþingi í byrjun nóvember að tilkynna ætti fólki sem kom við sögu að til væru dómsúrskurðir um hlerun hjá því; annað væri „einhvers konar öfug persónuvernd, að vernda fólk fyrir upplýsingum um það sjálft sem það vissi ekki að væru til“.[51]

Og hvernig stóð á því að einn maður hafði fengið að sjá öll nöfn og símanúmer og síðan væri það bannað öllum öðrum? Sú spurning varð enn áleitnari eftir hina takmörkuðu birtingu gagna um símahleranir. Þjóðskjalavörður lét því í veðri vaka að kannski hefðu mistök átt sér stað og farið hefði verið á svig við meginreglur um persónuvernd „í tilviki nafngreinds sagnfræðings“.[52] Hafi mistök orðið var þó ljóst að þau yrðu ekki aftur tekin. „Eins og staðan er núna“, sagði ég á Hugvísindaþingi, „get ég ekki ímyndað mér að vandaðir og virtir fræðimenn muni í framtíðinni sætta sig við nokkuð minna en þann aðgang sem ég hef fengið að njóta. Tannkremið er komið úr túpunni og það er vonlaust að troða því í hana aftur.“[53]

Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi

Næstu tímamót urðu 30. nóvember 2006. Þá kom út bókin Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi. Í henni var að finna frekari upplýsingar um starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík og var meðal annars stuðst þar við áður óbirtar heimildir úr erlendum skjalasöfnum. Í þeim var að finna vísbendingar um fólk sem kynni að hafa komið fyrir í spjaldskrá öryggisþjónustunnar, til dæmis ótilgreindir háskólakennarar og Margrét Indriðadóttir, fréttastjóri ríkisútvarpsins. Þá voru rakin þau orð bandarískra embættismanna um miðjan sjötta áratug síðustu aldar að hyrfi Bjarni Benediktsson úr embætti dómsmálaráðherra, sem hann hafði gegnt frá árinu 1947, væri hætt við að Bandaríkjunum reyndist erfiðara að vinna að því með íslenskum stjórnvöldum að bæta innra öryggi á Íslandi.[54] Það hlaut með öðrum orðum að skipta máli hver gegndi þessu lykilembætti um öryggismál landsins.

Í bókinni var einnig vitnað í þær upplýsingar sem Oleg Gordíevskí hafði veitt árið 1990 um starfsemi leyniþjónustanna KGB og GRU hér á landi. Gordíevskí hafði risið til mikilla metorða innan KGB áður en hann flúði vestur fyrir járntjaldið. Hann gat þess vegna sagt frá því að sovéskir leyniþjónustumenn við sendiráðið í Reykjavík hefðu eignast sérstaka „trúnaðarmenn“ sem hefðu verið meðal framámanna í þremur stjórnmálaflokkum á Íslandi; Alþýðubandalagi, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.[55] Við gerð bókarinnar hafði ekki tekist að afla vísbendinga um það hvaða menn þetta voru og var það því einn þeirra lausu enda sem þar var að finna. Annar laus endi snerist um „alls konar viðkvæmar persónuupplýsingar“ sem Árni Sigurjónsson, forstöðumaður útlendingaeftirlitsins, kvaðst vera að farga þegar hann vas sestur í helgan stein, að sögn Helga Þorsteinssonar sagnfræðings.[56]

Ýmsir aðrir lausir endar voru aftur á móti hnýttir í bókinni. Í henni var getið flestra þeirra sem úrskurðað hafði verið um hlerun hjá á sínum tíma. Að formi til var birting þeirra á skjön við trúnaðareið sem ég hafði undirritað. Á hitt þarf þó að líta að aðstæður höfðu gerbreyst. Fyrir lá að einstaklingar höfðu haldið í Þjóðskjalasafn og fengið allar upplýsingar um sjálfa sig og aðrir munu gera slíkt hið sama á næstunni að því er varðar þá sjálfa eða nánustu ættingja. Einnig liggur fyrir að fyrir árslok mun þingskipuð nefnd, sem ætlað var að ákvarða frjálsan aðgang fræðimanna, komast að niðurstöðu í þeim efnum. Þá liggur fyrir yfirlýstur vilji forsætisráðherra og menntamálaráðherra „að gögn frá þessum árum ... komi upp á yfirborðið; það hefur enginn neitt að fela“ (menntamálaráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins, 16. október 2006). Loks er ljóst að einstaklingar munu, ef þurfa þykir, höfða mál fyrir dómstólum til að fá þann sama aðgang að þessum úrskurðum og mér var veittur.

„Skýrsla nefndar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945-1991“

Þegar á reyndi tókst „kaldastríðsnefndinni“ ekki að ljúka störfum fyrir áramót eins og til var ætlast. Lokaskýrsla hennar birtist 9. febrúar 2007 og fólst í henni margs konar nýr fróðleikur, ekki síst um framkvæmd hlerana og fyrirkomulag. Tekin voru af öll tvímæli um það að hleranir hefðu átt sér stað. Nafngreindir heimildarmenn, sem átt höfðu hlut að máli, lýstu því að símtöl hefðu ekki verið tekin upp á segulband heldur hefði einungis verið hlustað og skrifað niður það sem máli þótti skipta. Nýjar heimildir um eftirlit með sendiráði Sovétríkjanna og sendimönnum þeirra komu einnig fram. Í viðaukum með skýrslu nefndarinnar var einnig vísað í markverð gögn um samskipti öryggisþjónustu lögreglunnar við ráðherra á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar 1956-58. Fram kom að alþýðuflokksmaðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson, sem var utanríkisráðherra, ræddi um starfsemi „öryggisdeildarinnar“ við Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóra en vildi ekki nefna þau mál við Hermann Jónasson forsætisráðherra, hvað þá ríkisstjórnina alla.

Framtíðin

Þótt margt hafi komið í ljós undanfarna mánuðiu um símahleranir og annað eftirlit í kalda stríðinu er akurinn enn óplægður að einhverju eða miklu leyti. Hvað gerist næst? Hvað mun frekar koma í ljós. Um það er ómögulegt að segja og lokaorðin hér verða þau sömu og í Óvinum ríkisins: „Ýmislegt er … enn ósagt og gangi öðrum vel að feta sig frekar áfram í huliðsheimum hlerana, njósna og öryggisgæslu í kalda stríðinu á Íslandi.“


[1]Þjóðviljinn, 27. mars 1949. Sjá einnig: Baldur Guðlaugsson og Páll Heiðar Jónsson, 30. marz 1949, bls. 147.

[2]Stjórnartíðindi1941, bls. ?? ATH.

[3]Vef. Lagasafn Alþingis. 47. grein laga um meðferð opinberra mála, nr. 27, 1951. [ATH]

[4]Þjóðviljinn, 14. apríl 1960 og Morgunblaðið, 20. apríl 1960.

[5]SH. „Ofbeldisannáll. Mr. Rogers“, og Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir, ’68, bls. 211.

[6]Alþýðublaðið, 26. maí 1973. Því miður var upptaka sjónvarpsþáttarins, sem nefndist „Hvers vegna Ísland?“, ekki varðveitt.

[7]„Skýrsla nefndar samkvæmt ályktun Alþingis“, bls. 8.

[8]„Stóri bróðir sér þig“. Neisti, 3 (1973), bls. 7. „Lögreglunjósnir“. Stéttabaráttan, 5 (1975), bls. 2. „„Öryggis“lögreglan sænska hlerar síma sænskra kommúnista“. Verkalýðsblaðið, 3 (1975), bls. 8.

[9]Frásögn Páls Heiðars Jónssonar, 15. febrúar 2006.

[10]Haraldur Böðvarsson, „Framkvæmd íslenskra réttarreglna um símahlerun og bréfleynd“, bls. 6.

[11]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 18.

[12]Alþingistíðindi1995-95, A, bls. ?? 120. löggjafarþing. -- 222 . mál. 548. Svardómsmálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um símahleranir.

[13]Morgunblaðið, 14. febrúar 1996.

[14]Umræður á Alþingi, 16. apríl 2004, http://www.althingi.is/altext/130/O4/r16113733.sgml.

[15]Sjá t.d. Verkalýðsblaðið, 3/1 1975, 4-5/1 1975 og 8/2 1976.

[16]G. Pétur Matthíasson, „Íslensk leyniþjónusta“, Helgarpósturinn, 27. mars 1986.

[17]Pálmi Jónasson, „„Hin íslenska leyniþjónusta““, Morgunpósturinn, 2. febrúar 1995.

[18]Guðni Th. Jóhannesson, „Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“, Söguþing 2006, bls. ATH.

[19]Sjá t.d. Morgunblaðið, 22. maí 2006.

[20]Már Jónsson á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands, 22. maí 2006, [http://listar.hi.is/mailman/private/gammabrekka/2006-May/001727.html].

[21]Guðni Th. Jóhannesson á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands, 22. maí 2006, [http://listar.hi.is/mailman/private/gammabrekka/2006-May/001728.html].

[22]Már Jónsson á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands, 22. maí 2006, [http://listar.hi.is/mailman/private/gammabrekka/2006-May/001733.html].

[23]Sjá t.d. Björn Bjarnason, „Enn um hleranamálið“, 2. desember 2006, www.bjorn.is/pistlar/nr/3814. [og finna EKG]

[24]Guðni Th. Jóhannesson, „Símahleranir á Íslandi“, bls. ??

[25]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 351.

[26]Lög um rétt nefndar samkvæmt ályktun Alþingis til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál. Samþykkt á Alþingi 4. október 2006. http://www.althingi.is/altext/133/s/0179.html.

[27]„Skýrsla nefndar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945-1991“, bls. 2, [http://forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/skyrsla_oryggismal.pdf].

[28]Morgunblaðið, 22. og 24. maí 2006. „Úrskurður vegna kæru Kjartans Ólafssonar um ákvörðun þjóðskjalavarðar“, 16. október 2006. [http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/3734].

[29]Morgunblaðið, 24. maí 2006.

[30]„Athugasemdir frá Þjóðskjalasafni Íslands“, 22. september 2006. [http://www.archives.is/index.php?node=532].

[31]„Úrskurður vegna kæru Kjartans Ólafssonar um ákvörðun þjóðskjalavarðar“, 16. október 2006. [http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/3734]. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, „Fleipur eða fölsun?“ Fréttablaðið, 6. október 2006, og „Fagnaðarefni“, Fréttablaðið, 20. október 2006.

[32]Þór Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin“. Sama dag birtist útdráttur greinarinnar í Morgunblaðinu.

[33]Þór Whitehead, „Hver vissi hvað og hvenær?“ Morgunblaðið, 22. október 2006.

[34]Þór Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin“, bls. 72 og 83.

[35]Össur Skarphéðinsson, „Leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“, Fréttablaðið, 9. október 2006. Katrín Jakobsdóttir, „Afhjúpum njósnarana“, Blaðið, 11. október 2006.

[36]telja það upp ??

[37]Ólafur Teitur Guðnason, „Meiri sjálfsritskoðun“, Viðskiptablaðið, 29. september 2006.

[38]Þór Whitehead, „Hver vissi hvað og hvenær?“ Morgunblaðið, 22. október 2006.

[39]Guðni Th. Jóhannesson, „Veit einhver allt?“ Morgunblaðið, 28. október 2006.

[40]Þór Whitehead, „Hver vissi hvað og hvenær?“ Morgunblaðið, 22. október 2006.

[41]Össur Skarphéðinsson, „Þögn Sjálfstæðisflokksins“, Fréttablaðið, 16. október 2006.

[42]Þór Whitehead, „STASI og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“, 18. október 2006.

[43]Morgunblaðið, 19. október 2006.

[44]Morgunblaðið, 11. október 2006.

[45]Sjá t.d. Blaðið, 26. október 2006.

[46]„Reykjavíkurbréf“, Morgunblaðið, 29. október 2006.

[47]„Úskurður vegna kæru Kjartans Ólafssonar um ákvörðun þjóðskjalavarðar“, 16. október 2006. [http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/3734].

[48]Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður til Kjartans Ólafssonar, 20. október 2006. [http://www.skjaladagur.is/test/nidurstada_thi.pdf].

[49]„Gögn í vörslum Þjóðskjalasafns Íslandser varða dómsmál um hleranir á kaldastríðsárunum“, 26. október 2006 [http://www.archives.is/index.php?node=534].

[50]Fréttablaðið, 27. október 2006.

[51]Guðni Th. Jóhannesson, „Leitin að sannleik um símhleranir. Smásaga úr lífi sagnfræðings. Hugvísindaþing Háskóla Íslands, 4. nóvember 2006“.

[52]Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður til Kjartans Ólafssonar, 20. október 2006. [http://www.skjaladagur.is/test/nidurstada_thi.pdf].

[53]Guðni Th. Jóhannesson, „Leitin að sannleik um símhleranir. Smásaga úr lífi sagnfræðings. Hugvísindaþing Háskóla Íslands, 4. nóvember 2006“.

[54]Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins, bls. 154.

[55]Sama heimild bls. 332‒334.

[56]Sama heimild bls. 346‒347.

"Rússarnir koma", Morgunblaðið 16. jan. 2007.

Grein þessi var andsvar við gagnrýni Björns Bjarnasonar á ritdóm Jóns Ólafssonar um Óvini ríkisins. Allt vafði þetta upp á sig og varð eflaust lítill skemmtilestur lesendum Morgunblaðsins. Þess verður að geta í framhjáhlaupi að bíómyndin Rússarnir koma er ein af mínum uppáhaldsmyndum og kveikjan að titli greinarinnar (og hafði jafnvel einhver áhrif á innihaldið, og alla mína skoðun á kalda stríðinu). Björn Bjarnason svaraði þessari grein með annarri á síðum Morgunblaðsins. Lét ég þar við sitja, hef aldrei verið þeirrar gerðar að vilja alltaf eiga síðasta orðið.

"Veit einhver allt?" Morgunblaðið 28. okt. 2006

Haustið 2006 var enn deilt um símahleranir og innra öryggi ríkisins, eftir erindi mitt um hleranirnar á Söguþingi um vorið og svo grein Þórs Whiteheads um öryggismál í tímaritinu Þjóðmálum. Í tveimur greinum í Morgunblaðinu tókumst við Þór aðeins á, meistarinn og lærisveinninn ef svo má segja... Grein Þórs má lesa hér og mína hér.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur