Skip to Content

Ævisagnaritun

"Í óþökk. Ævisögur gegn vilja söguhetjunnar eða aðstandenda hennar". Hugvísindaþing 31. okt-1. nóv. 2003

 

Í óþökk. Ævisögur gegn vilja söguhetjunnar eða aðstandenda hennar. Hugvísindaþing Háskóla Íslands, 31. október til 1. nóvember 2003.

Í þessu erindi fjalla ég um ævisögur sem eru skrifaðar gegn vilja söguhetjunnar og/eða ættingja hennar. Þetta eru ævisögur sem eru skrifaðar „í óþökk”, eins og yfirleitt er komist að orði hér á landi; á ensku er hugtakið „unauthorized biography” oft notað í þessu sambandi. Þetta verður ekki fræðileg umfjöllun að því leyti ég sé að birta niðurstöður langra rannsókna, heldur er ástæða þess að ég flyt þetta erindi sú að ég hef haft mikinn áhuga á þessu ævisagnaformi síðan ég skrifaði sjálfur bók í óþökk á sínum tíma – um Íslenska erfðagreiningu og Kára Stefánsson. Ég hef svo safnað heimildum eða tilvísunum sem tengjast efninu og íhugað talsvert kosti þess og galla að skrifa svona bækur.

Og núna í haust fannst mér komið tilvalið tækifæri til að setja saman stutt erindi eða grein um bækur í óþökk; en þá vísa ég auðvitað til væntanlegra ævisagna um Halldór Laxness; annars vegar í óþökk og hins vegar með vilja ættingja hans. Ég ætla að styðjast við þær umræður, sem hafa orðið um þau skrif, en horfi þó líka víðar í þessari umfjöllun, einkum til Bretlands, en þar er löng hefð fyrir ævisögum sem eru skrifaðar án þess að söguhetjan eða ættingjar þess hafi beðið um það. Sú hefð er tæpast fyrir hendi hér á Íslandi; fyrir utan þá bók sem ég skrifaði má nefna bók Eiríks Jónssonar um Davíð Oddsson sem kom út fyrir fjórtán árum. Ekki eru til margar fleiri ævisögur af þessu tagi á Íslandi.

Við fyrstu sýn er einfalt að skilgreina þetta fyrirbæri; ævisögur í óþökk. Söguhetjan eða ættingjar hennar láta í ljós óánægju með framtakið; og þá er það í óþökk. Skilgreiningin er því eiginlega á valdi viðfangsefnisins. Ef söguhetjan er ánægð þá getur sagan ekki verið skrifuð í óþökk. Það er því ekki nóg að einhver taki til sig og skrifi ævisögu án þess að hafa verið beðinn um það; það verk er eðli málsins samkvæmt ekki í óþökk nema söguhetjan eða fólk sem að henni stendur gefi það til kynna. Sem dæmi um þennan mun mætti nefna bók um Ólaf Ragnar Grímsson, Herra Forseti, sem Pálmi Jónasson fréttamaður og sagnfræðingur skrifaði fyrir forsetakosningarnar 1996. Ólafur Ragnar bað ekki um það verk en lýsti ekki yfir óþökk sinni, að minnsta kosti ekki með skýrum hætti opinberlega. Þetta verk var því óumbeðið – unauthorized – en ekki í óþökk. Hér má líka nefna rit eins reyndasta og vinsælasta ævisagnahöfundar landsins, Guðjóns Friðrikssonar. Hann hefur skrifað ýmsar ævisögur látinna áhrifamanna án þess að ættingjar þeirra eða aðrir hafi beinlínis beðið um það. Að þessu leyti er íslenska hugtakið „í óþökk” ekki nákvæm þýðing á því enska. Líklega væri réttara að ræða um „óumbeðnar” ævisögur, eða ævisögur að undirlagi höfundarins, ekki söguhetjunnar. Síðan veltur það á viðbrögðum söguhetjunnar eða ættingja hennar, hvort framtakið verður „í óþökk”.

Hverjir eru kostir þess og gallar að skrifa óumbeðnar ævisögur, sem geta svo orðið ævisögur í óþökk? Hér getur verið gott að líta fyrst á kosti þess og galla að skrifa umbeðnar ævisögur.

Augljósasti kosturinn felst í návíginu við söguhetjuna; með viðtölum ef hún er á lífi eða með viðtölum við ættingja ef hún er látin – og auðvitað oft með aðgangi að bréfa- eða skjalasafni. Halldór Guðmundsson, sem er að skrifa sögu Halldórs Laxness með vilja hans fjölskyldu, hefur til dæmis sagt að það vanti mikið í ævisögu skáldsins ef það vanti bréf sem hann hefur aðgang að, og þar að auki þekki enginn skáldið betur en hans eigin fjölskylda. „Því hugsa ég að það hljóti að teljast kostur að eiga samstarf við fjölskylduna”, segir Halldór.[1] Gylfi Gröndal, einn af okkar afkastamestu ævisagnahöfundum, hefur einnig lagt mikla áherslu á þennan kost.[2]

Annar kostur við umbeðnar ævisögur er sá að þegar beðið er um þær getur auðvitað fylgt að borgað er fyrir þær. Ella yrði ævisagan hreinlega ekki skrifuð. Hér má líka vísa til skrifa um fyrirtæki. Það eru til mýmargar fyrirtækjasögur sem hefðu aldrei litið dagsins ljós nema vegna þess að forsvarsmenn þeirra ákváðu að um þau yrði skrifað.

Loks má telja það kost við umbeðnar ævisögur að skrásetjarinn er væntanlega ekki að raska ró fólks, lífs eða liðins, að minnsta kosti ekki þess einstaklings sem verkið snýst um, og hans ættingja.

En hvað með gallana? Þeir geta líka verið allnokkrir. Í ævisögu að undirlagi söguhetjunnar og ættingja hennar getur verið að ró þess fólks raskist ekki, en hins vegar má vel vera að slíkt verk geti sært aðra. Um það eru fjölmörg dæmi.

Svo getur það auðvitað líka verið galli við umbeðnar ævisögur hvað skrásetjarinn tengist viðfangsefninu nánum böndum. Auður Laxness segir um Halldór Guðmundsson: „Hann er svo afskaplega góður hann Halldór.”[3] Nú hefur Halldór Guðmundsson lagt áherslu á – og engin ástæða til að vefengja það – að hann hafi fullt frelsi við sín skrif. Hann segir: „Ég þarf ekki að bera skoðanir mínar undir einn eða neinn frekar en ég vil, eða leita samþykkis ættingja við mínum kenningum.”[4] Sumir segja enda að hættan sé frekar sú að skrásetjarinn vilji ekki særa það fólk sem hann er að skrifa um og leita ásjár hjá um upplýsingar. Breski sagnfræðingurinn John Campbell, sem hefur skrifað ævisögur stjórnmálamannanna Edwards Heaths og Margrétar Thatcher án vilja þeirra og aðstoðar, sagði: „Ef maður talar við einhvern þá er maður um leið skuldbundinn honum eða henni, og það getur verið betra að forðast það.”[5]

Svo getur það líka gerst að algert ósætti verði milli skrásetjara og söguhetju. Ein söguhetja rifti til dæmis samstarfi við fyrsta skrásetjara sinn vegna slíkra deilna. „Kjarni málsins var að mínu mati þessi”, sagði hún svo í formála að sögunni sem kom út eftir að annar skrásetjari var fenginn til verksins: „Sá sem segir ævisögu sína öðrum á að eiga síðasta orðið. Frásögumaður verði endanlega að leggja blessun sína yfir hvert orð sem fer á prent um ævi sína”.[6]

Margir telja því megingallann við ævisögur að undirlagi söguhetjunnar eða ættingja þess vegna vera þann að þær séu ekki nógu trúverðugar. Menn geti ekki best dæmt sjálfa sig, og ekki heldur þótt menn ráði einhvern skrásetjara til þess. Í úttekt á ævisögum stjórnmálamanna, sem Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur birti fyrir áratug (og kallaði „Biskupasögur hinar nýju”) komst hann svo að orði að þar sem aðdáendur söguhetjunnar höfðu skrifað með velvild ættingjanna, „gera slíkar sögur lítið meira en að styrkja trú hinna frelsuðu á málstaðnum, en hlutdrægni frásagnarinnar er allt of augljós til að sannfæra hina.”[7]

Hér má líka aftur vitna til rita um fyrirtæki; fyrir nokkrum árum risu harðar deilur um ritun á sögu Volkswagen og Deutsche Bank í Þýskalandi því þeir fræðimenn sem bankinn og bílaframleiðandinn fengu til verksins voru sakaðir um að skrifa lítt eða ekki um myrka kafla í þeirri sögu á valdaskeiði nasista.[8] Annað mjög fróðlegt dæmi að utan er nýleg bók um Eugenio Pacelli, sem varð Píus páfi tólfti árið 1939. Það rit hófst með vitund og vilja páfagarðs; það var „í þökk” að því leytinu. Höfundurinn John Cornwell fullyrti að hann hygðist hreinsa Píus tólfta af ásökunum um þýlyndi við nasista og fasista, og litla samúð með gyðingum í helförinni. Hann fékk sérstakan aðgang að skjölum, fór svo að skrifa, og fékk það sem hann kallaði siðferðislegt reiðarslag, „a moral shock”, því hann sagði að hann hefði ekki getað annað en skipt um skoðun, og komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir á hendur páfa væru réttar.[9] Kardínálar í Páfagarði voru ekki ánægðir en Cornwell kvaðst hafa kosið trúnað við sína fræðigrein frekar en þá.

Bókin um Píus páfa breyttist því í raun úr samþykktu verki í ósamþykkt verk í óþökk – óumbeðið verk. Og ef við lítum á kosti og galla við slík verk, þá má byrja á þeim kosti, eða þessu frelsi sem felst í því að vera ekki að skrifa að undirlagi söguhetjunnar sjálfrar eða þeirra sem að henni standa. Þetta er auðvitað það sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson, höfundur hinnar óumbeðnu ævisögu Halldórs Laxness, leggur áherslu á að gefi hans verki gildi. „Það er ... ákveðinn kostur,” segir Hannes, „að þurfa ekki að skrifa neina dýrlingasögu eftir fjölskyldufyrirmælum.”[10] Umræður um þessi fyrirhuguðu skrif um ævi Laxness hafa auðvitað litast talsvert af því að jafn umdeildur maður og Hannes Hólmsteinn Gissurarson kemur við sögu; en almennt má segja að helstu kostir ævisagna án samþykkis eða frumkvæðis söguhetjunnar og hennar fólks felist í því að ekki er jafnmikil hætta á að ævisagan verði eins og löng minningargrein þar sem söguhetjan er aðeins lofuð í hástert.

Í Bretlandi er þessi kostur við óumbeðnar ævisögur, eða „unauthorized biographies”, talinn svo mikill að það telst jafnvel til kosta að verk séu af því tagi. Einn höfundur, sem fékk óheftan aðgang að gögnum og skjölum sinnar söguhetju, varð til dæmis alls ekki hress þegar útgefendur ákváðu að hafa undirtitilinn „An Authorised Life”, því leiða mætti rök að því að fólki finndist slíkt verk óspennandi og örugglega ritskoðað.[11]

En auðvitað geta líka verið ýmsir gallar við ævisögur án samþykkis söguhetjunnar. Hér skal telja nokkra þeirra:

Skertur aðgangur að heimildum. Hér má nefna það sem Halldór Guðmundsson tók fram um mikilvæga ýmissa skriflegra heimilda sem keppinauturinn Hannes Hólmsteinn hefur væntanlega ekki aðgang að; fyrir utan viðtöl við ættingja Halldórs Laxness. Hér má líka nefna ritverk eins og ævisögu Matthíasar Johannessens um Ólaf Thors; verk sem er að miklu leyti byggt á góðu bréfasafni Ólafs. Hefði einhver ætlað sér að skrifa um Ólaf án aðgangs að því safni hefði sú bók ekki komist í hálfkvisti við rit Matthíasar - að því er varðar heimildagæði.

Ótilhlýðileg óvirðing við einkalíf söguhetjunnar og hennar fólks. Þess eru auðvitað mörg dæmi í Bretlandi að ævisögur eru skráðar sem særa og meiða. Það vill einmitt loða við ævisögur „í óþökk” að fólk telji að skrásetjarinn ætli sér að skrifa skandalasögur til þess að græða á því sjálfur. Núna er mestur styrrinn í Bretlandi um bók Burrels bryta um líf hans og starf hans fyrir Díönu prinsessu – bókin er auðvitað um Díönu fyrst og fremst – og má heita ótrúlegt að löngun í gróða ráði ekki að minnsta kosti einhverju um skrifin. Og að sögn ritdómara sem skrifaði í virt fræðirit um bókina um Píus tólfta, sem ég nefndi áðan, skrifaði höfundurinn greinilega þannig að hann vildi hneyksla fólk frekar en að gæta hófs og réttsýni.[12] Bara nafnið á bókinni, Hitler’s Pope, gæti líka gefið þetta til kynna. Það hefði því ekki aðeins verið sannleiksástin sem stýrði penna skrásetjarans. En auðvitað getur líka verið að í ævisögum í samvinnu við söguhetjuna sé mikið um skandala og sensasjónir til þess að auka áhuga og sölu á verkinu – þetta getur ekki talist meginmunur á umbeðnum og óumbeðnum ævisögum. Aðalatriðið er frekar hvort skrásetjari ber virðingu fyrir öllum sem um er rætt í verkinu, og hvort hann ætlar sér að skrifa sögu eins og hann þekkir hana besta, frá sem flestum sjónarhornum.

Ég ætla því í lokin að færa rök að því að þessi skipting í samþykktar ævisögur og ævisögur í óþökk sé að mörgu leyti frekar óheppileg. Sem dæmi má líka taka að blaða- og fréttamenn segja sjaldnast að hin eða þessi fréttin sé unnin í óþökk þess sem um er fjallað, og ef þeir létu það hindra sig að hann eða hún væri á móti fréttaflutningnum, þá væru þeir ekki starfi sínu vaxnir. „Það skal tekið fram að þessi frétt er sögð í óþökk þess sem rætt var um,” þetta heyrist ekki í fréttatímum. Þá sjaldan að ævisögur eru skrifaðar í „óþökk” á Íslandi, hefur mér fundist sú áhersla, sem blaða- og fréttamenn hafa lagt á „óþakkarþáttinn”, frekar undarleg.

Auðvitað verður það samt alltaf þannig að ævisögur verða til eftir að söguhetja ættingjar hennar eða aðrir sem málið varðar biðja einhvern að skrá ævisöguna, eða að einhver ákveður að skrifa ævisögu án þess að einhver úr slíkum hópi fólks hafi beðið um það. En hvers vegna ekki hvort tveggja?

Í Bretlandi eru þess mörg dæmi að margar ævisögur séu til um sama manninn. Vissulega er markaðurinn miklu stærri en ég er viss um að eitthvað svipað gæti gengið á Íslandi. Hér ætla ég að taka dæmi af Harold Macmillan, forsætisráðherra Breta, og formanni Íhaldsflokksins um miðja síðustu öld. Fyrsta stóra ævisaga hans er hans eigin sjálfsævisaga, í fimm bindum. Þetta er fróðlegt og merkilegt rit, en það er alveg greinilegt að þetta er hans eigin frásögn. Hann segir frá sínu æviskeiði og helstu viðburðum í stjórnmálum eins og hann sér þá. Og hann segir auðvitað ekki frá öllu. Næsta stóra ævisagan um Macmillan kemur svo út skömmu eftir andlát hans 1986. Hún er skrifuð að undirlagi fjölskyldu Macmillans, og höfundurinn, Alistair Horne, hefur einkaaðgang að dagbókum Macmillans og öllu hans einkaskjalasafni. Úr verður mjög læsileg ævisaga, miklu hreinskilnari en frásögn Macmillans sjálfs, Horne segir frá því sem allir vissu; framhjáhaldi eiginkonu Macmillans sem hann tók vitaskuld nærri sér, og Horne segir frá ýmsum mistökum hans í pólitík. En um leið hefur skrásetjarinn þó greinilega samúð með sinni söguhetju.

Fyrir utan þessi rit hafa ýmis rit birst um æviferil Macmillans. Nú er verið að gefa út valda kafla úr dagbókunum sjálfum - uppistöðuna í hans eigin verki og ævisögu Hornes - og svo geta fræðimenn sótt um aðgang að dagbókunum sjálfum. En menn verða samt að fá leyfi hjá Macmillan fjölskyldunni; og segja hvað menn eru að fara að skrifa. Þetta er yfirleitt auðfengið en einn höfundur fær þó  aldrei leyfi; hann hafði áður skrifað bók um Macmillan þar sem hann lagði mesta áherslu á þætti eins og framhjáhaldið, og hvað Macmillan hafi verið misheppnaður að mörgu leyti. Skiljanlegt að fjölskyldan vilji ekki hjálpa slíkum höfundi.

Svipaðrar þróunar hefur vissulega gætt á Íslandi. Guðjón Friðriksson hefur þá staðið fremstur í flokki með sín rit um Jónas frá Hriflu, Einar Benediktsson og nú síðast Jón Sigurðsson; allt menn sem áður var búið að skrifa um. Eg minntist einnig áðan á ævisögu Ólafs Thors. Núna í haust hófst örlítil ritdeila, eða skoðanaskipti, í blöðum um valdaferil Ólafs og efnahagsstefnu hans. Væri t.d. ekki fengur að nýrri ævisögu um Ólaf Thors. Ættingjar hans gætu ráðið hvort nýr skrásetjari fengi aðgang að hans bréfa- og skjalasafni en það myndi í raun ekki skipta sköpum; bæði er til svo margs vísað í riti Matthíasar og svo má styðjast við fjölmiðla og aðrar bækur, svo ekki sé minnst á erlend skjalasöfn, en erlendir sendiherrar skrifuðu margt um Ólaf sem varpar ljósi á hans feril.

Ég tek þetta aðeins sem dæmi. Auðvitað væri kannski nærtækara að nefna Halldór Laxness. Deilurnar um þau bréf sem fjölskylda hans vill meina Hannesi Hólmsteini að nota eru aukaatriði í þeirri sögu, en flækjast vegna skringilegrar atburðarásar í sambandi við gjöf bréfasafnsins og aðgang að því. Eftir stendur alltaf að einn höfundur er að skrifa ævisögu með vitund og vilja ættingja söguhetjunnar, annar án þeirra frumkvæðis og svo greinilega í óþökk hennar. Það er því skiljanlegt að fjölskyldan vilji ekki aðstoða Hannes Hólmstein, á henni hvílir engin kvöð til þess - en það þýðir ekki um leið að hann – eða einhver annar, geti ekki, megi ekki eða eigi ekki að skrifa um einn merkasta Íslending tuttugustu aldar, mann sem svo sannarlega gat verið hvass í dómum sínum um aðra. Svo verður það lesenda að dæma verkin og þá er ekki endilega víst að skiptingin í umbeðið og óumbeðið verk sé mikilvægust. Við mat á ævisögum ætti frekar að styðjast við það hvort skrásetjari reynir að láta þá sem koma við sögu gæta sannmælis – ekki aðeins söguhetjuna sjálfa heldur alla aðra, og hvort hreinskilni er höfð að leiðarljósi.

Ég hef stiklað á stóru hér, og margt fleiri mætti segja, t.d. um muninn á því að skrifa ævisögur um lifandi fólk og látið. Og það var ekki ætlunin að reyna að ljúka þessu erindi á skáldlegum nótum, en í lokin má því segja að það sem skipti mestu máli sé að þeir, sem skrifi ævisögur án frumkvæðis og jafnvel í óþökk söguhetjunnar og ættingja hennar,  og þeir sem skrifa með vitund og vilja þess fólks, skuli bæði hafa í huga að „aðgát skal höfð í nærveru sálar,” og líka hitt að „oflof er háð.”

 

 [1]„Alls engin helgisaga“, Fréttablaðið, 7. september 2003.

[2]Viðtal á Rás tvö, sumarið 2003.

[3]Fréttablaðið, 30. ágúst 2003.

[4]„Alls engin helgisaga“, Fréttablaðið, 7. september 2003.

[5]John Campbell, Edward Heath. A Biography (London: Jonathan Cape, 1993), bls. xi.

[6]Ingólfur Margeirsson, María. Konan bak við goðsögnina (Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1995), bls. 290‒291.

[7]Guðmundar Hálfdanarson, „Biskupasögur hinar nýju“, Saga XXXI, 1993, bls. 177.

[8]Sbr. Michael Pinto-Duschinsky, „Historians and their sponsors“, TLS, 14. maí 1999.

[9]John Cornwell, Hitler’s Pope (New York: Viking, 1999) bls. x.

[10]„Skrifa ekki gegn Laxness“, Fréttablaðið, 7. september 2003.

[11]Peter Stanford, „Life before death“, Independent on Sunday, 5. mars 2000.

[12]Joseph A. Biesinger, IHR XXIII. 2: júní 2001, bls. 459-460.

"Hefurðu heimild? Skráð og óskráð lög um ævisagnaritun" (2011)

„Hefurðu heimild? Skráð og óskráð lög um ævisagnaritun“. Tímarit Máls og menningar 1/2011, bls. 40–50.

Í þessari grein er stiklað á stóru um hefðir og æskileg vinnubrögð við ævisagnaritun, að mínu mati. Lokaorðin eru þessi:

Orðið heimild er skemmtilega margrætt í íslenskri tungu. Það getur þýtt leyfi að lögum til að gera eitthvað. Þannig hafa landsmenn heimild til að skrifa það sem þeir vita sannast og réttast en um leið hefur fólk heimild til að verja mannorð sitt og æru og fá ummælum hnekkt með dómi. Jafnframt er hægt að veita heimild: Einstaklingar eða aðstandendur þeirra geta gefið sagnaritara heimild til að skrá ævisögu og að sama skapi getur fólk skrifað ævisögu í heimildarleysi, „í óþökk“. En þá verður helsti vandinn gjarnan sá að heimildir vantar í öðrum skilningi því orðið heimild er einnig notað yfir upplýsingar um eitthvað; í gömlu skjali eða nýju viðtali getur falist heimild. Viðurkennt er að sagnfræðingar skulu að öllu jöfnu byggja verk sín á heimildum af þessu tagi. Það er þeim kennt og það segja siðareglur þeirra. En þeir skulu líka stefna að því að hafa það sem sannara reynist. Og þá mega heimildirnar ekki ráða öllu, í hvaða skilningi sem er. Stundum þurfum við að ímynda okkur hvað hefði getað gerst og hvernig fólki leið, án þess að fyrir því sé bein heimild.

"Bjarni Benediktsson" (2004)

„Bjarni Benediktsson,” í Ólafur Teitur Guðnason (ritstj.), Forsætisráðherrar Íslands – Ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar Íslands í 100 ár (Akureyri: Bókaútgáfan Hólar, 2004), bls. 295-314.

Snemma árs 2004 bauðst mér að skrifa um Bjarna Benediktsson í væntanlegri bók um forsætisráðherra Íslands og ráðherra frá upphafi heimastjórnar til okkar daga. Ég tók því fagnandi, sá tækifæri til að koma á framfæri ýmsu sem ég hafði fundið á skjalasöfnum heima og erlendis. Lítt leiddi maður hugann að pólitísku yfirbragði verksins sem var gagnrýnt mjög um leið og það fréttist að til stæði að skrifa bók af þessu tagi. Dálítið um það má lesa hér.

Í inngangsorðum og lokakafla kaflans hér að neðan má greina afstöðu mína til mikilvægis einstaklinga og tilviljana í sögulegri þróun. Er þetta ekki bara eintómt kaos?

Í lokakaflanum leiðrétti ég líka slæma innsláttarvillu; orðið "ófyllt" misritaðist sem "ófullt" í bókinni og er við mig einan að sakast þar.

Inngangur

Einstaklingar skapa sögu liðinnar tíðar. Þeir eru þá á vettvangi sem forverar þeirra höfðu áður búið til og samtímamenn og náttúruöflin eru sífellt að breyta. Þótt eitt leiði af öðru í allri þeirri atburðarás, og oft sé líklegast að eitt gerist frekar en annað, er sagan að öðru leyti samansafn óteljandi ákvarðana og atburða þar sem allt hefði getað farið allt öðruvísi en það í rauninni fór. Saga Bjarna Benediktssonar sýnir mjög vel þetta tvennt, möguleg völd einstaklinga og vanmátt þeirra í rás viðburðanna. Á sinni tíð var Bjarni einn tilþrifamesti stjórnmálamaður Íslendinga en örlögin réðu því að krafta hans naut mun skemur en nokkurn hafði grunað.

Hér verður fjallað um þá þætti í sögu Bjarna Benediktssonar þar sem hann hafði mest áhrif á samtíð sína; þar sem hann skipti kannski sköpum.[1]  Annars vegar er valdaskeið Bjarna í embætti forsætisráðherra þá veigamest og hins vegar atbeini hans í utanríkismálum. En þrátt fyrir þetta þrönga sjónarhorn er nauðsynlegt að líta aðeins víðar yfir sviðið, þó ekki væri nema vegna þess að við getum ekki öðlast skilning á afstöðu Bjarna Benediktssonar þegar hún skipti hvað mestu máli nema við kynnum okkur einnig hvað hafði áður mótað manninn og skoðanir hans.

Fyrst er þess einnig að geta að tilviljanir (eða örlög) hefðu hæglega getað verið álíka afdrifarík við upphaf æviferils Bjarna og endalok. Bjarni Benediktsson var fæddur í Reykjavík árið 1908, sonur Benedikts Sveinssonar, síðar Alþingisforseta, og Guðrúnar Pétursdóttur frá Engey. Í ársbyrjun 1905 varð Benedikt ritstjóri Ingólfs, málgagns hinnu róttæku Landvarnarmanna. Stjórnmála- og sjálfstæðisbarátta voru bæði honum og Guðrúnu í blóð borin en brauðstritið var erfitt. Í árslok viðurkenndi Benedikt í einkabréfi að þeim Guðrúnu væri nær ómögulegt að lifa af hinum óvissu ritstjórnartekjum: „Ég býst við að offra mér fyrir Ingólf enn, eitthvað fram eftir árinu. Verð svo kannske að flýja til Ameríku um mitt sumar sakir peningaleysis.”[2]

Víst er að Íslandssagan og saga Bjarna Benediktssonar hefði orðið allt önnur, hefði hann komið í heiminn vestur í Ameríku. Nú má vel vera að Benedikt hafi ekki verið full alvara með orðum sínum og ekki verður um það deilt að þau Guðrún ólu eldheita ættjarðarást með Bjarna og hinum barna sinna; þeim Sveini og Pétri sem eldri voru og yngri systrunum Kristjönu, Ragnhildi og tvíburunum yngstu, Ólöfu og Guðrúnu. Skapstórt fólk og dugmikið var að finna bæði í móður- og föðurætt Bjarna, og kippti honum í kynið. Hann var „einþykkastur” barnanna og „heldur skapstór,” sagði Benedikt Sveinsson árið 1916.[3] Tveimur árum síðar skrifaði Benedikt aftur um Bjarna sem þá var á tíunda ári: „Hann er lang-duglegastur við nám þeirra bræðra, og les mikið, t.d. Íslendingasögur og Noregskonunga, Tyrkja-ránið o.s.frv. jafnvel alþingistíðindi og mjög fljótur að lesa, athugull og skarp-greindur, heldur bráð-geður.”[4]

Bjarni fór í Menntaskólann í Reykjavík og skaraði þar fram úr. Áhuga hans á stjórnmálum tók þá einnig að gæta. „Bolschevikkastefnuna kvað hann óalandi og óferjandi,” kom fram á málfundi í skólanum síðla árs 1923, og mætti segja að snemma beygðist krókurinn. Seinna um veturinn bætti Bjarni þó við, sem ekki fór jafnvel við skoðanir hans þegar hann var kominn til vits og ára, að hann væri á móti „almennum kosningarjetti, yfirleitt.”[5] Bjarni lauk prófi í lögum árið 1930 með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin. Hann hélt til framhaldsnáms í Berlín en árið 1932 varð hann lagaprófessor við Háskólann, aðeins 24 ára gamall. Næstu ár samdi hann hið mikla stjórnlagarit sitt, Deildir Alþingis, og ýmsar aðrar fræðiritgerðir. Bjarni þótti góður kennari, en nokkuð kröfuharður.[6] Hann gekk í Sjálfstæðisflokkinn árið 1933 og árið eftir varð hann bæjarfulltrúi flokksins í Reykjavík. „Hann var bæði bráðþroska og brekkusækinn,” hefur hinum unga Bjarna verið lýst, „fullorðinslegur snemma og veitti sér ekki þann munað að sóa æskuárunum með þeirri bruðlunarsemi sem ungum mönnum er eiginleg.”[7]

Haustið 1935 gekk Bjarni Benediktsson að eiga Valgerði Tómasdóttur en hún lést af barnsfararsótt aðeins tæpu hálfu áru síðar. Ekki þarf að eyða orðum að því hve Bjarna var sá missir sár. Þótt hann bæri harm sinn í hljóði duldi hann vinum sínum þó ekki sorgarinnar; „viðkvæmnin kom til dyranna, eins og hún var klædd,” skrifaði Jóhann Hafstein síðar.[8] Á stríðsárunum urðu næstu tímamót í lífi Bjarna. Árið 1943 gekk hann að eiga Sigríði Björnsdóttur (og eignuðust þau fjögur börn; Björn, Guðrúnu, Valgerði og Önnu). Árið 1940 skipti Bjarni einnig um starfsvettvang og gerðist borgarstjóri. Þá voru viðsjár í heiminum og æ síðan var Bjarni Benediktsson í forystusveit þeirra sem mótuðu sjálfstæðis- og utanríkisstefnu Íslands. Andstæðingar hans, bæði á þeim vettvangi og víðar, komust að því á þessum árum að illt var að egna óbilgjarnan. Bjarni var „stórgáfaður og stórlærður maður í sínu fagi,” sagði Lárus Jóhannesson síðar um eðliskosti síns nána vinar um þessar mundir, „en hann var þó ekki búinn að öðlast þá skapstillingu og sanngirni sem hann með sínum mikla viljakrafti og sjálfsafneitun tamdi sér eftir því sem árin liðu, né ná þeirri yfirsýn sem gerði hann að afburðamanni. Hann var baráttumaður að eðlisfari og gat verið harðskeyttur, ef svo bar undir...”[9]

...

Landsfaðir og flokksforingi

Landsfaðirinn Bjarni var allt annar maður en eldhuginn sem hafði engu eirt í átökum við óvini sína áður fyrr. Þá hefði Bjarni ekki viðurkennt það sem hann lét í ljós á stóli forsætisráðherra, að „[s]koðanamunur stafar sjaldnast af illvilja hvað þá samsærishug heldur ólíkum sjónarmiðum. Aukið víðsýni og umburðarlyndi létta lausn margs vanda.”[10] Trúnaðarvinir Bjarna sáu viðbrigðin kannski helst í mati hans á íslenskum „kommúnistum”. Andrew Gilchrist, sendiherra Breta í fyrsta þorskastríðinu, hafði eftir honum undir lok æviferilsins að sumir þeirra væru „fyrst Íslendingar og síðan kommúnistar, og það er ekki svo slæmt.” Gilchrist spurði hvort þetta þýddi að þeir hefðu breyst? „Já, þeir hafa breyst svolítið,” svaraði Bjarni og bætti svo við, sem sendiherrann tók til marks um sanngirni hans og víðsýni: „En kannski hef ég líka lært að skilja þá betur.”[11] Vitað er að Bjarni vildi athuga hvort verkalýðsforingjarnir Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson, sem höfðu klofið sig úr Alþýðubandalaginu og stofnað Samtök frjálslyndra og vinstri manna, gætu gengið til liðs við Viðreisnarstjórnina eftir kosningar 1971. Hann var því ekki heldur afhuga að fá Alþýðubandalagið með í það samstarf.[12]

Hið landsföðurlega yfirbragð breytti því ekki að Bjarna Benediktssyni gat enn orðið heitt í hamsi. „Bjarni var járnkarl en mildaðist mjög með árunum,” sagði einn samstarfsmanna hans, „og þá kom í ljós að hann var góð sál sem ekkert aumt mátti sjá, eins og sagt er. Þá lét hann líka bera meira á sínum sérstaka húmoríska sans, sem hann átti ógrynni af...”[13] Hannibal Valdimarsson sagði sömuleiðis að þótt Bjarni „mildaðist og kyrrðist” með árum og aldri hefði áfram verið „stutt ofan í eldlega glóð skapmunanna…”[14]Flokksmenn Bjarna fundu þetta og minntust þess ýmsir að hafa verið teknir á beinið fyrir eitthvað sem leiðtoganum mislíkaði.[15]„Hann þorði ekki síst að vera heilsteyptur og misjafnlega vinsæll formaður og varaformaður flokks síns,” skrifaði Matthías Johannessen síðar.[16]

Enginn ógnaði Bjarna þó á valdastóli í Sjálfstæðisflokknum. Hefði honum enst aldur hefði hann eflaust verið þar í forystu nokkur ár til viðbótar í það minnsta. Heldur er þá ólíklegt að þau átök, sem urðu milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsens, hefðu magnast með þeim hætti sem raun varð á. Einnig hefðu landhelgismál þróast á annan veg eins og áður hefur verið minnst á og hver veit nema varnarmál hefðu ekki komist í uppnám á fyrri hluta áttunda áratugarins. Íslandssagan gerbreyttist þegar Bjarni Benediktsson lét lífið í bruna á Þingvöllum í júlí 1970 ásamt Sigríði Björnsdóttur og dóttursyni þeirra, Benedikt Vilmundarsyni. Líf okkar hinna hélt þó áfram, hvert með sínum hætti. Kristján Eldjárn forseti skrifaði hjá sér um hinn fallna leiðtoga: „Veit ég að það skarð er mikið, sem nú stendur opið og ófyllt, en líf þjóðarinnar er þó meira en eins manns líf, og einhver mun berast í fylkingarbrjóst, hver sem það verður. Það er alveg satt að allir sakna Bjarna og finna hvílíkt traust var í honum … en böls mun alls batna, nú eins og ætíð.”[17]

 [1]Nokkur yfirlit eru til um ævi Bjarna Benediktssonar. Sjá: Ólafur Egilsson (ritstjóri), Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1983). Jóhannes Nordal, „Bjarni Benediktsson.” Sigurður A. Magnússon (ritstjóri), Þeir settu svip á öldina. Íslenskir stjórnmálamenn (Reykjavík: Iðunn, 1983, bls. 255-270. Jóhann Hafstein, „Bjarni Benediktsson,” Andvari (nýr flokkur, XVI, 1974), bls. 3-47.

[2]Þjóðskjalasafn Íslands [hér eftir ÞÍ]. Bréfasafn Þórðar Sveinssonar yfirlæknis. Benedikt Sveinsson til Þórðar Sveinssonar, þriðja í jólum 1905.

[3]Skjalasafn Suður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstaðar [hér eftir SSÞH]. Bréfasafn Björns Þórarinssonar frá Víkingavatni, E 38. Benedikt Sveinsson til Björns Þórarinssonar, 2. janúar 1916.

[4]Sama heimild. Benedikt Sveinsson til Björns Þórarinssonar, 25. febrúar 1918.

[5]Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabóksafns [hér eftir Lbs-Hbs]. Fundargerðabók Framtíðarinnar,  676, fol. 14. aukafundur, 26. október 1923, bls. 142, og 3. fundur, 2. febrúar 1924, bls. 189.

[6]Sjá: Baldur Möller, „Lagakennsla og dómsmálastjórn.” Ólafur Egilsson (ritstjóri), Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna, bls. 29-43.

[7]Sverrir Kristjánsson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Þjóðviljinn, 16. júlí 1970.

[8]Jóhann Hafstein, „Bjarni Benediktsson,” bls. 8.

[9]Lárus Jóhannesson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Morgunblaðið, 16. júlí 1970.

[10]„Aukið vinfengi og bætt sambúð. Áramótaræða dr. Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.” Morgunblaðið, 3. janúar 1964.

[11]Skjalasafn Sir Andrews Gilchrists. Churchill College, Cambridge. GILC 12/D „Remembering Bjarni.” ódagsett uppkast.

[12]„Reykjavíkurbréf”, Morgunblaðið, 5. desember 1994.

[13]„Slapp lifandi frá skemmtilegum þjóðflokki.” Viðtal við Knút Hallsson ráðuneytisstjóra, Morgunblaðið, 12. október 2003.

[14]Hannibal Valdimarsson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Morgunblaðið, 16. júlí 1970.

[15]Anders Hansen og Hreinn Loftsson, Valdatafl í Valhöll, bls. 67.

[16]Matthías Johannessen, „Býsnavetur í íslenzkri pólitík,” Morgunblaðið, 23. febrúar 1980.

[17]Lbs-Hbs. Dagbók Kristjáns Eldjárns, 17. júlí 1970.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur